Ég veit eiginlega ekki hvar ég að byrja. Hér í Eyjum er hávær hópur sem kennir sig við Frjálslynda flokkinn sem berst hatramlega gegn Bakkafjöru. Þar fremst í flokki fara Goggi útgerðarmaður og formaður frjálslynda og Hanna Birna frambjóðandi. Meira að segja hefur fyrrverandi þingmaður þeirra, Magnús Þór sem flúði kjördæmið verið með hróp og köll um íbúalýðræði.
Hvernig er íbúalýðræði á Íslandi?
Jú, það felst í kosningum. Í síðustu bæjarstjórnarkosningum í Vestmannaeyjum buðu þrír flokkar fram. Sjálfstæðisflokkurinn og Vestmannaeyjalistinn voru sammála varðandi framtíðarsamgöngur Vestmannaeyja. Númer eitt voru jarðgöng, tvö Bakkafjara og þrjú nýr Herjólfur. Á öndverðum meiði komu Frjálslyndir sem lögðu alla sína áherslu á nýtt skip sem sigldi til Þorlákshafnar.
Og hvernig fóru kosningarnar?
Frjálslyndum var hafnað. Þeirra stefnumál áttu ekki upp á pallborðið hjá Eyjamönnum. Sjálfstæðisflokkurinn vann stórsigur og hafa óskorðað vald okkar Eyjamanna til að taka ákvarðanir í okkar nafni. Vestmannaeyingar vilja ekki nýjan Herjólf. Þetta var eitt af stóru kosningamálunum. Goggi og co það er búið að kjósa um þetta og niðurstaðan er skýr.
Svo er líka athyglisvert að heyra fulltrúa Frjálslyndra hrópa um íbúalýðræði. Aðeins einu sinni hefur verið kosið um eitthvað mál á sveitastjórnarstiginu. Það var um Reykjavíkurflugvöll. Það er beinlínis á stefnuskrá Frjáslyndra að hunsa þær kosningar.
Bloggar | 23.10.2007 | 08:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Verð nú að kommenta aðeins á þetta. Clattenburg gerði tvö mistök í leiknum en dæmdi að öðru leyti mjög vel. Bæði þessi atriði féllu með mínum mönnum í Liverpool. Hann leyfði leiknum fljóta, var ekki flautandi á allt og þar af leiðandi var þetta hin besta skemmtun.
En dómarar gera mistök, eins og leikmenn. Kannski er best fyrir hann að hvíla sig eina helgi. Það voru margir "krúsíal" dómar í leiknum.
1. Víti og rautt á Hibbert. Hárrétt enda Gerrard að sleppa einn í gegn og fáránlegt að segja að það hefði átt að dæma aukaspyrnu þar sem Hibbert byrjaði að toga í hann fyrir utan teig. Hann hélt því áfram inn í teig. Síðan hvenær á sá brotlegi að hagnast á brotinu?
2. Karate tækling Kuyt - Hefði átt að fá beint rautt spjald, enda gjörsamlega fáránleg tækling hjá honum.
3. "Brotið" á Lescott (hið fyrra) Ekkert að þessu. Menn að kljást inn í vítateig og eins og Gylfi Orra orðaði það, "ef þetta er víti, þá eru 10 vítaspyrnur í hverjum leik.
4. Víti og rautt á Phil Neville - Hárrétt, en ætti að fá aukapunkt í einkunnargjöf fyrir frábæra markvörslu...
5. Brot Carragher á Lescott - Undir lok leiksins, þrátt fyrir að vera tveimur leikmönnum færri tókst Everton að skapa stórhættu við mark Liverpool eftir innkast!!! Sést greinilega þegar Carragher rífur hann niður en það sést líka mjög vel í endursýningu að Clattenburg sér ekki atvikið þar sem EVERTON maður stendur á milli hans og brotsins.
Í heildina vel dæmdur leikur hjá Clattenburg en því miður fyrir hann þá gerði hann mistök og það er það eina sem menn muna eftir.
Annars var alveg kominn tími til að ákvarðanir dómara féllu með Liverpool en ekki á móti (Chelsea...einhver??)
Clattenburg dæmir ekki um næstu helgi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Enski boltinn | 22.10.2007 | 14:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Það er orðið of seint að kjósa um Bakkafjöru. Það er staðreynd að það er búið að taka ákvörðun. Auðvitað eru ekki allir sáttir við þá ákvörðun, eins og gengur og gerist en við kjósum okkar fulltrúa á þing sem eiga beinlínis að taka slíkar ákvarðanir. Bakkafjara er framkvæmd sem er kominn í ákveðinn farveg.
Og hvað gerum við þá?
Ég hef svo sem bent á það áður að nú eigum við að fara að berjast fyrir hvernig þessu verður háttað. Hvernig skipið á að vera, hvernig rekstrarfyrirkomulagið verður, hvað þurfum við margar ferðir og hver á að reka Bakkafjöru og síðast en alls ekki síst, hvenær á skipið að hefja siglingar.
Það þýðir ekkert að berja hausnum við steininn.
Bloggar | 22.10.2007 | 09:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Ég hef nú ekki gert mikið af því að blogga um boltann. Þegar ég byrjaði hélt ég að það yrði mest skrifað hér um fótbolta en svo hefur ekki verið. Hins vegar er ekki annað hægt en að skrifa nokkur orð um dramatískan sigur minna manna í Liverpool á Everton í dag.
Eftir að hafa lent undir með glæsilegu sjálfsmarki Sami Hyypia þurfti tvær vítaspyrnur til að tryggja Liverpool sigur. Ekki spurning með báða dómanna, hárrétt hjá dómaranum.
Ég var nú ekkert of sáttur við mína menn. Hef reyndar ekki verið það í undanförnum leikjum og það var sama upp á teningnum í dag. En þó er ekki hægt að taka það af þeim að þeir unnu leikinn.
Lenti á spjalli við félaga minn í dag um leikinn. Hann vildi meina að fyrri vítaspyrnan hafi verið rangur dómur, ekki hafi verið rétt að reka Hibbert út af. Eins sagði hann dómarann hafa verið svo hlutdrægur í leiknum að næst dæmi hann líklega í 3. deildinni. Auðvitað var ég gjörsamlega ósammála honum.
En hvað getur maður sagt. Félagi minn er Man.Utd. aðdáandi ... Engin skynsemi í gangi þar...
Íþróttir | 20.10.2007 | 18:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Var að lesa Vaktina hans Júlla. Rakst á umræðuna hans Georgs Arnarssonar um Bakkafjöru. Hann auglýsir skoðanakönnun sína á bloggsíðunni allrækilega. Gott mál.
Hann er á móti Bakkafjöru. Í greininni minnist hann einnig á skoðanakönnun inn á bloggsíðu flokksfélaga síns, Hönnu Birnu um sama mál. Þar höfðu 43 tekið þátt.
Ég hafði minnst á það við Gogga að það er líka skoðanakönnun inn á síðu Grétars félaga míns. Þar er niðurstaðan algjörlega á skjön við þau tvö. En hann sagði það fáa búna að taka þátt þar að ekkert væri að marka slíka könnun. (69 tekið þátt þar)
Til að gæta sanngirnis hefði hann vel getað minnst á þá könnun líka. Sérstaklega þar sem hann hefur nú verið að hvetja til málefnalegra umræðu um málið.
Svo er nú spurning hvort hægt sé að tala málefnalega um skoðanakönnun á netinu yfir höfuð?
Bloggar | 19.10.2007 | 16:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Hann er í bullandi fýlu. Það sést vel á heimasíðu stjórnmálaskýrandans Egils Helgasonar. Hann er í raun alveg brjálaður. Og hver er ástæðan? Jú, samgönguráðherra ætlar að halda áfram að byggja upp samgöngumiðstöð við Reykjavíkurflugvöll. Festa flugvöllinn í sessi.
Þetta hefur verið aðalmál Egils síðan hann var með Silfur Egils á Skjá Einum. Og það er fyrir tveimur sjónvarpsstöðvum síðan. Hann er svo rammpólitískur í þessu máli að í raun ætti hann að vera gestur í eigin þætti að rökræða um flugvöllinn.
Egill vill flugvöllinn burt. Hann notar rök borgarbarnsins. Það fara svo fáir um flugvöllinn. (Þetta þrátt fyrir að á síðasta ári hafi orðið aukning á farþegum í innanlandsflugi) Það vantar land, við þurfum meiri menningu í miðborgina.
Spái því að Kristján Möller verði flakaður á sunnudaginn í Silfrinu...
Hann er svo pirraður að nú heldur hann því fram að ekkert hafi breyst frá því ný ríkisstjórn tók völd. Það var þáttur á Stöð 2 í gærkvöldi, Kompás þar sem var verið að fylgja fulltrúa Íslands í Írak frá landinu. Ísland tekur ekki lengur þátt.
Stefnubreyting er það ekki?
Þó vissulega megi taka undir með Agli að fátt hefur breyst sem vit er í
Stjórnmál og samfélag | 18.10.2007 | 15:11 (breytt kl. 15:27) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Auglýsing Ríkiskaups í Mogganum á sunnudaginn hefur vakið mikla athygli hér í Eyjum. Sumir vilja meina að það hafi alltaf legið fyrir að rekstraraðilinn ætti skipið. Því héldu þeir félagar, Egill Arngríms og Jenni fram í spjallinu á dekkjaverkstæðinu hjá Magga Braga í gær. Þar var einnig Stebbi Jónasar sem kom alveg af fjöllum eins og ég. Gaman að heyra í fólki, hvort það hafi vitað þetta eða ekki. Þetta hefur alla vega farið illilega fram hjá mér...og reyndar fleirum sem ég hef rætt við.
En ef þetta hefur alltaf legið fyrir hvernig stendur þá á því að bæjaryfirvöld í Eyjum eru ekki búinn að mótmæla þessu? Það er nógu slæmt að einkaaðili reki þjóðveginn okkar en það er nýmæli á Íslandi að einkaaðili EIGI þjóðveginn.
Svo er það skipið. Í auglýsingunni stendur að það eigi að lágmarki að taka 45 bíla og 250 farþega. Er reiknað með plássi fyrir gámanna eða eru þeir metnir sem bílgildi? Þ.e. er einn gámur sama og þrír fjóri bílar? Þetta er lágmarksstærðin, sú sama og útreikningar Siglingastofnunar hafa miðast við. Það var alltaf sagt þegar menn voru að mótmæla stærðinni á skipinu. Verið róleg, þetta er líkanið en svo verður gerð þarfagreining og skipið verður eins stórt og Eyjamenn þurfa. Annað sem hefur greinilega farið fram hjá mér, hvenær var þessi þarfagreining gerð? Ef ekki er búið að gera hana, væri ekki rétt að klára það áður en útboðsmál fara í gang?
Og hvað getur skipið hugsanlega verið stórt miðað við höfnina sem á að byggja?
Ég tel þetta nýjasta útspil ríkisins köld vatnsgusa framan í Eyjamenn. Það skiptir greinilega engu máli hver situr í stól samgönguráðherra. Þetta eru sömu hrokavinnubrögðin og við kynntumst þegar Sturla var ráðherra. Ykkur kemur þetta ekkert við, sjónarmiðið.
Hvað segir það okkur? Ráðherrann stjórnar ekkert málum, það eru starfsmenn Vegagerðarinnar.
Stjórnmál og samfélag | 16.10.2007 | 10:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Hún er athyglisverð auglýsingin frá Ríkiskaupum í Morgunblaðinu í dag. Þar er auglýst eftir þátttakendum í lokað útboð vegna reksturs ferjusiglinga milli Vestmannaeyja og Bakkafjöru.
Það eru einkum tvö atriði sem ég staldra við. Annars vegar að ferjan eigi að vera í eigu bjóðanda. Þ.e. segjum, ef Samskip og Eimskip bjóði í reksturinn, sá sem er lægri lætur smíða ferjuna og rekur hana á siglingaleiðinni. Hitt er samningstíminn. Það á að semja til 15 ára.
Er ekki svolítið gróft að binda sig við sama aðilann til 15 ára? Og hvaða djók er það að ríkið ætli ekki að eiga ferjuna? Þetta þykir mér ansi slæmar fréttir. Ekkert af þessu hefur verið rætt fyrir opnum tjöldum, auglýsingunni er lætt inn í Moggann og allt í einu er farið að tala um 15 ára samningstíma og að rekstraraðilinn eigi skipið.
Fimmtán ár er langur tími, það er fimm árum styttra en Björn Ingi og félagar eru búnir að binda Orkuveituna í Reykjavík...
Var fundurinn löglegur?
Bloggar | 14.10.2007 | 20:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Það hefur verið mjög athyglisvert að fylgjast með framvindu mála í höfuðborginni undanfarna daga. Ég verð að viðurkenna að mér finnst málið lykta af spillingu og valdagræðgi.
Fyrir það fyrsta er með ólíkindum hvernig Björn Ingi hefur sloppið við gagnrýnar spurningar fjölmiðla. Hvert var hlutverk hans í þessu REI máli. Vissi hann meira en borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins? Hélt hann því leyndu? Það eru þungar ásakanir fólgnar í orðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að hann sé að gæta hagsmuna peningamanna sem tengdir eru Framsóknarflokknum. Björn Ingi getur ekki afgreitt það sem persónulega árás á sig og borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins verða að skýra sitt mál betur.
Hins vegar finnst mér Dagur borgarstjóri, Svandís og Margrét koma út sem valdagráðugir stjórnmálamenn. Hvers vegna? Jú, þetta fólk hefur mismunandi áherslur í sinni pólitík. Það gefur auga leið, annars væru þau öll í sama flokknum! En ekki hefur verið rætt um eitt einasta málefni. Eina sem samstarfið gengur út á er að skipta með sér verkum.
Reyndar er Margrét munaðarlaus og þarf bara að fylgja sinni eigin sannfæringu en Dagur tilheyrir Samfylkingunni, Svandís VG og Björn Ingi framsókn. Þetta eru þrír gjörólíkir flokkar með þrjár gjörólíkar áherslur í stóru málunum.
Er afstaða VG til virkjanamála sú hin sama og Samfylkingarinnar? Nei, heldur betur ekki. Hvað þá að Svandís og Björn Ingi nái saman í þeim málum.
Eru sömu áherslur hjá þessum þremur flokkum í samgöngumálum? Hafa VG, Frjálslyndir (Margrét), Samfylkingin og Framsókn sömu afstöðu til flugvallarins? Það er það mál sem Dagur hefur lagt áherslu á...það er honum hjartans mál að koma flugvellinum í burtu.
Eina sem þetta fólk er sammála um er að Dagur verði borgarstjóri, Svandís hans pólitíski staðgengill, Margrét forseti borgarstjórnar og Björn Ingi heldur formanni bæjarráðs. Þetta er sami Björn Ingi og Svandís vildi að segði af sér fyrir nokkrum dögum síðan.
En þegar öllu er á botninn hvolft geta sjálfstæðismenn í borginni kennt sjálfum sér um. Þau klúðruðu þessu algjörlega, með barnslegri trú á samstarfsaðilann og klofning innan eigin raða.
Nú eru tveir "sólóistar" í borgarstjórn, sem halda samstarfinu í gíslingu. Margrét Sverris gæti út af einu prinsipp máli labbað út og eins gæti, þó ólíklegt sé Björn Ingi slitið þessu samstarfi líka.
Kannski til að verja einhverja sérhagsmuni...hver veit
Bloggar | 13.10.2007 | 15:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þetta eru stór tíðindi úr borginni. Reyndar virðist alltaf einhver krísa vera á sveitarstjórnarstiginu. Við Eyjamenn fengum okkar skerf á síðasta kjörtímabili þar sem þrír meirihlutar voru myndaðir. Árborgarfólk var í vandræðum framan af og nú er það Reykjavík. En það hljóta að vakna margar spurningar í kjölfar þessa máls.
1. Hvaða hagsmuni er Björn Ingi að verja í þessu REI máli?
2. Er honum stætt enn í borgarstjórn miðað við þá gagnrýni sem á hann hefur dunið af núverandi samstarfsaðilum?
3. Hefur Svandís Svavarsdóttir skipt um skoðun síðan í fyrradag þegar hún sagði að Björn Ingi og Vilhjálmur ættu að víkja úr borgarstjórn?
4. Hefur Dagur kokgleypt sína sannfæringu í mörgum málum sem hann hefur gagnrýnt Framsókn fyrir það sem af er þessu kjörtímabili fyrir borgarstjórastólinn?
5. Er tími Vilhjálms liðinn. Verður hann ekki að víkja sem leiðtogi sjálfstæðismanna. Rúinn trausti borgarbúa?
Já, þetta er athyglisverð staða sem upp er kominn. R-listinn endurvakinn með aðkomu F-listans.
Spái þessu samstarfi ekki langlífi.
Vilhjálmur: Ákvörðun Björns Inga um samstarfsslit fyrirvaralaus | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | 11.10.2007 | 19:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Færsluflokkar
Tenglar
Heimsótt reglulega
Bloggvinir
Feb. 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | ||||||
2 | 3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 |
9 | 10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 |
16 | 17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 |
23 | 24 | 25 | 26 | 27 | 28 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.2.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar