Eru auðir ekki með?

Heldur finnst mér álitsgjafar og sumir stjórnmálamenn ganga langt í túlkun á niðurstöðum í kosningunum á laugardaginn. Kjörseðill sem hafði orðið „ráðgefandi" í hausnum og orðin „til grundvallar" er orðinn að plaggi sem ekkert má hrófla við. Bindandi fyrir þing og þjóð. Það eina sem stuðningsmenn tillagnanna gætu hugsanlega sætt sig við væru breytingar frá lögfræðihóp sem fer nú yfir tillögurnar (hefði ekki átt að gera það fyrir kosningarnar??) og hópurinn á að meta hvort ákvæðin auki líkur á málssókn á hendur ríkinu.

Ég man bara eftir einum aðila sem kom fram fyrir kosningar og sagði að ef meirihluti myndi segja já við fyrstu spurningunni yrði að nota tillögurnar óbreyttar. Það var Þorvaldur Gylfason, einn fulltrúa í stjórnlagaráði. Enginn tók undir þetta sjónarmið hans fyrir kosningarnar. En margir hafa stokkið á vagn Þorvaldar eftir kosningar.

Helst hefur verið deilt um kosningaþátttöku og finnst mér hálf pínlegt núna hvernig „Ragnar Reykás" hefur fundið sér stað í fólki. Þeir sem gerðu lítið úr 75% þátttöku í Icesave kosningunum eða gerðu lítið úr forsetakosningunum síðustu tala nú um frábæra kosningaþátttöku, jaðrar meira að segja við heimsmeti að mati eins froðusnakksins. Eins eru sumir þingmenn sjálfstæðismanna algjörlega úti að aka við mat á þessu, til dæmis Birgir Ármannsson.

Staðreyndin er sú að helmingur þjóðarinnar hafði nógu mikinn áhuga á þessu til að mæta á kjörstað. Það er ekki mikil kosningaþátttaka, burtséð frá því hvernig þetta er í Sviss eða annarsstaðar. Hins vegar er þetta það fólk sem nýtti sér lýðræðislegan rétt sinn til að kjósa. Á aðra verður ekki hlustað enda hefur enginn, hvorki þeir sem eru með eða á móti tillögunum neitt fyrir sér til að túlka vilja þeirra sem sátu heima.

Athyglisverðast finnst mér hins vegar að skoða hlutfall þeirra sem skiluðu auðu. Ég hreinlega skil ekki hvernig þær tölur hafa algjörlega dottið út úr öllum fjölmiðlum, af hverju er ekki minnst á það að 18-20% þeirra sem MÆTTU á kjörstað skiluðu auðu við spurningum 2-6? Nei, þeim er bara skóflað í burtu og reiknað upp á nýtt miðað við þá sem tóku afstöðu til já eða nei. Er ekki alltaf sagt að með því að mæta og skila auðu sértu einmitt að taka afstöðu? Hefur það áður gerst að svo stór hluti skili auðu í kosningum á Íslandi?

Úrslit kosninganna voru að flestu leyti eftir bókinni. Í raun má segja að aðeins úrslit við einni spurningu úr einu kjördæmi hafi komið á óvart (mér allavega) en það var úr Suðurkjördæmi við spurningunni um jöfnun atkvæða. Meirihluti kjördæmisins sagði já við því á meðan hin tvö „landsbyggðarkjördæmið" sögðu nei með afgerandi hætti. Velti fyrir mér hvers vegna svona ólík niðurstaða fékkst hjá okkur í Suðurkjördæmi.

En þetta verður semsagt forgangsatriði á þinginu í vetur. Ekki skuldir heimilanna, vaxandi gjaldþrot litlu og meðalstóru fyrirtækjanna á Íslandi, ekki skortur á nothæfum tækjum á spítölum landsins, þar sem næsta skref er líklega að hafa rafvirkja viðstaddar allar skurðaðgerðir ef tækin skyldu nú bila, nú eða lögbrot bankastofnana og íslenska ríkisins vegna gengislána.

Þetta eru allt hlutir sem geta beðið, enda bráðliggur á að skipta út okkar stjórnarskrá sem hefur reynst okkur illa og skapað skelfilega óvissu í fjölmörgum málum.........eða hvað?



 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband