Ég var einn tæplega fimm hundruð Eyjamanna sem mættu á Básaskersbryggju í gær til að mótmæla hækkun fargjalda Herjólfs. Þetta er köld vatnsgusa framan í okkur Eyjamenn, á sama tíma og þingmenn og ráðherrar koma til Eyja og jánka og taka undir það að lækka þurfi far og farmgjöld með Herjólfi tekur Eimskip upp á því að hækka fargjaldið og farmgjaldið um tæp 12%. Menn snúast í hringi, vita ekki alveg í hvorn fótinn þeir eiga að standa.
Það hefur lengi verið skoðun mín að gjaldskrá Herjólfs er barn síns tíma og á að breyta. Eftir að Hvalfjarðargöngin komu og Herjólfur var merktur sem hluti af þjóðvegakerfi Íslendinga eiga Eyjamenn ekki að borga meira en sem nemur keyrslu 70 kílómetra leið, burtséð frá því hvort ég er að ferðast einn eða með fjóra með mér í bílnum. Þetta er í raun afar eðlileg krafa. Það er ekki rukkað fyrir hausa í Hvalfjarðargöngin, heldur fyrir bíla. Ég set þessi tvö samgöngumannvirki ef svo má að orði komast undir sama hatt. Raunar búa þeir sem notast við Hvalfjarðargöngin við valkost, þau geta enn keyrt Hvalfjörðinn ef þau vilja ekki borga í göngin. Við höfum ekki slíkt val.
Við erum að fara að horfa upp á það að matvöruverð ætti að lækka 1. mars vegna lækkunar virðisaukaskatts á matvæli. Mun það skila sér til Eyja? Ég er ekki viss um það, 12% hækkun á farmgjöldum mun alla vega ekki hjálpa til.
Sturla Böðvarsson samgönguráðherra sagði á opnum stjórnmálafundi á Selfossi fyrir rúmu ári síðan þegar hann var inntur eftir því hvort breytinga væri að vænta á gjaldskrá Herjólfs að svo væri ekki. Þeir sem tækju þá ákvörðun að búa á eyju þyrftu að sætta sig við það með þeim kostum og göllum sem fylgdu. Svo mörg voru þau orð og brýnt að Eyjamenn hafi þau í huga í vor þegar kosið verður til Alþingis. Það er líklegt að verði Sjálfstæðisflokkurinn áfram í ríkisstjórn mun Sturla áfram stýra samgönguráðuneytinu. Það eru slæm tíðindi fyrir Eyjamenn, segi kannski ekki dauðadómur fyrir okkur en ráðherra samgöngumála sem finnst í lagi að hækka fargjöldin og gefur í raun skít í alla röksemd Eyjamanna varðandi samgöngur er ekki góð tíðindi fyrir okkur sem hér viljum búa.
Hann vinnur að fullum þunga gegn hugmyndum um jarðgöng. Óeðlileg afskipti ráðherra að mínu mati. Hvernig stendur á því að ráðherra samgöngumála er svo þröngsýnn að hann vilji ekki einu sinni skoða alla möguleika sem eru uppi á borðinu?
Er kannski kominn tími á frönsku aðferðina í mótmælum hjá okkur Eyjamönnum? Ætla ekki að gera lítið úr mótmælunum í gær, gott mál en fyrir hverju var fólkið að klappa á Básaskersbryggju í gær? Nei, við þurfum að fara að gera eitthvað róttækt. Hugmyndir hafa verið uppi um að loka götum burt frá Reykjavík en mér líst best á að grýta samgönguráðuneytið með þorskhausum....það myndi vekja athygli J
Að endingu vill ég segja eitt: Fyrir mér kemur ekki til greina að kjósa Sjálfstæðisflokkinn í vor. Þar á bæ er enginn skilningur á kröfum okkar. Ekki láta blekkjast á fundum fram að kosningum. Þeir hafa fengið sín tækifæri. Kannski var þetta rétt hjá Páli Scheving þegar hann sagði að við værum alltaf að reikna. Við eigum að berja í borðið, láta þetta fólk finna að okkur er alvara.
Eyjamenn eru ekki byrði á íslensku samfélagi og hafa aldrei verið. Að láta koma fram við okkur eins og einhverja helvítis aumingja er óþolandi. Við höfum í gegnum tíðina komið með meiri tekjur inn í samfélagið en flest önnur sveitarfélög. Við eigum okkar rétt og það er kominn tími til að fara að innheimta þann rétt.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | 1.2.2007 | 09:35 | Facebook
Færsluflokkar
Tenglar
Heimsótt reglulega
Bloggvinir
Nóv. 2024 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | |||||
3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 |
10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 | 16 |
17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 | 23 |
24 | 25 | 26 | 27 | 28 | 29 | 30 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.