Færsluflokkur: Íþróttir

Að "leika" sér

Þar sem það er aðeins rúmlega vika í kosningar um breytingar á stjórnarskrá íslenska lýðveldisins ákvað ég að skrifa örfáar línur um .... fótbolta.

Ég hef verið mjög hugsi yfir viðbrögðum manna vegna fáránlegrar dýfu Luis Suarez í síðasta leik Liverpool. Menn hafa hópast saman í að fordæma þennan knattspyrnumann, kalla hann nöfnum allt frá „svindlarar“ og yfir í „viðbjóð.“

Fótbolti er íþrótt sem gengur að mörgu leyti út á að svindla, eða reyna að svindla. Knattspyrnumaður tæklar annan og vonast til að komast upp með það, mótmælir dómnum jafnvel þó augljóst sé að tæklingin var ólögleg. Þú öskar gult spjald á andstæðinginn fyrir leikaraskap þó augljóst sé að dæma átti vítaspyrnu og þú lyftir upp hendinni og heimtar öll innköst og allar hornspyrnur/markspyrnur sem möguleiki er á.  Öllum finnst það eðlilegt. Í síðustu viku skoraði leikmaður Ipswich mark með því að slá boltann inn og beið aðeins...og þegar dómarinn dæmdi mark þá hljóp hann út að hornfána og fagnaði. Engum þótti það athugavert.

Luis Suarez gerði sig sekan um barnalega hegðun á móti Stoke. En áður en það gerðist hafði hann verið sparkaður niður nokkrum sinnum, trampað á takkaskóm á bringunni á honum og togað í treyjuna til að hægja á honum. En fyrirsagnirnar snérust um leikaraskapinn. Það er í lagi svo sem, enda á svona ekki að sjást. En Gareth Bale frábær leikmaður Tottenham, sem fékk flest gul spjöld fyrir leikaraskap á síðustu leiktíð sýndi svipaða leikhæfileika en það hefur farið fyrir ofan garð og neðan og lítið spjallað um það. Hvers vegna?

Leikaraskapur er því miður partur af fótbolta. Valencia „fiskaði“ ódýra vítaspyrnu á móti Liverpool. Fjölmörg dæmi eru um leikaraskap, hvort sem er hjá leikmönnum Liverpool, Man.Utd., Arsenal, Chelsea eða öðrum liðum. Svo erum við með dæmi um leikmann sem hafa opinberlega viðurkennt að hafa slasað annan leikmann. Það er hörkutól væntanlega...

Annars hef ég stórar áhyggjur af Man.Utd. aðdáendum. Þeir virðast mjög umhugað um Liverpool og láta flest allt sem þar gerist fara í taugarnar á sér. Nú (því miður) er Liverpool ekki sá klúbbur sem þeir þurfa að óttast en það virðist engu máli skipta, þeir (margir hverjir) geta ekki komið Liverpool út úr hausnum á sér.

Annars sá ég flottan lista um daginn um samlíkingu fyrirtækja og fótboltaliða, þ.e. hvaða fyrirtæki líkist mest fótboltaliðinu. Þrennt á listanum fannst mér mjög fyndið:

Liverpool – British Airways (Still popular even though they haven‘t been good since the 80s)

Newcastle – Department of transportation (Handing out long-term contracts without thinking them through)

Norwich – IKEA (Cheap to assemble but won‘t stay up for long)


Gargandi snilld

http://www.youtube.com/watch?v=B7hhMbfjfKE

Segið svo að menn lifi sig ekki inn í leikinn Grin


Ótrúlega öruggt hjá mínum mönnum

Ég var ánægður eftir 4:0 sigur á Real Madrid á þriðjudaginn og í dag er maður himinlifandi.  Það er ekki annað hægt eftir að hafa tekið Man.Utd. í kennslustund 1:4 á Old Trafford.  Sérstaklega ánægjulegt eftir yfirlýsingagleði Rooney í vikunni :-)  Sá var pirraður!!

