Ný ríkisstjórn

Það hefur mikið gengið á síðustu daga hjá foringjum Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Hafa þau verið að tjasla saman málefnasamningi og úthluta ráðherraembættum og hefur það vakið athygli mína að ekkert hefur lekið út um innihald samningsins eða úthlutanir. Merkilegt þegar tveir stærstu flokkarnir eiga í hlut.  

Það var fátt sem kom á óvart hjá Sjálfstæðisflokknum og gamla góða íhaldssemin kom berlega í ljós í skipun ráðherra. Einn nýr inn og Sturlu sparkað úr ríkisstjórn. Guðlaugur Þór verður heilbrigðisráðherra, það verður athyglisvert að fylgjast með honum í því embætti. Sturla gat ekki leynt vonbrigðum sínum í gær en ég er nokkuð ánægður með þessa breytingu. Sjálfstæðisflokkurinn hefur stjórnað samgönguráðuneytinu í langan tíma (frá því nýr Herjólfur kom til Eyja) og mikil óánægja með samgöngumál hér í Eyjum. Auðvitað hefur ferðum Herjólfs fjölgað á tímabilinu, þó það nú væri en það tók langan tíma að ná því í gegn. Vonandi gerir Kristján Möller betur, það kemur í hans hlut að klára samgöngumál til Eyja, hvaða leið verður farinn?

Tveir ráðherrar koma úr Suðurkjördæmi, Árni M heldur fjármálaráðuneytinu og Björgvin G. verður viðskiptaráðherra. Þetta hljóta að vera góð tíðindi fyrir okkur Suðurkjördæminga, enda síðustu átta ár hefur einungis einn ráðherra verið úr kjördæminu, Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra. Vonandi ávísun á sterkara kjördæmi næstu fjögur árin.

Annars óttast ég mest að þessi ríkisstjórn verði mjög borgarsinnuð. Af ráðherrum Sjálfstæðisflokks koma fjórir af höfuðborgarsvæðinu (fimm ef landsbyggðarþingmaðurinn í dulargervi, Árni M er talinn með) og hjá Samfylkingunni er skiptingin hin sama. Reyndar má segja að þetta sé í samræmi við byggðarþróun og lítið við því að segja en þó ánægður með að landsbyggðarþingmaður skuli fá samgönguráðuneytið.

Það sem vekur mesta athygli er veik staða varaformanns Samfylkingarinnar, Ágúst Ólafs. Hann er skilinn eftir, á að sinna innra starfi flokksins næstu árin. Hlýtur að vera honum mikil vonbrigði. Eins sú staðreynd að Björn Bjarnason verður áfram ráðherra. Raunar má segja að hann geti þakkað Jóhannesi í Bónus þá vegsemd, Geir gat ekki skilið hann eftir, hann væri þá að taka undir auglýsingu Bónusforingjans. Björn hættir líklega á miðju kjörtímabili og krónprins flokksins, Bjarni Ben tekur við.

Í heildina líst mér vel á þessa ríkisstjórn. Vonandi vegnar henni vel.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband