Færsluflokkur: Enski boltinn

Jamie Carragher

jamie_carragher_2473755b_1189874.jpgEin mesta goðsögn síðari ára hjá Liverpool hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna góðu í sumar. Það er mikil eftirsjá í þessum mikla karakter fyrir okkur stuðningsmenn Liverpool.

Ferill hans hjá Liverpool hefur verið ótrúlega farsæll. Eftir að hafa alist upp sem stuðningsmaður Everton byrjaði hann að æfa hjá Liverpool 9 ára gamall. Eftir það var ekki aftur snúið. Ég las fyrir nokkrum árum ævisögu kappans. Fyrir stuðningsmenn Liverpool er þetta „must read“ bók og fyrir aðra áhugamenn um fótbolta get ég líka mælt með henni. Þar er ekkert dregið undan og félagið, önnur félag og aðrir leikmenn fá sinn skammt, hvort sem það er af hrósi eða gagnrýni.

Í fótboltanum í dag er mjög sjaldgæft að leikmaður leiki aðeins fyrir eitt félag allan sinn feril. Liverpool á tvo svona, Carragher og Gerrard en munurinn á þeim tveimur er sá að Gerrard gældi við þá hugmynd að fara yfir til Chelsea árið 2006. Ég man ekki eftir að Carragher hafi nokkurn tíma opnað á slíkan möguleika. Sem betur fer fyrir Liverpool ákvað Gerrard að vera áfram og hafa þeir tveir verið tákngervingar klúbbsins á afskaplega erfiðu tímabili sem félagið hefur verið að ganga í gegnum. Hvorugur mun nokkurn tíma lyfta enska meistaratitlinum sem leikmenn en þeir hafa lyft öllum öðrum titlum sem í boði hafa verið. Það er afrek!

Oft hef ég heyrt brandarann um hvaða leikmaður hafi skorað flest mörk fyrir Arsenal gegn Liverpool. Svarið: Jamie Carragher.  Ekki alveg rétt en brandarinn er betri svoleiðis (held að hann sé í þriðja sæti yfir markahæstu leikmenn Arsenal gegn Liverpool...)

Carragher hefur skorað þrjú mörk fyrir Liverpool í þessum rúmlega 700 leikjum. Hann byrjaði sinn feril sem miðjumaður en fór fljótlega í vörnina. Fyrst sem bakvörður og síðar sem miðvörður þar sem hann hefur notið sín best. Hann er mjög hávær varnarmaður og það er ljóst að með hann í vörninni eru aðrir varnarmenn á tánum. Eitthvað sem hefur vantað með þá Skrtel og Agger í hjarta varnarinnar þetta árið.

Það verður mikil eftirsjá í þessum frábæra leikmanni. Hann hefur ekki tækni Messi, hraða Ronaldo eða skotgetu Gerrards. En hann hefur ótrúlega næmt auga fyrir staðsetningu, er leiðtogi innan vallar og eftir því sem heyrist frá Bítlaborginni utan vallar líka.

We all dream of team of Carragher...http://www.youtube.com/watch?v=V1eACW9GIXE


mbl.is Carragher leggur skóna á hilluna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að kunna PR

Að vera stuðningsmaður Liverpool í dag er svolítið snúið. Bæði er árangurinn inn á vellinum ekki nógu góður, alla vega ekki í deildinni og svo er árangurinn utan vallar skelfilegur.  Ef það væri til tafla yfir PR félaga í ensku deildinni væri Liverpool án vafa í fallsæti.

Mál félaganna, Suarez og Evra er skólabókardæmi um hvernig almenningsálitið sveiflast eftir því hvernig menn ná að koma frá sér sínu máli í fjölmiðlum. Þar skíttapaði Liverpool fyrir erkifjendunum í Man.Utd.

Ef við byrjum á byrjuninni, þ.e. leik Liverpool og Man.Utd. í haust þar sem þeim félögum lenti saman með þeim afleiðingum að Suarez var dæmdur í 8 leikja bann fyrir kynþáttafordóma. Gríðarlega harður dómur, miðað við þá einföldu staðreynd að sönnunargögn voru takmörkuð, og byggði úrskurðurinn algjörlega á framburði Evra.  Nú er ég alls ekki að segja að hann hafi logið einhverju, heldur verða, að mínu mati að liggja fyrir óyggjandi sannanir fyrir slíku því núna er Suarez brennimerktur rasismi um ókomna tíð.

Í því sambandi er rétt að rifja upp byrjunina á þessu máli.  Evra sagði sjálfur í vitnisburði sínum að hann hafi notað miður falleg orð um systir Suarez. Svipuð taktík og Marco Materazzi notaði á einn besta knattspyrnumann sögunnar, Zinedine Zidane í úrslitaleik HM. Þeim samskiptum lauk þannig að Zidane skallaði Materazzi, fékk réttilega rautt spjald. Það sem gerðist hins vegar í kjölfarið var að Materazzi varð skúrkurinn þegar kom í ljós hvað hann gerði til að ögra Zidane.  Materazzi fékk í kjölfarið tveggja leikja bann.

Hvergi, nema á einstökum spjallsíðum stuðningsmanna Liverpool hefur Evra fengið á sig gagnrýni fyrir þennan hlut. Þetta er ekkert stórmál að mati aðila. Þetta var ekki stórmál í augum aganefndar FA, þeim fannst sem sagt í lagi að Evra skyldi niðurlægja systur Suarez á þennan hátt. Það er í lagi að hálfu leikmanna að tala niðrandi til annarra leikmanna og fjölskyldna þeirra, svo lengi sem ekki sé minnst á kynþáttinn. Svolítið sérstök skilaboð en í ljósi þeirra pólitísku rétthugsunar sem er í gangi í heiminum þá er þetta „rétt mat.“  United menn unnu PR-ið varðandi þetta og náðu að mála Evra sem fullkomið fórnarlamb og Suarez fékk ímynd Kölska.

Tökum annað mál sem hefur mikið verið í umræðunni undanfarið og er orðið lögreglumál. Terry vs Ferdinand. Terry á að hafa sagt við Ferdinand: „You fucking black cunt.“  Ljótt orðbragð, engin spurning. En ef Terry hefði sagt: „You fucking cunt.“ Þá hefði ekki farið að stað lögreglurannsókn, Terry væri ennþá fyrirliði enska landsliðsins og Capello ennþá þjálfari! Og ef við snúum þessu við, hefði Ferdinand sagt við Terry: „You fucking white cunt“ hefði ekki verið minnst á þetta í fjölmiðlum, það er ég viss um. 

Viðbrögð Liverpool í kjölfar kærunnar voru að mínu mati klaufaleg. Viðurkenni fúslega, sem harður Púlari að þetta er eftir á skoðun hjá mér. Ég var hrifinn af samstöðu leikmanna, þjálfara og stuðningsmanna. En umræðan í kjölfarið var ekki um samstöðu eða slíkt, heldur að með því að standa með Suarez væru leikmenn Liverpool, stjórn félagsins og knattspyrnustjóri að samþykkja kynþáttaníð!  Þrátt fyrir tilraunir félagsins til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri náðist aldrei að láta umræðuna snúast um samstöðu eða stuðning, heldur var Liverpool að verða eitt óvinsælasta félagslið í heimi vegna þess að það „gúdderaði“ kynþáttaníð.  Nú er ég að tala um hlutlausa áhugamenn um fótbolta í þessu máli, þ.e. sem hvorki halda með Liverpool eða Man.Utd.

Svo kom úrskurður FA í málinu, upp á 140 blaðsíður um eitt orð. „Negrito.“ Ekki „Nigger“ eins og margir halda sem lítið fylgjast með og finnst mér það lýsandi dæmi um hversu illa Liverpool hefur tekist að halda uppi sínum málstað. Niðurstaðan var 8 leikja bann. Menn hafa fengið mest (að mig minnir) 5 leikja bann fyrir ofbeldi inn á vellinum. Það er álitið minna brot að fótbrjóta einstakling viljandi í knattspyrnuleik en að kalla mann „Þú litli svarti maður.“ Aftur fannst mér Liverpool bregðast kolrangt við í afstöðu sinni til úrskurðarins. Félagið hafði gagnrýnt FA harðlega í yfirlýsingu.  Fóru í þeirri yfirlýsingu yfir allt sem varðaði þetta mál, frá þeirra sjónarhorni. Ekki var annað hægt að lesa út úr þeirri yfirlýsingu að Liverpool ætlaði sér að standa með sínum manni og berjast gegn því óréttlæti sem þeim fannst beitt gegn leikmanninum og félaginu. 

Hvað gerist svo? Jú, félagið ákveður að áfrýja ekki úrskurðinum, því þeim þótti einsýnt að ekkert kæmi út úr því nema að Suarez fengi einn leik í viðbót í bann.   Og hvernig var þetta túlkað í fjölmiðlum? Liverpool neitar að viðurkenna sök en þora ekki að áfrýja. Þetta eru nú meiru kynþáttahatarnir hjá þessu félagi. Svei attan. Auðvitað átti félagið að berjast með öllum tiltækum ráðum, miðað við hvernig félagið hafði haldið á sínum málum.

Og þá að stóra handabandamálinu. Það var alveg ljóst frá upphafi að stórleikurinn, Man.Utd. – Liverpool myndi snúast um eitthvað allt annað en fótbolta.  Og áður en leikurinn byrjaði voru fyrirsagnirnar skrifaðar. Suarez tók ekki í höndina á Evra. Nú geta menn deilt um aðdragandann og hvernig Evra var með höndina þegar kom að honum en það skiptir nákvæmlega engu máli. Suarez var búinn að gefa það út til sinna yfirmanna að hann ætlaði sér að taka í höndina á honum og viðbrögð hans, þ.e. að gera það ekki var algjört dómgreindarleysi að hans hálfu. Hann hefur síðan beðist afsökunar á þessu, sem og félagið. En skiptir það einhverju máli, úr því sem komið er?  Liverpool hefur tapað og það steinlegið í áróðursstríði sínu við Man.Utd.

Meira að segja sér enginn í gegnum hræsnina í orðum Ferguson í kjölfar leiksins. Fjölmiðlar gleypa það hrátt að Ferguson gagnrýni hann fyrir að heilsa ekki Evra. Þessi sami Ferguson hefur innan sinna vébanda í gegnum tíðina þurft að verja kynþáttaníð leikmann síns og þá staðreynd að tveir leikmenn United neituðu að heilsa leikmanni Arsenal hér um árið. Stundum veltir maður fyrir sér hvað Ferguson þarf að segja til að fjölmiðlamenn á Bretlandi staldri við og leggi gagnrýnið mat á orð kappans.

Þáttur FA er svo kapítuli út af fyrir sig. Áðurnefnt atvik milli Terry og Ferdinand var leyst þannig að það var hætt við að hafa handabandið fyrir leik QPR og Chelsea um daginn.  Hvern var verið að verja þar, Terry eða Ferdinand? Hefði ekki hægt að fara sömu leið fyrir þennan leik og láta leikinn snúast um fótbolta en ekki handaband?  Kannski. En það breytir ekki þeirri skoðun minni að viðbrögð Suarez voru kolröng.

Þegar öllu er á botninn hvolft þá hefur þetta mál eyðilagt tímabil Liverpool. Þó við vinnum Carling Cup og jafnvel FA Cup líka þá verður þetta tímabilið sem Suarez gerði allt vitlaust á Englandi. Og kannski verður þetta eina heila tímabil leikmannsins á Englandi. Ég væri alla vega að hugsa mig um ef ég væri í hans sporum, hvort ég vilji vera í landi þar sem ég er úthrópaður rasismi og alveg sama hvað ég segi héðan í frá verður túlkað út frá þeirri sýn.  Grunar að Suarez spili á Spáni á næsta tímabili.

En félagið þarf að hugsa sinn gang. Það er greinilegt að félagið hefur ekki mjög sterka tengiliði inn á helstu fjölmiðla Englands, annað en Man.Utd. Fyrir mig er þetta mál búið að vera allt of fyrirferðamikið í pressunni, það er að mestu Liverpool að kenna. En United hefur greinilega byggt upp sterkt net í fjölmiðlaheiminum og eiga talsmann á hverju blaði, fólk sem tekur undir málstað þeirra og heldur þeim á lofti.


Óskalistinn

Það fór svo að Liverpool lét Benitez fara, eftir svipaðan tíma við stjórnvölinn og Houllier þar áður. Eitthvað sem segir mér að næsti stjóri Liverpool verði ekki svo lengi við stjórnvölinn...

Veit ekki með aðra en hjá mér er Kenny Dalglish sá sem ég vill helst að taki við.  Alla vega þangað til eigendamálin leysast.  Það eru þvílíkir óvissutímar hjá félaginu.  Einhversstaðar las ég ágætis lýsingu á ástandinu. "Við erum að taka Newcastle á þetta en döðrum við að verða næsta Leeds" 

Fannst þetta ágæt lýsing á hörmungarástandi hjá þessum sögufræga klúbb. 

King Kenny væri akkúrat límið sem myndi halda, alla vega tímabundið liðinu saman að mínu mati.  Gríðarlega virtur innan félagsins og ég hef trú á því að bæði Torres og Gerrard væru tilbúnir í alla vega eitt season með honum.  

Ef Dalglish fær ekki starfið væri næsti á óskalistanum Martin O'Neill.  Hann myndi aftur koma með "passion" inn í félagið sem Benitez tókst alveg að drepa niður.  Hann hefur náð frábærum árangri með minni spámenn á undanförnum árum, Leicester hér á árum áður og núna Aston Villa.  

Sá þriðji væri svo Roy Hodgson.  Frábær árangur með Fulham á síðasta tímabili.  Hefur gríðarlega reynslu og væri kannski ágætis millikafli á meðan innanhúsmál félagsins eru leyst.  

Á eftir þeim þremur kæmu svo: Lippi, Sven Goran Eriksson, Deschamp.... 

 


Sami búningur, allt annað lið

Mascherano_468x808Hvernig er hægt að tapa fyrir Barnsley á Anfield á laugardaginn og vinna svo ítölsku meistarana í Inter þremur dögum seinna afar sannfærandi?  Jú, þetta getur Liverpool undir stjórn Rafa Benitez.  Vegna þess að fókus hans er nánast algjörlega á árangur í Meistaradeild Evrópu.

Ég horfði á báða þessa leiki og þó að miklu leyti sömu leikmenn hafi verið inná var eins og allt annað lið væri að keppa.  Reina var reyndar í markinu núna en Itjande á laugardaginn. Reyndi aldrei á Reina í gær.  

Munurinn lá hins vegar í þremur leikmönnum, Steven Gerrard, Javier Mascherano og Fernando Torres.

Inter er með 11 stiga forskot í ítölsku deildinni, hafa ekki tapað þar í tvö eða þrjú ár. Þeir eru semsagt með langbesta lið Ítala (reyndar bara einn Ítali í liðinu í gær og sá var rekinn út af eftir 30 mínútna leik)

Sýnir þetta hugarfar leikmanna gagnvart andstæðingunum?

Eða sýnir þetta hvar ástríða Benitez er?

Eða er Ítalska deildin bara svona léleg?

 

 


Rafa Benitez

Huginn Man.Utd. aðdáandi rukkar mig um Liverpool færslu í tilefni gærdagsins. Þegar Liverpool var slegið út úr bikarkeppninni ensku af Barnsley !!!

Algjört klúður svo ekki sé meira sagt.  Spurningin er hvort Rafael Benitez sé ekki kominn á leiðarenda með Liverpool liðið. Ég hef áður rifjað upp samanburð á gengi Benitez og fyrri stjóra, Houllier og sá samanburður var Benitez ekki hagstæður.

Sjálfur segir hann að árangur hans sé góður með félagið. Liðið hafi unnið meistaradeildina, FA bikarinn einu sinni og svo góðgerðarskjöldinn og Stórbikar Evrópu. Tveir síðastnefndu "titlarnir" koma með sigri í einum leik.

Auðvitað var frábært að vinna Meistaradeildina árið 2005 en hversu lengi getur hann lifað á því?

Árangur hans í deildinni er langt fyrir neðan væntingar. Liðið er að berjast við nágrannnana í Everton um fjórða sætið.  Einu sinni komst liðið í Meistaradeildina með því að enda í 5. sæti í deildinni. Er þetta eitthvað sem aðdáendur Liverpool sætta sig við?

Ekki ég

Ég vill nýjan stjóra og það strax 


Houllier vs Benitez

Það má segja að það að vera Liverpool aðdáandi þessa dagana sé erfitt. Árangurinn lætur á sér standa þrátt fyrir stórar upphæðir sem eytt hefur verið í leikmenn. Hins vegar hefur Benitez staðið sig ágætlega í að fá peninga fyrir leikmenn líka þannig að þegar upp er staðið kemur hann ágætlega út. Hins vegar er ég farinn að efast um að bandarísku eigendurnir eigi eins mikinn pening og þeir vildu vera láta í upphafi. Eða að þeir vilji ekki að Benitez eyði þeim...

Eftir hörmulegan leik gegn Wigan um síðustu helgi fór ég að skoða árangur Benitez og síðasta framkvæmdastjóra á undan honum, Gerard Houllier.  Það er skemmst frá því að segja að árangur Houllier er mun betri þegar litið er á ensku deildina.  Það er umhugsunarvert...

Eitt eiga þeir félagar þó sameiginlegt. Hvorugum hefur tekist að sigra það lið sem síðar verður meistari hvert tímabil. Í raun hefur Liverpool aðeins tekið eitt stig af verðandi meisturum. Það gerði Gerard Houllier árið 2001 með jafntefli gegn Arsenal.  Ég tók þrjú tímabil á hvorn framkvæmdastjóra. Byrjaði 2001 og endaði á síðasta tímabili. Upphafstímabil Houllier er því ekki inn í þessu né það tímabil sem nú er í gangi.

Gerard Houllier náði sigri í 59 leikjum, 32 jafntefli og 23 töp. Samtals 209 stig.

Rafael Benitez náði sigri í 58 leikjum, 21 jafntefli og 31 tap. Samtals 195 stig.

Þegar litið er á efstu fimm lið hvert ár náði Houllier góðum árangri árið 2001 en þá tók hann 16 stig gegn efstu liðunum. Liverpool endaði í 2. sæti það ár. Næsta ár á eftir voru stigin aðeins 6 sem náðust gegn toppliðunum og 2003 einnig 6 stig.

Benitez náði 6 stigum á sínu fyrsta tímabili, 7 stigum á því næsta en 12 stigum í fyrra.

Hins vegar hefur Benitez gengið mun verr gegn lélegustu liðum deildarinnar ár hvert. 

Houllier náði 28 stigum gegn fimm neðstu liðunum 2001, 28 stigum 2002 og 20 stigum 2003. (mest 30 stig)

Benitez náði 22 stigum 2004, 26 stigum 2005 og 23 stigum í fyrra.

Það er alltaf viss eftirvænting gegn ákveðnum liðum. Þannig er hjá mér mesta eftirvæntingin í leikjum gegn Everton, Man.Utd., Chelsea og Arsenal. Í þessari röð.  Hvernig ætli þeim hafi gengið gegn þessum liðum?

Everton - Gerard Houllier tapaði ekki borgarslag þessi þrjú tímabil. Þrír sigrar og þrjú jafntefli. Benitez hefur aftur á móti tapað tvisvar fyrir Everton, gert eitt jafntefli og sigrað þrívegis. Houllier hefur betur þar.

Man.Utd. - Houllier var með 50% árangur gegn erkifjendunum, þrír sigrar og þrjú töp. Benitez hefur hins vegar aldrei sigrað Man.Utd. í deildinni, gert eitt jafntefli en tapað fimm. Aftur vinnur Houllier.

Chelsea - Aftur 50% árangur hjá Houllier en Benitez náði aðeins einum sigri en fimm töp. Hörmung hjá Benitez og aftur vinnur Houllier.

Arsenal - Houllier náði ekki að sigra Arsenal þessi þrjú tímabil. Þrjú jafntefli og þrjú töp. Hins vegar gengur Benitez mun betur með Arsenal en hin liðin. Hann hefur náð 50% árangri. Loks vinnur Benitez.

Samtals hefur Houllier því 33 stig gegn helstu keppinautum okkar en Benitez 23 stig.

Nú veit ég ekki hvort nokkur hafi gaman af þessari tölfræði. Sjálfur tók ég þetta saman til þess að sjá hvaða framfarir liðið hefur tekið undir stjórn Benitez.  Þarna er ég eingöngu að líta á deildina. Það er vitað mál að Benitez hefur náð frábærum árangri í bikarkeppnum en árangur í deildinni er til skammar. 

Deildin var sett í forgang í ár. Niðurstaðan þegar mótið er hálfnað. 5. sæti, 13 stigum frá toppsætinu og enn eitt árið er hægt að útiloka sigursælasta knattspyrnulið Englands frá titlinum um jólin.

arg.... 


Ekki góðar fréttir af mínum mönnum

Verð að viðurkenna að ég var feginn þegar dómarinn flautaði af í leik Liverpool og Arsenal í gær. Mínir menn í Liverpool áttu í miklum vandræðum með stórskemmtilegt lið Arsenal. En það sem verra var að tveir leikmenn meiddust illa í leiknum, leikmenn sem við megum illa við að missa. 

Xabi Alonso brotnaði aftur og óvíst hvað hann verður lengi frá og Fernando Torres er frá næstu þrjár vikurnar. Þetta er ekki á það bætandi hjá liðinu sem hefur gengið illa undanfarnar vikur.

Liðið er þó enn taplaust í deildinni...

Legg síðan til að tveir leikmenn verði seldir í janúar, Dirk Kuyt og John Arne Riise...

 


Tveir dómar rangir og maðurinn er settur í bann?

youreoff_mediumVerð nú að kommenta aðeins á þetta.  Clattenburg gerði tvö mistök í leiknum en dæmdi að öðru leyti mjög vel. Bæði þessi atriði féllu með mínum mönnum í Liverpool. Hann leyfði leiknum fljóta, var ekki flautandi á allt og þar af leiðandi var þetta hin besta skemmtun. 

En dómarar gera mistök, eins og leikmenn.  Kannski er best fyrir hann að hvíla sig eina helgi. Það voru margir "krúsíal" dómar í leiknum.

1. Víti og rautt á Hibbert.  Hárrétt enda Gerrard að sleppa einn í gegn og fáránlegt að segja að það hefði átt að dæma aukaspyrnu þar sem Hibbert byrjaði að toga í hann fyrir utan teig. Hann hélt því áfram inn í teig.  Síðan hvenær á sá brotlegi að hagnast á brotinu?