Vidic sem hingað til hefur virkað á mig sem heimsklassamiðvörður var eins og lélegur Newcastle varnarmaður í þessum leik.  Á tvö mörk skuldlaust. 

Annars voru mínir menn í essinu sínu í þessum leik.  Gerrard stígur upp í svona leik en eins og svo oft áður í stóru leikjunum, þá hverfur Ronaldo. 

Hyypia einn af bestu leikmönnum vallarins í dag.  Hvað er karlinn orðinn gamall? 


Algjört bjútí

Það skiptast á skin og skúrir hjá mínum mönnum í Liverpool.  Eftir algjöran "low point" í leiknum gegn Middlesbro fyrir stuttu þar sem 2:0 tap var staðreynd kom einhver flottasti leikur sem ég hef orðið vitni að í gærkvöldi þegar eitt stærsta og sigursælasta félagslið Evrópu var kjöldregið. 4:0 sigur gegn Real Madrid og sigurinn hefði getað orðið miklu stærri en besti maður Real Madrid, Cassillas markvörður sá til þess að mínir menn skoruðu ekki "nema" fjögur mörk.

Það er með ólíkindum að liðið skuli ekki ná að mótivera sig betur gegn minni spámönnum í ensku deildinni.  Þeir sýndu það alla vega í gær að þeir geta spilað heimsklassafótbolta.  Ég vill meina að það séu leikmennirnir og hugarfar þeirra sem skiptir máli.  Margir hengdu haus í leiknum á móti Middlesbro. 

Samt held ég að Liverpool sé komið skrefinu lengra í áttina að enska titlinum.  Í fyrsta skipti í mörg ár er Liverpool enn með í baráttunni þetta langt liðið á tímabilið.  Menn hljóta að líta á það sem framfaraskref?  Hins vegar er Liverpool stór klúbbur, sá sigursælasti á Englandi og auðvitað á krafan að vera að liðið sé með í baráttunni ár hvert. 

En miðað við innanfélagsátökin síðasta árið finnst mér staða liðsins góð. 

Spurning hvort ég verð eins jákvæður eftir leikinn á laugardaginn. Smile


Hásteinsvöllur

HasteinsvollurNú er síðasta leik sumarsins lokið á Hásteinsvelli.  Óhætt er að segja að ÍBV hafi lokið sinni keppni á heimavelli með hvelli.   Stærsti sigur sumarsins hingað til alla vega,  leit dagsins ljós í vægast sagt brjáluðu veðri.  ÍBV náði þeim frábæra árangri að fara í gegnum Íslandsmótið án þess að tapa stigi á heimavelli, 100% árangur. Síðast náði ÍBV þeim árangri árið 1998 en þá vann ÍBV Íslandsmeistaratitilinn.  Þetta er frábær árangur hjá Heimi og peyjunum.   Umræðan um bann við notkun á Hásteinsvelli skyggir þó á þennan árangur og óvissan um stöðu ÍBV í deild þeirra bestu.
     Það hefur verið talað um Hásteinsvöll sem einn besta grasvöll landsins í mörg ár.  Hann er enn á meðal þeirra bestu en kröfurnar breytast.  Það eru ekki mörg ár síðan ÍBV þótti vera með eina bestu aðstöðu fyrir yngri flokka á landinu.  Með alla sína grasvelli og félög víðs vegar á Íslandi dáðust af stöðunni í Eyjum.  Á fáum árum duttum við aftur fyrir mörg af þeim félögum sem við berum okkur saman við. Félög byggðu eða fengu inni í knattspyrnuhúsum og nú var hægt að æfa knattspyrnu allt árið. Eitthvað sem þarf að gerast ef árangur á að nást.  ÍBV hefur barist fyrir því í mörg ár að slíkt hús rísi hér í Eyjum.  Nú eru framkvæmdir hafnar, verið er að grafa fyrir húsinu og knattspyrnufólk í Eyjum sér loksins fram á byltingu í vetraraðstöðu sinni.  Enn á þó eftir að bjóða byggingu hússins út og á meðan slíkt er óljóst bíða fagnaðarlætin. 
     Áhersla KSÍ hefur verið að bæta aðstöðu áhorfenda. Kröfurnar eru ríkar og að mínu mati of miklar á bæjarfélög eins og Vestmannaeyjar.  KSÍ hefur gengið of langt í metnað sínum gagnvart knattspyrnusambandi Evrópu (UEFA). Ísland er eitt af sautján Evrópuþjóðum sem eru með sama leyfiskerfið fyrir landsmót og Evrópukeppni.  KSÍ setur sig þar á stall með þjóðum eins og Grikkland, Rúmeníu, Póllandi, Þýskalandi, Austurríki,Danmörku, Hollandi og Belgíu.  Á meðan ganga þjóðir eins og Tékkland, Ítalía, Spánn og England ekki eins langt og við í leyfiskerfinu.  Ekki ætla ég að fara nánar út í það hér enda veit ég að Gísli Hjartarson (Foster) er að vinna vandaða úttekt á þessu máli.
    Málið snýst hins vegar um metnað félaganna.  KSÍ er ekkert annað en samtök utan um félögin í landinu.  Og þau hafa samþykkt þetta leyfiskerfi. ÍBV hefur mótmælt þessu sem og fleiri félög en tillagan um þetta kerfi var samþykkt af meirihluta félaganna og við þurfum við að sætta okkur við það  ef við viljum halda úti knattspyrnuliði í Eyjum.  Hins vegar liggur vandinn kannski í því að um leið og ÍBV þarf að beygja sig undir reglur KSÍ er það bærinn sem á völlinn sem um ræðir. Og bæjaryfirvöld eru ekki með stúkubyggingu á dagskrá. Svo einfalt er það mál.
     Stúkubyggingunni hefur verið stillt upp á móti byggingu knattspyrnuhússins.  Það þykir mér ekki rétt. Fyrir það fyrsta hefur legið fyrir frá árinu 2001 að það þurfi að byggja yfirbyggða stúku við Hásteinsvöll. Það hafa bæjaryfirvöld vitað í öll þessi ár og mér skilst að bréf frá bæjaryfirvöldum sé til þar sem lofað er slíkri byggingu.  Ákvörðun um byggingu knattspyrnuhúss var tekin löngu eftir að stúkumálið kom fyrst inn á borð bæjaryfirvalda.  Annað hvort hafa bæjaryfirvöld gleymt því máli þegar knattspyrnuhúsið var samþykkt eða vísvitandi ætlað að hundsa þær kröfur.  Eins er ekki sanngjarnt að stilla ÍBV upp við vegg og biðja um val á milli.  Annars vegar er um að ræða framkvæmd sem gjörbyltir knattspyrnuaðstöðu allra iðkenda í Eyjum og hins vegar byggingu sem kemur eingöngu við meistaraflokk félagsins.  Það hefur komið skýrt fram hver vilji ÍBV er, knattspyrnuhúsið skal rísa.
     En vandamál Hásteinsvallar þarf að leysa.  Ég er sannfærður um að ef menn setjast niður og ræða málin þá sé hægt að komast að samkomulagi. Þar þurfa allir aðilar að gefa eftir af sínum kröfum.  Nú þegar eru sæti fyrir 535 við Hásteinsvöll. Reyndar er afskaplega fámennt oft í stúkunni þó talið sé inn hátt í 500 áhorfendur.  Menn hafa sinn stað á Hásteinsvelli, það er staðið á hólnum og meðfram vellinum sunnan megin og þar hafa menn og konur staðið í mörg ár.  Það breytist ekki þó stúkan sé með þaki. Þetta er hluti af sjarmanum við Hásteinsvöll og ég trúi ekki öðru en að menn vilji halda slíkum sjarma. Þess vegna tel ég að lausnin í þessu felist í að byggja yfir þau sæti sem nú eru. Það þyrfti ekki að kosta mikinn pening en um leið þyrfti að koma vilyrði frá KSÍ að slík lausn myndi duga til þess að halda keppnisleyfi á Hásteinsvöll á næstu árum. 
     Krafan um 700 manna stúku er nokkurra ára gömul og eins og bent hefur verið á hefur Eyjamönnum því miður fækkað mikið síðan þá.  Að sama skapi hefur áhorfendum sem koma á Hásteinsvöll fækkað. Þess vegna er vel hægt að að færa rök fyrir því að 535 sæti duga eins og staðan er í dag. Það eru ekki mörg ár síðan fulltrúar KSÍ komu til Eyja og veittu viðurkenningu fyrir gott starf í grasrótinni.  Byggðir hafa verið tveir gervigrasvellir við skólanna í bænum og ÍBV hefur staðið gríðarlega vel við menntun þjálfara og starf í yngri flokkum.
    Sú staða gæti komið upp í kvöld að ÍBV tryggi sér sæti í Landsbankadeild karla, takist Stjörnunni ekki að vinna Fjarðabyggð.  Ef ekki þá er ljóst að ÍBV þarf aðeins 1 stig út úr síðustu þremur leikjunum til þess að vinna sér aftur sæti í deild þeirra bestu.  Ég hef enga trú á því að KSÍ muni beita hörku í þessu máli og banna ÍBV að spila í Eyjum. En menn verða að geta sest niður og rætt málin.  Það er sáttarhugur í bæjarstjóranum okkar í Vaktinni í morgun og það er gott. 
     Þetta mál er gamalt og ekki hægt að hengja það á núverandi stjórnendur bæjarins. Þetta er fortíðarvandi sem brýnt er að leysa núna.  Það kemur í hlut Elliða og félaga. Vonandi í góðri sátt við ÍBV og KSÍ. 
     Hef fulla trú á því.

 esbjerg_idraetspark1


Þetta er heimavöllur Esbjerg í Danmörku. Þar sem Gunnar Heiðar spilar núna. Völlurinn tekur 16.500 áhorfendur , 5.600 af þeim í sæti. Í borginni búa tæplega 115.000 manns. 15% bæjarbúa kæmust á völlinn en aðeins 4,5% þeirra gætu fengið sér sæti. Eins og sést eru aðeins efstu sætin "yfirbyggð".  

Í Eyjum eru sæti fyrir tæplega 14% íbúa í dag.  

 

 

Á wikipedia er lýsingin á Hásteinsvelli svona:

Hásteinsvöllur is a multi-use stadium in Vestmannaeyjar, Iceland. It is currently used mostly for football matches. The stadium holds 3,540.

LoL

 


Ekkert öruggt

Grátlegt að við skyldum tapa fyrir Suður Kóreu um miðja nótt!! Ég fékk mig ekki á fætur, lét konunni það eftir að æsa sig yfir handboltanum, var enn að reyna að átta mig á herfilegum leik minna manna í Liverpool í gær.

 Eftir sigur Dana í dag er ljóst að öll liðin í riðlinum gætu komist áfram.  Það verður því gríðarleg spenna í hádeginu á laugardaginn þegar við mætum Dönum. Sigur þar og málið er dautt.

Spái 14:2 í hálfleik

 


mbl.is Danir unnu Rússa naumlega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ef, kannski og hefði

Nú er draumur okkar púlara úti. Duttum út í undanúrslitum...  gegn Chelsea.  Þetta var óþægilegur leikur fyrir mína menn, ekki mættir í fyrri hálfleik og sprungu svo á limminu í framlengingu.  Og ég sem hélt að rotation systemið virkaði ...

Auðvitað hefði þetta getað farið öðruvísi, ef það hefði verið gefið víti þegar Hyypia var felldur innan teigs eða Torres hefði nýtt færið í fyrri hálfleik, ja eða ef Riise hefði ekki reynt að skalla boltann ca. 30 cm frá jörðu í fyrri leiknum....

En svona er nú bara boltinn.  Ég er viss um að Guðni og Gaui frændur mínir eru enn að tala um vítina sem Arsenal átti að fá í fyrri leik liðanna í 8 liða úrslitum.  Við verðum bara að bíta í það súra epli...

Úrslitaleikur í Moskvu milli Man.Utd og Chelsea.  Þar má segja að Chelsea sé á heimavelli enda eigandinn kóngurinn í Moskvu.

Ég held svei mér þá að ég haldi með Man.Utd í úrslitaleiknum.  Jose Mourinho og Avram Grant hafa báðir sagt að Chelsea verði ekki stórlið fyrr en þeir vinna meistaradeildina....

Þess vegna held ég með Man.Utd.

Ég vill að Chelsea sé ennþá smálið  Devil


Knattspyrnumenn ársins úr Eyjum, hvað með framtíðina?

f693837c03d1d387f439ea1403bbf2a9_margretlara_hermannÞað var gaman af því að knattspyrnumenn ársins, bæði í karla og kvennaflokki skyldu vera Eyjamenn. Hermann átti nafnbótina svo sannarlega skilið, enda búinn að standa sig gríðarlega vel, hvort sem það er með Charlton/Portsmouth eða íslenska landsliðinu. Sannarlega fyrirmynd. Margrét Lára ber höfuð og herðar yfir íslenskar knattspyrnukonur, slær markametið tvö ár í röð í efstu deild og hefur raðað inn mörkum með landsliðinu.

Ég held að ég sé eins og margir aðrir Eyjamenn. Við fylgjumst með hvernig „okkar fólki“ gengur þó þau séu farin í annað lið.  Við erum stolt af árangri þeirra. Jafnvel montin.

Ég tók að gamni mínu saman hvaða leikmenn hafa spilað A-landsleiki frá 1980 og farið út í atvinnumennsku. ÍBV á þar sjö leikmenn. Eru í þriðja sæti yfir liðin. Aðeins ÍA og KR eiga fleiri atvinnumenn á þessu tímabili.  Valur á jafnmarga en fyrir neðan ÍBV eru lið eins og Fram, Keflavík, Breiðablik, FH, Fylkir, Grindavík, Stjarnan, Víkingur og Þór Akureyri.

Þessir sjö leikmenn eru: Títtnefndur Hermann Hreiðarsson, Gunnar Heiðar Þorvaldsson, Tryggvi Guðmundsson, Hlynur Stefánsson, Örn Óskarsson, Ívar Ingimarsson og Sverrir Sverrisson sem var áður með Leiftri.  Svo fór Birkir Kristinsson í atvinnumennsku frá Fram en hann ólst hér upp og fékk sitt knattspyrnulega uppeldi í Eyjum.  Fleiri snillingar hafa komið frá Eyjum og of langt mál að telja það upp hér en mergur málsins er sá að það hefur verið gott að fá sitt íþróttauppeldi í Eyjum.

Nú eru uppi hugmyndir um að fresta byggingu knattspyrnuhúss. Fresta því um eitt ár og fá fjármagn inn í ÍBV til að mæta erfiðum rekstri.  Það er vitað mál að reksturinn er erfiður og ekkert einhverju einu um að kenna. Óþarfi að fara í hártoganir um slíkt.

Ég hef fulla samúð með stjórnarmönnum hjá ÍBV sem þurfa að mæta þessum rekstri og finna leiðir en mín skoðun er sú að þetta er ekki rétta leiðin. Knattspyrnuhúsið á að rísa.

Aðstaðan er gríðarlega mikilvæg.  Þegar Hemmi Hreiðars, Tryggvi, Venni, Bjarnólfur og fleiri snillingar voru að alast upp í Eyjum litu önnur lið öfundaraugum til Eyja. Hér voru fjórir grasvellir og aðstaðan sú besta á landinu.  Síðan höfum við dregist aftur úr. Knattspyrnuhús hafa risið víða og öll lið utan tvö að ég held í efstu tveimur deildunum á Íslandi (24 lið) hafa æfingaaðstöðu í knattspyrnuhúsum.

Við sitjum orðið eftir. Það er staðreynd.  Hemmi Hreiðars framtíðarinnar, Margrét Lára næstu kynslóðar hafa ekki aðstöðu til að taka framförum líkt og jafnaldrar þeirra. Auðvitað stendur ekki allt og fellur með húsinu en það hefur mikil áhrif.  Krakkar hafa aðstöðu til að vera í handbolta og körfubolta allt árið. Ekki fótbolta. Í dag eru fótboltaæfingar allan ársins hring. 

Umræðan hefur verið fjörug á heimasíðu ÍBV og þar sýnist sitt hverjum. Eins var góður pistill frá Kela, en hann tók skóflustunguna að nýju húsi síðasta haust.  Sú athöfn vakti athygli og menn urðu bjartsýnir fyrir hönd knattspyrnunnar.

Knattspyrnuhúsið er ekki byggt fyrir meistaraflokk. Húsið er fyrst og fremst byggt fyrir börnin okkar. Þar eru Hemmi og Margrét Lára framtíðarinnar.

 (myndina fékk ég að láni hjá fotbolti.net)

 


Hrós til handboltaliðsins

Eftir þær hremmingar sem ÍBV liðið í handbolta hefur gengið í gegnum eiga þeir skilið hrós fyrir frábæran karakter sem þeir sýndu á laugardaginn gegn Aftureldingu.  Þeir lentu sex mörkum undir í fyrri hálfleik og oft hefur það nægt til þess að menn missi trúna á verkefninu, sérstaklega í vetur. Liðið hefur oft á tíðum verið algjörlega andlaust í sínum leik þegar á móti hefur blásið.

En allt annað var upp á teningnum núna. Menn sýndu virkilega flottan karakter með því að snúa leiknum sér í hag og í síðari hálfleik mundi maður hversu gaman það getur verið að vera á handboltaleik. Hörkuspenna, dramatík og óvænt úrslit.  Frábært...

Maggi Braga bendir á kirkjuferð hópsins fyrir leik. Kannski hún hafi gert gæfumuninn?  Alla vega var allt annað að sjá til leikmanna, það var barátta í liðinu, og samheldni sem hefur svolítið vantað upp á að mínu mati. Vonandi upphafið af betri tíð.

Sigurinn var ekki síður glæsilegur vegna þeirra staðreyndar að reynsluboltinn Siggi Braga tók út leikbann. Gintaras var ekki með vegna meiðsla og það munar um minna.  Aftur á móti var frábært að sjá nýja leikmanninn, Trotsenko.   Satt að segja leist mér ekkert á blikuna í fyrsta skotinu hjá honum, í gólfið og tæpa þrjá metra yfir !!  En sá kom til, þrátt fyrir að hafa ekkert æft og búinn að ferðast langa leið gerði hann átta mörk. Hann á eftir að styrkja þetta lið.

Með svona baráttu og karakter á ÍBV liðið góðan möguleika á að bjarga sér frá falli.


Ég bað um sófa og þeir keyptu handa mér lampa

Mourinho&BenitezÞetta sagði Rafael Benitez þáverandi stjóri Valencia um eigendur félagsins. Hann fékk ekki það sem hann vildi af leikmönnum í félagsskiptaglugganum. Stuttu síðar hætti hann og var ráðinn til Liverpool.

Nú er spurning hvort hann sé að fara þaðan líka. Alla vega er eitthvað mikið um að vera í herbúðum félagsins. Sem betur fer smitaðist það ekki út á völlinn í gær þar sem Liverpool fór létt með Newcastle.

Hann segir eigenduna (sem eru Bandarískir fyrir þá sem ekki vita) að þeir skilji ekki félagsskiptagluggann.  Þeir átta sig ekki á því hvað það er erfitt að fá leikmenn.

Ég vona að karlinn haldi áfram. Þrátt fyrir allt og allt er liðið betra í ár en það hefur verið undanfarin ár. Ég er sannfærður um það og ef hann heldur áfram sé ég liðið alveg blanda sér í baráttuna við Arsenal, Man.Utd. og Chelsea um meistaratitilinn.

Mourinho hefur verið orðaður við stöðuna verði Benitez látinn fara.  æi, ég veit ekki

Spurning hvort kanarnir kaupi bara ekki sófa handa honum í janúar?

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband