Ég er svolítið stoltur af því. Ég er Eyjamaður. En undanfarna daga hef ég verið að velta því fyrir mér, hver er og hver er ekki Eyjamaður. Reyndar eru allir Íslendingar eyjamenn, því öll búum við jú, á eyju...
En að vera Eyjamaður er eitthvað sem margir halda á lofti. Ég veit sjálfur eftir að hafa búið í borginni að það hefur sína kosti...og galla. Ég var stoltur þegar ÍBV varð bikarmeistari í handbolta, Íslandsmeistarar í fótbolta, yes !! geðveikt....að vera Eyjamaður. Við erum stolt, af okkar uppruna...gosinu, uppbyggingunni, söngvunum, úteyjarlífinu, lundanum....og allt (eins og Eiríkur Fjalar sagði)
Einu sinni lenti ég í því að læðast með veggjum yfir því að vera Eyjamaður. Það var þegar brennur guðanna (í flutningi Halla Reynis) stóðu sem hæst. Betel söfnuðurinn í Eyjum brenndi diska þungarokkara. Þá var ég í FG, og allir héldu að 90% Eyjamanna væri í söfnuðinum. Ég svaraði fyrir það og endaði með að taka viðtal við Snorra Óskars, forsprakka vitleysunnar í skólablaðið.
Síðustu daga hefur verið mikil umræða um það hver er Eyjamaður og hver ekki. Svolítil ádeila á Róbert Marshall og það af ósekju. Mikið rosalega er ég ósammála þessu. Alltaf eru Eyjamenn stolt af sínu fólki sem er að gera það gott á "erlendri" grundu, þá skiptir ekki máli hvort það er England, Þýskaland ...eða Reykjavík.
Hemmi Hreiðars, Gunnar Heiðar, Margrét Lára, Palli Magg, Ragnheiður Guðna, Bjarnólfur Lár, Tryggvi Guðmunds, Venni.....Róbert Marshall...
Já, Eyjamenn voru stoltir af honum þegar hann var að slá í gegn í fjölmiðlum, en þegar hann var kominn í pólitík þá skipti allt í einu höfuðmáli í hvaða samfylkingarfélagi hann var !! Þetta er óttalegur tittlingaskítur að mínu mati.
Róbert Marshall er Eyjamaður, ef hann er það í huganum. Ég talaði við einn góðan í dag sem er rétt rúmlega fertugur en hefur búið í Reykjavík í 18 ár. Hann er samt miklu meiri Eyjamaður en margur maðurinn sem hér býr. Það er bara svo einfalt...
Að vera Eyjamaður er hugarástand þeirra sem eitthvað hafa með Heimaey að gera. Þetta er svo einfalt. Ég tala nú ekki um þá sem einhvern tímann hafa veitt lunda. Eða lundapysjur. Að vera Eyjamaður hefur ekkert með pólitík að gera...
Er ég Eyjamaður? Fæddur í Hafnafirði... já, ég er Eyjamaður. Hér á ég mínar rætur.
...segi bara svona
Bloggar | 10.11.2006 | 23:18 (breytt kl. 23:23) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Það verða margir með í maganum á morgun meðan beðið er eftir tölum úr prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi. Það er best að spá aðeins í það.....
Mín skoðun er sú að Árni Matt fái örugga kosningu í 1. sætið, reyndar hef ég hitt nokkra sem halda því fram að hann falli, nái ekki efsta sætinu...Þá er bara einn annar sem hefur boðið sig fram þar og það er Árni Johnsen. Ég hef persónulega ekki trú á því að hann nái árangri, þó aldrei sé hægt að útiloka karlinn, hann er svo óútreiknanlegur karlinn....
Það eru margir sem stefna á næstu tvö sæti og í sjálfu sér ómögulegt að spá fyrir um það. Þingmennirnir þrír, Drífa, Kjartan og Guðjón hljóta að vera kandídatar í þetta sæti ásamt Árna Johnsen. Þarna er slagurinn á milli Johnsen og Kjartans að mínu mati og mín skoðun er sú að Árborg sjái um sína og Kjartan verði númer 2.
Árni Johnsen fær ekki þriðja sætið, þeir sem kjósa hann setja hann í fyrsta eða annað, það verða fáir sem láta hann fylgja með. Þá eru eftir, Guðjón og Drífa en líka suðurnesjafólkið Björk og Kristján Pálsson. Þarna vinnur Björk...eða Gaui.
Ef Gaui nær ekki þriðja fer hann í fjórða. Það er mín skoðun, reyndar ekki alveg hlutlaus maður hér á ferð í þeim efnum. Vona að Gaui nái þriðja sætinu...
Fimmta sætið er svo Drífa, Gunnar Örlygs eða Unnur Brá. Svolítið erfitt að spá fyrir um það eins og reyndar allan listann en ég held að Unnur Brá vinni það...
Þá er bara eitt sæti eftir og það verður Gunnar Örlygs, hann nær sjötta sætinu...
Þannig að...
1. Árni Matt (kannski 45-55% fylgi)
2. Kjartan Ólafs
3. Gaui Hjöll
4. Björk
5. Unnur Brá
6. Gunnar Örlygs
Þá eru nú þungavigtarnöfn eftir, til dæmis Árni Johnsen, Kristján Pálsson og Drífa. Kannski er ég að vanmeta styrk þeirra eða ofmeta aðra en .....þetta kemur víst í ljós á morgun.
Aðeins um prófkjörin í suðvestur hjá Sjálfstæðisflokknum og í Reykjavík hjá Samfylkingunni. Þorgerður Katrín, Bjarni Ben og Ragnheiður Ríkharðs ná góðri kosningu, hef trú á því. Ármann Kr og Jón "björgunarmaður" Gunnarsson verða fyrir vonbrigðum
Ingibjörg fær ekki glæsilega kosningu í fyrsta sætið, verður fyrir vonbrigðum...Össur nær sínu öðru, Jóhanna því þriðja en svo er spennandi að sjá. Hef trú á Helga Hjörvar, þó ég hafi nú ekki verið hrifinn af honum síðustu árin, hef trú á að Merði verði hafnað, hann er einhvern týpan í að verða fórnarlamb prófkjörs...
Það er alveg í anda þeirra prófkjara sem nú þegar er lokið. Þeim hefur gengið illa sem hafa verið áberandi í sjónvarpi, til dæmis Pétur Blöndal, Sigurður Kári, Birgir Ármanns...allt álitsgjafar í sjónvarpi sem hafa orðið fyrir vonbrigðum. Kannski er bara gott fyrir stjórnmálamenn að vera ekkert of mikið að rökræða í sjónvarpi, sjáum bara Davíð...
Bloggar | 10.11.2006 | 19:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Það hefur verið athyglisvert að fylgjast með prófkjörum Samfylkingarinnar síðustu vikur og ætti spennan að ná hámarki um helgina þegar prófkjör flokksins í höfuðborginni verður.
Í flokki sem fyrir tveimur árum gekk í gegnum erfið formannsskipti, þar sem vinsæll foringi var felldur og vonarstjarna, forsætisráðherraefni og verðandi leiðtogi landsins tók við. Össur út fyrir Ingibjörgu.
Ekki nóg með að þarna voru pólitískir samherjar leiddir saman í blóðugt einvígi þá eru þau bundin fjölskylduböndum sem gerði vígið enn dramatískara. Eftir lá karlinn Össur en valkyrjan Ingibjörg stóð eftir sigri hrósandi. Flokkurinn skiptist í tvær fylkingar sem síðan þá hafa barist hatrammri baráttu um völdin í flokknum og hvert einvígið á fætur öðru hafa skilið eftir sig blóðug spor í valdastiga Samfylkingarinnar.
Í formannseinvíginu tókust á tveir armar Samfylkingarinnar, leifar gömlu vinstri flokkanna á Íslandi. Vinstri armur gamla kvennalistans og allaballa gegn krötunum. Síðustu vikurnar hafa vígamenn Össurar reynt að ná aftur fótfestu í flokki sem sífellt dregst lengra til vinstri á hinni pólitísku víglínu. Þeir hafa fellt varðmenn foringjans víðs vegar í prófkjörum en komið skylmingaþrælum hins skeggjaða að.
Þannig náði gamall vinur Össurar, Kristján Möller glæsilegri kosningu í norðaustur kjördæmi á meðan Lára Stefánsdóttir vinkona formannsins náði ekki sínum markmiðum. Bardaginn hélt svo áfram í norðvesturkjördæmi og enn versnaði staða formannsins. Vígamenn hins skeggjaða kolfelldu Önnu Kristínu Gunnarsdóttur en komu skólastjóranum og góðvini líffræðingsins, Guðbjarti að.
Nú héldu margir að nóg væri komið og til að formaðurinn héldi einhverri reisn þá yrðu sverðin slíðruð og vígamenn þingflokksformannsins drægju sig í hlé. En, ónei, áfram skyldi barist og varð kraginn næsti vígvöllur innanflokksátakanna. Nú skyldi Þórunni þingmanni fórnað á altari hefnda. Það tókst og Gunnar Svavarsson er nýr oddviti. Af sex kjördæmum landsins voru nú stuðningsmenn Össurar í oddvitastöðu í þremur og eftir að velja á þrjá lista.
Næst var það sveitin og suður með sjó. Suðurkjördæmið og mikilvægt fyrir formanninn fallandi að halda reisn með því að fá einn sinn dyggasta stuðningsmann, Lúðvík Bergvinsson þar í leiðtogasæti. Enn brást herkænska formannsins og bloggarinn og grínistinn Össur hló innra með sér þegar hans dyggasti stuðningsmaður, Björgvin G. Sigurðsson vann yfirburðasigur. Fjögur vígi fallin og aðeins höfuðborgin eftir og líkt og í góðri spennumynd bíður dramatíska lokauppgjörið í lokin. Össur og Ingibjörg, Reykjavík suður og Reykjavík norður.
Hinn næsti leiðtogi Íslands þarf góða kosningu um helgina. Til þess að sneypuför vonarpeningsins inn í íslensk stjórnvöld endi ekki með skömm þarf hún yfirburðastuðning í efsta sæti listans. Stuðningsmenn líffræðingsins hugsa sér gott til glóðarinnar.
Trúnaðarmenn foringjans í Reykjavík naga nú neglurnar og skjálfa óttaslegnir um eigin framtíð eftir að hafa horft upp á hvert tapað einvígi á eftir öðru. Mörður Árnason, Helgi Hjörvar og Ágúst Ólafur berjast nú fyrir sinni pólitísku framtíð. Líklegt er að einhverjum þeirra verður fórnað af vígamönnum rithöfundarins og bloggarans, Össurar Skarphéðinssonar.
Það er því ljóst að Samfylkingin logar stafnana á milli, nú tveimur árum eftir formannskjörið. Reyndar er flokkurinn klofinn enn frekar í herðar niður í afstöðu annarsvegar Reykjavíkurarm flokksins og hins vegar landsbyggðararm. Þannig hafa virkjanamál verið bannorð á fundum flokksins af ótta við að klofningur flokksmanna komi í ljós og nýleg sala á Landsvirkjun sýndi svo ekki um var að villast að ágreiningur er djúpur. Reykjavíkurarmur sagði kaupverðið allt of lágt meðan landsbyggðararmurinn hreinlega stóð að sölunni með íhaldinu.
Hvernig flokkurinn ætlar sér svo að koma sameinaður til kosninga eftir nokkra mánuði skal ósagt látið.
...einhvern veginn svona hefði Össur Skarphéðinsson lýst síðustu vikum ef um væri að ræða Sjálfstæðisflokkinn.
Nei, segi bara svona ...
Stjórnmál og samfélag | 8.11.2006 | 13:32 (breytt kl. 13:38) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ég var nú ansi nálægt úrslitunum hjá Samfylkingunni, eina sem víxlaðist var Lúðvík og Björgvin. Það kom mér á óvart hversu afgerandi sigur Björgvins var en hann er ótvíræður sigurvegari. Eins kom á óvart hversu slaka útkomu Lúðvík fékk í raun og veru. Hann rétt heldur öðru sætinu. Getur þó sagt að hann hafi varið sitt sæti, svona ef hann vill fara út í pólitísk svör á annað borð...
Róbert er aftur á móti sigurvegarinn. Það er óhætt að óska honum til hamingju. Hann er á leiðinni á þing. Það mun bara hressa þá samkundu við, það er ég viss um.
Hins vegar vekur það athygli að í efstu fimm sætum Samfylkingarinnar er enginn frá Reykjanesi sem þó hafa um 40% kjósenda. Hins vegar verða þrír Eyjamenn í efstu fimm sætunum en hér eru aðeins um 10% kjósenda. Sunnlendingar ættu hins vegar að vera kátir með sinn hlut, leiðtoginn kemur úr Árborg og baráttusætið mun bæjarfulltrúi í Árborg skipa, Ragnheiður Hergeirsdóttir. Hún hlýtur að vera ánægð með sinn hlut.
Annar sigurvegari að mínu mati er Guðrún Erlingsdóttir. Ný í landsmálunum og nær sjötta sæti listans og færist upp í fimmta sætið út af reglum um kynjaskiptingu á lista. Ætla ekki að fara út í þá sálma en mér finnst fáránlegt að fólk sé metið eftir kynferði en ekki það sem það hefur fram að færa.
Hún fékk flest atkvæði allra í 3. sætið, það er frábært hjá henni. Ef Samfylkingin fær þrjá þingmenn (eiga fjóra í dag) þá verða tveir Eyjamenn á þingi fyrir flokkinn og einn varaþingmaður úr Vestmannaeyjum. Ekki slæmt ef aðeins er litið út frá því.
Hins vegar má alltaf spyrja sig. Hvað og hver er Eyjamaður?
Bloggar | 7.11.2006 | 11:00 (breytt kl. 11:02) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Það hefur verið nóg að snúast í kringum prófkjörin í Suðurkjördæmi síðustu daga. Prófkjör Samfylkingarinnar búið þó enn sé ekki búið að telja og sjálfstæðismenn með prófkjör um næstu helgi.
Samfylkingin fékk í sínu prófkjöri alveg skýr skilaboð um hvað þarf að berjast fyrir varðandi Vestmannaeyjar næstu fjögur árin. Bættar samgöngur, enda kjörgögnin tvo sólahringa á leiðinni upp á land.... :-)
Það var frábær þátttaka hjá Samfylkingunni í Eyjum. 1200 atkvæði, það er 40% kosningabærra manna í Eyjum. Það er meira heldur en fylgi V-listans var í bæjarstjórnakosningunum í vor. Það var stemmning fyrir þessu prófkjöri og þar held ég að fjöldi Eyjamanna í framboði hafi skipt sköpum, tveir stemmningsmenn buðu sig fram, Hlynur Sigmarsson og Róbert Marshall. Báðir nýjir á pólitíska sviðinu en kraftmiklir. Svo held ég að Guðrún Erlings hafi tregt að og svo að sjálfsögðu Lúðvík Bergvins en hann á trygga stuðningsmenn hér og þeir hefðu hvort eð er mætt. Hinir, ég giska á 500 komu á kjörstað fyrst og fremst til að styðja við hina þrjá frambjóðenduna.
Þannig að svæði sem telur um 9% af kjördæminu nær 20% vægi. Það hlýtur að boða gott fyrir Lúðvík, ég spái því að hann vinni fyrsta sætið.
Annars er nú svolítið surreal að spá núna, nokkrum klukkutímum áður en fyrstu tölur koma en ég læt vaða:
Mín spá:
1. Lúðvík Bergvinsson
2. Björgvin G. Sigurðsson
3. Róbert Marshall
4. Ragnheiður Hergeirsdóttir
5. Jón Gunnarsson
Þarna fyrir neðan koma svo bæði Guðrún og Hlynur, vona ég að Guðrún nái öðru sæti kvennanna í prófkjörinu, þá ætti hún að færast upp í 5. sæti samkvæmt kynjareglum prófkjörsins....
Annars kemur þetta í ljós í kvöld...spennandi
Bloggar | 6.11.2006 | 11:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þar sem tvö tré koma saman, þar er skógur, sagði landbúnaðarráðherrann eitt sinn. Reyndar heyrði ég að hann hafi sagt á setningu hestamannamóts fyrir nokkrum árum, þar sem tveir hestamenn koma saman, þar er hestamannamót
Oftúlkun á aðstæðum virðist vera orðinn siður í íslenskum fjölmiðlum. Þegar tvö tjöld eru tjaldborg eins og gerðist upp við Kárahnjúka fyrir nokkrum árum. Svo eru tvö nýleg dæmi, þegar breskur almenningur mótmælti hvalveiðum Íslendinga, en sendiráðinu hafði borist 30 tölvupóstar. Þrjátíu, segi og skrifa frá Bretlandi. Hvað ætli búi margir þarna?
Svo voru það fjórar hræður sem mótmæltu veru bandarísks herskips í Reykjavíkurhöfn. Og auðvitað voru það fjöldamótmæli !!
Er þetta ekki fullmikið af því góða. Það verða að vera grípandi fyrirsagnir en kommon
Bloggar | 20.10.2006 | 08:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mótmæli við Kárahnjúkavirkjun hafa verið gríðarleg. Öfgafull vill ég meina og fréttaflutningurinn fyrir neðan allar hellur. Ég man eftir frétt í öðrum hvorum sjónvarpsfréttamiðlinum þegar talað var um að tjaldbúðir hafi nú risið við Kárahnjúka. Flogið var yfir svæðið og sáust tvö tjöld á myndunum. Tvö tjöld = tjaldbúðir minnir óneitanlega á orð landbúnaðarráðherra, þar sem tvö tré koma saman þar er .... eða þar sem tveir hestamenn koma saman, þar er hestamannamót !!
Nú berast okkur daglegar fréttir um hversu djúpt Hálslón er orðið og fréttamyndirnar með af Ómari Ragnarssyni á Örkinni sinni. Eins hefur vakið athygli þegar myndir hafa verið frá mótmælum við Kárahnjúka að yfirleitt eru þar unglingar og/eða ungt fólk að mótmæla. Í viðtölum við þau hefur harla lítið komið fram, þau eru bara á móti virkjunum sko...
Eins hafa erlendir mótmælendur verið þar fremstir í flokki. Svokallaðir atvinnumótmælendur...þau máttu ekki svo lítið sem stíga inn á svæðið þá var kominn myndatökumaður á svæðið. Ég verð að viðurkenna að þessi fréttaflutningur hefur oft á tíðum verið svolítið kjánalegur.
Núna eru mótmælendur aftur á móti komnir með öflugan talsmann í Ómari Ragnarssyni og það kæmi mér ekki á óvart að sjá hann í framboði í vor. Hvort sem það verður á lista VG eða í sérstökum umhverfisflokk. Ómar hefur um árabil verið gríðarlega öflugur fréttamaður og ósjaldan fjallað um náttúru Íslands. Þess vegna hlustar fólk þegar Ómar talar um þessi mál. Aftur á móti missti hann fljótlega marks hvað varðar mig persónulega þegar hann fór að tala um að hætta við að fylla lónið og láta stífluna standa óhreyfða og ónotaða. Þvílík firra.
En það að Ómar skyldi fá 10 þúsund manns með sér í göngutúr niður Laugarveginn segir allt sem segja þarf um áhuga Íslendinga á umhverfisvernd. Raunar hefur mér fundist Reykvíkingar tala hæst um umhverfisvernd í réttu samræmi við fjarlægðina frá Reykjavík.
Það voru ekki umhverfissjónarmið sem réðu ríkjum þegar umræðan um Vatnsmýrina var sem hæst, nei, þá voru það viðskiptasjónarmið. Stækkunin í Straumsvík fær enga umfjöllun miðað við Kárahnjúka svo ekki sé talað um Hellisheiðavirkjun sem er þvílíkt mannvirki. Nei, svo þegar það á að virkja hinum megin á landinu á stað sem ég hafði ekki einu sinni heyrt um áður en kom að þessu (Reyndar aldrei verið sleipur í landafræði) þá fer allt á hliðina í kaffihúsunum í Reykjavík.
Umhverfismál verða eitt af aðalmálunum í vor og þar koma VG einir flokka sterkir til leiks. Samfylkingin er ótrúverðug í sínum málflutningi, flokkur sem samþykkir virkjunina en eftir að almenningsálitið breyttist þá breytist viðhorfið. Gerist í alltof mörgum málum fyrir minn smekk hjá þeim flokki. Framsókn er höfundur og í ábyrgð fyrir virkjuninni í hugum landsmanna. Erfitt fyrir þau en að mínu mati hefur flokkurinn ekkert til að skammast sín fyrir. Sjálfstæðisflokkurinn ber ekkert minni ábyrgð en einhvern veginn ekki lent í orrahríðinni. Veit ekkert hvar Frjálslyndir standa, það er alveg sama hvað sá flokkur byrjar að tala um, hann endar alltaf í röfli um kvótakerfið.
Bloggar | 5.10.2006 | 14:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Það er orðið staðreynd á Íslandi að hér búa tvær þjóðir. Annars vegar borgarlýður og hins vegar landsbyggðarpakk.
Borgarbúar og íbúar nálægra sveitarfélaga búa við mikla þenslu, blokkir rísa í nýjum og nýjum hverfum upp um alla hugsanlega hóla í nágrenni Reykjavíkur og svo slæmt er ástandið að fólk fer í vinnu að morgni og ratar varla heim til sín að kveldi! Fólk lifir hratt og hátt. Þriggja herbergja íbúð í blokk á 25 til 30 milljónir þykir vel sloppið og auðvitað verða að vera tveir bílar á heimilinu. Fólk lifir hátt, auk bílanna er það sumarbústaður sem er nauðsynlegur til að komast úr borgarstressinu.
Landsbyggðarpakkið skilur hins vegar ekkert í þessu. Það á einbýlishús sem kostar innan við 20 milljónir, einn bíll dugar enda ekki langt endilega á milli staða. Nýbyggingar ná athygli lókal fjölmiðla, það á að fara að byggja!! Fólk lifir fyrir daginn í dag, flestir velta því fyrir sér að flytja á mölina. Þeim finnst það vera að missa af góðærinu. Það kom aldrei vestur/suður/norður...(núna kannski austur?)
Í dag miðast þjóðfélagið og efnahagsstjórnin við hvað er gott fyrir borgarsamfélagið. Allt tekur mið af Reykjavík og nágrenni. Það er kannski ekki skrýtið, sé litið á það að meirihluti landsmanna býr þar. Það þarf bara að viðurkenna það, hætta þessari bölvuðu vitleysu um landsbyggðarstefnu og fleira í þeim dúr. Ráðamenn eiga að viðurkenna að stefnan er að uppbygging Íslands fari fram á litlum bletti á suðvestur horni landsins. Þá fyrst getur landsbyggðin farið að líta raunsætt á framtíðina, við (þ.e. pakkið) lifum í blekkingu í dag. Við höldum virkilega að ríkið ætli sér að gera eitthvað til að bæta lífskjör okkar eða búsetuskilyrði. Ja hérna...
Bloggar | 4.10.2006 | 11:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ég var svolítið ánægður með Kristján Möller alþingismann í viðtali á Stöð 2 í gærkvöldi. Þannig var þrátt fyrir að spyrillinn hafi margspurt hann sömu spurninganna aftur og aftur þá var hann þolinmóður og kom rólega sínum sjónarmiðum á framfæri.
Spyrillinn vildi vita hvort Kristjáni fyndist það vera rétt forgangsröðun að ráðast í jarðgöng á meðan Sundabraut í Reykjavík væri ókláruð. Kristján sagði jarðgöngin vera fyrir alla Íslendinga, líkt og Sundabrautin yrði líka fyrir alla Íslendinga, það er þegar búið væri að undirbúa það mál. Ennþá á teikniborðinu. Eins sagði hann að forgangsröðunin væri slík að búið væri að berjast í 15 ár fyrir göngum sem núna loksins eru komin á dagskrá.
Svo kláraði hann alveg umræðuna í restina þegar hann sagðist hafa verið að skoða fjárlögin og tók eftir að um 700 milljónir færu í jarðgangaframkvæmdir á árinu en til dæmis kostaði rekstur Þjóðleikhússins rúmar 600 milljónir...
En svona til gamans tók ég nokkra þætti úr menntamálaráðuneytinu varðandi kostnað:
Íslenski dansflokkurinn 96 milljónir
Þjóðleikhúsið: 610 milljónir
Sinfóníuhljómsveit Íslands: 303 milljónir
Listasjóðir: 305 milljónir
Kvikmyndamiðstöð Íslands: 463 milljónir
Listir - framlög: 702 milljónir. (Svolítið vítt, listir-framlög?? Bíddu, hvaða framlög eru þetta eiginlega??)
Bloggar | 3.10.2006 | 18:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Jæja, bloggurum fjölgar dag frá degi og maður er ekki maður með mönnum öðruvísi. Kannski bölvuð vitleysa að vera að þessu en ég ákvað að prufa þetta, sjá hvort þetta er eitthvað fyrir mig. Það er kannski við hæfi að fyrsta færslan sé um samgöngumál okkar Eyjamanna. Það hefur verið aðalmálið í Eyjum undanfarin ár og engin breyting þar á. Raunar er alveg sama hversu mikið er talað um samgöngumál, ástandið batnar lítið og í raun fer þeim aftur ef eitthvað er.
Flugið er nýjasta í þeim efnum. Að hingað sé ekki flogið áætlunarflug til Reykjavíkur er með ólíkindum. Við erum komin aftur til ársins 1950 varðandi þá leið. Það er reyndar þannig að undanfarin ár hefur þjónustan á flugleiðinni verið þannig að Eyjamenn hættu að líta á flugið sem valkost. Hátt verð og óstapílar ferðir gerði það að verkum. Ferðir voru felldar niður ef það hentaði flugfélaginu og því ekkert hægt að stóla á flugið. Þess vegna fara menn um borð í Herjólf. Hann siglir alltaf....
Nú á að ríkisstyrkja flugleiðina. Ég var voðalega hissa á fréttum Stöðvar 2 um daginn (eða er það NFS?) þegar verið var að segja frá hugsanlegu útboði. Í niðurlagi fréttanna sagði fréttamaðurinn eitthvað á þá leið: "Þess má geta að þá eru Vestmannaeyjar komnir í flokk með jaðarbyggðum eins og Grímsey og Gjögur í ríkisstyrktu áætlunarflugi" Bíddu nú við, hvers vegna var þetta tekið fram og hvers vegna var ekki sagt frá því að ríkisstyrkt flug er líka á Sauðárkrók og Höfn? Það hentaði örugglega ekki fréttinni?
Kannski hefði verið spurning að segja fréttina þannig að geta þess að nú væri ríkisstyrkt flug á alla áfangastaði nema þrjá, Ísafjörð, Akureyri og Egilsstaði.....
Bloggar | 2.10.2006 | 09:16 (breytt kl. 09:18) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Færsluflokkar
Tenglar
Heimsótt reglulega
Bloggvinir
Feb. 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | ||||||
2 | 3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 |
9 | 10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 |
16 | 17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 |
23 | 24 | 25 | 26 | 27 | 28 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (4.2.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar