Eru Eyjamenn frekjur?

 Það er svolítið athyglisvert að velta því fyrir sér hvert viðhorfið til okkar Eyjamanna er.  Miðað við sumar bloggsíður þá erum við heimtufrekjur meðan aðrir taka undir kröfur okkar. Sumir skilja ekkert í þessum “fáránlegu” kröfum okkar um breytta gjaldskrá Herjólfs, helber frekja og yfirgangur í eyjaskeggjum!!

  Nú skulum við rifja aðeins upp okkar baráttu fyrir bættum samgöngum í Eyjum síðustu árin.  Þegar núverandi Herjólfur var byggður voru margir þingmenn hreinlega á móti stærð skipsins, töldu það allt of stórt fyrir svona lítið bæjarfélag. Það náðist þó í gegn að skipið var smíðað en þó stytt eilítið af þáverandi samgönguráðherra, Steingrími J. Sigfússyni. Nú er skipið allt of lítið og hefur verið í nokkur ár.

Fyrst sigldi skipið eina ferð á dag en fljótlega bættust við ferðir í kringum helgarnar á sumrin.  Krafa Eyjamanna um tvær ferðir á dag, alla daga vikunnar, allt árið var fáránleg að mati margra fyrst um sinn. Meira að segja ráðamenn í Eyjum hlógu af þessum kröfum fyrst um sinn, sömu og síðar stukku upp á vagninn og kröfðust breytinga, sem betur fer.

 Það tók langan tíma að sannfæra samgönguráðherra um málið. Áður hafði verið bætt við ferðum á fimmtudögum og mánudögum. Alltaf voru þessar ferðir fullar en ekki þótti ástæða til að bæta við ferðum aðra daga. Menn sögðu engan ferðast á miðvikudögum seinni partinn eða með seinni ferð á laugardögum. Flestir voru sammála um að sú ferð væri algjörlega óþörf.  Annað hefur aldeilis komið á daginn og samkvæmt mínum heimildum er það sú ferð sem komið hefur mest á óvart og er mikið notuð.

 Að lokum gaf ráðherrann eftir og þóttist nú vera búinn að gera nóg fyrir þetta fólk sem valdi það að búa á eyju, með þeim kostum og göllum sem því fylgja.  En þá kom að fluginu. Eftir að Flugfélag Íslands hætti flugi til Eyja fyrir þremur árum þá hafa flugsamgöngur verið afar stopular. Tvö lítið og vanmáttug flugfélög reyndu að halda uppi áætlunarflugi til Reykjavíkur en fengu litlar undirtektir. Bæði var fargjaldið allt of hátt og vélarnar mun minni en Eyjamenn áttu að venjast. Flugfélögin hefðu þurft bolmagn til þess að geta vanið markaðinn við sig en það höfðu þessi félög ekki. Flugfélagið kom ekki inn á markaðinn aftur nema vegna ríkisstyrks sem loks fékkst í gegn, aftur eftir margra ára baráttu þar sem fyrst þurfti að sannfæra ráðamenn í Eyjum áður en hægt var að sækja á ráðherra.

 Það er ríkisstyrkur á flestum flugleiðum á Íslandi. Aðeins þrjár leiðir eru ekki ríkisstyrktar, það er flug til Ísafjarðar, Egilsstaða og Akureyrar.

 Nú berjumst við fyrir framtíðarlausn á samgöngumálum okkar Eyjamanna. Sumir vilja jarðgöng, aðrir ferjuhöfn í Bakkafjöru en sumir vilja hreinlega bara nýtt og stærra skip sem siglir til Þorlákshafnar. Sturla vill ekki göng, það er á hreinu. Hann hefur tekið ákvörðun um Bakkafjöru. Við Eyjamenn getum ekki ákveðið hvað við viljum og á meðan svo er mun enginn hlusta á okkur í höfuðborginni.  Þarna þyrfti bæjarstjórnin að taka völdin. Ákveða á hvað skal stefnt. Við höfum talað of lengi, það er kominn tími á aðgerðir.

 Annars held ég að Páll Scheving hafi svolítið til síns máls þegar hann segir að Eyjamenn séu of uppteknir við að reikna hvað sé hagstæðast fyrir ríkið. Hvað er hagstæðast fyrir okkur Eyjamenn?  Við höfum áður tekið frumkvæðið í okkar eigin málum, kannski þurfum við bara að gera það aftur.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband