Sprengjur á sprengidaginn

Viðtalið við Davíð Oddsson í Kastljósi í gærkvöldi var mjög athyglisvert, svo vægt sé til orða tekið.  Hann varpaði nokkrum sprengjum, litlum og stórum sem tekur vafalaust nokkra daga og jafnvel vikur fyrir þjóðina að melta. 

Til að mynda skýrslan sem hann veifaði.  Seðlabankinn lét vinna hana í febrúar 2008 og þar var því spáð að bankakerfið myndi hrynja í OKTÓBER 2008.  Sú skýrsla fór inn á borð forsætisráðherra.  Fór hún inn á borð ríkisstjórnarinnar?   Hver voru viðbrögð yfirvalda við henni? Mun einhver fjölmiðill spyrja?  Eða er nóg að Davíð fari úr Seðlabankanum og þá verði allt í gúddí?

Að hann hafi sagt á ríkisstjórnarfundi nokkru fyrir bankahrunið að bankarnir myndu falla innan tveggja til þriggja vikna.  Einhver ráðherra vildi nú að Davíð myndi sleppa þessari dramatík.   Hver var það?  Var fólk steinsofandi?  Ætla fjölmiðlar að grafast fyrir um það? Hverjir sátu í ríkisstjórn þá og hverjir sitja enn? En þetta hlýtur nú allt að reddast þegar Davíð fer úr Seðlabankanum, þá verður allt svo gúddí. 

Hann upplýsir um bréf sem hann sendi til efnahagsbrotadeildar lögreglunnar vegna 100 milljarða króna yfirdráttar til sjeiks.  Lágu þessar upplýsingar ekki hjá skilanefndum bankanna.  Hvers vegna var lögreglunni ekki gert viðvart frá þeim bænum?  Það skiptir örugglega engu máli bara svo lengi sem Davíð hverfur úr Seðlabankanum, þá verður allt svo gúddí...

Samfylkingin hefur ásamt Vinstri grænum nú nýtt sér fræga smjörklípuaðferð.  Á meðan allt er á hliðinni í þjóðfélaginu beina þau spjótunum að einum manni og láta allt snúast um hann til þess að fela eigin vanmátt í því ástandi sem nú er í þjóðfélaginu.  Það er enginn að gera neitt sem sést.  Nóta bene, ég geri mér alveg grein fyrir því að það er fullt af fólki að vinna vinnuna sína og reyna en ekkert af því er upp á borðinu.  Nei, síðan minnihlutastjórnin tók við hefur ekkert gerst.  Eina málið á dagskrá er að reka Davíð og það hefur ekki einu sinni tekist.  Hvað svo?

Punktarnir voru margir og ég vona að fjölmiðlar fari að spyrja gagnrýnna spurninga og beina augum sínum eitthvað annað en þangað sem Jóhanna og co beinir þeim.   Það var samt ljóður á Davíð í gær hversu ókurteis hann var við Sigmar.  Hann tók nánast allar spurningar óstinnt upp og túlkaði þær sem persónulegar árásir Sigmars á sig.   Sigmar var einfaldlega að vinna vinnuna sína, spyrja gagnrýnna spurninga sem hafa endurómað í þjóðfélaginu undanfarnar vikur.  

Síst af öllu viljum við fleiri Sindra vs Jón Ásgeir viðtöl. 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband