Færsluflokkur: Sjónvarp

Léleg útsendingarskilyrði á Stöð 2 og Sýn í Eyjum

Rússíbanaferð er líklega ágætis mælikvarði á það að vera stuðningsmaður Liverpool þessa dagana. Fyrst var maður hundfúll eftir gríðarlega ósanngjarnt tap gegn Man.Utd. á laugardaginn og svo í skýjunum eftir að slá Evrópumeistara Barcelona úr Meistaradeild Evrópu í gær.  Brilljant leikur og hreint með ólíkindum að Liverpool skyldi ekki ná að skora í leiknum.  

Eftir að Eiður Smári skoraði fór um mann og ég sá fyrir mér aðra eins dramatík og var á laugardaginn. Sem betur fer tókst þeim ekki að bæta öðru við og Liverpool tókst hið ómögulega. Að leggja Barcelona. Ég sagði þegar dregið var í 16. liða úrslit að það lægi í loftinu að þessi tvö lið myndu dragast saman. Meistarar síðustu tveggja ára og allt það. Nú ætla ég að leyfa mér að veðja á að Liverpool dragist á móti Valencia.  Fyrirsagnirnar: "Benitez mætir gömlu lærisveinunum"  "Morientes snýr aftur á Anfield" Segi bara svona...

Keypti Sýn í gær í tilefni leiksins. Var ekki hægt að missa af honum en er hundfúll með gæðin á útsendingu þeirra hér í Eyjum.  Ég hef verið með Stöð 2 síðan í desember og myndin er alltaf að frjósa. Hef látið umboðsmann 365 í Eyjum vita af þessu og segir hann bilunina í Reykjavík.  Algjörlega ómögulegt og ég sagði það við sölumanninn í gær. Hann hafði svör á reiðum höndum, ég þyrfti einfaldlega að fá deyfir til þess að "signalið" væri ekki 100% heldur 80-90%. 

Ég fékk mér svoleiðis og helv... myndin hélt áfram að frjósa og það alltaf á verstu tímum í leiknum. Þetta varð hreinlega verra en það sem fyrir var.  Talaði aftur við tæknimann þeirra hér í Eyjum sem tjáði mér að menn vissu af þessari bilun og væru að vinna í þessu. Þetta með deyfirinn væri einhver lausn þeirra í markaðsdeildinni sem tæknimenn fussuðu við.  

Hef borgað rúmlega 5000 krónur síðan í desember fyrir Stöð 2 og nú tæplega 8 þúsund fyrir Stöð 2 og Sýn. Er nokkuð til of mikils mælst að myndin sé í lagi fyrir slíkan pening?  Eins finnst mér ótrúlegt virðingarleysi við viðskiptavini sína hér í Eyjum að láta ekki vita hvað er í gangi. Segjast vera að vinna í þessu og svo framvegis.  Nei, borgið bara og sættið ykkur við þetta virðist vera viðhorfið.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband