Að virkja eða ekki virkja

Mótmæli við Kárahnjúkavirkjun hafa verið gríðarleg. Öfgafull vill ég meina og fréttaflutningurinn fyrir neðan allar hellur. Ég man eftir frétt í öðrum hvorum sjónvarpsfréttamiðlinum þegar talað var um að tjaldbúðir hafi nú risið við Kárahnjúka. Flogið var yfir svæðið og sáust tvö tjöld á myndunum. Tvö tjöld = tjaldbúðir minnir óneitanlega á orð landbúnaðarráðherra, þar sem tvö tré koma saman þar er .... eða þar sem tveir hestamenn koma saman, þar er hestamannamót !!

 

Nú berast okkur daglegar fréttir um hversu djúpt Hálslón er orðið og fréttamyndirnar með af Ómari Ragnarssyni á Örkinni sinni. Eins hefur vakið athygli þegar myndir hafa verið frá mótmælum við Kárahnjúka að yfirleitt eru þar unglingar og/eða ungt fólk að mótmæla. Í viðtölum við þau hefur harla lítið komið fram, þau eru bara á móti virkjunum sko...

 

Eins hafa erlendir mótmælendur verið þar fremstir í flokki. Svokallaðir atvinnumótmælendur...þau máttu ekki svo lítið sem stíga inn á svæðið þá var kominn myndatökumaður á svæðið. Ég verð að viðurkenna að þessi fréttaflutningur hefur oft á tíðum verið svolítið kjánalegur.

 

Núna eru mótmælendur aftur á móti komnir með öflugan talsmann í Ómari Ragnarssyni og það kæmi mér ekki á óvart að sjá hann í framboði í vor. Hvort sem það verður á lista VG eða í sérstökum “umhverfisflokk.” Ómar hefur um árabil verið gríðarlega öflugur fréttamaður og ósjaldan fjallað um náttúru Íslands. Þess vegna hlustar fólk þegar Ómar talar um þessi mál. Aftur á móti missti hann fljótlega marks hvað varðar mig persónulega þegar hann fór að tala um að hætta við að fylla lónið og láta stífluna standa óhreyfða og ónotaða.  Þvílík firra.

 

En það að Ómar skyldi fá 10 þúsund manns með sér í göngutúr niður Laugarveginn segir allt sem segja þarf um áhuga Íslendinga á umhverfisvernd. Raunar hefur mér fundist Reykvíkingar tala hæst um umhverfisvernd í réttu samræmi við fjarlægðina frá Reykjavík.

 

Það voru ekki umhverfissjónarmið sem réðu ríkjum þegar umræðan um Vatnsmýrina var sem hæst, nei, þá voru það viðskiptasjónarmið.  Stækkunin í Straumsvík fær enga umfjöllun miðað við Kárahnjúka svo ekki sé talað um Hellisheiðavirkjun sem er þvílíkt mannvirki. Nei, svo þegar það á að virkja hinum megin á landinu á stað sem ég hafði ekki einu sinni heyrt um áður en kom að þessu (Reyndar aldrei verið sleipur í landafræði) þá fer allt á hliðina í kaffihúsunum í Reykjavík.

 

Umhverfismál verða eitt af aðalmálunum í vor og þar koma VG einir flokka sterkir til leiks.  Samfylkingin er ótrúverðug í sínum málflutningi, flokkur sem samþykkir virkjunina en eftir að almenningsálitið breyttist þá breytist viðhorfið. Gerist í alltof mörgum málum fyrir minn smekk hjá þeim flokki.  Framsókn er höfundur og í ábyrgð fyrir virkjuninni í hugum landsmanna. Erfitt fyrir þau en að mínu mati hefur flokkurinn ekkert til að skammast sín fyrir. Sjálfstæðisflokkurinn ber ekkert minni ábyrgð en einhvern veginn ekki lent í orrahríðinni. Veit ekkert hvar Frjálslyndir standa, það er alveg sama hvað sá flokkur byrjar að tala um, hann endar alltaf í röfli um kvótakerfið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband