Nú er síðasta leik sumarsins lokið á Hásteinsvelli. Óhætt er að segja að ÍBV hafi lokið sinni keppni á heimavelli með hvelli. Stærsti sigur sumarsins hingað til alla vega, leit dagsins ljós í vægast sagt brjáluðu veðri. ÍBV náði þeim frábæra árangri að fara í gegnum Íslandsmótið án þess að tapa stigi á heimavelli, 100% árangur. Síðast náði ÍBV þeim árangri árið 1998 en þá vann ÍBV Íslandsmeistaratitilinn. Þetta er frábær árangur hjá Heimi og peyjunum. Umræðan um bann við notkun á Hásteinsvelli skyggir þó á þennan árangur og óvissan um stöðu ÍBV í deild þeirra bestu.
Það hefur verið talað um Hásteinsvöll sem einn besta grasvöll landsins í mörg ár. Hann er enn á meðal þeirra bestu en kröfurnar breytast. Það eru ekki mörg ár síðan ÍBV þótti vera með eina bestu aðstöðu fyrir yngri flokka á landinu. Með alla sína grasvelli og félög víðs vegar á Íslandi dáðust af stöðunni í Eyjum. Á fáum árum duttum við aftur fyrir mörg af þeim félögum sem við berum okkur saman við. Félög byggðu eða fengu inni í knattspyrnuhúsum og nú var hægt að æfa knattspyrnu allt árið. Eitthvað sem þarf að gerast ef árangur á að nást. ÍBV hefur barist fyrir því í mörg ár að slíkt hús rísi hér í Eyjum. Nú eru framkvæmdir hafnar, verið er að grafa fyrir húsinu og knattspyrnufólk í Eyjum sér loksins fram á byltingu í vetraraðstöðu sinni. Enn á þó eftir að bjóða byggingu hússins út og á meðan slíkt er óljóst bíða fagnaðarlætin.
Áhersla KSÍ hefur verið að bæta aðstöðu áhorfenda. Kröfurnar eru ríkar og að mínu mati of miklar á bæjarfélög eins og Vestmannaeyjar. KSÍ hefur gengið of langt í metnað sínum gagnvart knattspyrnusambandi Evrópu (UEFA). Ísland er eitt af sautján Evrópuþjóðum sem eru með sama leyfiskerfið fyrir landsmót og Evrópukeppni. KSÍ setur sig þar á stall með þjóðum eins og Grikkland, Rúmeníu, Póllandi, Þýskalandi, Austurríki,Danmörku, Hollandi og Belgíu. Á meðan ganga þjóðir eins og Tékkland, Ítalía, Spánn og England ekki eins langt og við í leyfiskerfinu. Ekki ætla ég að fara nánar út í það hér enda veit ég að Gísli Hjartarson (Foster) er að vinna vandaða úttekt á þessu máli.
Málið snýst hins vegar um metnað félaganna. KSÍ er ekkert annað en samtök utan um félögin í landinu. Og þau hafa samþykkt þetta leyfiskerfi. ÍBV hefur mótmælt þessu sem og fleiri félög en tillagan um þetta kerfi var samþykkt af meirihluta félaganna og við þurfum við að sætta okkur við það ef við viljum halda úti knattspyrnuliði í Eyjum. Hins vegar liggur vandinn kannski í því að um leið og ÍBV þarf að beygja sig undir reglur KSÍ er það bærinn sem á völlinn sem um ræðir. Og bæjaryfirvöld eru ekki með stúkubyggingu á dagskrá. Svo einfalt er það mál.
Stúkubyggingunni hefur verið stillt upp á móti byggingu knattspyrnuhússins. Það þykir mér ekki rétt. Fyrir það fyrsta hefur legið fyrir frá árinu 2001 að það þurfi að byggja yfirbyggða stúku við Hásteinsvöll. Það hafa bæjaryfirvöld vitað í öll þessi ár og mér skilst að bréf frá bæjaryfirvöldum sé til þar sem lofað er slíkri byggingu. Ákvörðun um byggingu knattspyrnuhúss var tekin löngu eftir að stúkumálið kom fyrst inn á borð bæjaryfirvalda. Annað hvort hafa bæjaryfirvöld gleymt því máli þegar knattspyrnuhúsið var samþykkt eða vísvitandi ætlað að hundsa þær kröfur. Eins er ekki sanngjarnt að stilla ÍBV upp við vegg og biðja um val á milli. Annars vegar er um að ræða framkvæmd sem gjörbyltir knattspyrnuaðstöðu allra iðkenda í Eyjum og hins vegar byggingu sem kemur eingöngu við meistaraflokk félagsins. Það hefur komið skýrt fram hver vilji ÍBV er, knattspyrnuhúsið skal rísa.
En vandamál Hásteinsvallar þarf að leysa. Ég er sannfærður um að ef menn setjast niður og ræða málin þá sé hægt að komast að samkomulagi. Þar þurfa allir aðilar að gefa eftir af sínum kröfum. Nú þegar eru sæti fyrir 535 við Hásteinsvöll. Reyndar er afskaplega fámennt oft í stúkunni þó talið sé inn hátt í 500 áhorfendur. Menn hafa sinn stað á Hásteinsvelli, það er staðið á hólnum og meðfram vellinum sunnan megin og þar hafa menn og konur staðið í mörg ár. Það breytist ekki þó stúkan sé með þaki. Þetta er hluti af sjarmanum við Hásteinsvöll og ég trúi ekki öðru en að menn vilji halda slíkum sjarma. Þess vegna tel ég að lausnin í þessu felist í að byggja yfir þau sæti sem nú eru. Það þyrfti ekki að kosta mikinn pening en um leið þyrfti að koma vilyrði frá KSÍ að slík lausn myndi duga til þess að halda keppnisleyfi á Hásteinsvöll á næstu árum.
Krafan um 700 manna stúku er nokkurra ára gömul og eins og bent hefur verið á hefur Eyjamönnum því miður fækkað mikið síðan þá. Að sama skapi hefur áhorfendum sem koma á Hásteinsvöll fækkað. Þess vegna er vel hægt að að færa rök fyrir því að 535 sæti duga eins og staðan er í dag. Það eru ekki mörg ár síðan fulltrúar KSÍ komu til Eyja og veittu viðurkenningu fyrir gott starf í grasrótinni. Byggðir hafa verið tveir gervigrasvellir við skólanna í bænum og ÍBV hefur staðið gríðarlega vel við menntun þjálfara og starf í yngri flokkum.
Sú staða gæti komið upp í kvöld að ÍBV tryggi sér sæti í Landsbankadeild karla, takist Stjörnunni ekki að vinna Fjarðabyggð. Ef ekki þá er ljóst að ÍBV þarf aðeins 1 stig út úr síðustu þremur leikjunum til þess að vinna sér aftur sæti í deild þeirra bestu. Ég hef enga trú á því að KSÍ muni beita hörku í þessu máli og banna ÍBV að spila í Eyjum. En menn verða að geta sest niður og rætt málin. Það er sáttarhugur í bæjarstjóranum okkar í Vaktinni í morgun og það er gott.
Þetta mál er gamalt og ekki hægt að hengja það á núverandi stjórnendur bæjarins. Þetta er fortíðarvandi sem brýnt er að leysa núna. Það kemur í hlut Elliða og félaga. Vonandi í góðri sátt við ÍBV og KSÍ.
Hef fulla trú á því.
Þetta er heimavöllur Esbjerg í Danmörku. Þar sem Gunnar Heiðar spilar núna. Völlurinn tekur 16.500 áhorfendur , 5.600 af þeim í sæti. Í borginni búa tæplega 115.000 manns. 15% bæjarbúa kæmust á völlinn en aðeins 4,5% þeirra gætu fengið sér sæti. Eins og sést eru aðeins efstu sætin "yfirbyggð".
Í Eyjum eru sæti fyrir tæplega 14% íbúa í dag.
Á wikipedia er lýsingin á Hásteinsvelli svona:
Hásteinsvöllur is a multi-use stadium in Vestmannaeyjar, Iceland. It is currently used mostly for football matches. The stadium holds 3,540.
Flokkur: Íþróttir | 29.8.2008 | 14:32 (breytt kl. 14:56) | Facebook
Færsluflokkar
Tenglar
Heimsótt reglulega
Bloggvinir
Nóv. 2024 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | |||||
3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 |
10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 | 16 |
17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 | 23 |
24 | 25 | 26 | 27 | 28 | 29 | 30 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Góð grein hjá þér Svenni. Mikil tölfræði og greinilegt að stærðfræðiáfanginn er að skila sér.
Magnús Bragason, 1.9.2008 kl. 21:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.