2. Karate tækling Kuyt - Hefði átt að fá beint rautt spjald, enda gjörsamlega fáránleg tækling hjá honum.

3. "Brotið" á Lescott (hið fyrra) Ekkert að þessu. Menn að kljást inn í vítateig og eins og Gylfi Orra orðaði það, "ef þetta er víti, þá eru 10 vítaspyrnur í hverjum leik. 

4. Víti og rautt á Phil Neville - Hárrétt, en ætti að fá aukapunkt í einkunnargjöf fyrir frábæra markvörslu... 

5. Brot Carragher á Lescott - Undir lok leiksins, þrátt fyrir að vera tveimur leikmönnum færri tókst Everton að skapa stórhættu við mark Liverpool eftir innkast!!! Sést greinilega þegar Carragher rífur hann niður en það sést líka mjög vel í endursýningu að Clattenburg sér ekki atvikið þar sem EVERTON maður stendur á milli hans og brotsins. 

Í heildina vel dæmdur leikur hjá Clattenburg en því miður fyrir hann þá gerði hann mistök og það er það eina sem menn muna eftir.  

Annars var alveg kominn tími til að ákvarðanir dómara féllu með Liverpool en ekki á móti (Chelsea...einhver??)

 


mbl.is Clattenburg dæmir ekki um næstu helgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aftur í úrslit, bara gaman...

 

Enn og aftur sýndu mínir menn í Liverpool hvers þeir eru megnugir með því að komast í úrslit meistaradeildarinnar í annað skiptið á síðustu þremur árum. Og bara til þess að gera árangurinn enn ánægjulegri þá voru Vælinho og félagar í Chelsea slegnir út í undanúrslitum.  Bara gaman...

Nú er það rematch, við AC Milan. Ég átti nú von á því að Man.Utd. kæmist alla leið og var eiginlega að vonast eftir því. AC Milan eiga harma að hefna eftir eitthvert rosalegasta comeback ever í fótboltaleik þegar Liverpool var 3:0 undir í hálfleik 2005 en sigraði samt.  Ég er ennþá að jafna mig á þeim leik. LoL

Ég hef misst það litla álit sem ég hafði á Mourinho. Kallinn kann ekki að tapa. Að segja eftir seinni leikinn að Chelsea hafi verið betra liðið!! Og gera lítið úr öllum er eitthvað sem fer illa í mig. Ég er búinn að vera í London þessa vikuna og blöðin velta sér svolítið upp úr þessu hjá honum og öll eru á einu máli. He is a bad luser.  

Nú hefur hann haft þrjú ár til þess að ná Meistaradeildartitlinum. Það hefur ekki tekist og spurning hvort hann fái fleiri tækifæri? Mín spá er að honum verði skipt út í sumar.

 


Gaman á Anfield, erfið samskipti við Budget bílaleigu

Það var aldeilis gaman hjá okkur félögunum á laugardaginn þegar Liverpool rasskellti Arsenal peyjanna.  Það var ekki leiðinlegt að sitja fyrir miðri Kop stúkunni og syngja með hörðustu stuðningsmönnum Liverpool á meðan tæknitröllið Peter Crouch sá um London strákanna. Ó nei, þetta var bara gaman ...

En það gekk á ýmsu í ferðinni, svo mikið er víst. Við fréttum það á leiðinni frá London til Liverpool að miðarnir sem við höfðum keypt dýrum dómi höfðu klikkað. Nú voru góð ráð dýr en okkar tengiliður hér á landi sem sá um að útvega miðanna náði í aðra en brasið í kringum þá var mikið og reyndar náðum við bara í fimm miða þar. Sjötti miðinn klikkaði og það fréttum við hálftíma fyrir leik. Þá var gott að eiga góða að og Paul vinur minn og leigubílstjóri þarna úti lét mig fá ársmiðann sinn og hljóp sjálfur af stað til að redda öðrum miða.  Þvílíkur öðlingur sem kom móður og másandi nokkrum mínútum fyrir leik til baka.

Mesta brasið var þó með Budget bílaleiguna. Við komum sex galvaskir Eyjapeyjar saman þarna út og fyrsta sem við gerðum var að fara og ná í sjö manna bílinn sem við höfðum pantað. Eftir að hafa staðið í biðröð (sem innihélt okkur og einn annan viðskiptavin) í rúmlega hálftíma komumst við loks að. Það voru vandræði með bílinn og þau buðu okkur tvo litla bíla í staðinn. Það vildum við ekki, stór skyldi það vera.  Þeim tókst loks að finna einn.  Og þá átti að borga. Við leigðum okkur gps tæki sem er algjört must í svona ferð og reikningurinn hljóðaði upp á 566 pund. Bíddu nú við, ég hafði pantað bílinn á 256 pund með kaskó tryggingu og allt!! Hvers vegna þessi gríðarlega breyting? Gps tækið kostaði 50 pund og svo þurftum við að taka tryggingu fyrir sjálfsábyrgðinni á kaskó tryggingunni !! Ja hérna, aukabílstjóri kostaði 7 pund á dag og svo voru tekin 95 pund af kortinu fyrir bensíni ef ske kynni að við skiluðum honum ekki fullum sem við og gerðum og eigum því von á að fá pundin til baka. Samtals 566 pund sem var mjög langt frá "nettilboðinu" góða ...

En þá var ekki öll sagan sögð. Fyrsta kortinu var rennt í gegn en það kom synjun. Hmmm, sögðu menn, nýkominn í frí og engin heimild. Getur ekki verið. Prófum annað. Nei, aftur synjun og eftir að fimm af sex ferðalöngunum höfðu látið strauja kortið sitt og sumir oftar en einu sinni stóðum við þarna eins og illa gerðir hlutir, með gullkort í hendinni og gátum ekkert gert. Við tókum pening út úr hraðbanka, það var í lagi en þau vildu ekki taka við greiðslu með peningum. No can do !!

Posakerfið er þannig að þú þarft að gefa upp pin númer við hverja færslu. Ég sagði þeim að það gæti ekki verið að öllum kortunum væri hafnað. Það hlyti eitthvað að vera að hjá þeim.  Þeim var skítsama, snéru sér bara við og vildu ekkert við okkur tala. Ekki fyrr en annar aðili kom þarna að. Ég hafði séð venjulegan posa á borðinu hjá þeim og bað þau um að prufa það. Nei, það var ekki hægt fyrr en umræddur aðili kom. Hann straujaði eitt af kortunum og fékk auðvitað heimild og allt gekk upp, eða hvað?

Nei heldur betur ekki. Þegar menn fóru daginn eftir að kíkja á stöðuna á kortunum kom í ljós að allir höfðu verið rukkaðir fyrir bílaleigubílinn og sumir tvisvar. Þannig var skuldfært á kortið mitt 74 þúsund krónur og um 150 þúsund krónur á tvo ferðalanganna. Við borguðum sjö sinnum fyrir bílinn, samtals  370.000 krónur.

Næstu klukkutímarnir fóru í að leiðrétta þetta, kretitkortafyrirtækið gat ekkert gert fyrr en þau fengu eitthvað frá Budget.  Það var hringt í Budget á Íslandi sem benti okkur á að tala við þá úti. Þá sagði ég nei, þessu skyldu þau redda, ég pantaði bílinn á Íslandi og hafði engan áhuga á að ræða meira við þetta fólk. Strákurinn hjá Budget hér á landi var ekkert nema almennilegheitin og í dag (held ég) að þetta sé búið. Við verðum reyndar að bíða eftir reikningnum, ef þetta kemur á hann verður að setja af stað eitthvað ferli um niðurfellingu. Þvílíkt rugl...

En þegar öllu var á botninn hvolft þá var toppurinn að sitja í Kop stúkunni, kyrjandi sigursöngva og horfa á rasskellingu Arsenal. 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband