Lagabálkur til varnar hagsmunum fjórflokksins

Nú þegar framboðsfrestur er runnin út er ljóst að hér í Suðurkjördæmi verða ellefu framboð til kosninga. Aðeins fjögur þeirra voru í boði fyrir fjórum árum síðan. Þegar kosningalöggjöfinni var breytt árið 2000 má segja að gömlu valdaflokkarnir hafi lagt ýmsar hindranir fyrir óþægileg klofningsframboð. Um leið gerði fjórflokkurinn nýjum flokkum mun erfiðara um vik að komast að.  Þeir byggðu upp lagabálk til að verja sín sæti.

Hvatning til að kjósa annað en samviskan segir

Þingmenn flokkanna höfðu ekki miklar áhyggjur af þeim hindrunum sem settar voru upp, heldur fór mestur tími umræðunnar á Alþingi í að rökræða hvar kjördæmin skyldu skiptast og hvernig þingmannasæti flökkuðu á milli kjördæma. Forystumenn og helstu stuðningsmenn þessara sömu flokka ganga nú um og hvetja til þess að kjósa ekki minni framboðin, því þá gæti atkvæðið þitt dottið niður. Reyndar er VG þarna undanskilið enda sá flokkur kominn í þá stöðu að vera að berjast með nýju framboðunum við 5% þröskuldinn.

Ný framboð með allt að þriðjungs fylgi

En er það svo að atkvæðið er að detta niður ef flokkur nær ekki takmarkinu? Nei, alls ekki heldur þvert á móti er nauðsynlegt að fjórflokkurinn fái þau skilaboð úr kosningunum að stór hluti þjóðarinnar vill ekki þessi öfl við völd. Miðað við kannanir sem eru þó ansi misvísandi þessa dagana þá gætu ný framboð til Alþingis fengið upp undir 30% af atkvæðum í komandi kosningum. Stór hluti af þeim myndi ekki enda í þingsætum en myndi senda skýr skilaboð um að breyta kosningalöggjöfinni þannig að ægivald fjórflokksins á Alþingi okkar Íslendinga hverfi.

Tímasett aðgerðaráætlun

Það má segja að hver og einn ætti að geta fundið sitt framboð af þeim sjö nýju sem nú bjóða fram. Allt frá róttækum vinstri flokkum, nokkrum krataflokkum og síðan eru Hægri grænir, eina framboðið sem getur talist hægra framboð. Við erum reyndar líka eina framboðið sem hefur tímasett þær aðgerðir sem ráðast á í. 17. júní 2013 verða öll verðtryggð húsnæðislán innkölluð og lánað aftur út í óverðtryggðum húsnæðislánum. 1. desember 2013 verða gjaldeyrishöft afnumin með upptöku ríkisdals.

Það eru lausnir komnar fram. Ég hvet ykkur til að kynna ykkur málin á xg.is.

Sigursveinn Þórðarson oddviti Hægri grænna í Suðurkjördæmi.

 

(Greinin birtist í Eyjafréttum í síðustu viku)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Tek undir með þér Sigursveinn fólk á auðvitað að gefa nýju framboðunum tækifæri, fjórflokkurinn er löngu búin að klúðra öllum sínum málum sjálfir, og komin tími á að hefja nýja sókn með nýjum framboðum og nýju afli. Minn hugur liggur hjá Dögun, en ég hvet fólk til að veita öllum nýju framboðunum brautargengi, skoða vel hvað þau hafa fram að færa og hvað hugnast hverjum og einum best og kjósa samkvæmt því.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 22.4.2013 kl. 18:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband