Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Það sem allir eru að tala um

Nú er stuttri en lærdómsríkri kosn­ingabaráttu að ljúka. Hún hefur verið um margt skemmtileg en mest hefur mér fundist hún fróðleg. Nokkur mál standa upp úr sem ­lykilmál í hugum fólks fyrir kom­andi kosningar.

Skuldamál heimilanna
Það er ekki hægt að líta öðruvísi á bankahrunið en sem forsendubrest í íslensku þjóðfélagi. Fráfarandi ríkisstjórn, í hlekkjum Alþjóða­gjald­eyrissjóðsins, sló skjaldborg um fjármálakerfið en lét íslenskum almenningi blæða. Einu leiðrétting­arnar sem fengist hafa síðustu fjögur ár hefur Hæstiréttur Íslands úrskurðað um. Það verður að taka á þessum forsendubresti og sú leið sem fengið hefur bestu dóma hagfræðinga er leið okkar Hægri grænna, kynslóðasáttin. Þar er engin óvissa um fyrirhugaða samn­inga við vogunarsjóði eða fyrir­fram­gefnar forsendur um verðbólgu sem Íslendingar hafa ekki séð síðustu áratugi. Eins er óvíst hvenær þær leiðir verða færar en kynslóðasáttin snýst um að innkalla öll verðtryggð húsnæðislán 17. júní 2013.
 
Heilbrigðismál
Frambjóðendur fjórflokksins hafa hægt og bítandi verið að hörfa frá stuðningi við byggingu nýs há­tækni­sjúkrahúss. Það er skref í rétta átt í þeirri baráttu okkar að verja heilbrigðiskerfið á landsbyggðinni. Það þýðir ekki að horfa í kíki frá Reykjavík inn í þessar stofnanir á landsbyggðinni. Starfið og þarfa­grein­ingin þarf að fara fram inni á heilbrigðisstofnunum. Hér í Eyjum verðum við að ná eyrum stjórnvalda til þess að fá fjármagn til að halda skurðstofu opinni allt árið, að samdráttarskeiði upp á tæp 25% síðustu fjögur ár verði snúið við. Það þarf meira fjármagn til stofnunarinnar til þess að þjónustan sé íbúum bjóð­andi og öryggi sé í fyrirrúmi.
 
Samgöngur
Á fræðandi fundi í Höllinni síðast­liðinn fimmtudag var tekist á um leiðir til þess að Landeyjahöfn virki eins og lagt var upp með. Mikið ósamræmi var í hugmyndum fræð­inga Siglingastofnunar og heimamanna. Ég hef áhyggjur af því að þeir sem næst eru málinu séu orðnir of tengdir því og rétt væri að fá nýja sérfræðinga að málinu. Skipstjórnarmenn á Herjólfi vilja fara með höfnina 350 metrum utar en sú leið hefur ekki verið prófuð. Einungis var prufað að fara með hafnarmynnið 200 metra út en það skilaði ekki árangri. Næstu skref eru mikilvæg og nauðsynlegt að næstu skref verði tekin af yfirvegun en ekki út frá persónulegum hags­munum einstakra aðila. Þó er ekki síður mikilvægt að við náum fram breytingum á gjaldskrá, að við greiðum sama gjald og það myndi kosta okkur að keyra sömu leið eins og ég hef áður komið inn á.
 
27. apríl
Við vitum hvað er í húfi næsta laug­ardag. Ég vona að Eyjamenn láti skynsemina ráða þegar kemur að því við hvaða bókstaf verður merkt við. Ekki skoðanakannanir. Setjum X við G.
 
(Greinin birtist í Eyjafréttum í vikunni)

Lagabálkur til varnar hagsmunum fjórflokksins

Nú þegar framboðsfrestur er runnin út er ljóst að hér í Suðurkjördæmi verða ellefu framboð til kosninga. Aðeins fjögur þeirra voru í boði fyrir fjórum árum síðan. Þegar kosningalöggjöfinni var breytt árið 2000 má segja að gömlu valdaflokkarnir hafi lagt ýmsar hindranir fyrir óþægileg klofningsframboð. Um leið gerði fjórflokkurinn nýjum flokkum mun erfiðara um vik að komast að.  Þeir byggðu upp lagabálk til að verja sín sæti.

Hvatning til að kjósa annað en samviskan segir

Þingmenn flokkanna höfðu ekki miklar áhyggjur af þeim hindrunum sem settar voru upp, heldur fór mestur tími umræðunnar á Alþingi í að rökræða hvar kjördæmin skyldu skiptast og hvernig þingmannasæti flökkuðu á milli kjördæma. Forystumenn og helstu stuðningsmenn þessara sömu flokka ganga nú um og hvetja til þess að kjósa ekki minni framboðin, því þá gæti atkvæðið þitt dottið niður. Reyndar er VG þarna undanskilið enda sá flokkur kominn í þá stöðu að vera að berjast með nýju framboðunum við 5% þröskuldinn.

Ný framboð með allt að þriðjungs fylgi

En er það svo að atkvæðið er að detta niður ef flokkur nær ekki takmarkinu? Nei, alls ekki heldur þvert á móti er nauðsynlegt að fjórflokkurinn fái þau skilaboð úr kosningunum að stór hluti þjóðarinnar vill ekki þessi öfl við völd. Miðað við kannanir sem eru þó ansi misvísandi þessa dagana þá gætu ný framboð til Alþingis fengið upp undir 30% af atkvæðum í komandi kosningum. Stór hluti af þeim myndi ekki enda í þingsætum en myndi senda skýr skilaboð um að breyta kosningalöggjöfinni þannig að ægivald fjórflokksins á Alþingi okkar Íslendinga hverfi.

Tímasett aðgerðaráætlun

Það má segja að hver og einn ætti að geta fundið sitt framboð af þeim sjö nýju sem nú bjóða fram. Allt frá róttækum vinstri flokkum, nokkrum krataflokkum og síðan eru Hægri grænir, eina framboðið sem getur talist hægra framboð. Við erum reyndar líka eina framboðið sem hefur tímasett þær aðgerðir sem ráðast á í. 17. júní 2013 verða öll verðtryggð húsnæðislán innkölluð og lánað aftur út í óverðtryggðum húsnæðislánum. 1. desember 2013 verða gjaldeyrishöft afnumin með upptöku ríkisdals.

Það eru lausnir komnar fram. Ég hvet ykkur til að kynna ykkur málin á xg.is.

Sigursveinn Þórðarson oddviti Hægri grænna í Suðurkjördæmi.

 

(Greinin birtist í Eyjafréttum í síðustu viku)


Að líta til beggja átta

Í þeim kosningum sem senn fara fram eru ákveðnar línur farnar að myndast varðandi Evrópusambandið. Samfylkingin og Björt framtíð vilja halda aðildarviðræðum gangandi á meðan önnur framboð vilja annað hvort hætta þeim strax eða fara með áframhald viðræðna í þjóðaratkvæðagreiðslu líkt og Hægri grænir hafa boðað.  Reyndar er orðið samningaviðræður í besta falli rangnefni og í versta falli blekking hvað varðar Ísland og Evrópusambandið. Ég hef allavega ekki orðið var við fréttir þess efnis frá Brussell að sambandið hafi breytt lögum sínum til að mæta kröfum Íslands í „samningaviðræðunum.“ Flestir kaflar hafa verið opnaðir og aðeins örfáir eftir þegar ríkisstjórnin ákvað að draga í land í aðlögunarferlinu.

Frjáls verslun

Allir flokkar fyrir komandi kosningar hafa sína stefnu hvað varðar Evrópusambandið en Hægri grænir, flokkur fólksins er eini flokkurinn sem vill líta í báðar áttir í alþjóðasamstarfi. Evrópusambandið er langt í frá eini valmöguleiki okkar. Í raun getur það verið okkur skaðlegt að lokast inni í tollmúrabandalagi Evrópusambandsins. Nýverið var sagt frá fríverslunarsamningi Íslands við Kína, sá samningur félli sjálfkrafa úr gildi ef við göngum inn í ESB, eins og aðrir alþjóðlegir samningar okkar við ríki utan Evrópusambandsins.

Nýja Norðrið

Miklir möguleikar eru að opnast á norðurslóðum og þar eru hagsmunir okkar miklir vegna legu landsins. Lokum ekki á þau tækifæri með því að framselja samningavald okkar til Brussel. Við eigum að stefna að frekari fríverslunarsamningum við lönd vestan Atlantshafsins.  Hægri grænir, flokkur fólksins hefur það á stefnu sinni að óska eftir viðræðum við NAFTA ríkin um tvíhliða fríverslunarsamninga. Eins eigum við að horfa til BRIKS landanna, sem eru Brasilía, Rússland, Indland, Kína og Suður Afríka. Við erum með EES samninginn sem vissulega þarf að endurskoða en Ísland verður að hafa fleiri möguleika í alþjóðlegu samstarfi en fjarstýring frá Brussel býður upp á. Lítum til beggja átta.

Sigursveinn Þórðarson viðskiptalögfræðingur og oddviti Hægri grænna í Suðurkjördæmi.

 (Grein sem birtist í Morgunblaðinu í síðustu viku)

 


Af hverju ?

Hvernig tókst að plata þig í þetta, var spurning sem ég fékk fljótlega eftir að ég ákvað að taka efsta sæti á lista Hægri grænna fyrir komandi kosningar til Alþingis. Ég viðurkenni það að ég var á báðum áttum. Það er ekki hægt að segja að stjórnmál hér á landi séu mikils metin, að góð ímynd fylgi starfi á þessum vettvangi. Traust á Alþingi og stjórnmálaflokka er í sögulegu lágmarki. En er þá ekki einmitt tækifæri til að gefa sig í þetta, fá nýja sýn og nýtt fólk til starfa? Breyta ímyndinni, breyta kúltúrnum.

Icesave ýtti okkur úr vör

Hægri grænir, flokkur fólksins var stofnaður fyrir fyrstu Icesave deiluna. Formaður flokksins, Guðmundur Franklín Jónsson hafði ásamt öðrum góðum mönnum barist hatrammlega gegn samþykkt Icesave samningsins. Alltaf var því haldið fram að um ólögvarðar kröfur væri að ræða. Flokkurinn var síðan formlega stofnaður 17. júní 2010 og hafa síðustu  ár farið í að móta stefnu flokksins. Sú stefna sem hefur verið mótuð er einmitt ástæðan fyrir því að ég sagði já þegar ég var beðinn um að taka sæti á framboðslista flokksins.

Hugsum í lausnum

Það þarf að hugsa í lausnum. Hið íslenska flokkakerfi er úrelt og við þurfum nýtt blóð á Alþingi Íslendinga og á fleiri staði. Margir hafa afgreitt nýjar hugmyndir sem töfralausnir. Setningar eins og: „Þetta er ekki hægt,“ og „hver á eiginlega að borga þetta,“ heyrast oft og þá yfirleitt frá pólitíkusum úr S – flokkunum, Samfylkingu og Sjálfstæðisflokks eða þeirra dyggustu stuðningsmönnum. Þetta höfum við heyrt. Stefna flokksins um kynslóðasáttina er afgreidd í einu orði út af borðinu. Engin ástæða hvers vegna, engin rök af hverju, heldur af því bara, þetta er ekki hægt.  Ný hugsun og önnur nálgun á verkefnum hlýtur oft slík örlög. Fólk nær ekki að hugsa út fyrir boxið, ef það hefur verið inn í því of lengi. Vandamál S-flokkana er einmitt það að endurnýjun eftir hrun hefur verið of lítil. Gamla hugsunin ræður enn ríkjum, ný sýn kemst ekki að.

Kynslóðasátt

Kynslóðasáttin er leið til að ná langþráðum sáttum í þessu samfélagi sem við búum í. Hægri grænir eru ekki að finna upp hjólið í þessum efnum, heldur líta á það sem vel er gert annarsstaðar og tileinka sér það. Ríkisstjórn Bandaríkjanna fór þessa leið eftir bankahrunið 2008 og bjargaði þannig húsnæðiskerfi sínu. Sáttin felst í lækkun höfuðstóls lánanna um allt að 45%. Sú lækkun fer eftir lántökudegi og miðast við hvenær Íslendingar tóku upp MIFID reglugerð Evrópusambandsins. Grundvöllur fyrir kynslóðasáttinni er sú að enn höfum við myntsláttuvaldið og löggjafavaldið. Hægri grænir vilja innkalla öll verðtryggð húsnæðislán þann 17. júní 2013. Þau verða öll keypt af sérstökum sjóð sem settur er upp í Seðlabankanum sem lánar sjóðnum á 0,01% vöxtum. Hann lánar húsnæðiseigendum aftur óverðtryggð lán með 7,65% vöxtum til allt að 75 ára. Það fer eftir afborgunargetu hvers og eins. Lækkun höfuðstóls um allt að 45%. Miðað við útreikninga sem lagðir hafa verið fram gæti halli á sjóðnum sem myndast við niðurfærsluna verið allt að 400 milljarðar. Vaxtamunurinn, þ.e. 7,65 – 0,01 = 7,64% greiðir þann halla niður á 9-15 árum, það fer eftir hversu vel gengur að innheimta láninn. Þetta er stutta útskýringin á kynslóðasáttinni, frekari upplýsingar um hana er hægt að nálgast á xg.is og eins hefur verið útbúið stutt myndband um leiðina sem nálgast má á youtube vefnum undir heitinu https://www.youtube.com/watch?v=9t6RH-CiQy4.

Þú átt valið 27. apríl

Það stefnir í að kjörseðillinn fyrir komandi Alþingiskosningar verði í stærra lagi, svo ekki sé meira sagt. Hér í Suðurkjördæmi hafa tólf framboð meldað sig til leiks þó enn sé ekki útséð hversu mörg verði með þegar á hólminn er komið. Sú staðreynd gæti dregið úr möguleikum einstakra framboða að hafa áhrif, að ná að vera mótvægi gegn fjórflokknum sem er nauðsynlegt íslensku samfélagi. Flokkar eiga ekki að vera stofnanir, byggðir upp á ríkisstyrkjum, heldur lifandi samkoma einstaklinga sem vilja betra samfélag handa okkur öllum.

 

Sigursveinn Þórðarson, viðskiptalögfræðingur og oddviti Hægri grænna í Suðurkjördæmi.

(Grein þessi birtist í Eyjafréttum á fimmtudaginn.  Hér er lengri útgáfan)


Eru auðir ekki með?

Heldur finnst mér álitsgjafar og sumir stjórnmálamenn ganga langt í túlkun á niðurstöðum í kosningunum á laugardaginn. Kjörseðill sem hafði orðið „ráðgefandi" í hausnum og orðin „til grundvallar" er orðinn að plaggi sem ekkert má hrófla við. Bindandi fyrir þing og þjóð. Það eina sem stuðningsmenn tillagnanna gætu hugsanlega sætt sig við væru breytingar frá lögfræðihóp sem fer nú yfir tillögurnar (hefði ekki átt að gera það fyrir kosningarnar??) og hópurinn á að meta hvort ákvæðin auki líkur á málssókn á hendur ríkinu.

Ég man bara eftir einum aðila sem kom fram fyrir kosningar og sagði að ef meirihluti myndi segja já við fyrstu spurningunni yrði að nota tillögurnar óbreyttar. Það var Þorvaldur Gylfason, einn fulltrúa í stjórnlagaráði. Enginn tók undir þetta sjónarmið hans fyrir kosningarnar. En margir hafa stokkið á vagn Þorvaldar eftir kosningar.

Helst hefur verið deilt um kosningaþátttöku og finnst mér hálf pínlegt núna hvernig „Ragnar Reykás" hefur fundið sér stað í fólki. Þeir sem gerðu lítið úr 75% þátttöku í Icesave kosningunum eða gerðu lítið úr forsetakosningunum síðustu tala nú um frábæra kosningaþátttöku, jaðrar meira að segja við heimsmeti að mati eins froðusnakksins. Eins eru sumir þingmenn sjálfstæðismanna algjörlega úti að aka við mat á þessu, til dæmis Birgir Ármannsson.

Staðreyndin er sú að helmingur þjóðarinnar hafði nógu mikinn áhuga á þessu til að mæta á kjörstað. Það er ekki mikil kosningaþátttaka, burtséð frá því hvernig þetta er í Sviss eða annarsstaðar. Hins vegar er þetta það fólk sem nýtti sér lýðræðislegan rétt sinn til að kjósa. Á aðra verður ekki hlustað enda hefur enginn, hvorki þeir sem eru með eða á móti tillögunum neitt fyrir sér til að túlka vilja þeirra sem sátu heima.

Athyglisverðast finnst mér hins vegar að skoða hlutfall þeirra sem skiluðu auðu. Ég hreinlega skil ekki hvernig þær tölur hafa algjörlega dottið út úr öllum fjölmiðlum, af hverju er ekki minnst á það að 18-20% þeirra sem MÆTTU á kjörstað skiluðu auðu við spurningum 2-6? Nei, þeim er bara skóflað í burtu og reiknað upp á nýtt miðað við þá sem tóku afstöðu til já eða nei. Er ekki alltaf sagt að með því að mæta og skila auðu sértu einmitt að taka afstöðu? Hefur það áður gerst að svo stór hluti skili auðu í kosningum á Íslandi?

Úrslit kosninganna voru að flestu leyti eftir bókinni. Í raun má segja að aðeins úrslit við einni spurningu úr einu kjördæmi hafi komið á óvart (mér allavega) en það var úr Suðurkjördæmi við spurningunni um jöfnun atkvæða. Meirihluti kjördæmisins sagði já við því á meðan hin tvö „landsbyggðarkjördæmið" sögðu nei með afgerandi hætti. Velti fyrir mér hvers vegna svona ólík niðurstaða fékkst hjá okkur í Suðurkjördæmi.

En þetta verður semsagt forgangsatriði á þinginu í vetur. Ekki skuldir heimilanna, vaxandi gjaldþrot litlu og meðalstóru fyrirtækjanna á Íslandi, ekki skortur á nothæfum tækjum á spítölum landsins, þar sem næsta skref er líklega að hafa rafvirkja viðstaddar allar skurðaðgerðir ef tækin skyldu nú bila, nú eða lögbrot bankastofnana og íslenska ríkisins vegna gengislána.

Þetta eru allt hlutir sem geta beðið, enda bráðliggur á að skipta út okkar stjórnarskrá sem hefur reynst okkur illa og skapað skelfilega óvissu í fjölmörgum málum.........eða hvað?



 


Hverjir mega hafa skoðun?

Síðustu daga hafa auglýsingar frá aðilum sem eru á móti stórhættulegu kvótakerfi núverandi ríkisstjórnar verið áberandi á öldum ljósvakans. Um leið hafa skæruliðar ríkisstjórnarinnar sett sig í stellingar og hrópað hversu ógeðfelldar auglýsingarnar eru. Allir sem þar koma fram hljóta að vera á launaskrá LÍÚ. Vibbalið...

Hrópherrar Jóhönnu eru duglegir að benda á þetta og setja alla undir sama hatt. Hvort sem um er að ræða verkstjóra í Grindavík eða sjómann að vestan. Allir hljóta þeir/þau að tala máli mafíunnar. Enginn hefur sjálfstæða skoðun .... nema þau.

Einn af þeim sem hefur gengisfellt sig hvað mest þegar kemur að pólitískum skrifum er Illugi Jökulsson. Hann hefur manna harðast gagnrýnt „málþóf“ sjálfstæðisfólks á þingi undanfarna daga. Nýverið var birtur listi yfir lengstu ræður á Alþingi síðustu tvo áratugi. Þingmenn (núverandi og fyrrverandi) Vinstri grænna og Samfylkingar raða sér þar í efstu sætin, töluðu jafnvel í yfir 5 klukkustundir!  Jóhanna forsætisráðherra var í topp 20 með ræðu upp á rúmar 4 klukkustundir. Þetta sýnir þá sorglegu staðreynd að það fólk/flokkar sem hneykslast hvað mest á þeirri „taktík“ sem nú er í gangi er í raun það fólk sem fann upp málþóf. Þá vaknar upp sú spurning hver er sorglegur í þessum efnum?

Nú hefur Illugi skrifað nýja grein til stuðnings „sínu“ fólki en um leið gerir hann lítið úr öðru fólki. Talar um að það jaðri við siðleysi að fólk segi sína skoðun. Hann lætur að því liggja að þeir sem tala hafi ekki sjálfstæða skoðun, heldur sé allt matað ofan í þau. Og jafnvel hefur fólk fengið greitt fyrir að segja það sem sagt er! Um er að ræða kvótafrumvarpið.

Ömurlegt til þess að hugsa að Illugi Jökulsson hafi ekki meiri trú á fólkinu í landinu en svo að fólk þurfi að fá borgað fyrir að tala...


Er vinstri hægri og hægri vinstri?

Upphlaupið á Alþingi í gær var svolítið súrealískt. Hægri menn stóðu þá fyrir málþófi á þingi. Ég þekki nú nokkra hægri menn sem ég veit að hefðu ranghvolft augunum og hrist höfuðið ef þetta hefðu verið vinstri menn sem stóðu fyrir þessu. Þeir hafa svo sem gert það í gegnum tíðina og lengi vel var þetta „trix“ kennt við vinstri menn. Steingrímur Joð hefur svo sem staðið hinum megin við borðið og talað hægar og meira en síðustu ár.

En í gærkvöldi voru þingmenn Sjálfstæðisflokksins í farabroddi, héldu langar ræður og mjög ítarlegar (sumar). Með því komst Sjálfstæðisflokkurinn í veg fyrir að þjóðaratkvæði yrðu haldið um ákveðin atriði í hugmyndum að tillögu að frumvarpi sem síðar yrði lagt hugsanlega fram á Alþingi. Þetta áttu að vera ráðgefandi álit þjóðarinnar út frá tillögum stjórnlagaráðs.

Það er tvennt sem ég hef að athuga við þetta. Í fyrsta lagi er þetta einn vitlausasti tími til að endurskoða stjórnarskránna okkar sem hægt var að finna. Meirihluti þjóðarinnar er í uppnámi eftir áföll síðustu ára.  Egó þjóðarinnar hrundi á einni nóttu, með einni setningu. Guð blessi Ísland.

Á þeim tíma er beinlínis stórhættulegt að ætla sér að móta stjórnarskrá sem á að vernda þegna landsins næstu hundrað árin eða svo. Á svoleiðis tímum fá öfgar að njóta sín.

Reyndar er ég að mörgu leyti hrifinn af tillögum stjórnlagaráðs. Kannski bara út af því að ég hef hrifist með síðustu misseri? Kannski er ég bara reiður út í allt og allt? Kannski langar mig bara í breytt samfélag sem boðið er upp á?

Og á hverju er byggt? Tillögu 25 vel meinandi fólks sem situr í skjóli tveggja stjórnmálaflokka sem ákváðu að hunsa æðsta dómstól landsins. Hæstiréttur hafði dæmt kosningu fólksins ógilda, á „tæknilegum atriðum sem engu máli skipta“ sagði fólk. Það er ástæða fyrir því að kosningalöggjöf er ströng. Þetta er grundvöllur lýðræðis. Kannski skipti þetta engu máli þegar upp var staðið en getur einhver fullyrt um það?

En þá kemur að hinu atriðinu atriðinu sem ég set stórt spurningamerki við. Það er ekki þannig að ég, sem Íslendingur fái að kjósa um tillögur stjórnlagaráðs í heilds sinni. Nei.  En fæ ég að kjósa um tillögurnar allar, lið fyrir lið? Nei.  Ég fæ að kjósa um ákveðnar hugmyndir stjórnlagaráðs um ákveðin málefni. Já.  Og hver ákveður hvaða málefni skipta þjóðina máli í þjóðaratkvæðagreiðslunni og hver ekki?

Jú, það eru þingmenn vorir. Og miðað við umræðuna í gær virðist það bara vera stuðningsmenn núverandi ríkisstjórnar, þ.e. Samfylkingar, VG og Hreyfingarinnar. Hvað ætli það sé stór hluti þjóðarinnar sem styður þá stjórnmálaflokka í dag?

Þess vegna er ég hjartanlega sammála Sjálfstæðisflokknum í þessum málum. Þeir gerðu þjóðinni greiða með því að standa í vegi fyrir því að þetta mál færi í þjóðaratkvæði á sama tíma og við kjósum nýjan forseta.

Í þessu máli verðum við að flýta okkur hægt og nota skynsemina...

En kaldhæðnin er samt til staðar. Vinstri menn hneykslast á hægri mönnum fyrir að beita málþófi á þingi og hægri menn hlakka yfir árangrinum. 

Davíð er orðinn af Jóhönnu og Bjarni Ben er Steingrímur Joð gærdagsins.


Landsdómur

Nú þegar Landsdómur er kominn saman í fyrsta skiptið er sorglegt að ekki skuli vera hægt að fá útsendingu frá dómnum. Líklega hefði "Sannleiksnefnd" verið betri kostur fyrir okkur, í beinni útsendingu þar sem allir sem hlut eiga að máli yrðu kallaðir til.

Líkur á sakfellingu á Geir eru sáralitlar, held að flestir séu sammála um það. Lögspekingar tala um óljósa ákæruliði.  Það á margt eftir að koma í ljós við þessi réttarhöld og svekkjandi fyrir almúgann að þurfa að treysta á misjafna fjölmiðlamenn til að segja okkur frá. Tek reyndar fram að mér fannst frásögn gærdagsins í góðu lagi hjá fjölmiðlum. 

Mér fannst athyglisvert að daginn eftir atkvæðagreiðsluna á Alþingi, þar sem tillögu Bjarna Ben var vísað frá kom frétt í Fréttablaðinu um það að Landsdómur myndi seinka öllum málum sem hefðu fordæmisgildi fyrir Hæstarétt.  Af hverju var það ekki í umræðunni fyrir atkvæðagreiðsluna? Af hverju var það ekki fréttapunktur fyrir atkvæðagreiðsluna. Var einhver þingmaður sem minntist á það?

Nú má semsagt búast við enn frekari töfum á dómum er snerta lán almúgans meðan pólitísk réttarhöld standa yfir.

 


Kvótakerfið

Ég er mikill áhugamaður um sagnfræði. Að horfa um öxl og jafnvel læra af þeim mistökum sem mannfólkið gerir. Ég myndi líklegast teljast nærsýnn í sagnfræðinni því ekkert glepur mig meira en nærsamfélagið. Vestmannaeyjar, í nútíð og þátíð.

Þess vegna svíður sú umræða, sú arfavitlausa umræða sem er um kvótakerfið í dag í hinni háu borg, Reykjavík. Það er líklega það sveitarfélag sem lætur hvað mest í sér heyra um kvótakerfið. Um ósanngirnina, kvótakóngana og lénsherrana sem stjórna hér öllu. Það sveitarfélag sem hefur hvað minnstu hagsmuni að gæta í þeim efnum.

Sá sem kynnti mig fyrir og kenndi mér allt um fiskveiðistjórnun er minn gamli yfirmaður, ritstjórinn Ómar Garðarson. Kosti og galla þess kerfis sem nú er ásamt ástandinu sem var áður en þetta kerfi var sett á. Held að það ástand sé hollt að rifja upp þegar fólk fer að gagnrýna núverandi ástand.

Allur floti Vestmannaeyja var auglýstur til sölu í heilssíðuauglýsingu í Mogganum (minnir mig). Það vildu allir losna út úr greininni, það sá enginn neina framtíð í henni. Hallarekstur ár eftir ár, ríkið kom til bjargar og í raun var þannig um búið að það græddi enginn en allir höfðu lágmarkslaun. 

Svo var sett á kvótakerfi. Fjölmargir fengu úthlutaðan kvóta, sumir höfðu unnið fyrir honum áratugum saman á meðan aðrir sem höfðu unnið stutt við greinina fengu sína úthlutun. Það þurfti að miða við eitthvað þegar slíkt var sett var af stað og niðurstaðan var , þrjú ár aftur í tímann og úthlutun gagnvart veiðireynslu.

Síðan hafa liðið þrír áratugir og aldrei hefur náðst sátt. Mesta ósáttin er um það að einstaklingar hafa getað selt sig út úr greininni með hundruð milljón króna hagnaði. Það hefur gerst hér í Eyjum sem annarsstaðar.  Að mínu mati svarta hlið kerfisins.

En við gleymum alltaf, þegar við ræðum um þá sem hafa selt sig út úr greininni, kvótakvikindin sem sitja nú og sötra sangría á Spáni að það var einhver sem keypti. Jú, seljandi þarf kaupanda og ef einn fær 100 milljónir fyrir veiðiheimildir, þá er einhver að borga 100 milljónir fyrir veiðiheimildir.

En fjölmiðlafígúrur og þeir sem stjórna umræðunni ná alltaf að láta hlutina snúast um þá sem seldu en minnast aldrei á þá sem keyptu. 

Einn ötullasti baráttumaður gegn fiskveiðistjórnunarkerfinu er sjónvarpsmaðurinn Egill Helgason. Það er eitthvað við kerfið sem fer illilega í hann. Þetta er vandaður sjónvarpsmaður sem hefur lagt sig í líma við að kynna fyrir okkur almúganum hinar ýmsu stjórnmála- og hagræðikenningar sem í gangi eru í okkar stóru heimsskringlu. Vikulega birtast textaðar lýsingar frá heimsfrægum heimspekingum á sínu sviði.

En þegar kemur að fiskveiðistjórnun þá dettur hann niður í ömurlegt svarthol. Þetta er okkar mikilvægasta atvinnugrein, fiskurinn hefur alltaf verið okkar aðall. Ólíkt því sem haldið var fram, að við værum á leiðinni að verða alþjóðafjármálasvæðiÐ. En Egill, fremur en svo mörgum öðrum er alveg sama um forsöguna, alveg sama um hvernig hlutirnir gengu fyrir sig. Í dag hlýtur þetta að vera ósanngjarnt ef einhver er að græða.

Tökum fræðilega umræðu, ekki tilfinningalega.


Geir Jón

Hann var ekki lengi að fara úr friðarstól og verða umdeildur stjórnmálamaður hann Geir Jón, nú fær hann yfir sig svívirðingar í netheimum og engu líkara, miðað við umræðuna að hann hafi nafngreint ákveðna stjórnmálamenn og haldið því fram að þeir hafi stjórnað Búsáhaldarbyltingunni. Meira að segja reyndir fjölmiðlamenn eins og Egill Helgason falla í þessa gryfju. Ég efast um að margir af þeim sem hafa tjáð sig um þetta mál hafi hlustað á viðtalið við Geir Jón á Sprengisandi síðastliðinn sunnudag.

Mín skoðun á honum breyttist ekkert við það að hann ákvað að fara í framboð fyrir Sjálfstæðisflokkinn og hefði heldur ekkert breyst þó hann hefði farið í framboð fyrir aðra flokka. Ég hef alltaf litið á Geir Jón sem heiðarlegan mann sem ég hef miklar mætur á. Það hefur ekkert breyst út af þessu máli. Ég skrifaði upp þann hluta viðtalsins sem snéri að þessu máli og birti það hér.

SME (Sigurjón M. Egilsson)

GJÞ (Geir Jón Þórisson)

Geir Jón á Sprengisandi

SME – Þegar ég tala við þig er eðlilegt að tala um þau miklu átök sem urðu hér 2008 og byrjun árs 2009 og þú varst í farabroddi lögreglunnar þar. Þú með þínar pólitísku hugsjónir, langaði þig einhvern tíma að taka þátt í þessu öðruvísi en sem embættismaðurinn?

GJÞ – Ég leyfði mér aldrei að hugsa þannig. En ég get alveg sagt það að mig sárnaði að sjá hvað þetta voru mjög pólitísk mótmæli. En ég gerði mér far um að tala við forystufólk, eða þau sem höfðu sig mest í frammi til þess að reyna að milda, til að mótmælin yrðu ekki eins átakamikil og búast mætti við og urðu á ákveðnum tímapunkti. Mitt var auðvitað númer eitt, tvö og þrjú að standa mína plikt.

SME – Má ég spyrja þig, má ég skilja þig þannig að hluta af þessum mótmælum hafi verið stýrt pólitískt?

GJÞ – Já.

SME – Af kjörnum fulltrúum?

GJÞ – Já.

SME – Af þingmönnum?

GJÞ – Já.

SME – Þú varst vitni af því. Þú sást það í þínu starfi?

GJÞ – Já.

SME – Þetta er svolítið alvarlegt mál, ef þetta var þannig því að eins og þú sagðir áðan þá á tímabili var þetta gjörsamlega að fara úr böndunum og fór úr böndunum. Það voru sko líf í hættu.

GJÞ – Það mátti engu muna á ákveðnum tímapunkti. Það sem gerðist og er á heimsmælikvarða, heimsatburður, það voru mótmælendur sjálfir, fyrir framan stjórnarráðið þann 21. janúar þegar fór að líða á nóttina, þá stigu þau fram, ákveðinn hópur mótmælenda og varði lögregluna. Þetta hefur aldrei gerst neinsstaðar í heiminum nema hér. Ég var afskaplega stoltur og ánægður að sjá að þarna var fólkið búið að fá alveg nóg. Það sá það að þarna var verið að búa til eitthvað stríð gegn lögreglunni, grýta mannlaust hús fyrir aftan lögregluna og lögreglan gerði ekkert annað en að standa vörð og fá grjótið á sig. Þarna verður viðsnúningur, vendipunktur í þessu öllu saman. Þá verður til þessi rauðgula bylting, mótmælendur á móti ofbeldi. Þá fóru þeir sjálfir að taka til og hafa áhrif á það fólk sem ætlaði að halda áfram að grýta eftir þennan atburð, fóru sjálfir að taka þá til hliðar og stoppa þá af. Þarna var umbreyting mikil og ég held að það sem bjargaði þessu það, að við ákváðum það þarna strax, yfirstjórn lögreglunnar með lögreglustjórann í brodda fylkingar að við myndum gera allt til þess að mótmælin færu ekki í ofbeldis, og átök. Við myndum frekar þola, eins og við gerðum, eins og við gerðum og láta á okkur brjóta að ákveðnu marki. Það slösuðust níu lögreglumenn í þessum átökum 20. og 21. janúar 2009. Auðvitað vildum við ekki að það gerðist en það hefði getað farið miklu verr og orðið miklu langvinnari átök ef lögreglan hefði ekki sett upp þetta fyrirkomulag og skipulag sem hún gerði.

SME – Og það er, þessi breyting verður 21. janúar þegar menn ganga fram fyrir skjöldu og verja lögregluna. Ef ekki, þetta var allt að verða verra og verra, eldar voru kveiktir og allt þetta.

GJÞ – Ég vill ekki hugsa til þess hvað myndi gerast...

SME – (grípur orðið) Við þurfum þess ekki en þú sagðir áðan, að kjörnir fulltrúar, eru einhverjir jafnvel sem eru í ríkisstjórn í dag sem tóku þátt í undirbúningi og höfðu áhrif á...

GJÞ – (grípur orðið) Nú vil ég ekki fara út í nánar þetta en það er alveg ljóst að það voru gerendur á sviðinu sem voru framarlega í stjórnmálum og eru enn í dag. Og ég gerði það sem ég gat til að tala við fólk sem stóðu næst og bað um að yrði á tekið vegna þess að við lögreglan, vorum ekki í neinum átökum við stjórnmálamenn, við vorum að reyna að verja vinnustað stjórnmálamanna til að þau fengju frið til að vinna vinnuna sína og menn tóku þessu alvarlega og ég átti góð samtöl við marga úr öllum stjórnmálaflokkum og sem betur fer þá fór þetta ekki verr.

Steingrímur Joð vill ekki sitja undir svona dylgjum.

Álfheiður Ingadóttir kallar hann lygara.

Hvað gerir Geir Jón annað en að svara spurningum Sigurjóns? Var þetta viðtal virkilega tilefni slíkra heiftarlegra viðbragða? 

Og er ekki eðlilegt að menn velti fyrir sér hlutverki þingmanna og opinberra persóna í mótmælunum?


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband