Færsluflokkur: Íþróttir
Á sunnudaginn verður dregið í undankeppni HM. Verður drátturinn í beinni útsendingu hjá RÚV sem er svolítið töff hjá þeim. Var að sjá styrkleikaflokkanna og var að velta fyrir mér hvernig best væri að þetta færi fyrir Óla Jóh og félaga:
Ég myndi vilja sjá þetta fara:
1. Þýskaland
2. England
3. Danmörk
4. Wales
5. Ísland
6. Færeyjar
Ég myndi ekki vilja sjá þetta fara svona:
1. Króatía
2. Tyrkland
3. Úkranía
4. Makedónía
5. Ísland
6. Liechtenstein
Annars stefnir í að baráttan hjá Íslandi verði að detta ekki niður í neðsta styrkleikaflokkinn... Við erum núna með þjóðum eins og Georgíu, Albaníu, Lettlandi og Kasakstan í hóp. Fyrir ofan okkur eru lið eins og Moldóva, Makedónía, Litháen og Kýpur. En við viljum forðast að lenda í flokki með Liechtenstein, Lúxemborg, Andorra og frændum okkar, Færeyingum. Með fullri virðingu fyrir þessum þjóðum.
Horfði á þáttinn á Sýn um íslenska landsliðið. Margt sem vakti athygli þar. Sérstaklega ræða Guðjóns Þórðarsonar, fyrrverandi landsliðsþjálfara. Hann flakaði KSÍ. Sagði að það vantaði upp á umgjörðina. Óli Þórðar sagði að þessir peyjar sem væru að koma upp í landsliðið, strákar um tvítugt væru með vöxt þrettán ára gutta. Þeir hefðu ekki lyft litla fingri í vinnu. Eins sagði Rúnar Kristinsson að það vantaði alla samkennd og baráttu í liðið. Þegar hann var að byrja var hann smeykur þegar hann kom inn í klefa, þar sem Atli Eðvalds, Óli Þórðar, Siggi Jóns og fleiri jaxlar voru að berja kraft í hvort annan. Nú situr hver í sínu horni með sitt iPod...
En Geir gagnrýndi fjölmiðla fyrir ófaglega umfjöllun og þá sérstaklega hjá ungum blaðamönnum. Henrý Birgir á Fréttablaðinu kom í viðtal strax á eftir. Það sauð á honum. Hann gat varla setið kyrr í sætinu, svo brjálaður var hann. Ég var sammála Henrý, þarna var verið að kasta stein úr glerhúsi.
Annars held ég að Geir og félagar ættu að skoða ensku blöðin þessa dagana. Það sem íslenskir fjölmiðlar skrifa um sitt landslið eru barnabókmenntir við hliðina á bresku pressunni...
Íþróttir | 23.11.2007 | 12:02 (breytt kl. 12:03) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Ég hef nú ekki gert mikið af því að blogga um boltann. Þegar ég byrjaði hélt ég að það yrði mest skrifað hér um fótbolta en svo hefur ekki verið. Hins vegar er ekki annað hægt en að skrifa nokkur orð um dramatískan sigur minna manna í Liverpool á Everton í dag.
Eftir að hafa lent undir með glæsilegu sjálfsmarki Sami Hyypia þurfti tvær vítaspyrnur til að tryggja Liverpool sigur. Ekki spurning með báða dómanna, hárrétt hjá dómaranum.
Ég var nú ekkert of sáttur við mína menn. Hef reyndar ekki verið það í undanförnum leikjum og það var sama upp á teningnum í dag. En þó er ekki hægt að taka það af þeim að þeir unnu leikinn.
Lenti á spjalli við félaga minn í dag um leikinn. Hann vildi meina að fyrri vítaspyrnan hafi verið rangur dómur, ekki hafi verið rétt að reka Hibbert út af. Eins sagði hann dómarann hafa verið svo hlutdrægur í leiknum að næst dæmi hann líklega í 3. deildinni. Auðvitað var ég gjörsamlega ósammála honum.
En hvað getur maður sagt. Félagi minn er Man.Utd. aðdáandi ... Engin skynsemi í gangi þar...
Íþróttir | 20.10.2007 | 18:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Það var ljúft að vera Púlari í gærkvöldi eftir frækinn sigur Liverpool á Mývangi gegn ríkjandi Evrópumeisturum Barcelona. Sérstaklega í ljósi atburða í aðdraganda leiksins sem aðdáendur annarra liða hafa skemmt sér vel yfir. Saga leiksins var lyginni líkust og hefði verið gerð bíómynd um æfingaferðina og leikinn hefði þessi endir þótt allt of unreal svo ég haldi áfram slettunum...
Liðið hélt til Portúgal í æfingaferð sem stóð yfir í viku. Stífar æfingar var sagt en helstu fréttirnar þaðan voru um síðasta kvöld þeirra þar fimm dögum fyrir leik. Þá skelltu leikmenn sér á karókí bar. Eitthvað virtist kvöldið hafa farið vitlaust í suma leikmenn og samkvæmt fréttum var golfkylfum og handjárnum sveiflað.
Craig Bellamy, sá skapgóði og fjármálasnillingurinn norski John Arne Riise deildu um lagaval í Karókí sem endaði með því að níu járni úr golfsetti Bellamy var sveiflað af miklum krafti, fyrst til að komast inn í herbergi til Riise og svo til að merkja aðeins lappirnar á honum.
Þá segja sögurnar að markvörðurinn Jerzy Dudek hafi verið handjárnaður eftir deilur við lögregluna þar í landi. Sögurnar hafa margar hverjar verið æði skrautlegar af þessum atburði.
Menn töluðu um að ferill Bellamy hjá Liverpool væri á enda, hann yrði seldur í sumar. Aðrar fréttir að hann myndi ekki spila á Mývangi. Menn veltu fyrir sér meiðslunum á Riise, þar sem lappirnar eru jú ansi mikilvægar fyrir fótboltamann.
Hins vegar voru þeir báðir í liðinu í gær og markvörðurinn Jerzy Dudek á bekknum. Og sagan var ekki á enda þar. Eftir frekar slaka byrjun á leiknum þar sem Barcelona skoraði fyrsta markið náðu Liverpool frábærum leik. Craig Bellamy jafnaði leikinn rétt fyrir leikhlé með skallamarki (líklega minnsti maðurinn á vellinum) og fagnaði með góðri golfsveiflu. Góður húmor hjá karlinum...
Og líkt og dramatískur endir á bíómynd var það John Arne Riise sem skoraði sigurmarkið (og það með hægri !!!!) og hver gaf sendinguna á hann? Jú, auðvitað Craig Bellamy.
Orð Andy Gray lýsanda á Skysport voru því vel viðeigandi: You cant write a fiction like that
Íþróttir | 22.2.2007 | 10:41 (breytt kl. 10:42) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fór á æsispennandi handboltaleik í gær þar sem ÍBV og Grótta mættust í undanúrslitum bikarsins. Skemmst er frá því að segja að Grótta vann leikinn en það var margt athyglisvert í gangi. ÍBV tefldi fram nýjum leikmanni, skilst að hún sé frá Túrkmenistan en sem betur fer er nafn hennar ekki eins erfitt í framburði og forseta landsins. Frábær leikmaður á ferð en því miður kemur hún heldur seint til landsins fyrir ÍBV enda að litlu að keppa eftir tapið í gær. Eins vakti athygli að 16 ára stelpa, Heiða var í markinu hjá ÍBV stóran hluta leiksins og stóð sig gríðarlega vel.
Það sem var aftur á móti kom mér mest á óvart var að sjá Hlyn Sigmarsson við varamannabekk ÍBV. Fyrr um daginn var hann dæmdur í 2 leikja bann og 100 þúsund króna sekt fyrir brottrekstur í leik ÍBV og Stjörnunnar fyrir skömmu. Líklega var sektin svona há vegna ítrekaðra "brota".
Hlynur hefur gert frábæra hluti fyrir handboltann í Eyjum síðustu ár og þá sérstaklega fyrir kvennahandboltann. Hann hefur aftur á móti átt í miklu stríði við forsvarsmenn HSÍ og kannski sérstaklega dómarapör landsins. Oft á tíðum hefur hann farið vel yfir strikið en á öðrum tímum hefur mér fundist með ólíkindum hvernig komið er fram við hann.
Hlynur hefur verið rekin út úr húsi sem áhorfandi !! Þeir sem einhvern tíma hafa farið á handboltaleiki vita að þar er ýmislegt látið flakka sem ekki er til fyrirmyndar, í hita leiksins. Hins vegar virðist Hlynur hafa svona líka sérstaka rödd að hún sker sig úr og allir dómarar landsins heyra hana. Alla vega hefur honum verið hent út úr húsi fyrir mótmæli við dómara þar sem hann var ekki einu sinni á skýrslu. Eins hef ég séð dómara stoppa leiki til þess að segja honum að setjast, þó helmingur áhorfanda á leiknum standi, þá þurfti hann einn manna að setjast.
Það má auðvitað segja að hann eigi að vera til fyrirmyndar sem forsvarsmaður félagsins en Hlynur Sigmarsson er ekki orðljótasti maðurinn innan handboltahreyfingarinnar en þó sá maður sem fer mest í taugarnar á dómurum. Gæti það verið vegna þess að hann bendir óhikað á það sem miður fer hjá HSÍ. Þola menn þar ekki gagnrýni? HSÍ hefur verið í vandræðum undanfarin ár, deildin hefur drabbast niður hjá körlunum og margar tegundir af Íslandsmóti spilaðar. Þó virðist núverandi fyrirkomulag vera að virka best. Á þessum tíma hefur kvennadeildin verið þannig að tvö til þrjú lið berjast um titilinn ár hvert. Eitt þeirra hefur verið síðustu ár, ÍBV sem hefur lent í 1. eða 2. sæti nánast hvert einasta ár. Hlynur hefur bent á margt undanfarið sem betur má fara hjá HSÍ en uppsker skammir og leikbönn.
Nú síðast fékk hann rautt spjald fyrir að telja í leik gegn Stjörnunni. Auðvitað átti hann að virða þá ákvörðun og yfirgefa varamannabekkinn en hann er þrjóskur og lét ekki segjast. Þess vegna tafðist leikurinn um fimm mínútur. Nú er Hlynur að hætta sem formaður handknattleiksdeildar og það er ekki öfundsvert að fylgja í fótspor hans, ef einhver gerir það. Handboltinn í Eyjum á í talsverðri tilvistarkreppu og þá sérstaklega kvennahandboltinn. Er verjandi að halda úti liði nánast algerlega byggt upp á erlendum leikmönnum?
Íþróttir | 21.2.2007 | 09:07 (breytt kl. 13:14) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Íslandsmeistarar ÍBV tapa með átján marka mun gegn Val! Reyndar er þetta allt annað lið en varð Íslandsmeistari í fyrra og það er vandi ÍBV í hnotskurn. Það hefur smám saman fjarað undan kvennahandboltanum í Eyjum, fyrir tveimur til þremur árum voru það stelpurnar sem héldu nafni ÍBV á lofti með frábærum árangri. Nú næst varla í lið.
Það er byggt upp á erlendum leikmönnum, ekki vegna þess að þær eru betri en heimastelpurnar, það eru fáar stelpur í Eyjum á meistaraflokksaldri að æfa handbolta. Það kemur fram í Mogganum í dag að á tímabili hafi Einar Jónsson þjálfari ÍBV setið einn á varamannabekknum. Það segir allt sem segja þarf um breiddina í liðinu. En á þá að halda áfram með liðið?
Það er spurning sem menn þurfa að spyrja sig innan hreyfingarinnar. Er það réttlætanlegt að halda úti liði sem nær eingöngu er skipað erlendum leikmönnum? Það eru nokkur ár í að upp koma stelpur sem geta borið þetta lið uppi úr yngri flokkum. Hvað þangað til? Á að borga stórar upphæðir til þess að halda þessu gangandi eða hreinlega draga liðið úr keppni næstu árin?
Það var gert í kvennafótboltanum hér. Ekki voru allir sáttir við það en rökin voru þau að það voru svo fáar stelpur tilbúnar til þess að æfa að liðið yrði skipað að miklu leyti erlendum leikmönnum. Menn treystu sér ekki í það.
Hlynur Sigmarsson hefur unnið þrekvirki fyrir handboltann í Eyjum undanfarin ár en nú virðist þetta vera að taka enda. Það er sorglegt en staðreynd engu að síður.
Breytingarnar undanfarin ár í íþróttamálum okkar Eyjamanna er umhugsunarefni. Fyrir þremur árum átti ÍBV lið í efstu deild í fótbolta og handbolta, kvenna og karlaflokki. Fjögur lið sem voru að berjast við þau bestu í landinu. Nú er kvennalið ÍBV í handbolta eina liðið í efstu deild með þeim árangri sem lýst er hér að ofan. Búið er að leggja kvennaliðið í fótbolta niður. Strákarnir féllu um deild síðasta sumar í fótboltanum og handboltastrákarnir eru í 2. deild.
Það er mín skoðun að verið er að berjast á of mörgum vígstöðum. Réttast væri að skera niður í rekstri meistaraflokks, halda úti færri liðum en betri. En hvaða liðum á að fórna?
Valur burstaði ÍBV | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | 14.2.2007 | 08:58 (breytt kl. 08:59) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Færsluflokkar
Tenglar
Heimsótt reglulega
Bloggvinir
Nóv. 2024 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | |||||
3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 |
10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 | 16 |
17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 | 23 |
24 | 25 | 26 | 27 | 28 | 29 | 30 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar