Það hefur verið athyglisvert að fylgjast með prófkjörum Samfylkingarinnar síðustu vikur og ætti spennan að ná hámarki um helgina þegar prófkjör flokksins í höfuðborginni verður.
Í flokki sem fyrir tveimur árum gekk í gegnum erfið formannsskipti, þar sem vinsæll foringi var felldur og vonarstjarna, forsætisráðherraefni og verðandi leiðtogi landsins tók við. Össur út fyrir Ingibjörgu.
Ekki nóg með að þarna voru pólitískir samherjar leiddir saman í blóðugt einvígi þá eru þau bundin fjölskylduböndum sem gerði vígið enn dramatískara. Eftir lá karlinn Össur en valkyrjan Ingibjörg stóð eftir sigri hrósandi. Flokkurinn skiptist í tvær fylkingar sem síðan þá hafa barist hatrammri baráttu um völdin í flokknum og hvert einvígið á fætur öðru hafa skilið eftir sig blóðug spor í valdastiga Samfylkingarinnar.
Í formannseinvíginu tókust á tveir armar Samfylkingarinnar, leifar gömlu vinstri flokkanna á Íslandi. Vinstri armur gamla kvennalistans og allaballa gegn krötunum. Síðustu vikurnar hafa vígamenn Össurar reynt að ná aftur fótfestu í flokki sem sífellt dregst lengra til vinstri á hinni pólitísku víglínu. Þeir hafa fellt varðmenn foringjans víðs vegar í prófkjörum en komið skylmingaþrælum hins skeggjaða að.
Þannig náði gamall vinur Össurar, Kristján Möller glæsilegri kosningu í norðaustur kjördæmi á meðan Lára Stefánsdóttir vinkona formannsins náði ekki sínum markmiðum. Bardaginn hélt svo áfram í norðvesturkjördæmi og enn versnaði staða formannsins. Vígamenn hins skeggjaða kolfelldu Önnu Kristínu Gunnarsdóttur en komu skólastjóranum og góðvini líffræðingsins, Guðbjarti að.
Nú héldu margir að nóg væri komið og til að formaðurinn héldi einhverri reisn þá yrðu sverðin slíðruð og vígamenn þingflokksformannsins drægju sig í hlé. En, ónei, áfram skyldi barist og varð kraginn næsti vígvöllur innanflokksátakanna. Nú skyldi Þórunni þingmanni fórnað á altari hefnda. Það tókst og Gunnar Svavarsson er nýr oddviti. Af sex kjördæmum landsins voru nú stuðningsmenn Össurar í oddvitastöðu í þremur og eftir að velja á þrjá lista.
Næst var það sveitin og suður með sjó. Suðurkjördæmið og mikilvægt fyrir formanninn fallandi að halda reisn með því að fá einn sinn dyggasta stuðningsmann, Lúðvík Bergvinsson þar í leiðtogasæti. Enn brást herkænska formannsins og bloggarinn og grínistinn Össur hló innra með sér þegar hans dyggasti stuðningsmaður, Björgvin G. Sigurðsson vann yfirburðasigur. Fjögur vígi fallin og aðeins höfuðborgin eftir og líkt og í góðri spennumynd bíður dramatíska lokauppgjörið í lokin. Össur og Ingibjörg, Reykjavík suður og Reykjavík norður.
Hinn næsti leiðtogi Íslands þarf góða kosningu um helgina. Til þess að sneypuför vonarpeningsins inn í íslensk stjórnvöld endi ekki með skömm þarf hún yfirburðastuðning í efsta sæti listans. Stuðningsmenn líffræðingsins hugsa sér gott til glóðarinnar.
Trúnaðarmenn foringjans í Reykjavík naga nú neglurnar og skjálfa óttaslegnir um eigin framtíð eftir að hafa horft upp á hvert tapað einvígi á eftir öðru. Mörður Árnason, Helgi Hjörvar og Ágúst Ólafur berjast nú fyrir sinni pólitísku framtíð. Líklegt er að einhverjum þeirra verður fórnað af vígamönnum rithöfundarins og bloggarans, Össurar Skarphéðinssonar.
Það er því ljóst að Samfylkingin logar stafnana á milli, nú tveimur árum eftir formannskjörið. Reyndar er flokkurinn klofinn enn frekar í herðar niður í afstöðu annarsvegar Reykjavíkurarm flokksins og hins vegar landsbyggðararm. Þannig hafa virkjanamál verið bannorð á fundum flokksins af ótta við að klofningur flokksmanna komi í ljós og nýleg sala á Landsvirkjun sýndi svo ekki um var að villast að ágreiningur er djúpur. Reykjavíkurarmur sagði kaupverðið allt of lágt meðan landsbyggðararmurinn hreinlega stóð að sölunni með íhaldinu.
Hvernig flokkurinn ætlar sér svo að koma sameinaður til kosninga eftir nokkra mánuði skal ósagt látið.
...einhvern veginn svona hefði Össur Skarphéðinsson lýst síðustu vikum ef um væri að ræða Sjálfstæðisflokkinn.
Nei, segi bara svona ...
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | 8.11.2006 | 13:32 (breytt kl. 13:38) | Facebook
Færsluflokkar
Tenglar
Heimsótt reglulega
Bloggvinir
Nóv. 2024 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | |||||
3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 |
10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 | 16 |
17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 | 23 |
24 | 25 | 26 | 27 | 28 | 29 | 30 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.