Vestfirðir vs. Vestmannaeyjar

Fyrir skömmu var haldinn fjölmennur baráttufundur Vestfirðinga á Ísafirði. Meginmálið voru skiljanlega atvinnumál en líkt og mörg önnur svæði á landsbyggðinni eiga Vestfirðir undir högg að sækja í þeim málum. Fundurinn vakti verðskuldaða athygli og ríkisstjórn Íslands var fljót að bregðast við. Þó ekki með beinum hætti, heldur viðurkenna vandann og lofa bót og betrun.

Það vakti athygli mína hversu mikla umfjöllun fundurinn fékk. Ekki að athyglin hafi ekki verið verðskulduð, heldur hitt að víða um land, þar á meðal hér í Eyjum hafa verið haldnir borgarafundir þar sem brýnustu mál eru rædd en þeir fundir hafa ekki verið fyrstu fréttir beggja fréttastöðva.  Vestfirðingar eru einfaldlega snillingar í að koma sínum málum á framfæri.

Ég heyrði haft eftir þingmanni VG að vandi Vestfirðinga væri fyrst og fremst sá að búið væri að taka af þeim helsta lífsviðurværið, fiskinn í sjónum.  Það hefur lengi verið hrópað "helvítis kvótakerfið" fyrir vestan og allt sem miður fer í þjóðfélaginu hefur verið kvótakerfinu að kenna.  Mín skoðun er sú að kvótakerfið er ekki helsta vandamál byggða landsins heldur fábreytt atvinnulíf og borgarstefna ríkisins.

Eyjamaðurinn Grímur Gíslason bendir réttilega á að fólksfækkun á Ísafirði er mun minni síðustu ár en í Vestmannaeyjum. Hvað hefur gerst á sama tíma?  Jú, útgerðir í Eyjum hafa stóraukið aflaheimildir sínar. Vinnslustöðin, Ísfélagið, Magnús Kristinsson og útgerð Þórunnar Sveinsdóttur VE svo einhverjir séu nefndir. Kvótastaða útgerða í Eyjum hefur aldrei verið betri og stöndugar útgerðir blómstra. Heldur það atvinnulífinu gangandi?

Ó nei. Fiskvinnsla mun aldrei aftur halda heilu byggðunum á floti. Til þess hafa tækniframfarir orðið of miklar. Á síðustu sex árum, á sama tíma og útgerðir hafa fjárfest fyrir hundruð milljóna í aflaheimildum í Eyjum hefur íbúum fækkað um heil 10% !!! Nú veit ég ekki hvernig staða útgerða fyrir vestan hefur þróast síðustu ár en á síðustu sex árum hefur íbúum Ísafjarðar fækkað um 3%.

Ég held að menn verði að hætta að ræða um sjávarútveg sem einhverja alsherjarlausn á vanda landsbyggðarinnar. Kvótakerfið er komið til að vera og menn ættu að slá það út úr umræðunni fyrir kosningar. Meira að segja Frjálslyndi flokkurinn sem var stofnaður út af andstöðu við kvótakerfið sér sæng sína útbreidda og er búinn að finna sér annað mál...innflytjendamál til að leggja áherslu á.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eygló Þóra Harðardóttir

Það er líka eins og fólk sé alltaf að rugla saman sjálfu fiskveiðistjórnunarkerfinu og framsalinu. Reiðin er fyrst og fremst gegn framsalinu, - hinum fræga leigusala á Kanaríeyjum.  Ég held að ef við myndum spyrja fólk hvort það eigi að hætta að stjórna veiðunum, þá myndu flestir segja nei. 

Mér líka einkar athyglisvert að okkar borgarafundir hafa fyrst og fremst snúist um samgöngumál.  Nú hafa samgöngumál okkar fengið heilmikla athygli, og reglulega er rætt um jarðgöng, Bakkafjöru og Herjólf.  En hvenær var síðast borgarafundur um atvinnumál?

Eða eru samgöngumál = atvinnumál í huga Eyjamanna?

Ef svo er þá held ég að við eigum eftir að verða fyrir vonbrigðum þegar næsta samgöngubót kemur.  Hún mun styrkja ákveðnar greinar eins og t.d. ferðaþjónustu, en við þurfum markvissa stefnu í uppbyggingu atvinnulífsins hér í Eyjum.  

T.d. hver er stuðningurinn við lítil fyrirtæki sem eru að hefja rekstur? Ég hef margoft bent á að hvert eitt fjölskyldufyrirtæki getur skapað viðurværi fyrir 2-4 einstaklinga, og af hverjum 10 verður kannski 1 nógu stórt til að geta séð fyrir tvöföldum þessum fjölda.

Hvenær getur það gengið að sveitarfélag þar sem fólki hefur fækkað um 100 manns árlega sé ekki með atvinnustefnu, enga atvinnumálanefnd og engin samhæfð vinnubrögð gagnvart ríkinu í atvinnumálum? 

Eygló Þóra Harðardóttir, 21.3.2007 kl. 08:56

2 Smámynd: Georg Eiður Arnarson

Sæll Svenni, ekki er ég alveg sammála þér,ekki nenni ég að telja upp alla gallana sem ég sé á kvótakerfinu enn svona til gamans tvö atriði. það skiptir engu máli hvað við kaupum mikinn kvóta, meðan hugsunin er sú fyrst og fremst að gera út á leiguna eins og reynslan sýnir. Hitt atriðið sem ég vill nefna er kvótasetning á keilu, löngu og skötusel sem varð til þess að við misstum héðan skip eins og t.d. Guðni Ólafsson V.e. og Bir V.e. og Sæfaxa V.e. og fleiri. Bara þessi aðgerð varð til þess að við misstum sennilega á annan hundruð manns héðan. Og eitt enn í sambandi við kvótakaup, það er jafn auðvel að selja og kaupa. ps,mundu boltan.

Georg Eiður Arnarson, 21.3.2007 kl. 15:55

3 Smámynd: Sigursveinn

Það má vera Eygló að fólk rugli saman hlutunum en ég tel að einn af grundvöllum kvótakerfisins sé einmitt framsalið. Hvernig öðruvísi hefðu útgerðir í Eyjum getað styrkt stöðu sína?  Nú kom hingað til Eyja um síðustu helgi nýtt og glæsilegt skip, Vestmanney. Það er ekki langt síðan Bergur VE kom og Gullbergið er væntanlegt um næstu mánaðarmót.  Bergur og Gullberg er viðbót við flotann. Það er jákvæð þróun, um það hljóta allir að vera sammála og hvernig kom það til? Jú, þessar útgerðir seldu nótaskipin sín og kvótann í uppsjávartegundum og ætla nú að gera út á bolfisk en útgerðirnar fengu bolfiskkvóta sem hluti af kaupverðinu. Hagræðing í rekstri og aðeins í útgerð myndu stjórnmálamönnum detta í hug að skipta sér af slíku.

 Ég er sammála þér að allt of mikill tími hefur farið í samgöngumál. Það ætti einfaldlega að vera búið að leysa þessi mál fyrir löngu. Það er búið að tala um sömu hlutina heilt kjörtímabil og rúmlega það. Við þurfum að fara að snúa okkur að atvinnumálum og ég er hræddur um að við þurfum að líta upp fyrir Strandveg í þeim efnum. 

Georg: Ég átti ekki von á því að þú yrðir sammála mér í umræðu um kvótamál ... leigan er hluti af kerfinu og allt miðar þetta af því að reka fyrirtækin í gróða. Það eru ekki allir sem stunda slíka iðju, reyndar grunar mig að þú hafir eitt sérstakt fyrirtæki í huga. Við skulum líta á hina hliðina. Hvað með útgerð Þórunnar Sveins, Ós ehf? Sigurjón hefur keypt kvóta og gerir stíft út. Ekki held ég að það sé mikið rými fyrir leigu þar...

Ég tek aftur á móti undir með þér varðandi kvótasetningu á keilu, löngu og skötusel. Sú ákvörðun bitnaði hart á útgerðum í Eyjum.

Hef ekki komist í boltann en það fer að breytast...

Sigursveinn , 21.3.2007 kl. 22:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband