Póstur og Sími, Landssíminn, Síminn hf, Míla ehf

Fyrir tæpum tuttugu árum byrjaði ég að vinna hjá Pósti og Síma. Mig minnir að verkstjórinn á þeim tíma hafi heitið Bjarni,  þó ekki alveg viss.  Það voru tíð skipti á yfirmönnum fyrstu misserin og ákveðin losaragangur á starfinu eftir að Sigurgeir heitinn hætti störfum.

Hann hafði verið verkstjóri hjá símanum í mörg ár og þekkti línukerfið út og inn. Oft var leitað til hans þegar þurfti að fá á hreint með strengi í jörðu og fleira í þeim dúr. Það kom oftar en ekki fyrir að meira var að marka hans minni en teikningar sem til voru. 

Við vorum nokkrir sem unnum þarna á þeim tíma. Þeim fjölgaði svo á sumrin starfsmönnunum og mörg verkefni ár hvert. Grafa upp, skipta út strengjum og laga aðra.

Í síðustu viku var tilkynnt um samstarfssamning Mílu ehf og Geisla. Um leið var það dásamað hversu góður samningur þetta er. Verið sé að gera starfssemi Mílu „straumlínulegri“  Einmitt og akkúrat.

Hvergi er minnst á að með þessum samningi er verið að leggja niður deild sem starfað hefur í Eyjum í marga áratugi. Línudeildin heyrir nú sögunni til.  Starfsmaður þess, góður vinur minn og bloggfélagi missir vinnuna.  Fimm manna fjölskylda sér fram á að þurfa jafnvel að flytja úr bænum út af þessum frábæra samstarfssamningi. Og ekki er ég viss um að þjónustan batni, með fullri virðingu fyrir Geislamönnum, enda erfitt að feta í fótspor Grétars.

 Hann er sá sem hefur komist næst Sigurgeir í kunnáttu um grunnkerfi Símans í Eyjum.

Eftir einkavæðingu Símans stefndi í þetta hægt og rólega.  Eftir að grunnnetið var tekið út úr starfsemi Símans og fært undir dótturfyrirtækið Mílu hefur þjónustan við landsbyggðina hægt og rólega verið slegin af.  Míla hefur sagt upp sínum starfsmönnum víðs vegar um landið og Vestmannaeyjar eitt síðasta vígið utan stór höfuðborgarsvæðisins.

Ég skil Geislamenn vel, auðvitað stökkva þeir á svona samning, enda eykur þetta veltu þeirra og líklega án þess að þeir þurfi að bæta við sig mannskap. Win/win situation eins og sagt er, fyrir þá.

Það er ekki langt síðan ríkisvaldið komst hjá því að efna loforð sitt um staðsetningu loftskeytastöðvar í Eyjum með því að kaupa burt einn starfsmann.  Svo var litið á þetta sem lið í nauðsynlegri hagræðingu, svo samskiptamiðstöðin í Skógarhlíð gæti eflst. 

Það væri gaman að sjá samantekt á samdrætti ríkisins í Vestmannaeyjum undanfarna áratugi. Mörg störf hafa horfið í höfuðborgina og lítið komið í staðinn.

Ég var fylgjandi sölu Símans á sínum tíma en vildi grunnetið út úr þeim pakka. Það átti að halda því sér.

En auðvitað var þetta ekki starf á vegum ríkisins. Það var búið að einkavæða þetta og þá er allt leyfilegt, í nafni hagræðingar. Við skulum samt ekki gleyma því að þegar svona grunnstarfsemi flyst í hendurnar á einkaaðilum verður viðhald í lágmarki. Það er sá staður sem fyrst er sparað á.

 
Það sjáum við best á þjóðveginum okkar...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband