Færsluflokkur: Bloggar

Góðar fréttir í jólaundirbúningnum

Seint og um síðir ... verð ég að hrósa bæjarstjórn Vestmannaeyja fyrir þá ákvörðun að ráðast í byggingu stækkanlegs knattspyrnuhúss.  Miðað við hvað dróst að ganga frá þessu þá var ég farinn að óttast að menn ætluðu jafnvel að blása þetta af.  Því voru fréttirnar um ákvörðun bæjarstjórnar kærkomin upplyfting í dæmalaust niðurdrepandi fréttum síðustu vikna.  Er búinn að skrifa nóg um það í bili...

Það er líka mjög jákvætt að ákveðið hefur verið að semja við Steina og Olla ehf.  Eyjafyrirtæki og því mun hluti af kostnaðinum renna aftur inn í bæjarkassann í formi útsvars sem reyndar var hækkað á sama bæjarstjórnarfundi. 

Nú er bara að koma kofanum upp og stökkva áratug áfram í aðstöðu fyrir vetrariðkun knattspyrnumanna og kvenna. 

 


Aumt er það

Er þetta ekki makalaust?  Það er búið að setja landið á hausinn og stilla okkur upp við vegg í alþjóðaviðskiptum.  Æra þjóðarinnar hefur skaðast það mikið að það mun taka áratugi að byggja aftur upp traust og virðingu. 

Þeir sem stóðu fyrir þessum gjörningi sitja núna í fundarherbergjum bankanna, semja um kaup á gömlu fyrirtækjunum sínum aftur gegn niðurfellingu skulda (Jón Ásgeir og 365 t.d.) og munu með gjörðum sínum auka enn það heljartak sem þetta lið hefur á íslenskum almenning. 

En eina sem fjármálaráðherranum okkar dettur í hug er að hækka öll opinber gjöld.  Sem sagt, lánin hækka, matvæli hækka, bensínverð hækkar og áfengi hækkar um tugi prósenta.  Allir eiga að vera kammó og taka á sig launalækkun, svona til að leggja sitt að mörkum í kreppunni. 

Eina sem formaður fjármálanefndar Alþingis hefur áhyggjur af er símtal Seðlabankastjóra í sumar. 

Við erum með bankafólk sem enn situr í sömu sætunum og fyrir hrun.  Hvað er það að gera þarna inni?

Við erum aum þjóð ef við látum þetta yfir okkur ganga. 

Reyndar finnst mér mótmælin sem fyrirhuguð eru á laugardaginn táknræn á kaldhæðinn hátt. Hópur sem kallar sig Rödd fólksins stendur fyrir þeim en fólk er hvatt til að mæta og þegja en það er einmitt það sem þjóðin hefur gert í svo mörg ár...

Nei, við þurfum eitthvað annað, eitthvað nýtt, eitthvað ferskt og eitthvað sem er trúverðugt.  Sé það því miður ekki í þeim stjórnmálaflokkum/mönnum/konum sem eru í frontinum í dag. 

 Ég verð svartsýnari með hverjum deginum sem líður ...


mbl.is Áfengisgjald hækkað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvaðan koma gjaldeyristekjurnar í dag?

Þetta kemur kannski ekki á óvart miðað við ástandið í þjóðfélaginu. En það er táknrænt fyrir höfuðborgarríkisstjórn S flokkana að fyrsta ákvörðunin um frestun framkvæmda snertir samfélag sem skilar hvað mestum gjaldeyristekjum í ríkissjóð þessa dagana. 

Vestmannaeyjar er eitt sterkasta vígi sjávarútvegs á Íslandi. Hér eru öflugar útgerðir sem hafa byggt upp sín fyrirtæki með því kerfi sem boðið er upp á.  Við búum við það að þjóðin er á hausnum út af bankakerfinu, út af útrásinni.  

Ekki út af fiskveiðikerfinu. 

Verður næsta krafa að innheimta kvótann og dreifa honum aftur? Svona til að klára byggðir eins og Vestmannaeyjar? 

Kannski verður stofnað Útgerðarfélag Reykjavíkur, hætt við byggingu tónlistarhúss á bryggjunni og bátar og skip boðin velkomin aftur, með sína lykt og starfsmenn í sjóstökkum frekar en jakkafötum? 

Nú er nefnilega í tísku að vera á sjó. 

Kíkið á Moggann síðustu vikur, nú eru myndir af sjómönnum og bændum...

Kannski Auðlindin fari að byrja aftur á RÚV

 


mbl.is Gríðarlegt áfall fyrir Eyjar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Klukkaður

Viðbót: Sá á flakki mínu um bloggheima að Gilli Foster var löngu búinn að klukka mig.  Hann er svo öflugur bloggari að þetta var komið neðarlega strax á öðrum degi. Grin Það þýðir því lítið fyrir mig að klukka hann! Veit að það er búið að klukka Magga Braga en ég geri það bara aftur...Veit að hann er upptekinn maður, bæði í stærðfræðinni og ekki síður í undirbúningnum fyrir lundaballið alræmda.

Hinn nýbakaði faðir, knattspyrnuþjálfari, íþróttafréttamaður, kennari, Liverpool aðdáandi og rökfasti Smári Jökull klukkaði mig. Það þýðir að ég þarf að svara nokkrum spurningum.  Ég tek að sjálfsögðu þátt og um leið á ég að klukka einhverja fjóra. Ég valdi að klukka Grétar Ómars, hann er rökfastur eins og Smári en hefur þann leiða galla að halda með Man.Utd. Wink, Þá fær frændi, Guðni Hjöll klukkið. Að lokum klukka ég AusturríkisEyjamanninn Kjartan Vídó.

Svörin mín:

Fjögur störf sem ég hef unnið um ævina.

Verkamaður hjá Póst og síma
Kokkur
Blaðamaður
Markaðs- og sölustjóri  Volare

 

Fjórar bíómyndir sem ég held upp á.

Shawshank redemption
Seven
Englar alheimsins
Godfather

 

Fjórir staðir sem ég hef búið á.
Vestmannaeyjar
Mosfellsbær
Hafnarfjörður
Kópavogur

 

Fjórir sjónvarpsþættir sem mér líkar:
CSI
Friends
Boston Legal
House

 

Fjórir staðir sem ég hef heimsótt í fríum : 
Holland
Spánn
England
Svíþjóð

 

Fjórar síður sem ég skoða daglega fyrir utan blogg : 
Eyjafréttir
Eyjar.net
newsnow.co.uk/h/Sport/Football/Premier+League/Liverpool
mbl.is

 

Fernt sem ég held uppá matarkyns:

Barbeque kjúklingur a la Eydís
Pizzur
Kínverskur matur
Voxa borgari hjá Kára Fúsa

Fjórar bækur sem ég hef lesið oft:
Les helst ekki bækur nema einu sinni…

Mýrin
DaVinci lykillinn
Blekkingaleikur


 

Fjórir bloggarar sem ég ætla að klukka

Gilli Foster
Grétar Ómars
Guðni Hjöll
Kjartan Vídó

 

Fjórir staðir sem ég vildi helst vera á núna : 
Anfield í Liverpool
Siglufjörður á kvöld
Golfvöllurinn í Eyjum
London

 

 


hmmm

Eftir leikinn á miðvikudaginn held ég að menn ættu nú bara að einbeita sér að fótboltanum...
mbl.is Liverpool til liðs við fótboltaformúluna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flottur dagur

Dagurinn í dag er stór dagur í samgöngumálum okkar.  Skrifað undir samning um byggingu ferjuhafnar í Bakkafjöru og tilboð opnuð í byggingu nýrrar ferju. Einhvern veginn allt að gerast. Reyndar eru tilboðin þannig að alls óvíst er við hvern verður samið.  Kannski verður öllum tilboðunum hafnað og ríkið ákveður enn aðra leið?  Það er ávísun í að þetta kosti mikið mikið meira.

Þetta er stóra fréttin í dag ... var einhver að tala um borgarstjóraskipti? Nei, það er nú svo algengt nú til dags Grin 


mbl.is Þrjú tilboð bárust í nýjan Herjólf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blikur á lofti

Það er stór ákvörðun varðandi okkur Eyjamenn framundan hjá ríkisstjórn Íslands. Ég óttast mjög að niðurstaðan verði sú að hafna tilboði Eyjamanna og fela þetta ríkisapparatinu.  Ekki líst mér á þá niðurstöðu og er nokkuð öruggur á að það verði dýrara þegar upp er staðið.

Eins óttast ég að skipið verði minnkað, þrátt fyrir loforð þess efnis að það verði ekki gert.  Því miður er svo auðvelt að segja að eftir að hafa farið yfir stöðuna aftur sé vel hægt að "sleppa" með minna skip. Það er aðferð ríkisins.  Aftur bendi ég á að þegar öllu er á botninn hvolft eru það embættismennirnir sem stjórna ferðinni.  

Ríkið gerði kostnaðaráætlun sem Eyjamenn töldu fjarri lagi. Allt of lága. Ríkið heldur fast í sína áætlun og ætlar sér að koma þessu niður. Ef það þýðir frestun um einhver ár, þá verður bara að hafa það. Bæjarstjórn Vestmannaeyja blæs á þessa áætlun og bendir á ýmsa þætti sem eru til hækkunar frá því að kostnaðaráætlun var gerð.

Skondið

Á sama tíma hafnar Vestmannaeyjabær öllum tilboðum í jarðvegsvinnu vegna knattspyrnuhúss og notar svipuð rök og ríkið notar gagnvart Bakkafjöru.

Rök sem bærinn blæs á...

Ætli það þýði frestun á húsinu um einhver ár? 


Franska aðferðin

Það gekk mikið á í dag. 21 handtekinn í aðgerðum lögreglunnar gegn vörubílstjórum.  Náði reyndar ekki að fylgjast með þessu nema í gegnum útvarp í dag en sá sjónvarpsfréttirnar og þetta minnti óneitanlega á myndir "frá útlöndum" þar sem verið er að berja borgaranna til hlýðni.

Vörubílstjórar nota frönsku aðferðina.  Þeir hafa áhrif á samgöngur og stoppa þannig eða hægja á hraðanum í samfélaginu.  Fá fólk til að stoppa og íhuga hvað er í gangi. 

Sumir Eyjamenn hafa viljað nota þessa aðferð til að knýja á um bættar samgöngur. 

En hafa mótmælin skilað einhverju?  Ég segi já, því aðgerðir þeirra hafa neytt stjórnmálamenn til að tjá sig um málin, neytt stjórnvöld til að íhuga stöðuna.

Það er meira en við Eyjamenn getum sagt.  Eyjamenn (og þar á meðal ég) fjölmenntu niður á bryggju fyrir nokkru síðan og flautuðum til að mótmæla hækkun fargjalda í Herjólf. Skilaði það einhverju?  Nei, ekki svo mikið sem stafkrókur á blað frá stjórnvöldum um hvers vegna sú hækkun var nauðsynleg.  Nei, sú aðferð skilaði engu.

Hefði það skilað árangri hefðum við lokað Ártúnsbrekkunni?  Já, ég er viss um að þeir sem stjórna þessu blessaða landi hefðu alla vega verið spurðir út í málið af fréttamönnum.  Aðferðin skiptir öllu og því miður taka stjórnvöld ekki við sér fyrr en menn gera hlutina óhefðbundna.

Auðvitað eru vörubílstjórar að brjóta lög og ég er ekki að mæla því mót. Hins vegar fannst mér aðgerðir lögreglu svolítið öfgakenndar.  Það sem ég sá það er að segja.  

Mótmæli þeirra hætta ekki enda hefur ekkert breyst.  Það hefur engin ákvörðun verið tekin og á meðan er engin ástæða fyrir vörubílstjóra að hætta. Ég stend með þeim alla vega...

Eitt að lokum varðandi flutningskostnað milli lands og Eyja: Eins og ég hef áður komið inn á áður erum við í framkvæmdum niður á Reynisstað.  Fengum rúðu úr Reykjavík í hurð, sérsmíðaða en hún reyndist vitlaus. Átti að fara í einhverja verslun í Kópavogi.  Ætluðum að senda hana til baka en framleiðandinn hafði samband við okkur og bað okkur um að henda henni.

Það var ódýrara fyrir þá að gera nýja heldur en að fá hana senda frá Eyjum...

 


Hver eru næstu skref?

 Nú er ljóst að aðeins Vestmannaeyjabær og Vinnslustöðin eiga möguleika á samningum við ríkið um smíði og rekstur Bakkafjöruferju.  Sex tilboð, það lægsta tvo milljarða yfir kostnaðaráætlun og það dýrasta sex milljarða fram yfir. 

Ef tilboði er tekið sem er aðeins tvo milljarða yfir áætlunum þá þýðir það aflminni vél og engin lyfta á bílaþilfari. Held að menn verði að ná lendingu og nú eiga menn hér í Eyjum að rísa upp á afturlappirnar allir sem einn og krefjast almennilegs skips.  Ekkert hálfkák og engan sparnað sem kemur niður á okkur eftir fáein ár.  Um það hljóta Eyjamenn að geta sameinast.

Við skulum alla vega ekki bíða þangað til búið er að taka ákvörðun með að láta í okkur heyra.

Hver á fjöldi áhafnarmeðlima að vera?  Hvað á að fara margar ferðir á dag?  Hvað á að kosta? Hvernig verður með rútuferðir til og frá Bakka? Þetta eru spurningar sem við eigum að spyrja núna. Ég er reyndar á því að við hefðum átt að vera búnir að spyrja að þessu öllu saman fyrr en hvað um það. Núna skulum við byrja að spyrja og heimta svör...

En allt þetta veltur á því að samningar náist á milli heimamanna og ríkisins.

Ég ætla að leyfa mér að vera bjartsýnn á það.  


Er siglt alla daga til Eyja?

Það er um fátt annað rætt þessa dagana í Eyjum en undirskriftarlistann gegn Bakkafjöru og sitt sýnist hverjum.  Allir hafa sín rök fyrir afstöðu sinni og ber að virða það. 

Heyrði í Elliða bæjarstjóra í gær á Bylgjunni.  Hann fór ágætlega yfir þessa hluti og í Morgunblaðinu í dag er rætt við Sigurð Áss Grétarsson hjá Siglingastofnun þar sem hann segir frátafir verði 5-9 daga á ári á siglingum í Bakkafjöru.  Jarl Sigurgeirsson bendir réttilega á í grein á Eyjamiðlunum að fjöldi ferða verði vitanlega meiri í Bakkafjöru og því falla fleiri ferðir niður en dagafjöldinn sé svipaður og í dag á siglingum til Þorlákshafnar.

Ég hef hins vegar áhyggjur af því að tveir af fjórum aðilum sem valdir voru í útboð vegna ferjunnar ætli ekki að skila inn tilboði.  Miðað við ummæli forsvarsmanna Eimskips er það félag annað þeirra sem hellist úr lestinni. Spurning hvort Samskip sé hitt?  Það á að opna tilboð á fimmtudaginn og það verður athyglisvert að sjá hvernig það kemur út.

Annars vakti eitt athygli mína í samtali við aðila í Reykjavík um daginn.  Við erum í framkvæmdum niður á gamla Reynisstað og mikið að gerast og það þarf að tala við marga.  Við eigum von á ýmsu frá Reykjavík og einn birginn okkar sem ég talaði við um daginn er ekki mikið að fylgjast með samgöngumálum okkar. Hann spurði:

"Er siglt alla daga til Eyja?"

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband