Af hverju ?

Hvernig tókst að plata þig í þetta, var spurning sem ég fékk fljótlega eftir að ég ákvað að taka efsta sæti á lista Hægri grænna fyrir komandi kosningar til Alþingis. Ég viðurkenni það að ég var á báðum áttum. Það er ekki hægt að segja að stjórnmál hér á landi séu mikils metin, að góð ímynd fylgi starfi á þessum vettvangi. Traust á Alþingi og stjórnmálaflokka er í sögulegu lágmarki. En er þá ekki einmitt tækifæri til að gefa sig í þetta, fá nýja sýn og nýtt fólk til starfa? Breyta ímyndinni, breyta kúltúrnum.

Icesave ýtti okkur úr vör

Hægri grænir, flokkur fólksins var stofnaður fyrir fyrstu Icesave deiluna. Formaður flokksins, Guðmundur Franklín Jónsson hafði ásamt öðrum góðum mönnum barist hatrammlega gegn samþykkt Icesave samningsins. Alltaf var því haldið fram að um ólögvarðar kröfur væri að ræða. Flokkurinn var síðan formlega stofnaður 17. júní 2010 og hafa síðustu  ár farið í að móta stefnu flokksins. Sú stefna sem hefur verið mótuð er einmitt ástæðan fyrir því að ég sagði já þegar ég var beðinn um að taka sæti á framboðslista flokksins.

Hugsum í lausnum

Það þarf að hugsa í lausnum. Hið íslenska flokkakerfi er úrelt og við þurfum nýtt blóð á Alþingi Íslendinga og á fleiri staði. Margir hafa afgreitt nýjar hugmyndir sem töfralausnir. Setningar eins og: „Þetta er ekki hægt,“ og „hver á eiginlega að borga þetta,“ heyrast oft og þá yfirleitt frá pólitíkusum úr S – flokkunum, Samfylkingu og Sjálfstæðisflokks eða þeirra dyggustu stuðningsmönnum. Þetta höfum við heyrt. Stefna flokksins um kynslóðasáttina er afgreidd í einu orði út af borðinu. Engin ástæða hvers vegna, engin rök af hverju, heldur af því bara, þetta er ekki hægt.  Ný hugsun og önnur nálgun á verkefnum hlýtur oft slík örlög. Fólk nær ekki að hugsa út fyrir boxið, ef það hefur verið inn í því of lengi. Vandamál S-flokkana er einmitt það að endurnýjun eftir hrun hefur verið of lítil. Gamla hugsunin ræður enn ríkjum, ný sýn kemst ekki að.

Kynslóðasátt

Kynslóðasáttin er leið til að ná langþráðum sáttum í þessu samfélagi sem við búum í. Hægri grænir eru ekki að finna upp hjólið í þessum efnum, heldur líta á það sem vel er gert annarsstaðar og tileinka sér það. Ríkisstjórn Bandaríkjanna fór þessa leið eftir bankahrunið 2008 og bjargaði þannig húsnæðiskerfi sínu. Sáttin felst í lækkun höfuðstóls lánanna um allt að 45%. Sú lækkun fer eftir lántökudegi og miðast við hvenær Íslendingar tóku upp MIFID reglugerð Evrópusambandsins. Grundvöllur fyrir kynslóðasáttinni er sú að enn höfum við myntsláttuvaldið og löggjafavaldið. Hægri grænir vilja innkalla öll verðtryggð húsnæðislán þann 17. júní 2013. Þau verða öll keypt af sérstökum sjóð sem settur er upp í Seðlabankanum sem lánar sjóðnum á 0,01% vöxtum. Hann lánar húsnæðiseigendum aftur óverðtryggð lán með 7,65% vöxtum til allt að 75 ára. Það fer eftir afborgunargetu hvers og eins. Lækkun höfuðstóls um allt að 45%. Miðað við útreikninga sem lagðir hafa verið fram gæti halli á sjóðnum sem myndast við niðurfærsluna verið allt að 400 milljarðar. Vaxtamunurinn, þ.e. 7,65 – 0,01 = 7,64% greiðir þann halla niður á 9-15 árum, það fer eftir hversu vel gengur að innheimta láninn. Þetta er stutta útskýringin á kynslóðasáttinni, frekari upplýsingar um hana er hægt að nálgast á xg.is og eins hefur verið útbúið stutt myndband um leiðina sem nálgast má á youtube vefnum undir heitinu https://www.youtube.com/watch?v=9t6RH-CiQy4.

Þú átt valið 27. apríl

Það stefnir í að kjörseðillinn fyrir komandi Alþingiskosningar verði í stærra lagi, svo ekki sé meira sagt. Hér í Suðurkjördæmi hafa tólf framboð meldað sig til leiks þó enn sé ekki útséð hversu mörg verði með þegar á hólminn er komið. Sú staðreynd gæti dregið úr möguleikum einstakra framboða að hafa áhrif, að ná að vera mótvægi gegn fjórflokknum sem er nauðsynlegt íslensku samfélagi. Flokkar eiga ekki að vera stofnanir, byggðir upp á ríkisstyrkjum, heldur lifandi samkoma einstaklinga sem vilja betra samfélag handa okkur öllum.

 

Sigursveinn Þórðarson, viðskiptalögfræðingur og oddviti Hægri grænna í Suðurkjördæmi.

(Grein þessi birtist í Eyjafréttum á fimmtudaginn.  Hér er lengri útgáfan)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Athyglisvert er að í þessari grein er ekki orð um umhverfis- og náttúruverndarmál frekar en yfirleitt hjá flokki sem kennir sig við grænan lit en vill láta reisa álver í Helguvík sem þarf 625 megavött, sem er tvöfalt meira en hægt er að kreista út í Neðri-Þjórsá. Í greininni er talað um "sátt á milli kynslóðanna" en sú draumsýn Hægri grænna að reisa álver í Helguvík mun ekki heldur fá næga orku með því að rústa náttúruperlum Reykjanesskagans frá Reykjanestá til Þingvallavatns, því að OR hefur gefist upp á að virkja meira í minnst sjö næstu ár af því að ekki ræðst við mengunar-, jarðskjálfta- og affallsvandamál. Í forsendum háhitavirkjana er gert ráð fyrir 50 ára endingu orkunnar sem er rányrkja gagnvart komandi kynslóðum, sem samt er talað um að þurfi að vera sátt við.

Ómar Ragnarsson, 7.4.2013 kl. 01:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband