Í gíslingu Eimskips

Bloggleti mín undanfarið hefur verið með eindæmum eins og veðrið reyndar. Þannig að ég hef eytt frítímanum inn á golfvelli fremur en fyrir framan tölvuna.

 En nú sting ég niður penna (eða öllu heldur lem á takkaborðið) vegna samgöngumála okkar Eyjamanna. Langþreytt umræða og líklega finnst flestum nema Eyjamönnum nóg komið. En eru aðrir en Eyjamenn að átta sig á vandamálinu? Ég held til dæmis að samferðarfólk mitt í gærkvöldi í Herjólfi hafi gert það. Þau eru að fara að taka þátt í Shellmótinu um næstu helgi en þurfa að koma til Eyja á þriðjudegi til þess að komast á mótið. Það er fullt í allar ferðir fram yfir helgi. Það er orðin heil vika sem fer í mótið fyrir suma. Þetta hlýtur að draga úr áhuga fólks að fylgja sínum börnum. Ég veit að foreldrar eru allir að vilja gerðir en vika af sumarfríi í eitt helgarmót í fótbolta er bara dálítið mikið. Sérstaklega þar sem í boði eru mót um allt land sem hægt er að keyra á þegar fólkinu hentar. Það sem bjargar Shellmótinu er hefðin og frábært skipulag ÍBV, ekki samgöngur.

 Eimskip heldur ráðuneytinu og þar með Eyjamönnum í gíslingu með því að setja upp allt of hátt verð fyrir aukaferðir. Þeir eru í þessu til að græða og það er ekkert hægt að segja við því. Það er bara eðlilegt. Hins vegar hlýtur sú spurning að vakna hvort þjóðvegur okkar Eyjamanna eigi að vera gróðrarstöð fyrir einkafyrirtæki?  Það væri svona svipað og bjóða út rekstur Reykjanesbrautarinnar. Við vitum hvernig ástandið er í Hvalfjarðargöngunum, það er rukkað í þau EN stóri munurinn er sá að fólk sem er að fara upp á Skaga eða lengra en frá vesturlandi til Reykjavíkur hefur VAL. Það getur keyrt Hvalfjörðinn.  Við höfum ekkert val.

 Mín persónulega skoðun er sú að nú þegar eigi að segja upp samningnum við Eimskip og ríkisvaldið á að viðurkenna að fyrrverandi samgönguráðherra gerði mistök þegar hann bauð út rekstur Herjólfs.  Auðvitað á ríkið að reka grunnstoðir samfélagsins, þjóðvegakerfið og hvað sem raular og tautar þá er Herjólfur hluti af því þjóðvegakerfi.

 Ég hef verið að svipast um og leita eftir viðbrögðum okkar ágætu þingmanna.  Hvar er vinur Vestmannaeyja Bjarni Harðarson?  Er hann eitthvað að fylgjast með þessa daganna?  Hvar er Atli Gíslason, maður sem leit á Vestmannaeyjar sem sinn heimavöll í kosningabaráttunni, hefur hann reynt að panta far með Herjólfi í kringum helgar í sumar?  Og hvar er "faðir samgöngubáta Eyjamanna" Árni Johnsen?  Kemur hann alltaf með flugi til Eyja?  Er hann búinn að fá sig saddan við það að ná sæti á þingi?  Hvar eru ráðherrar kjördæmisins?  Árni Matt?  HALLÓ !!! Og er Björgvin G. Of upptekinn við að taka upp úr kössum í viðskiptaráðuneytinu til að koma að málinu?

Einhver? 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband