Það sem allir eru að tala um

Nú er stuttri en lærdómsríkri kosn­ingabaráttu að ljúka. Hún hefur verið um margt skemmtileg en mest hefur mér fundist hún fróðleg. Nokkur mál standa upp úr sem ­lykilmál í hugum fólks fyrir kom­andi kosningar.

Skuldamál heimilanna
Það er ekki hægt að líta öðruvísi á bankahrunið en sem forsendubrest í íslensku þjóðfélagi. Fráfarandi ríkisstjórn, í hlekkjum Alþjóða­gjald­eyrissjóðsins, sló skjaldborg um fjármálakerfið en lét íslenskum almenningi blæða. Einu leiðrétting­arnar sem fengist hafa síðustu fjögur ár hefur Hæstiréttur Íslands úrskurðað um. Það verður að taka á þessum forsendubresti og sú leið sem fengið hefur bestu dóma hagfræðinga er leið okkar Hægri grænna, kynslóðasáttin. Þar er engin óvissa um fyrirhugaða samn­inga við vogunarsjóði eða fyrir­fram­gefnar forsendur um verðbólgu sem Íslendingar hafa ekki séð síðustu áratugi. Eins er óvíst hvenær þær leiðir verða færar en kynslóðasáttin snýst um að innkalla öll verðtryggð húsnæðislán 17. júní 2013.
 
Heilbrigðismál
Frambjóðendur fjórflokksins hafa hægt og bítandi verið að hörfa frá stuðningi við byggingu nýs há­tækni­sjúkrahúss. Það er skref í rétta átt í þeirri baráttu okkar að verja heilbrigðiskerfið á landsbyggðinni. Það þýðir ekki að horfa í kíki frá Reykjavík inn í þessar stofnanir á landsbyggðinni. Starfið og þarfa­grein­ingin þarf að fara fram inni á heilbrigðisstofnunum. Hér í Eyjum verðum við að ná eyrum stjórnvalda til þess að fá fjármagn til að halda skurðstofu opinni allt árið, að samdráttarskeiði upp á tæp 25% síðustu fjögur ár verði snúið við. Það þarf meira fjármagn til stofnunarinnar til þess að þjónustan sé íbúum bjóð­andi og öryggi sé í fyrirrúmi.
 
Samgöngur
Á fræðandi fundi í Höllinni síðast­liðinn fimmtudag var tekist á um leiðir til þess að Landeyjahöfn virki eins og lagt var upp með. Mikið ósamræmi var í hugmyndum fræð­inga Siglingastofnunar og heimamanna. Ég hef áhyggjur af því að þeir sem næst eru málinu séu orðnir of tengdir því og rétt væri að fá nýja sérfræðinga að málinu. Skipstjórnarmenn á Herjólfi vilja fara með höfnina 350 metrum utar en sú leið hefur ekki verið prófuð. Einungis var prufað að fara með hafnarmynnið 200 metra út en það skilaði ekki árangri. Næstu skref eru mikilvæg og nauðsynlegt að næstu skref verði tekin af yfirvegun en ekki út frá persónulegum hags­munum einstakra aðila. Þó er ekki síður mikilvægt að við náum fram breytingum á gjaldskrá, að við greiðum sama gjald og það myndi kosta okkur að keyra sömu leið eins og ég hef áður komið inn á.
 
27. apríl
Við vitum hvað er í húfi næsta laug­ardag. Ég vona að Eyjamenn láti skynsemina ráða þegar kemur að því við hvaða bókstaf verður merkt við. Ekki skoðanakannanir. Setjum X við G.
 
(Greinin birtist í Eyjafréttum í vikunni)

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Kjósum forsætisráðherra, kjósum Bjarna Ben.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 26.4.2013 kl. 12:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband