Það besta og það versta

Það má kannski segja að einu „taparar" í kosningunum hér í Eyjum hafi verið Framsóknarflokkurinn enda náðu þau ekki takmarki sínu að ná inn manni í bæjarstjórn.  Voru reyndar töluvert frá því enda næsti maður inn fimmti maður á lista Sjálfstæðisflokksins.  Gamli vinnuveitandi minn, Ómar Garðarsson hafði því rétt fyrir sér í forsíðugrein Frétta í síðustu viku, að baráttan væri á milli Helgu Bjarkar sem var í 5.sæti D-lista, Guðlaugs þriðja manns á V-lista og Sigurðar oddvita B-lista.  Veit að fréttin olli miklum usla enda var fyrirfram talið að baráttan væri um hvort Sjálfstæðismenn héldu meirihluta eða ekki. 

En það er við hæfi að óska bæði Sjálfstæðisflokknum og V-listanum til hamingju.  Bæði framboðin náðu því sem að var stefnt.  Sjálfstæðismenn hömruðu á „hættunni" á 3-3-1 stöðu í bæjarstjórn á meðan V-listinn tefldi Guðlaug Friðþórs fram í baráttusæti.  Kom svolítið á óvart að V-listinn skyldi ekki stefna á meirihluta.  En framboð B-lista virðist hafa haft meiri áhrif á V-listann en D-listann.  Skilst að B-listinn hafi þurft einhver 80+ atkvæði til að ná inn manni og í raun náði framboð þeirra aðeins örlítið meira fylgi en F-listinn náði fyrir fjórum árum. 

En spennan var í raun ekki hér í Eyjum.  Framboð Besta flokksins er það sem vakti athygli um allt land og í raun út fyrir landsteinanna.  Grínframboðið var víða í erlendum fjölmiðlum.  Frábært, fyrst Icesave, svo Eyjafjallajökull og núna Jón Gnarr!!   Jæja, landkynning er þetta alla vega.  Einhvern tíma var sagt, „vond umfjöllun betri en enginn umfjöllun"

En þrátt fyrir grín og óháð framboð víða sem náðu árangri hefur pólitíkin því miður ekkert breyst.  Nú eru hafin hrossakaup víða og þá virðast úrslit kosninganna engu máli skipta.  

Byrjun á gríninu í Reykjavík.  Mörður Árnason sýndi þær tölulegu staðreyndir á heimasíðu sinni að Samfylkingin hafi aldrei fengið jafn slæma útkomu í Reykjavík og núna.  Innan við 20% atkvæða.  Samt leitar Besti flokkurinn fyrst til þeirra og ætla að hampa flokki sem er í sögulegu lágmarki í höfuðborginni.  Gaflarar halda svo gríninu áfram.  Samfylkingin tapar svo um munar þar og bæjarstjórinn nær ekki kjöri inn í bæjarstjórn.  Og hvað gerir þá VG oddamaðurinn?  Jú, togar Samfylkinguna aftur til valda. 

Hefði ekki verið eðlilegra, í þeirri kröfu um breytt stjórnmál á Íslandi að flokkar sem hafa starfað í meirihluta og tapa fylgi dragi sig til hlés?  Að öðrum sé hleypt að? 

Í raun ætti staðan í Reykjavík að vera þannig að Besti flokkurinn á að fara inn sem sigurvegari og boða samstjórn allra flokka í þeirri von að geta breytt hugsun gömlu flokkanna í þá átt að seta í borgarstjórn Reykjavíkur sé hagsmunapólitík fyrir borgarbúa en ekki landsflokkanna.

Eins finnst mér hjákátlegt hjá forystumönnum þeirra sem nú eru að ræða meirihlutamyndun hér og þar.  Allir „verjast" frétta af stöðunni, ætla ekkert að tjá sig í fjölmiðlum.  Þetta sama fólk reyndi að komast í allar fréttir og öll blöð fyrir viku síðan til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri.  Það skipti kjósendur svo miklu máli. 

Nú kemur þetta kjósendum ekki lengur við.

Hvað hefur breyst?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband