Með eða á móti?

Það er nú að æra óstöðugan að svara Georgi Arnarssyni. Hann byrjar á því að gera fólki upp skoðanir, vitnar í persónulegt spjall manna á milli og færir síðan rök út frá því.

Georg skrifaði nýlega stóra og mikla grein um Bakkafjöru og lætur þann sem hér ritar og ritstjóra eyjar.net heyra það. Við erum "stuðningsmenn" Bakkafjöru að hans mati og því fáum við vænan skammt af skömmum.

Ég veit ekki hvað ég þarf að segja það oft til þess að Georg skilji það að ég er hvorki fylgjandi né á móti Bakkafjöru. HINS VEGAR set ég traust mitt frekar á tæknifræðinga sem hafa menntun og reynslu af bryggjusmíði.  Það hefur Georg hvorugt. Þetta hefur margoft komið fram. 

Ég held að ef Bakkafjara gangi upp, þá verði um byltingu að ræða fyrir okkur Eyjamenn. Þetta er mín skoðun, Georg og í guðanna bænum, hafðu það nú rétt eftir héðan í frá. (Úr fyrra bloggi: Framfarir hafa alltaf verið umdeildar. Menn eru hræddir við það ókunna. Ég get ekki sagt hér og fullyrt að Bakkafjara verði brjálæðisleg bylting fyrir okkur. En ég get heldur ekki sagt að hún verði fáránlegt flopp...Ég treysti einfaldlega á þá sem hafa VIT á því að byggja hafnir.)

Að vitna svo í símtal við ritstjórann og halda því fram að Kjartan sé bara meðfylgjandi Bakkafjöru út af stjórnmálaskoðunum er ótrúlega dapurt. Fyrir það fyrsta myndi ég aldrei trúa slíku, enda Kjartan vandaðri en það.  Í öðru lagi, þá er það ekki smekklegt að vitna í tveggja manna tal og gera út á það til þess að "skjóta" á viðkomandi. Svona gerir maður ekki, Georg.

Hins vegar er eitt rétt hjá Georg, ég held því fram að kosið hafi verið um samgöngumál í síðustu bæjarstjórnarkosningum. Það má vera að það sé "ótrúlega vitlaust" en ég er ekki einn um þessa skoðun. Þetta var eitt af stóru málunum. Tveir listar voru með forgangslista, Göng, Bakkafjara, nýr Herjólfur. Eitt framboð var ekki með slíkt, heldur lagði áherslu á nýtt og hraðskreitt skip í Þorlákshöfn. Það framboð náði ekki inn manni.

Auðvitað er þetta ekki svona einfalt. Það voru fleiri mál á dagskrá. En í svona kosningum, þar sem í meginatriðum framboðin eru sammála eru alltaf tvö til þrjú mál sem skera úr um úrslitin. Í síðustu kosningum voru þetta: 1. samgöngumál, 2. knattspyrnuhús. Ég man ekki hvar Frjálslyndir stóðu í knattspyrnuhúsinu, því miður en V-listinn stóð fast á því að byggja slíkt hús á meðan Sjálfstæðisflokkurinn bakkaði út úr fyrri samþykkt í bæjarstjórn og vildi endurskoða málið. 

Það er ljóst að það verða engar kosningar út af þessu máli í Eyjum. Það væri nær að kjósa um knattspyrnuhús, þar eru það Eyjamenn sem borga. (reyndar mín skoðun að við kjósum fólk á fjögurra ára fresti til að taka slíkar ákvarðanir fyrir okkur, við fáum tækifæri til að láta í ljós skoðanir okkar þá). Þetta mál er komið á fullt. 

Menn verða að fara að sætta sig við það og snúa sér að næstu skrefum. Georg á eins og aðrir Eyjamenn að fara að beita sér fyrir stærð skipsins, forsjá hafnarinnar, að við rekum skipið, hve hátt gjaldið er í skipið, að samgöngur frá Bakka verði í lagi til Reykjavíkur, að ferðatíðnin verði 7-8 ferðir á dag og ef með þarf, að höfnin verði byggð lengra út til þess að lágmarka frátafir.  (Þ.e.a.s ef hann er sammála þessu)

Annars held ég að það sé komið nóg af línum sem fara í rökræður okkar Georgs. Það er ekki gerandi lengur að standa í því. Við Goggi höfum ágætis sátt okkar á milli að vera sammála um að vera ósammála um kvótakerfið. Við hljótum að geta orðið ásáttir um að vera ósammála í þessu máli líka.  

Þá er bara spurning hvort ég verði sparkaður niður á æfingu Lunch Utd á þriðjudag Crying

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband