Síðustu daga hafa auglýsingar frá aðilum sem eru á móti stórhættulegu kvótakerfi núverandi ríkisstjórnar verið áberandi á öldum ljósvakans. Um leið hafa skæruliðar ríkisstjórnarinnar sett sig í stellingar og hrópað hversu ógeðfelldar auglýsingarnar eru. Allir sem þar koma fram hljóta að vera á launaskrá LÍÚ. Vibbalið...
Hrópherrar Jóhönnu eru duglegir að benda á þetta og setja alla undir sama hatt. Hvort sem um er að ræða verkstjóra í Grindavík eða sjómann að vestan. Allir hljóta þeir/þau að tala máli mafíunnar. Enginn hefur sjálfstæða skoðun .... nema þau.
Einn af þeim sem hefur gengisfellt sig hvað mest þegar kemur að pólitískum skrifum er Illugi Jökulsson. Hann hefur manna harðast gagnrýnt málþóf sjálfstæðisfólks á þingi undanfarna daga. Nýverið var birtur listi yfir lengstu ræður á Alþingi síðustu tvo áratugi. Þingmenn (núverandi og fyrrverandi) Vinstri grænna og Samfylkingar raða sér þar í efstu sætin, töluðu jafnvel í yfir 5 klukkustundir! Jóhanna forsætisráðherra var í topp 20 með ræðu upp á rúmar 4 klukkustundir. Þetta sýnir þá sorglegu staðreynd að það fólk/flokkar sem hneykslast hvað mest á þeirri taktík sem nú er í gangi er í raun það fólk sem fann upp málþóf. Þá vaknar upp sú spurning hver er sorglegur í þessum efnum?
Nú hefur Illugi skrifað nýja grein til stuðnings sínu fólki en um leið gerir hann lítið úr öðru fólki. Talar um að það jaðri við siðleysi að fólk segi sína skoðun. Hann lætur að því liggja að þeir sem tala hafi ekki sjálfstæða skoðun, heldur sé allt matað ofan í þau. Og jafnvel hefur fólk fengið greitt fyrir að segja það sem sagt er! Um er að ræða kvótafrumvarpið.
Ömurlegt til þess að hugsa að Illugi Jökulsson hafi ekki meiri trú á fólkinu í landinu en svo að fólk þurfi að fá borgað fyrir að tala...
Stjórnmál og samfélag | 13.5.2012 | 00:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Upphlaupið á Alþingi í gær var svolítið súrealískt. Hægri menn stóðu þá fyrir málþófi á þingi. Ég þekki nú nokkra hægri menn sem ég veit að hefðu ranghvolft augunum og hrist höfuðið ef þetta hefðu verið vinstri menn sem stóðu fyrir þessu. Þeir hafa svo sem gert það í gegnum tíðina og lengi vel var þetta trix kennt við vinstri menn. Steingrímur Joð hefur svo sem staðið hinum megin við borðið og talað hægar og meira en síðustu ár.
En í gærkvöldi voru þingmenn Sjálfstæðisflokksins í farabroddi, héldu langar ræður og mjög ítarlegar (sumar). Með því komst Sjálfstæðisflokkurinn í veg fyrir að þjóðaratkvæði yrðu haldið um ákveðin atriði í hugmyndum að tillögu að frumvarpi sem síðar yrði lagt hugsanlega fram á Alþingi. Þetta áttu að vera ráðgefandi álit þjóðarinnar út frá tillögum stjórnlagaráðs.
Það er tvennt sem ég hef að athuga við þetta. Í fyrsta lagi er þetta einn vitlausasti tími til að endurskoða stjórnarskránna okkar sem hægt var að finna. Meirihluti þjóðarinnar er í uppnámi eftir áföll síðustu ára. Egó þjóðarinnar hrundi á einni nóttu, með einni setningu. Guð blessi Ísland.
Á þeim tíma er beinlínis stórhættulegt að ætla sér að móta stjórnarskrá sem á að vernda þegna landsins næstu hundrað árin eða svo. Á svoleiðis tímum fá öfgar að njóta sín.
Reyndar er ég að mörgu leyti hrifinn af tillögum stjórnlagaráðs. Kannski bara út af því að ég hef hrifist með síðustu misseri? Kannski er ég bara reiður út í allt og allt? Kannski langar mig bara í breytt samfélag sem boðið er upp á?
Og á hverju er byggt? Tillögu 25 vel meinandi fólks sem situr í skjóli tveggja stjórnmálaflokka sem ákváðu að hunsa æðsta dómstól landsins. Hæstiréttur hafði dæmt kosningu fólksins ógilda, á tæknilegum atriðum sem engu máli skipta sagði fólk. Það er ástæða fyrir því að kosningalöggjöf er ströng. Þetta er grundvöllur lýðræðis. Kannski skipti þetta engu máli þegar upp var staðið en getur einhver fullyrt um það?
En þá kemur að hinu atriðinu atriðinu sem ég set stórt spurningamerki við. Það er ekki þannig að ég, sem Íslendingur fái að kjósa um tillögur stjórnlagaráðs í heilds sinni. Nei. En fæ ég að kjósa um tillögurnar allar, lið fyrir lið? Nei. Ég fæ að kjósa um ákveðnar hugmyndir stjórnlagaráðs um ákveðin málefni. Já. Og hver ákveður hvaða málefni skipta þjóðina máli í þjóðaratkvæðagreiðslunni og hver ekki?
Jú, það eru þingmenn vorir. Og miðað við umræðuna í gær virðist það bara vera stuðningsmenn núverandi ríkisstjórnar, þ.e. Samfylkingar, VG og Hreyfingarinnar. Hvað ætli það sé stór hluti þjóðarinnar sem styður þá stjórnmálaflokka í dag?
Þess vegna er ég hjartanlega sammála Sjálfstæðisflokknum í þessum málum. Þeir gerðu þjóðinni greiða með því að standa í vegi fyrir því að þetta mál færi í þjóðaratkvæði á sama tíma og við kjósum nýjan forseta.
Í þessu máli verðum við að flýta okkur hægt og nota skynsemina...
En kaldhæðnin er samt til staðar. Vinstri menn hneykslast á hægri mönnum fyrir að beita málþófi á þingi og hægri menn hlakka yfir árangrinum.
Davíð er orðinn af Jóhönnu og Bjarni Ben er Steingrímur Joð gærdagsins.
Stjórnmál og samfélag | 30.3.2012 | 23:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Nú þegar Landsdómur er kominn saman í fyrsta skiptið er sorglegt að ekki skuli vera hægt að fá útsendingu frá dómnum. Líklega hefði "Sannleiksnefnd" verið betri kostur fyrir okkur, í beinni útsendingu þar sem allir sem hlut eiga að máli yrðu kallaðir til.
Líkur á sakfellingu á Geir eru sáralitlar, held að flestir séu sammála um það. Lögspekingar tala um óljósa ákæruliði. Það á margt eftir að koma í ljós við þessi réttarhöld og svekkjandi fyrir almúgann að þurfa að treysta á misjafna fjölmiðlamenn til að segja okkur frá. Tek reyndar fram að mér fannst frásögn gærdagsins í góðu lagi hjá fjölmiðlum.
Mér fannst athyglisvert að daginn eftir atkvæðagreiðsluna á Alþingi, þar sem tillögu Bjarna Ben var vísað frá kom frétt í Fréttablaðinu um það að Landsdómur myndi seinka öllum málum sem hefðu fordæmisgildi fyrir Hæstarétt. Af hverju var það ekki í umræðunni fyrir atkvæðagreiðsluna? Af hverju var það ekki fréttapunktur fyrir atkvæðagreiðsluna. Var einhver þingmaður sem minntist á það?
Nú má semsagt búast við enn frekari töfum á dómum er snerta lán almúgans meðan pólitísk réttarhöld standa yfir.
Stjórnmál og samfélag | 6.3.2012 | 16:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ég er mikill áhugamaður um sagnfræði. Að horfa um öxl og jafnvel læra af þeim mistökum sem mannfólkið gerir. Ég myndi líklegast teljast nærsýnn í sagnfræðinni því ekkert glepur mig meira en nærsamfélagið. Vestmannaeyjar, í nútíð og þátíð.
Þess vegna svíður sú umræða, sú arfavitlausa umræða sem er um kvótakerfið í dag í hinni háu borg, Reykjavík. Það er líklega það sveitarfélag sem lætur hvað mest í sér heyra um kvótakerfið. Um ósanngirnina, kvótakóngana og lénsherrana sem stjórna hér öllu. Það sveitarfélag sem hefur hvað minnstu hagsmuni að gæta í þeim efnum.
Sá sem kynnti mig fyrir og kenndi mér allt um fiskveiðistjórnun er minn gamli yfirmaður, ritstjórinn Ómar Garðarson. Kosti og galla þess kerfis sem nú er ásamt ástandinu sem var áður en þetta kerfi var sett á. Held að það ástand sé hollt að rifja upp þegar fólk fer að gagnrýna núverandi ástand.
Allur floti Vestmannaeyja var auglýstur til sölu í heilssíðuauglýsingu í Mogganum (minnir mig). Það vildu allir losna út úr greininni, það sá enginn neina framtíð í henni. Hallarekstur ár eftir ár, ríkið kom til bjargar og í raun var þannig um búið að það græddi enginn en allir höfðu lágmarkslaun.
Svo var sett á kvótakerfi. Fjölmargir fengu úthlutaðan kvóta, sumir höfðu unnið fyrir honum áratugum saman á meðan aðrir sem höfðu unnið stutt við greinina fengu sína úthlutun. Það þurfti að miða við eitthvað þegar slíkt var sett var af stað og niðurstaðan var , þrjú ár aftur í tímann og úthlutun gagnvart veiðireynslu.
Síðan hafa liðið þrír áratugir og aldrei hefur náðst sátt. Mesta ósáttin er um það að einstaklingar hafa getað selt sig út úr greininni með hundruð milljón króna hagnaði. Það hefur gerst hér í Eyjum sem annarsstaðar. Að mínu mati svarta hlið kerfisins.
En við gleymum alltaf, þegar við ræðum um þá sem hafa selt sig út úr greininni, kvótakvikindin sem sitja nú og sötra sangría á Spáni að það var einhver sem keypti. Jú, seljandi þarf kaupanda og ef einn fær 100 milljónir fyrir veiðiheimildir, þá er einhver að borga 100 milljónir fyrir veiðiheimildir.
En fjölmiðlafígúrur og þeir sem stjórna umræðunni ná alltaf að láta hlutina snúast um þá sem seldu en minnast aldrei á þá sem keyptu.
Einn ötullasti baráttumaður gegn fiskveiðistjórnunarkerfinu er sjónvarpsmaðurinn Egill Helgason. Það er eitthvað við kerfið sem fer illilega í hann. Þetta er vandaður sjónvarpsmaður sem hefur lagt sig í líma við að kynna fyrir okkur almúganum hinar ýmsu stjórnmála- og hagræðikenningar sem í gangi eru í okkar stóru heimsskringlu. Vikulega birtast textaðar lýsingar frá heimsfrægum heimspekingum á sínu sviði.
En þegar kemur að fiskveiðistjórnun þá dettur hann niður í ömurlegt svarthol. Þetta er okkar mikilvægasta atvinnugrein, fiskurinn hefur alltaf verið okkar aðall. Ólíkt því sem haldið var fram, að við værum á leiðinni að verða alþjóðafjármálasvæðiÐ. En Egill, fremur en svo mörgum öðrum er alveg sama um forsöguna, alveg sama um hvernig hlutirnir gengu fyrir sig. Í dag hlýtur þetta að vera ósanngjarnt ef einhver er að græða.
Tökum fræðilega umræðu, ekki tilfinningalega.
Stjórnmál og samfélag | 4.3.2012 | 00:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hann var ekki lengi að fara úr friðarstól og verða umdeildur stjórnmálamaður hann Geir Jón, nú fær hann yfir sig svívirðingar í netheimum og engu líkara, miðað við umræðuna að hann hafi nafngreint ákveðna stjórnmálamenn og haldið því fram að þeir hafi stjórnað Búsáhaldarbyltingunni. Meira að segja reyndir fjölmiðlamenn eins og Egill Helgason falla í þessa gryfju. Ég efast um að margir af þeim sem hafa tjáð sig um þetta mál hafi hlustað á viðtalið við Geir Jón á Sprengisandi síðastliðinn sunnudag.
Mín skoðun á honum breyttist ekkert við það að hann ákvað að fara í framboð fyrir Sjálfstæðisflokkinn og hefði heldur ekkert breyst þó hann hefði farið í framboð fyrir aðra flokka. Ég hef alltaf litið á Geir Jón sem heiðarlegan mann sem ég hef miklar mætur á. Það hefur ekkert breyst út af þessu máli. Ég skrifaði upp þann hluta viðtalsins sem snéri að þessu máli og birti það hér.
SME (Sigurjón M. Egilsson)
GJÞ (Geir Jón Þórisson)
Geir Jón á Sprengisandi
SME Þegar ég tala við þig er eðlilegt að tala um þau miklu átök sem urðu hér 2008 og byrjun árs 2009 og þú varst í farabroddi lögreglunnar þar. Þú með þínar pólitísku hugsjónir, langaði þig einhvern tíma að taka þátt í þessu öðruvísi en sem embættismaðurinn?
GJÞ Ég leyfði mér aldrei að hugsa þannig. En ég get alveg sagt það að mig sárnaði að sjá hvað þetta voru mjög pólitísk mótmæli. En ég gerði mér far um að tala við forystufólk, eða þau sem höfðu sig mest í frammi til þess að reyna að milda, til að mótmælin yrðu ekki eins átakamikil og búast mætti við og urðu á ákveðnum tímapunkti. Mitt var auðvitað númer eitt, tvö og þrjú að standa mína plikt.
SME Má ég spyrja þig, má ég skilja þig þannig að hluta af þessum mótmælum hafi verið stýrt pólitískt?
GJÞ Já.
SME Af kjörnum fulltrúum?
GJÞ Já.
SME Af þingmönnum?
GJÞ Já.
SME Þú varst vitni af því. Þú sást það í þínu starfi?
GJÞ Já.
SME Þetta er svolítið alvarlegt mál, ef þetta var þannig því að eins og þú sagðir áðan þá á tímabili var þetta gjörsamlega að fara úr böndunum og fór úr böndunum. Það voru sko líf í hættu.
GJÞ Það mátti engu muna á ákveðnum tímapunkti. Það sem gerðist og er á heimsmælikvarða, heimsatburður, það voru mótmælendur sjálfir, fyrir framan stjórnarráðið þann 21. janúar þegar fór að líða á nóttina, þá stigu þau fram, ákveðinn hópur mótmælenda og varði lögregluna. Þetta hefur aldrei gerst neinsstaðar í heiminum nema hér. Ég var afskaplega stoltur og ánægður að sjá að þarna var fólkið búið að fá alveg nóg. Það sá það að þarna var verið að búa til eitthvað stríð gegn lögreglunni, grýta mannlaust hús fyrir aftan lögregluna og lögreglan gerði ekkert annað en að standa vörð og fá grjótið á sig. Þarna verður viðsnúningur, vendipunktur í þessu öllu saman. Þá verður til þessi rauðgula bylting, mótmælendur á móti ofbeldi. Þá fóru þeir sjálfir að taka til og hafa áhrif á það fólk sem ætlaði að halda áfram að grýta eftir þennan atburð, fóru sjálfir að taka þá til hliðar og stoppa þá af. Þarna var umbreyting mikil og ég held að það sem bjargaði þessu það, að við ákváðum það þarna strax, yfirstjórn lögreglunnar með lögreglustjórann í brodda fylkingar að við myndum gera allt til þess að mótmælin færu ekki í ofbeldis, og átök. Við myndum frekar þola, eins og við gerðum, eins og við gerðum og láta á okkur brjóta að ákveðnu marki. Það slösuðust níu lögreglumenn í þessum átökum 20. og 21. janúar 2009. Auðvitað vildum við ekki að það gerðist en það hefði getað farið miklu verr og orðið miklu langvinnari átök ef lögreglan hefði ekki sett upp þetta fyrirkomulag og skipulag sem hún gerði.
SME Og það er, þessi breyting verður 21. janúar þegar menn ganga fram fyrir skjöldu og verja lögregluna. Ef ekki, þetta var allt að verða verra og verra, eldar voru kveiktir og allt þetta.
GJÞ Ég vill ekki hugsa til þess hvað myndi gerast...
SME (grípur orðið) Við þurfum þess ekki en þú sagðir áðan, að kjörnir fulltrúar, eru einhverjir jafnvel sem eru í ríkisstjórn í dag sem tóku þátt í undirbúningi og höfðu áhrif á...
GJÞ (grípur orðið) Nú vil ég ekki fara út í nánar þetta en það er alveg ljóst að það voru gerendur á sviðinu sem voru framarlega í stjórnmálum og eru enn í dag. Og ég gerði það sem ég gat til að tala við fólk sem stóðu næst og bað um að yrði á tekið vegna þess að við lögreglan, vorum ekki í neinum átökum við stjórnmálamenn, við vorum að reyna að verja vinnustað stjórnmálamanna til að þau fengju frið til að vinna vinnuna sína og menn tóku þessu alvarlega og ég átti góð samtöl við marga úr öllum stjórnmálaflokkum og sem betur fer þá fór þetta ekki verr.
Steingrímur Joð vill ekki sitja undir svona dylgjum.
Álfheiður Ingadóttir kallar hann lygara.
Hvað gerir Geir Jón annað en að svara spurningum Sigurjóns? Var þetta viðtal virkilega tilefni slíkra heiftarlegra viðbragða?
Og er ekki eðlilegt að menn velti fyrir sér hlutverki þingmanna og opinberra persóna í mótmælunum?
Stjórnmál og samfélag | 28.2.2012 | 17:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Að vera stuðningsmaður Liverpool í dag er svolítið snúið. Bæði er árangurinn inn á vellinum ekki nógu góður, alla vega ekki í deildinni og svo er árangurinn utan vallar skelfilegur. Ef það væri til tafla yfir PR félaga í ensku deildinni væri Liverpool án vafa í fallsæti.
Mál félaganna, Suarez og Evra er skólabókardæmi um hvernig almenningsálitið sveiflast eftir því hvernig menn ná að koma frá sér sínu máli í fjölmiðlum. Þar skíttapaði Liverpool fyrir erkifjendunum í Man.Utd.
Ef við byrjum á byrjuninni, þ.e. leik Liverpool og Man.Utd. í haust þar sem þeim félögum lenti saman með þeim afleiðingum að Suarez var dæmdur í 8 leikja bann fyrir kynþáttafordóma. Gríðarlega harður dómur, miðað við þá einföldu staðreynd að sönnunargögn voru takmörkuð, og byggði úrskurðurinn algjörlega á framburði Evra. Nú er ég alls ekki að segja að hann hafi logið einhverju, heldur verða, að mínu mati að liggja fyrir óyggjandi sannanir fyrir slíku því núna er Suarez brennimerktur rasismi um ókomna tíð.
Í því sambandi er rétt að rifja upp byrjunina á þessu máli. Evra sagði sjálfur í vitnisburði sínum að hann hafi notað miður falleg orð um systir Suarez. Svipuð taktík og Marco Materazzi notaði á einn besta knattspyrnumann sögunnar, Zinedine Zidane í úrslitaleik HM. Þeim samskiptum lauk þannig að Zidane skallaði Materazzi, fékk réttilega rautt spjald. Það sem gerðist hins vegar í kjölfarið var að Materazzi varð skúrkurinn þegar kom í ljós hvað hann gerði til að ögra Zidane. Materazzi fékk í kjölfarið tveggja leikja bann.
Hvergi, nema á einstökum spjallsíðum stuðningsmanna Liverpool hefur Evra fengið á sig gagnrýni fyrir þennan hlut. Þetta er ekkert stórmál að mati aðila. Þetta var ekki stórmál í augum aganefndar FA, þeim fannst sem sagt í lagi að Evra skyldi niðurlægja systur Suarez á þennan hátt. Það er í lagi að hálfu leikmanna að tala niðrandi til annarra leikmanna og fjölskyldna þeirra, svo lengi sem ekki sé minnst á kynþáttinn. Svolítið sérstök skilaboð en í ljósi þeirra pólitísku rétthugsunar sem er í gangi í heiminum þá er þetta rétt mat. United menn unnu PR-ið varðandi þetta og náðu að mála Evra sem fullkomið fórnarlamb og Suarez fékk ímynd Kölska.
Tökum annað mál sem hefur mikið verið í umræðunni undanfarið og er orðið lögreglumál. Terry vs Ferdinand. Terry á að hafa sagt við Ferdinand: You fucking black cunt. Ljótt orðbragð, engin spurning. En ef Terry hefði sagt: You fucking cunt. Þá hefði ekki farið að stað lögreglurannsókn, Terry væri ennþá fyrirliði enska landsliðsins og Capello ennþá þjálfari! Og ef við snúum þessu við, hefði Ferdinand sagt við Terry: You fucking white cunt hefði ekki verið minnst á þetta í fjölmiðlum, það er ég viss um.
Viðbrögð Liverpool í kjölfar kærunnar voru að mínu mati klaufaleg. Viðurkenni fúslega, sem harður Púlari að þetta er eftir á skoðun hjá mér. Ég var hrifinn af samstöðu leikmanna, þjálfara og stuðningsmanna. En umræðan í kjölfarið var ekki um samstöðu eða slíkt, heldur að með því að standa með Suarez væru leikmenn Liverpool, stjórn félagsins og knattspyrnustjóri að samþykkja kynþáttaníð! Þrátt fyrir tilraunir félagsins til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri náðist aldrei að láta umræðuna snúast um samstöðu eða stuðning, heldur var Liverpool að verða eitt óvinsælasta félagslið í heimi vegna þess að það gúdderaði kynþáttaníð. Nú er ég að tala um hlutlausa áhugamenn um fótbolta í þessu máli, þ.e. sem hvorki halda með Liverpool eða Man.Utd.
Svo kom úrskurður FA í málinu, upp á 140 blaðsíður um eitt orð. Negrito. Ekki Nigger eins og margir halda sem lítið fylgjast með og finnst mér það lýsandi dæmi um hversu illa Liverpool hefur tekist að halda uppi sínum málstað. Niðurstaðan var 8 leikja bann. Menn hafa fengið mest (að mig minnir) 5 leikja bann fyrir ofbeldi inn á vellinum. Það er álitið minna brot að fótbrjóta einstakling viljandi í knattspyrnuleik en að kalla mann Þú litli svarti maður. Aftur fannst mér Liverpool bregðast kolrangt við í afstöðu sinni til úrskurðarins. Félagið hafði gagnrýnt FA harðlega í yfirlýsingu. Fóru í þeirri yfirlýsingu yfir allt sem varðaði þetta mál, frá þeirra sjónarhorni. Ekki var annað hægt að lesa út úr þeirri yfirlýsingu að Liverpool ætlaði sér að standa með sínum manni og berjast gegn því óréttlæti sem þeim fannst beitt gegn leikmanninum og félaginu.
Hvað gerist svo? Jú, félagið ákveður að áfrýja ekki úrskurðinum, því þeim þótti einsýnt að ekkert kæmi út úr því nema að Suarez fengi einn leik í viðbót í bann. Og hvernig var þetta túlkað í fjölmiðlum? Liverpool neitar að viðurkenna sök en þora ekki að áfrýja. Þetta eru nú meiru kynþáttahatarnir hjá þessu félagi. Svei attan. Auðvitað átti félagið að berjast með öllum tiltækum ráðum, miðað við hvernig félagið hafði haldið á sínum málum.
Og þá að stóra handabandamálinu. Það var alveg ljóst frá upphafi að stórleikurinn, Man.Utd. Liverpool myndi snúast um eitthvað allt annað en fótbolta. Og áður en leikurinn byrjaði voru fyrirsagnirnar skrifaðar. Suarez tók ekki í höndina á Evra. Nú geta menn deilt um aðdragandann og hvernig Evra var með höndina þegar kom að honum en það skiptir nákvæmlega engu máli. Suarez var búinn að gefa það út til sinna yfirmanna að hann ætlaði sér að taka í höndina á honum og viðbrögð hans, þ.e. að gera það ekki var algjört dómgreindarleysi að hans hálfu. Hann hefur síðan beðist afsökunar á þessu, sem og félagið. En skiptir það einhverju máli, úr því sem komið er? Liverpool hefur tapað og það steinlegið í áróðursstríði sínu við Man.Utd.
Meira að segja sér enginn í gegnum hræsnina í orðum Ferguson í kjölfar leiksins. Fjölmiðlar gleypa það hrátt að Ferguson gagnrýni hann fyrir að heilsa ekki Evra. Þessi sami Ferguson hefur innan sinna vébanda í gegnum tíðina þurft að verja kynþáttaníð leikmann síns og þá staðreynd að tveir leikmenn United neituðu að heilsa leikmanni Arsenal hér um árið. Stundum veltir maður fyrir sér hvað Ferguson þarf að segja til að fjölmiðlamenn á Bretlandi staldri við og leggi gagnrýnið mat á orð kappans.
Þáttur FA er svo kapítuli út af fyrir sig. Áðurnefnt atvik milli Terry og Ferdinand var leyst þannig að það var hætt við að hafa handabandið fyrir leik QPR og Chelsea um daginn. Hvern var verið að verja þar, Terry eða Ferdinand? Hefði ekki hægt að fara sömu leið fyrir þennan leik og láta leikinn snúast um fótbolta en ekki handaband? Kannski. En það breytir ekki þeirri skoðun minni að viðbrögð Suarez voru kolröng.
Þegar öllu er á botninn hvolft þá hefur þetta mál eyðilagt tímabil Liverpool. Þó við vinnum Carling Cup og jafnvel FA Cup líka þá verður þetta tímabilið sem Suarez gerði allt vitlaust á Englandi. Og kannski verður þetta eina heila tímabil leikmannsins á Englandi. Ég væri alla vega að hugsa mig um ef ég væri í hans sporum, hvort ég vilji vera í landi þar sem ég er úthrópaður rasismi og alveg sama hvað ég segi héðan í frá verður túlkað út frá þeirri sýn. Grunar að Suarez spili á Spáni á næsta tímabili.
En félagið þarf að hugsa sinn gang. Það er greinilegt að félagið hefur ekki mjög sterka tengiliði inn á helstu fjölmiðla Englands, annað en Man.Utd. Fyrir mig er þetta mál búið að vera allt of fyrirferðamikið í pressunni, það er að mestu Liverpool að kenna. En United hefur greinilega byggt upp sterkt net í fjölmiðlaheiminum og eiga talsmann á hverju blaði, fólk sem tekur undir málstað þeirra og heldur þeim á lofti.
Enski boltinn | 14.2.2012 | 15:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Ég er hvumsa yfir þeim fréttum að þingið ætli að setja á fót stjórnlagaráð með þeim 25 einstaklingum sem fengu flest atkvæði í ólöglegri kosningu til stjórnlagaþings. Það hefur nákvæmlega engan rétt frekar en aðrir íbúar þessa lands að vera skipaðir í þessa nefnd. Réttast væri, ef það á að fara þá leið að ríkið hreinlega auglýsi eftir fulltrúum og farið verði faglega yfir það og þeir sem hæfastir geta talist til að fjalla um stjórnarskránna verði ráðnir til starfans.
Það er sorlegt hjá núverandi stjórnvöldum að ætla sér að hunsa þannig dóm Hæstaréttar. Sýnir hvað pólitískur rétttrúnaður getur verið hættulegur. Vinstri ríkisstjórnin hefur haft það sem eitt af sínum meginmarkmiðum að setja þetta stjórnlagaþing á laggirnar. Ekkert athugavert við það. En til þess að svo geti orðið ákveður Alþingi íslendinga, sem nota bene hefur það hlutverk að setja lög fyrir lýðinn að hunsa dóm æðsta dómstóls hér á landi.
Er í lagi ef þú ert ósammála dóm að virða hann að vettugi?
Ekki kosið til stjórnlagaþings | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | 25.2.2011 | 12:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hef verið að velta fyrir mér undanfarið á meðan börnin mín skottast í kringum mig í vinnunni hvort sú staðreynd að leikskólar í Eyjum loki samfellt í fimm vikur yfir sumartímann án tillits til óska foreldra sé meðvituð ákvörðun um það þjónustustig sem bæjarstjórnin vill veita eða hreinlega íhaldssemi og að halda í gamlar hefðir. Var þetta ekki upphaflega sett á vegna þess að stöðvarnar lokuðu samfellt ákveðin tíma yfir sumartímann? Kannski ætti einhver að bjalla upp í ráðhús og benda þeim á að það er hætt og í raun er svo mikið að gera núna í stöðvunum að þar er unnið á tólf tíma vöktum.
Ég er reyndar á því að þetta sé meðvituð ákvörðun um það þjónustustig sem þessi bæjarstjórn vill veita. Annars væru þau auðvitað búin að laga þetta, búin að hafa fjögur ár til þess!
Ég prísa mínu sæla að ég sé að vinna á stað þar sem ég get haft krakka hjá mér en ekki til dæmis í stöðvunum.
Kannski er þetta bara krafa frá þeim sem vinna á leikskólunum?
Bloggar | 16.7.2010 | 14:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Ég var að lesa frétt á visir.is um umræður á Alþingi í nótt. Þar var rætt um grein Helga Hjörvars í Fréttablaðinu þar sem hann benti réttilega á að nýju bankarnir hafi fengið góðan afslátt af íbúðarlánum frá kröfuhöfum sínum erlendis frá þegar skuldirnar voru fluttar úr gömlu bönkunum. Samt gefa nýju bankarnir ekki þumlung eftir gagnvart hinum almennu skuldurum. Vissulega er svigrúm til þess, segir Helgi og hafa stjórnarþingmenn tekið undir með honum.
En ríkisstjórnin hlustar ekki. Ríkisstjórnin lítur allt öðrum augum á þetta og telur sig hafa gert mikið fyrir heimilin í landinu.
Samkvæmt stjórnarþingmanninum, Lilju Mósesdóttur hafa 400 Íslendingar getað nýtt sér greiðsluaðlögun síðasta árið. 400 !!! Ef nýtt frumvarp verður samþykkt gæti þessi tala hækkað upp í 2000.
Er fólk ekki að grínast?
22000 á vanskilaskrá og mun fleiri á leiðinni þangað út af bankahruni. Ekki út af fjárfestingafylleríi. Það voru aðrir að gambla með peningana og almenningur þarf að borga fyrir þetta.
Enn og aftur finnst mér sannast að hin svokallaða "búsáhaldarbylting" var ekkert annað en valdarán vinstri flokkana á Íslandi. Því ef það væri vottur af réttlætiskennd í þeim sem stóðu á Austurvelli með steikarpönnuna sína þá væru þau komin aftur þangað. En nei, mikill meirihluti þeirra sem þar voru tel ég að hafa verið blindir stuðningsmenn VG sem voru til í að gera allt til að koma sínu fólki að.
Hvað hefur breyst síðan þá?
Jóhanna hefur breyst í Ingibjörgu Sólrúnu, Steingrímur Joð talar sama mál og Geir Haarde. Stjórnvöld hafa slegið skjaldborg um fjármálastofnanir og virðast enginn úrræði hafa til að leysa þá sjálfsögðu réttlætiskröfu að fólk sem tók 10 milljón króna lán borgi af 10 milljón króna láni, ekki 17-18 milljón króna láni.
Ömurleg staða sem ég hef enga trú á að breytist og því miður virðist engu máli skipta hver situr í hvaða stól... Alltaf breytist afstaðan um leið og ráðherrastóllinn er kominn undir rassgatið á þessu liði.
Stjórnmál og samfélag | 16.6.2010 | 09:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Það fór svo að Liverpool lét Benitez fara, eftir svipaðan tíma við stjórnvölinn og Houllier þar áður. Eitthvað sem segir mér að næsti stjóri Liverpool verði ekki svo lengi við stjórnvölinn...
Veit ekki með aðra en hjá mér er Kenny Dalglish sá sem ég vill helst að taki við. Alla vega þangað til eigendamálin leysast. Það eru þvílíkir óvissutímar hjá félaginu. Einhversstaðar las ég ágætis lýsingu á ástandinu. "Við erum að taka Newcastle á þetta en döðrum við að verða næsta Leeds"
Fannst þetta ágæt lýsing á hörmungarástandi hjá þessum sögufræga klúbb.
King Kenny væri akkúrat límið sem myndi halda, alla vega tímabundið liðinu saman að mínu mati. Gríðarlega virtur innan félagsins og ég hef trú á því að bæði Torres og Gerrard væru tilbúnir í alla vega eitt season með honum.
Ef Dalglish fær ekki starfið væri næsti á óskalistanum Martin O'Neill. Hann myndi aftur koma með "passion" inn í félagið sem Benitez tókst alveg að drepa niður. Hann hefur náð frábærum árangri með minni spámenn á undanförnum árum, Leicester hér á árum áður og núna Aston Villa.
Sá þriðji væri svo Roy Hodgson. Frábær árangur með Fulham á síðasta tímabili. Hefur gríðarlega reynslu og væri kannski ágætis millikafli á meðan innanhúsmál félagsins eru leyst.
Á eftir þeim þremur kæmu svo: Lippi, Sven Goran Eriksson, Deschamp....
Enski boltinn | 9.6.2010 | 08:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Færsluflokkar
Tenglar
Heimsótt reglulega
Bloggvinir
Jan. 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | |||
5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 |
12 | 13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 |
19 | 20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 |
26 | 27 | 28 | 29 | 30 | 31 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar