Kvótakerfið

Ég er mikill áhugamaður um sagnfræði. Að horfa um öxl og jafnvel læra af þeim mistökum sem mannfólkið gerir. Ég myndi líklegast teljast nærsýnn í sagnfræðinni því ekkert glepur mig meira en nærsamfélagið. Vestmannaeyjar, í nútíð og þátíð.

Þess vegna svíður sú umræða, sú arfavitlausa umræða sem er um kvótakerfið í dag í hinni háu borg, Reykjavík. Það er líklega það sveitarfélag sem lætur hvað mest í sér heyra um kvótakerfið. Um ósanngirnina, kvótakóngana og lénsherrana sem stjórna hér öllu. Það sveitarfélag sem hefur hvað minnstu hagsmuni að gæta í þeim efnum.

Sá sem kynnti mig fyrir og kenndi mér allt um fiskveiðistjórnun er minn gamli yfirmaður, ritstjórinn Ómar Garðarson. Kosti og galla þess kerfis sem nú er ásamt ástandinu sem var áður en þetta kerfi var sett á. Held að það ástand sé hollt að rifja upp þegar fólk fer að gagnrýna núverandi ástand.

Allur floti Vestmannaeyja var auglýstur til sölu í heilssíðuauglýsingu í Mogganum (minnir mig). Það vildu allir losna út úr greininni, það sá enginn neina framtíð í henni. Hallarekstur ár eftir ár, ríkið kom til bjargar og í raun var þannig um búið að það græddi enginn en allir höfðu lágmarkslaun. 

Svo var sett á kvótakerfi. Fjölmargir fengu úthlutaðan kvóta, sumir höfðu unnið fyrir honum áratugum saman á meðan aðrir sem höfðu unnið stutt við greinina fengu sína úthlutun. Það þurfti að miða við eitthvað þegar slíkt var sett var af stað og niðurstaðan var , þrjú ár aftur í tímann og úthlutun gagnvart veiðireynslu.

Síðan hafa liðið þrír áratugir og aldrei hefur náðst sátt. Mesta ósáttin er um það að einstaklingar hafa getað selt sig út úr greininni með hundruð milljón króna hagnaði. Það hefur gerst hér í Eyjum sem annarsstaðar.  Að mínu mati svarta hlið kerfisins.

En við gleymum alltaf, þegar við ræðum um þá sem hafa selt sig út úr greininni, kvótakvikindin sem sitja nú og sötra sangría á Spáni að það var einhver sem keypti. Jú, seljandi þarf kaupanda og ef einn fær 100 milljónir fyrir veiðiheimildir, þá er einhver að borga 100 milljónir fyrir veiðiheimildir.

En fjölmiðlafígúrur og þeir sem stjórna umræðunni ná alltaf að láta hlutina snúast um þá sem seldu en minnast aldrei á þá sem keyptu. 

Einn ötullasti baráttumaður gegn fiskveiðistjórnunarkerfinu er sjónvarpsmaðurinn Egill Helgason. Það er eitthvað við kerfið sem fer illilega í hann. Þetta er vandaður sjónvarpsmaður sem hefur lagt sig í líma við að kynna fyrir okkur almúganum hinar ýmsu stjórnmála- og hagræðikenningar sem í gangi eru í okkar stóru heimsskringlu. Vikulega birtast textaðar lýsingar frá heimsfrægum heimspekingum á sínu sviði.

En þegar kemur að fiskveiðistjórnun þá dettur hann niður í ömurlegt svarthol. Þetta er okkar mikilvægasta atvinnugrein, fiskurinn hefur alltaf verið okkar aðall. Ólíkt því sem haldið var fram, að við værum á leiðinni að verða alþjóðafjármálasvæðiÐ. En Egill, fremur en svo mörgum öðrum er alveg sama um forsöguna, alveg sama um hvernig hlutirnir gengu fyrir sig. Í dag hlýtur þetta að vera ósanngjarnt ef einhver er að græða.

Tökum fræðilega umræðu, ekki tilfinningalega.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband