Mikið afskaplega er gaman að sjá allar þessar fréttir um Þjóðhátíðina á mbl.is. Reyndar finnst mér athyglisvert hvað vond veðurspá selur meira en góð (búinn að vera góð langtímaspá alveg þangað til í gær...)
Svo er það með húsnæðið. Í fréttinni segir að íbúð þar sem 10 geta gist eigi að kosta 250.000 krónur. Ég velti því fyrir mér hvort það er í raun svo dýrt. Þarna gista 10 einstaklingar í 3 nætur. Hver einstaklingur borgar þá 25.000 krónur fyrir gistinguna. Það gerir rúmar 8.300 krónur fyrir nóttina.
Hvað kostar gisting almennt?
Hundruð þúsunda fyrir íbúð í Eyjum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | 29.7.2014 | 14:35 (breytt kl. 14:36) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Stjórnmál og samfélag | 26.4.2013 | 11:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Nú þegar framboðsfrestur er runnin út er ljóst að hér í Suðurkjördæmi verða ellefu framboð til kosninga. Aðeins fjögur þeirra voru í boði fyrir fjórum árum síðan. Þegar kosningalöggjöfinni var breytt árið 2000 má segja að gömlu valdaflokkarnir hafi lagt ýmsar hindranir fyrir óþægileg klofningsframboð. Um leið gerði fjórflokkurinn nýjum flokkum mun erfiðara um vik að komast að. Þeir byggðu upp lagabálk til að verja sín sæti.
Hvatning til að kjósa annað en samviskan segir
Þingmenn flokkanna höfðu ekki miklar áhyggjur af þeim hindrunum sem settar voru upp, heldur fór mestur tími umræðunnar á Alþingi í að rökræða hvar kjördæmin skyldu skiptast og hvernig þingmannasæti flökkuðu á milli kjördæma. Forystumenn og helstu stuðningsmenn þessara sömu flokka ganga nú um og hvetja til þess að kjósa ekki minni framboðin, því þá gæti atkvæðið þitt dottið niður. Reyndar er VG þarna undanskilið enda sá flokkur kominn í þá stöðu að vera að berjast með nýju framboðunum við 5% þröskuldinn.
Ný framboð með allt að þriðjungs fylgi
En er það svo að atkvæðið er að detta niður ef flokkur nær ekki takmarkinu? Nei, alls ekki heldur þvert á móti er nauðsynlegt að fjórflokkurinn fái þau skilaboð úr kosningunum að stór hluti þjóðarinnar vill ekki þessi öfl við völd. Miðað við kannanir sem eru þó ansi misvísandi þessa dagana þá gætu ný framboð til Alþingis fengið upp undir 30% af atkvæðum í komandi kosningum. Stór hluti af þeim myndi ekki enda í þingsætum en myndi senda skýr skilaboð um að breyta kosningalöggjöfinni þannig að ægivald fjórflokksins á Alþingi okkar Íslendinga hverfi.
Tímasett aðgerðaráætlun
Það má segja að hver og einn ætti að geta fundið sitt framboð af þeim sjö nýju sem nú bjóða fram. Allt frá róttækum vinstri flokkum, nokkrum krataflokkum og síðan eru Hægri grænir, eina framboðið sem getur talist hægra framboð. Við erum reyndar líka eina framboðið sem hefur tímasett þær aðgerðir sem ráðast á í. 17. júní 2013 verða öll verðtryggð húsnæðislán innkölluð og lánað aftur út í óverðtryggðum húsnæðislánum. 1. desember 2013 verða gjaldeyrishöft afnumin með upptöku ríkisdals.
Það eru lausnir komnar fram. Ég hvet ykkur til að kynna ykkur málin á xg.is.
Sigursveinn Þórðarson oddviti Hægri grænna í Suðurkjördæmi.
(Greinin birtist í Eyjafréttum í síðustu viku)
Stjórnmál og samfélag | 22.4.2013 | 08:55 (breytt kl. 08:56) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Í þeim kosningum sem senn fara fram eru ákveðnar línur farnar að myndast varðandi Evrópusambandið. Samfylkingin og Björt framtíð vilja halda aðildarviðræðum gangandi á meðan önnur framboð vilja annað hvort hætta þeim strax eða fara með áframhald viðræðna í þjóðaratkvæðagreiðslu líkt og Hægri grænir hafa boðað. Reyndar er orðið samningaviðræður í besta falli rangnefni og í versta falli blekking hvað varðar Ísland og Evrópusambandið. Ég hef allavega ekki orðið var við fréttir þess efnis frá Brussell að sambandið hafi breytt lögum sínum til að mæta kröfum Íslands í samningaviðræðunum. Flestir kaflar hafa verið opnaðir og aðeins örfáir eftir þegar ríkisstjórnin ákvað að draga í land í aðlögunarferlinu.
Frjáls verslun
Allir flokkar fyrir komandi kosningar hafa sína stefnu hvað varðar Evrópusambandið en Hægri grænir, flokkur fólksins er eini flokkurinn sem vill líta í báðar áttir í alþjóðasamstarfi. Evrópusambandið er langt í frá eini valmöguleiki okkar. Í raun getur það verið okkur skaðlegt að lokast inni í tollmúrabandalagi Evrópusambandsins. Nýverið var sagt frá fríverslunarsamningi Íslands við Kína, sá samningur félli sjálfkrafa úr gildi ef við göngum inn í ESB, eins og aðrir alþjóðlegir samningar okkar við ríki utan Evrópusambandsins.
Nýja Norðrið
Miklir möguleikar eru að opnast á norðurslóðum og þar eru hagsmunir okkar miklir vegna legu landsins. Lokum ekki á þau tækifæri með því að framselja samningavald okkar til Brussel. Við eigum að stefna að frekari fríverslunarsamningum við lönd vestan Atlantshafsins. Hægri grænir, flokkur fólksins hefur það á stefnu sinni að óska eftir viðræðum við NAFTA ríkin um tvíhliða fríverslunarsamninga. Eins eigum við að horfa til BRIKS landanna, sem eru Brasilía, Rússland, Indland, Kína og Suður Afríka. Við erum með EES samninginn sem vissulega þarf að endurskoða en Ísland verður að hafa fleiri möguleika í alþjóðlegu samstarfi en fjarstýring frá Brussel býður upp á. Lítum til beggja átta.
Sigursveinn Þórðarson viðskiptalögfræðingur og oddviti Hægri grænna í Suðurkjördæmi.
(Grein sem birtist í Morgunblaðinu í síðustu viku)
Stjórnmál og samfélag | 11.4.2013 | 08:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hvernig tókst að plata þig í þetta, var spurning sem ég fékk fljótlega eftir að ég ákvað að taka efsta sæti á lista Hægri grænna fyrir komandi kosningar til Alþingis. Ég viðurkenni það að ég var á báðum áttum. Það er ekki hægt að segja að stjórnmál hér á landi séu mikils metin, að góð ímynd fylgi starfi á þessum vettvangi. Traust á Alþingi og stjórnmálaflokka er í sögulegu lágmarki. En er þá ekki einmitt tækifæri til að gefa sig í þetta, fá nýja sýn og nýtt fólk til starfa? Breyta ímyndinni, breyta kúltúrnum.
Icesave ýtti okkur úr vör
Hægri grænir, flokkur fólksins var stofnaður fyrir fyrstu Icesave deiluna. Formaður flokksins, Guðmundur Franklín Jónsson hafði ásamt öðrum góðum mönnum barist hatrammlega gegn samþykkt Icesave samningsins. Alltaf var því haldið fram að um ólögvarðar kröfur væri að ræða. Flokkurinn var síðan formlega stofnaður 17. júní 2010 og hafa síðustu ár farið í að móta stefnu flokksins. Sú stefna sem hefur verið mótuð er einmitt ástæðan fyrir því að ég sagði já þegar ég var beðinn um að taka sæti á framboðslista flokksins.
Hugsum í lausnum
Það þarf að hugsa í lausnum. Hið íslenska flokkakerfi er úrelt og við þurfum nýtt blóð á Alþingi Íslendinga og á fleiri staði. Margir hafa afgreitt nýjar hugmyndir sem töfralausnir. Setningar eins og: Þetta er ekki hægt, og hver á eiginlega að borga þetta, heyrast oft og þá yfirleitt frá pólitíkusum úr S flokkunum, Samfylkingu og Sjálfstæðisflokks eða þeirra dyggustu stuðningsmönnum. Þetta höfum við heyrt. Stefna flokksins um kynslóðasáttina er afgreidd í einu orði út af borðinu. Engin ástæða hvers vegna, engin rök af hverju, heldur af því bara, þetta er ekki hægt. Ný hugsun og önnur nálgun á verkefnum hlýtur oft slík örlög. Fólk nær ekki að hugsa út fyrir boxið, ef það hefur verið inn í því of lengi. Vandamál S-flokkana er einmitt það að endurnýjun eftir hrun hefur verið of lítil. Gamla hugsunin ræður enn ríkjum, ný sýn kemst ekki að.
Kynslóðasátt
Kynslóðasáttin er leið til að ná langþráðum sáttum í þessu samfélagi sem við búum í. Hægri grænir eru ekki að finna upp hjólið í þessum efnum, heldur líta á það sem vel er gert annarsstaðar og tileinka sér það. Ríkisstjórn Bandaríkjanna fór þessa leið eftir bankahrunið 2008 og bjargaði þannig húsnæðiskerfi sínu. Sáttin felst í lækkun höfuðstóls lánanna um allt að 45%. Sú lækkun fer eftir lántökudegi og miðast við hvenær Íslendingar tóku upp MIFID reglugerð Evrópusambandsins. Grundvöllur fyrir kynslóðasáttinni er sú að enn höfum við myntsláttuvaldið og löggjafavaldið. Hægri grænir vilja innkalla öll verðtryggð húsnæðislán þann 17. júní 2013. Þau verða öll keypt af sérstökum sjóð sem settur er upp í Seðlabankanum sem lánar sjóðnum á 0,01% vöxtum. Hann lánar húsnæðiseigendum aftur óverðtryggð lán með 7,65% vöxtum til allt að 75 ára. Það fer eftir afborgunargetu hvers og eins. Lækkun höfuðstóls um allt að 45%. Miðað við útreikninga sem lagðir hafa verið fram gæti halli á sjóðnum sem myndast við niðurfærsluna verið allt að 400 milljarðar. Vaxtamunurinn, þ.e. 7,65 0,01 = 7,64% greiðir þann halla niður á 9-15 árum, það fer eftir hversu vel gengur að innheimta láninn. Þetta er stutta útskýringin á kynslóðasáttinni, frekari upplýsingar um hana er hægt að nálgast á xg.is og eins hefur verið útbúið stutt myndband um leiðina sem nálgast má á youtube vefnum undir heitinu https://www.youtube.com/watch?v=9t6RH-CiQy4.
Þú átt valið 27. apríl
Það stefnir í að kjörseðillinn fyrir komandi Alþingiskosningar verði í stærra lagi, svo ekki sé meira sagt. Hér í Suðurkjördæmi hafa tólf framboð meldað sig til leiks þó enn sé ekki útséð hversu mörg verði með þegar á hólminn er komið. Sú staðreynd gæti dregið úr möguleikum einstakra framboða að hafa áhrif, að ná að vera mótvægi gegn fjórflokknum sem er nauðsynlegt íslensku samfélagi. Flokkar eiga ekki að vera stofnanir, byggðir upp á ríkisstyrkjum, heldur lifandi samkoma einstaklinga sem vilja betra samfélag handa okkur öllum.
Sigursveinn Þórðarson, viðskiptalögfræðingur og oddviti Hægri grænna í Suðurkjördæmi.
(Grein þessi birtist í Eyjafréttum á fimmtudaginn. Hér er lengri útgáfan)
Stjórnmál og samfélag | 6.4.2013 | 19:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Ein mesta goðsögn síðari ára hjá Liverpool hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna góðu í sumar. Það er mikil eftirsjá í þessum mikla karakter fyrir okkur stuðningsmenn Liverpool.
Ferill hans hjá Liverpool hefur verið ótrúlega farsæll. Eftir að hafa alist upp sem stuðningsmaður Everton byrjaði hann að æfa hjá Liverpool 9 ára gamall. Eftir það var ekki aftur snúið. Ég las fyrir nokkrum árum ævisögu kappans. Fyrir stuðningsmenn Liverpool er þetta must read bók og fyrir aðra áhugamenn um fótbolta get ég líka mælt með henni. Þar er ekkert dregið undan og félagið, önnur félag og aðrir leikmenn fá sinn skammt, hvort sem það er af hrósi eða gagnrýni.
Í fótboltanum í dag er mjög sjaldgæft að leikmaður leiki aðeins fyrir eitt félag allan sinn feril. Liverpool á tvo svona, Carragher og Gerrard en munurinn á þeim tveimur er sá að Gerrard gældi við þá hugmynd að fara yfir til Chelsea árið 2006. Ég man ekki eftir að Carragher hafi nokkurn tíma opnað á slíkan möguleika. Sem betur fer fyrir Liverpool ákvað Gerrard að vera áfram og hafa þeir tveir verið tákngervingar klúbbsins á afskaplega erfiðu tímabili sem félagið hefur verið að ganga í gegnum. Hvorugur mun nokkurn tíma lyfta enska meistaratitlinum sem leikmenn en þeir hafa lyft öllum öðrum titlum sem í boði hafa verið. Það er afrek!
Oft hef ég heyrt brandarann um hvaða leikmaður hafi skorað flest mörk fyrir Arsenal gegn Liverpool. Svarið: Jamie Carragher. Ekki alveg rétt en brandarinn er betri svoleiðis (held að hann sé í þriðja sæti yfir markahæstu leikmenn Arsenal gegn Liverpool...)
Carragher hefur skorað þrjú mörk fyrir Liverpool í þessum rúmlega 700 leikjum. Hann byrjaði sinn feril sem miðjumaður en fór fljótlega í vörnina. Fyrst sem bakvörður og síðar sem miðvörður þar sem hann hefur notið sín best. Hann er mjög hávær varnarmaður og það er ljóst að með hann í vörninni eru aðrir varnarmenn á tánum. Eitthvað sem hefur vantað með þá Skrtel og Agger í hjarta varnarinnar þetta árið.
Það verður mikil eftirsjá í þessum frábæra leikmanni. Hann hefur ekki tækni Messi, hraða Ronaldo eða skotgetu Gerrards. En hann hefur ótrúlega næmt auga fyrir staðsetningu, er leiðtogi innan vallar og eftir því sem heyrist frá Bítlaborginni utan vallar líka.
We all dream of team of Carragher...http://www.youtube.com/watch?v=V1eACW9GIXE
Carragher leggur skóna á hilluna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Enski boltinn | 8.2.2013 | 13:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Langar að byrja að taka það fram að ég hef verið á móti inngöngu í ESB frá upphafi. Hins vegar hef ég líka verið talsmaður þess að við tölum um hlutina af einhverri skynsemi en ekki með upphrópunum og persónulegum níðköstum eins og tíðkast hefur. Ég er þeirrar skoðunar að við séum sirka 30-40 árum á eftir Svíum og Norðmönnum þegar kemur að röksemdarfærslu, debate. Við dettum ennþá alltaf niður í drullupottinn. Látum vaða í manninn, í staðinn fyrir að tækla boltann.
Þó ég sé mótfallinn því að Ísland gangi inn í ESB þá er ég um leið ekki að segja að allt sé helvíti sem kemur frá sambandinu, langt frá því. Ísland mun eignast marga kosti ef það verður niðurstaðan. Við fáum okkar kosti en við þurfum að taka gallana líka. Öll umræða eða komment sem snúa einungis að öðru þessara tveggja er áróður og ber að taka sem slíkri.
Það eru nokkrir hlutir sem munu breytast á Íslandi:
1. Innflutningur Við munum fá meira vöruúrval, einfaldlega vegna þess að tollamúrar munu hverfa. Fleiri vöruflokkar munu vera í boði en það verður okkar (neytenda) að sjá til þess að bestu verðin verða til staðar.
2. Útflutningur Við verðum í verri aðstöðu ef við göngum í ESB. Í dag eigum við góða markaði í Asíu, Rússlandi og víða með okkar fiskafurðir sem við missum ef við göngum í ESB. Samingur við ESB miðast við það að allir aukasamningar detta úr gildi og við göngumst undir þá heildarsamninga sem ESB hefur gert við sömu ríki. (Í sumum tilvikum örugglega betri samningar, í sumum tilvikum lakari).
3. Myntin Við getum í fyrsta lagi eftir 20 ár vonast eftir því að ganga inn í myntbandalagið (skilaboð bæði frá Íslandi og ESB). Ef við göngum inn í ESB þá er líklegt að krónan verði látin fljóta með Evrunni. Það þýðir það að næstu áratugina verðum við sem sömu slöku kjörin eða hvað? (kjörin sem við höfum í dag).
4. Frjálst flæði varðandi vinnu Þetta er kostur sem við höfum í dag í gegnum EES samninginn. Mun eitthvað breytast í þeim efnum?
5. Frjálst flæði fjármagns okkar stærsta vandamál í hruninu. Við gátum ekki stoppað það í hruninu út af EES samningnum, og hefðum ekki haft neinar varnir ef við hefðum verið í ESB.
6. Sameiginlegir dómstólar Ég velti fyrir mér hvort það sé gott eða slæmt? Mismunandi hefðir og fleira gerir það að verkum að við gætum átt erfitt með að kyngja sumum dómum ESB. (þeir eru ráðgefandi í dag vegna EES en ekki fordæmisgefandi).
Örugglega margt annað sem þarf að skoða frá öllum sjónarhornum en lykilatriðið fyrir okkur er að taka ákvörðun eftir yfirvegaða umræðu en ekki sleggjudómakjaftæði ...
Bloggar | 20.1.2013 | 00:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Heldur finnst mér álitsgjafar og sumir stjórnmálamenn ganga langt í túlkun á niðurstöðum í kosningunum á laugardaginn. Kjörseðill sem hafði orðið ráðgefandi" í hausnum og orðin til grundvallar" er orðinn að plaggi sem ekkert má hrófla við. Bindandi fyrir þing og þjóð. Það eina sem stuðningsmenn tillagnanna gætu hugsanlega sætt sig við væru breytingar frá lögfræðihóp sem fer nú yfir tillögurnar (hefði ekki átt að gera það fyrir kosningarnar??) og hópurinn á að meta hvort ákvæðin auki líkur á málssókn á hendur ríkinu.
Ég man bara eftir einum aðila sem kom fram fyrir kosningar og sagði að ef meirihluti myndi segja já við fyrstu spurningunni yrði að nota tillögurnar óbreyttar. Það var Þorvaldur Gylfason, einn fulltrúa í stjórnlagaráði. Enginn tók undir þetta sjónarmið hans fyrir kosningarnar. En margir hafa stokkið á vagn Þorvaldar eftir kosningar.
Helst hefur verið deilt um kosningaþátttöku og finnst mér hálf pínlegt núna hvernig Ragnar Reykás" hefur fundið sér stað í fólki. Þeir sem gerðu lítið úr 75% þátttöku í Icesave kosningunum eða gerðu lítið úr forsetakosningunum síðustu tala nú um frábæra kosningaþátttöku, jaðrar meira að segja við heimsmeti að mati eins froðusnakksins. Eins eru sumir þingmenn sjálfstæðismanna algjörlega úti að aka við mat á þessu, til dæmis Birgir Ármannsson.
Staðreyndin er sú að helmingur þjóðarinnar hafði nógu mikinn áhuga á þessu til að mæta á kjörstað. Það er ekki mikil kosningaþátttaka, burtséð frá því hvernig þetta er í Sviss eða annarsstaðar. Hins vegar er þetta það fólk sem nýtti sér lýðræðislegan rétt sinn til að kjósa. Á aðra verður ekki hlustað enda hefur enginn, hvorki þeir sem eru með eða á móti tillögunum neitt fyrir sér til að túlka vilja þeirra sem sátu heima.
Athyglisverðast finnst mér hins vegar að skoða hlutfall þeirra sem skiluðu auðu. Ég hreinlega skil ekki hvernig þær tölur hafa algjörlega dottið út úr öllum fjölmiðlum, af hverju er ekki minnst á það að 18-20% þeirra sem MÆTTU á kjörstað skiluðu auðu við spurningum 2-6? Nei, þeim er bara skóflað í burtu og reiknað upp á nýtt miðað við þá sem tóku afstöðu til já eða nei. Er ekki alltaf sagt að með því að mæta og skila auðu sértu einmitt að taka afstöðu? Hefur það áður gerst að svo stór hluti skili auðu í kosningum á Íslandi?
Úrslit kosninganna voru að flestu leyti eftir bókinni. Í raun má segja að aðeins úrslit við einni spurningu úr einu kjördæmi hafi komið á óvart (mér allavega) en það var úr Suðurkjördæmi við spurningunni um jöfnun atkvæða. Meirihluti kjördæmisins sagði já við því á meðan hin tvö landsbyggðarkjördæmið" sögðu nei með afgerandi hætti. Velti fyrir mér hvers vegna svona ólík niðurstaða fékkst hjá okkur í Suðurkjördæmi.
En þetta verður semsagt forgangsatriði á þinginu í vetur. Ekki skuldir heimilanna, vaxandi gjaldþrot litlu og meðalstóru fyrirtækjanna á Íslandi, ekki skortur á nothæfum tækjum á spítölum landsins, þar sem næsta skref er líklega að hafa rafvirkja viðstaddar allar skurðaðgerðir ef tækin skyldu nú bila, nú eða lögbrot bankastofnana og íslenska ríkisins vegna gengislána.
Þetta eru allt hlutir sem geta beðið, enda bráðliggur á að skipta út okkar stjórnarskrá sem hefur reynst okkur illa og skapað skelfilega óvissu í fjölmörgum málum.........eða hvað?
Stjórnmál og samfélag | 24.10.2012 | 22:01 (breytt kl. 22:07) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þar sem það er aðeins rúmlega vika í kosningar um breytingar á stjórnarskrá íslenska lýðveldisins ákvað ég að skrifa örfáar línur um .... fótbolta.
Ég hef verið mjög hugsi yfir viðbrögðum manna vegna fáránlegrar dýfu Luis Suarez í síðasta leik Liverpool. Menn hafa hópast saman í að fordæma þennan knattspyrnumann, kalla hann nöfnum allt frá svindlarar og yfir í viðbjóð.
Fótbolti er íþrótt sem gengur að mörgu leyti út á að svindla, eða reyna að svindla. Knattspyrnumaður tæklar annan og vonast til að komast upp með það, mótmælir dómnum jafnvel þó augljóst sé að tæklingin var ólögleg. Þú öskar gult spjald á andstæðinginn fyrir leikaraskap þó augljóst sé að dæma átti vítaspyrnu og þú lyftir upp hendinni og heimtar öll innköst og allar hornspyrnur/markspyrnur sem möguleiki er á. Öllum finnst það eðlilegt. Í síðustu viku skoraði leikmaður Ipswich mark með því að slá boltann inn og beið aðeins...og þegar dómarinn dæmdi mark þá hljóp hann út að hornfána og fagnaði. Engum þótti það athugavert.
Luis Suarez gerði sig sekan um barnalega hegðun á móti Stoke. En áður en það gerðist hafði hann verið sparkaður niður nokkrum sinnum, trampað á takkaskóm á bringunni á honum og togað í treyjuna til að hægja á honum. En fyrirsagnirnar snérust um leikaraskapinn. Það er í lagi svo sem, enda á svona ekki að sjást. En Gareth Bale frábær leikmaður Tottenham, sem fékk flest gul spjöld fyrir leikaraskap á síðustu leiktíð sýndi svipaða leikhæfileika en það hefur farið fyrir ofan garð og neðan og lítið spjallað um það. Hvers vegna?
Leikaraskapur er því miður partur af fótbolta. Valencia fiskaði ódýra vítaspyrnu á móti Liverpool. Fjölmörg dæmi eru um leikaraskap, hvort sem er hjá leikmönnum Liverpool, Man.Utd., Arsenal, Chelsea eða öðrum liðum. Svo erum við með dæmi um leikmann sem hafa opinberlega viðurkennt að hafa slasað annan leikmann. Það er hörkutól væntanlega...
Annars hef ég stórar áhyggjur af Man.Utd. aðdáendum. Þeir virðast mjög umhugað um Liverpool og láta flest allt sem þar gerist fara í taugarnar á sér. Nú (því miður) er Liverpool ekki sá klúbbur sem þeir þurfa að óttast en það virðist engu máli skipta, þeir (margir hverjir) geta ekki komið Liverpool út úr hausnum á sér.
Annars sá ég flottan lista um daginn um samlíkingu fyrirtækja og fótboltaliða, þ.e. hvaða fyrirtæki líkist mest fótboltaliðinu. Þrennt á listanum fannst mér mjög fyndið:
Liverpool British Airways (Still popular even though they havent been good since the 80s)
Newcastle Department of transportation (Handing out long-term contracts without thinking them through)
Norwich IKEA (Cheap to assemble but wont stay up for long)
Íþróttir | 11.10.2012 | 21:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Get eiginlega ekki orða bundist yfir þeim rasisma sem birtist í þættinum Pepsi mörkin áðan þegar talið barst að ÍBV. Reyndar ekkert nýtt að Hörður Magnússon finni allt til foráttu sem frá Eyjum kemur en ég varð hreinlega orðlaus yfir brottfluttum Eyjamanni, Tómasi Inga og Reyni Leósyni álitsgjöfum.
Nú er það svo að öll félög á Íslandi, í efstu deildum sýsla með leikmenn. Flest skiptin gerast á milli liða á höfuðborgarsvæðinu, allt í góðu með það. En smáborgarahugsun þremenningana þegar kemur að erlendum leikmönnum er nokkuð sem ég hélt að væri hreinlega orðin útlæg á Íslandi. Skiptir virkilega svona miklu máli hvaðan leikmaðurinn kemur?
Ég tók að gamni saman hversu margir uppaldir leikmenn hafa spilað fyrir klúbbana sína í þessum þremur fyrstu umferðum. Það er athyglisvert en aldrei nokkurn tímann fáum við umræðu um það varðandi önnur lið, bara ÍBV. Það eru eitt lið sem hefur notað fleiri uppalda en aðkeypta í fyrstu þremur umferðunum, það er Stjarnan, 10 af 18. Reykjavíkurliðin tvö, Fram og Valur hafa notað fæsta uppalda, Fram 3 af 14 og Valur 2 af 16. Vantar ekki hjartað í þessi lið?
ÍBV er á svipuðum stað og KR og Selfoss. Hafa notað fáa uppalda, ÍBV 4 af 15. Þetta er þróunin í boltanum en hún virðist bara vera í lagi ef leikmennirnir bera íslenskt nafn, annars ekki.
Skýrari mynd af þröngsýni og rasisma hef ég ekki orðið var við lengi í sjónvarpi.
Annað vítið var rugl að mati Magnúsar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Pepsi-deildin | 15.5.2012 | 23:41 (breytt 16.5.2012 kl. 00:56) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Færsluflokkar
Tenglar
Heimsótt reglulega
Bloggvinir
Nóv. 2024 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | |||||
3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 |
10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 | 16 |
17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 | 23 |
24 | 25 | 26 | 27 | 28 | 29 | 30 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar