Búið að selja Liverpool

George Gillett og Tom Hicks -This is Anfield

Þær fréttir sem bárust frá Anfield í gær vöktu með manni blendnar tilfinningar. Í fyrsta lagi var maður ánægður að félagið væri nú komið í eigur fjársterkra manna sem gætu keppt við Chelsea og Man.Utd. um bestu leikmennina en um leið fannst manni það heldur súrt að félagið væri orðið leikfang ríkra Bandaríkjamanna.  Þessi innrás í enska boltann er umhugsunarefni, sama hvort menn koma frá Dubai, Bandaríkjunum eða Íslandi...

Þeir George Gillett og Tom Hicks ætla sér stóra hluti með klúbbinn. Þeir eru tilbúnir að leggja pening í hann en man einhver eftir látunum sem varð í kringum yfirtökuna á Man.Utd?  Malcolm Glazier og fjölskylda hans tók yfir klúbbinn og það varð allt vitlaust í borginni.  Ég held að United menn séu enn ekki búnir að taka Glazier í sátt.  Einhvern veginn allt rólegra yfir þessu í bítlaborginni.  

Staðreyndin er sú að við púlarar sáum fram á að um tvennt væri að ræða. Annars vegar að enda sem miðlungslið með frábæra sögu, keppa um þriðja til sjötta sæti á hverju ári við Tottenham, Aston Villa, Bolton, Arsenal og fleiri slík og láta Chelsea og Man.Utd. eftir að keppa um titilinn. Það stefnir í þessa átt, þó vissulega hafi Arsenal alla burði til að vera með í baráttunni.  Eða selja klúbbinn og taka þátt í harkinu og það varð niðurstaðan.

Vonandi skref í átt að nýju tímabili í sögu Liverpool þar sem titlarnir fara að streyma í bikarsafnið enn á ný. Ég þreytist seint á að minna á að Liverpool er sigursælasta knattspyrnulið Englands. Það er bara búið að hleypa United óþarflega nálægt okkur síðustu ár. Wink

Allavega virðist George Gillett vera með á hreinu hvaða væntingar hann gerir til klúbbsins og vitnar þar í goðsögn á Anfield, Bill Shankly og segir viðhorf hans endurspegla þeirra viðhorf. "first is first and second is nowhere."  


Eru Eyjamenn frekjur?

 Það er svolítið athyglisvert að velta því fyrir sér hvert viðhorfið til okkar Eyjamanna er.  Miðað við sumar bloggsíður þá erum við heimtufrekjur meðan aðrir taka undir kröfur okkar. Sumir skilja ekkert í þessum “fáránlegu” kröfum okkar um breytta gjaldskrá Herjólfs, helber frekja og yfirgangur í eyjaskeggjum!!

  Nú skulum við rifja aðeins upp okkar baráttu fyrir bættum samgöngum í Eyjum síðustu árin.  Þegar núverandi Herjólfur var byggður voru margir þingmenn hreinlega á móti stærð skipsins, töldu það allt of stórt fyrir svona lítið bæjarfélag. Það náðist þó í gegn að skipið var smíðað en þó stytt eilítið af þáverandi samgönguráðherra, Steingrími J. Sigfússyni. Nú er skipið allt of lítið og hefur verið í nokkur ár.

Fyrst sigldi skipið eina ferð á dag en fljótlega bættust við ferðir í kringum helgarnar á sumrin.  Krafa Eyjamanna um tvær ferðir á dag, alla daga vikunnar, allt árið var fáránleg að mati margra fyrst um sinn. Meira að segja ráðamenn í Eyjum hlógu af þessum kröfum fyrst um sinn, sömu og síðar stukku upp á vagninn og kröfðust breytinga, sem betur fer.

 Það tók langan tíma að sannfæra samgönguráðherra um málið. Áður hafði verið bætt við ferðum á fimmtudögum og mánudögum. Alltaf voru þessar ferðir fullar en ekki þótti ástæða til að bæta við ferðum aðra daga. Menn sögðu engan ferðast á miðvikudögum seinni partinn eða með seinni ferð á laugardögum. Flestir voru sammála um að sú ferð væri algjörlega óþörf.  Annað hefur aldeilis komið á daginn og samkvæmt mínum heimildum er það sú ferð sem komið hefur mest á óvart og er mikið notuð.

 Að lokum gaf ráðherrann eftir og þóttist nú vera búinn að gera nóg fyrir þetta fólk sem valdi það að búa á eyju, með þeim kostum og göllum sem því fylgja.  En þá kom að fluginu. Eftir að Flugfélag Íslands hætti flugi til Eyja fyrir þremur árum þá hafa flugsamgöngur verið afar stopular. Tvö lítið og vanmáttug flugfélög reyndu að halda uppi áætlunarflugi til Reykjavíkur en fengu litlar undirtektir. Bæði var fargjaldið allt of hátt og vélarnar mun minni en Eyjamenn áttu að venjast. Flugfélögin hefðu þurft bolmagn til þess að geta vanið markaðinn við sig en það höfðu þessi félög ekki. Flugfélagið kom ekki inn á markaðinn aftur nema vegna ríkisstyrks sem loks fékkst í gegn, aftur eftir margra ára baráttu þar sem fyrst þurfti að sannfæra ráðamenn í Eyjum áður en hægt var að sækja á ráðherra.

 Það er ríkisstyrkur á flestum flugleiðum á Íslandi. Aðeins þrjár leiðir eru ekki ríkisstyrktar, það er flug til Ísafjarðar, Egilsstaða og Akureyrar.

 Nú berjumst við fyrir framtíðarlausn á samgöngumálum okkar Eyjamanna. Sumir vilja jarðgöng, aðrir ferjuhöfn í Bakkafjöru en sumir vilja hreinlega bara nýtt og stærra skip sem siglir til Þorlákshafnar. Sturla vill ekki göng, það er á hreinu. Hann hefur tekið ákvörðun um Bakkafjöru. Við Eyjamenn getum ekki ákveðið hvað við viljum og á meðan svo er mun enginn hlusta á okkur í höfuðborginni.  Þarna þyrfti bæjarstjórnin að taka völdin. Ákveða á hvað skal stefnt. Við höfum talað of lengi, það er kominn tími á aðgerðir.

 Annars held ég að Páll Scheving hafi svolítið til síns máls þegar hann segir að Eyjamenn séu of uppteknir við að reikna hvað sé hagstæðast fyrir ríkið. Hvað er hagstæðast fyrir okkur Eyjamenn?  Við höfum áður tekið frumkvæðið í okkar eigin málum, kannski þurfum við bara að gera það aftur.  


Auðvitað er Everton smálið !

Það var svolítið frústrerandi að horfa á mína menn í Liverpool gera markalaust jafntefli við litla liðið í Bítlaborginni, Everton.  Góður varnarleikur gestanna og afskaplega máttlausir framherjar Liverpool gerðu það að verkum að liðið fjarlægðist Chelsea aðeins aftur.  Jákvæðu fréttirnar þó þær eftir helgina að munurinn á Liverpool og Arsenal er sá sami...

 Voðaleg móðursýki greip um sig í öðrum hluta borgarinnar eftir að Benitez sagði að erfitt væri að keppa við litlu liðin sem vörðust á átta til níu mönnum.  Everton menn fóru upp á afturlappirnar, að kalla liðið lítið!! Skondin minnimáttarkennd sem braust út í stjórnarmönnum félagsins.

Auðvitað er Everton litla liðið í Liverpool. Hvað hefur Everton oft orðið Englandsmeistari? Evrópumeistari? Bikarmeistari?  Stærð liða byggist á titlum, sögunni, ekki sentimetrastærð leikmanna...örverpið í borginni er svo Tranmere Rovers. 

Mér er minnistætt þegar ég fór á Anfield fyrir tveimur árum og bað leigubílstjórann Paul sem tók okkur upp á sína arma að sýna okkur Goodison Park. Paul þessi var ársmiðahafi í Kop stúkunni og hefur verið alla sína tíð. Frábær orginal "scouser" eins og sagt er.  Hann leit á mig hneykslunaraugum þegar ég bað um að fá að sjá Goodison.  Síðan keyrði hann í átt að vellinum, stoppaði á rauðu ljósi, benti til vinstri á völlinn og tók svo beygjuna til hægri, í átt að Anfield...Grin


Sturla, ertu ekki að grínast?

Var að glugga í Moggann á netinu, svakalega þægileg þessi þjónusta að geta flett Mogganum á netinu. Rak augun í viðbrögð Sturlu við mótmælum okkar Eyjamanna út af verðhækkun í Herjólf.  Nei, það verður að standa við þessa samninga. Nýr samningur var gerður á síðasta ári til fimm ára þrátt fyrir að röksemdarfærsla okkar Eyjamanna um endurskoðun á gjaldskránni hafi verið kominn upp á borðið þá.  Það var bara ekkert hlustað á okkur. Og þvert á skoðanir ráðamanna er gjaldið nú hækkað og hvað með það þó stór hluti Eyjamanna hafi mætt og mótmælt? 

 Síðan bendir spekingurinn Sturla Böðvarsson á að rukkað sé fyrir hvern einstakling í flug!  Ertu ekki að grínast?  Hvernig getur hann sett þetta í samhengi?  Annars vegar flug og hins vegar þjóðveginn okkar, Herjólf.  Skilningsleysi samgönguráðherra á samgöngumálum er grátlega hlægilegt...eða þannig.

 


Óþolandi ástand í Eyjum

Ég var einn tæplega fimm hundruð Eyjamanna sem mættu á Básaskersbryggju í gær til að mótmæla hækkun fargjalda Herjólfs.  Þetta er köld vatnsgusa framan í okkur Eyjamenn, á sama tíma og þingmenn og ráðherrar koma til Eyja og jánka og taka undir það að lækka þurfi far og farmgjöld með Herjólfi tekur Eimskip upp á því að hækka fargjaldið og farmgjaldið um tæp 12%. Menn snúast í hringi, vita ekki alveg í hvorn fótinn þeir eiga að standa.

 

Það hefur lengi verið skoðun mín að gjaldskrá Herjólfs er barn síns tíma og á að breyta. Eftir að Hvalfjarðargöngin komu og Herjólfur var merktur sem hluti af þjóðvegakerfi Íslendinga eiga Eyjamenn ekki að borga meira en sem nemur keyrslu 70 kílómetra leið, burtséð frá því hvort ég er að ferðast einn eða með fjóra með mér í bílnum. Þetta er í raun afar eðlileg krafa. Það er ekki rukkað fyrir hausa í Hvalfjarðargöngin, heldur fyrir bíla. Ég set þessi tvö samgöngumannvirki ef svo má að orði komast undir sama hatt.  Raunar búa þeir sem notast við Hvalfjarðargöngin við valkost, þau geta enn keyrt Hvalfjörðinn ef þau vilja ekki borga í göngin. Við höfum ekki slíkt val. 

 

Við erum að fara að horfa upp á það að matvöruverð ætti að lækka 1. mars vegna lækkunar virðisaukaskatts á matvæli. Mun það skila sér til Eyja?  Ég er ekki viss um það, 12% hækkun á farmgjöldum mun alla vega ekki hjálpa til.

 

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra sagði á opnum stjórnmálafundi á Selfossi fyrir rúmu ári síðan þegar hann var inntur eftir því hvort breytinga væri að vænta á gjaldskrá Herjólfs að svo væri ekki. Þeir sem tækju þá ákvörðun að búa á eyju þyrftu að sætta sig við það með þeim kostum og göllum sem fylgdu. Svo mörg voru þau orð og brýnt að Eyjamenn hafi þau í huga í vor þegar kosið verður til Alþingis. Það er líklegt að verði Sjálfstæðisflokkurinn áfram í ríkisstjórn mun Sturla áfram stýra samgönguráðuneytinu. Það eru slæm tíðindi fyrir Eyjamenn, segi kannski ekki dauðadómur fyrir okkur en ráðherra samgöngumála sem finnst í lagi að hækka fargjöldin og gefur í raun skít í alla röksemd Eyjamanna varðandi samgöngur er ekki góð tíðindi fyrir okkur sem hér viljum búa.

 

Hann vinnur að fullum þunga gegn hugmyndum um jarðgöng. Óeðlileg afskipti ráðherra að mínu mati.  Hvernig stendur á því að ráðherra samgöngumála er svo þröngsýnn að hann vilji ekki einu sinni skoða alla möguleika sem eru uppi á borðinu? 

 

Er kannski kominn tími á frönsku aðferðina í mótmælum hjá okkur Eyjamönnum?  Ætla ekki að gera lítið úr mótmælunum í gær, gott mál en fyrir hverju var fólkið að klappa á Básaskersbryggju í gær?  Nei, við þurfum að fara að gera eitthvað róttækt. Hugmyndir hafa verið uppi um að loka götum burt frá Reykjavík en mér líst best á að grýta samgönguráðuneytið með þorskhausum....það myndi vekja athygli J

 

Að endingu vill ég segja eitt:  Fyrir mér kemur ekki til greina að kjósa Sjálfstæðisflokkinn í vor. Þar á bæ er enginn skilningur á kröfum okkar.  Ekki láta blekkjast á fundum fram að kosningum. Þeir hafa fengið sín tækifæri. Kannski var þetta rétt hjá Páli Scheving þegar hann sagði að við værum alltaf að reikna.  Við eigum að berja í borðið, láta þetta fólk finna að okkur er alvara.

 

Eyjamenn eru ekki byrði á íslensku samfélagi og hafa aldrei verið. Að láta koma fram við okkur eins og einhverja helvítis aumingja er óþolandi. Við höfum í gegnum tíðina komið með meiri tekjur inn í samfélagið en flest önnur sveitarfélög. Við eigum okkar rétt og það er kominn tími til að fara að innheimta þann rétt.


Valdarán eða varnarsigur?

Það hefur verið athyglisvert að fylgjast með átökunum í Frjálslynda flokknum undanfarið. Átök sem náðu hámarki um helgina þegar landsþingið var haldið og allt í einu fjölgaði “frjálslyndum” Íslendingum um helming. Minnti óneitanlega á þegar Ágúst Ólafur Ágústsson hlaut kjör sem varaformaður Samfylkingarinnar. Í báðum tilvikum eru menn á afar gráu svæði í smölun, svo ekki sé meira sagt.

 

Er verið að ræna Frjálslynda flokknum?  Einhvern veginn hef ég það á tilfinningunni, að Guðjón Arnar, Magnús Þór og Jón Magnús séu að eigna sér flokkinn og vilja þá hreinsa til og koma sínu fólki að á réttu stöðum. Fyrsta manneskjan sem þurfti að víkja var dóttir fyrrverandi formannsins, Margrét Sverrisdóttir enda hún talsmaður “gamla” flokksins en ekki hins nýja. Nú er það ekki lengur kvótakerfið sem er helsti óvinur íslenska ríkisins, heldur útlendingar.... 

 

Ég get ekki séð að Margrét geti verið áfram í flokknum.  Stefnumálin breytast, úr því að vera hófstilltur hægri flokkur með áherslu á sjávarútvegsmál yfir í það að vera róttækur hægri flokkur með áherslur á rasískar hugmyndir. Svona svipað og hefur verið að gerast annarsstaðar í Evrópu á undanförnum árum, þá hefur einn smáflokkur eignað sér þennan málaflokk og hlotið athygli og meira fylgi. Um leið hafa þessir flokkar strikað sig út af lista yfir mögulega samstarfsaðila. Það hafa Frjálslyndir núna gert.

 

Að mörgu leyti má segja að Frjálslyndi flokkurinn á Íslandi og Frjálslyndi flokkurinn í Reykjavík séu tveir flokkar.  Ég er búinn að lýsa þeim fyrri en sá síðari er mildur hægrisinnaður flokkur með áherslu á umhverfis og velferðarmál. Skorar kannski ekki eins mikið í skoðanakönnunum en er mun líklegri til þess að ná árangri en rasískur öfgaflokkur...


I'm back

Veit að ég hef verið hundlélegur hérna undanfarið og ætla svo sem ekkert að fara að lofa bót og betrun en færslunum mun fjölga...

Verð fyrst að ræða aðeins um þá ákvörðun bæjarstjórnar Vestmannaeyja að skora á samgönguráðherra að koma með nýtt skip í siglingar milli lands og Eyja. Bæjarstjórnin var sammála í málinu sem var athyglisvert og styrkir málið.  Samt held ég að ráðherrann muni ekki sinna kröfum Eyjamanna. Því miður, slík er reynslan.

Á sama tíma og rætt er um að efla landsbyggðina þá tekur Vegagerðin upp á því að semja við Eimskip um hækkun fargjalda Herjólfs. Frábært !! Auðvitað á að lækka þessi fargjöld, ekki hækka. Við eigum að borga jafn mikið og kostar að keyra 70 km leið, ekki krónu meira, burtséð frá því hvað það eru margir í bílnum. Dæmi: Ég fer einn upp á land með bílinn. Ég greiði x krónur fyrir það, segjum tvö þúsund kall. (Bensínkostnaður/slit á bíl o.s.frv.) ... næstu helgi á eftir ákveður öll fjölskyldan að fara, ég, konan og börnin tvö. Við borgum þá líka tvö þúsund.  En ef þú ert ekki á bíl?  Þá borgar þú samsvarandi verð við rútufargjald einhverja 70 km. (Reykjavík/Selfoss??)

Ég tók það saman um daginn, við eyddum tæplega 200 þúsund krónur í ferðakostnað á síðasta ári og við teljumst seint til flakkara...alla vega ég :-)

 ...þangað til næst


Bjartari tímar eða hvað?

Það hefur heldur betur lagast skapið á okkur Liverpool mönnum síðustu vikurnar enda hafa mörkin ekki látið á sér standa í síðustu tveimur leikjum og meira að segja skoraði Jamie Carragher !!!!

 

Liðið er nú komið upp í topp fjögur og vonandi ná þeir að festa sig þar í sessi, finnst reyndar ólíklegt að félagið nái Chelsea og Man.Utd. úr því sem komið er en það væri gaman að hressa aðeins upp á baráttuna með góðu “runni” yfir hátíðirnar og nálgast aðeins toppinn.

 

Svo er það umræðan um Allah á Anfield (flott fyrirsögn hjá DV) en sjeik frá Dubai ku vera að kaupa félagið. Sá hinn sami er víst ríkari en sjálfur Roman Abramovich. Nú er ég ekki viss um að þetta sé rétt skref hjá félaginu en held að sú kalda staðreynd blasir við að ef félagið verður ekki selt mun það enda sem eitt af miðlungsliðunum í enska boltanum, vera svona Tottenham, Newcastle, Aston Villa deildarinnar. Ef Dubai Holdings kaupa félagið má búast við að liðið verði að berjast við Chelsea, Man.Utd. og Arsenal áfram.  Hvort vilja menn?

 

Veit ekki en því miður held ég að þetta sé hinn kaldi veruleiki sem blasir við. Ríkir menn geta hreinlega keypt sér success í þessum fótboltaheimi. En hverjir hafa verið að kaupa sér ensk fótboltalið síðustu ár?  Tveir bandarískir kaupsýslumenn, Malcolm Glazier (Man.Utd.) og man ekki hvað hann heitir sem keypti Aston Villa. Rússneskur olíuauðkýfingur kaupir Chelsea og gjörbreytir boltanum, nú er Dubai olíuauðkýfingur, talinn fimmti ríkasti maður í heimi að pæla í að splæsa í Liverpool og svo síðast en ekki síst....íslenskir kaupsýslumenn sem kaupa West Ham. Ekki slæmur félagsskapur þetta fyrir Eggert og félaga J


Pako Aysteran

Við bræðurnir erum miklir stuðningsmenn Liverpool og eigum því erfitt þessa dagana. Liðinu gengur hörmulega og útlit fyrir að það verði ekki einu sinni Meistaradeildarfótbolti á Anfield næsta vetur. Það yrði rosalegt.

 

Menn hafa verið að velta fyrir sér ástæðunum. Hvað er í gangi og hvað er til ráða? Bent hefur verið á að Steven Gerrard sé að spila út á hægri kanti. Ég er sammála því, einn af þremur bestu miðjumönnum í Evrópu geymdur út á hægri kanti!! Nei, inn á miðjuna með kvikindið, ásamt Xabi. Gonzales/Zenden/Pennant og Kewell þegar hann verður klár eru allt kantmenn sem hægt væri að nota. Svo Riise á vinstri kantinn, alls ekki hægri enda einfættasti maður sem ég hef séð í fótbolta!

 

Hyypia út úr vörninni. Hann hefur skilað sínu en orðinn hrikalega hægur. Agger gæti slegið í gegn.

 

En ég held að Hjölli bro hafi hitt naglann á höfuðið þegar hann spurði hvort ástæðan fyrir slöku gengi liðsins gæti verið Pako Aysteran.  Pako var aðstoðarþjálfari Rafa Benitez en hætti í vor. Hann hefur fylgt honum síðan í byrjun þjálfaraferils Rafa hjá Valencia. Það hefur gengið vel hjá þeim sem teymi....en spurning hvort Rafa sé hálf vængbrotinn eftir að Pako flutti aftur til Spánar?

 

Þetta held ég að geti verið rétt, því þessir leikmenn urðu ekki allt í einu lélegir ...


Þetta með hann Árna Johnsen

Jæja, þá er prófkjöri sjálfstæðismanna lokið og verð ég að segja að ég vanmat styrk Árna Johnsen í prófkjörinu all illilega. Hann inn og Guðjón út. Þar lá minn feill.  Ég giskaði á að Árni Matt næði efsta sætinu með 45-55% atkvæða, niðurstaðan innan við 50%. (Bara svona minna á það sem var rétt Wink

 

Kjartan er sæti neðar en svo eru það Björk og Unnur Brá, þær voru einhvern veginn alltaf í þeim sætum í mínum huga. Aftur á móti, líkt og ég vanmat styrk Árna Johnsen þá ofmat ég hrikalega styrk Gunnars Örlygs...

 

Það hefur verið ofsalega skrýtin umræða, bæði á málefnum og barnalandi um þessi mál. Talað er um að Eyjamenn séu orðnir ruglaðir, nú á að nota Herjólf í hvalaskoðun og hætta öllu flugi, kjör hans segi meira en mörg orð um mannauðinn í Eyjum, allir kusu hann út af göngunum, gert út af samlíkingu milli Árna og Hitlers !! og fleira og fleira...

 

Þetta er nú svolítið öfgakennt og segir meira en mörg orð um þá sem þetta skrifa. Hins vegar held ég, sem Eyjamaður að kjör Árna muni skaða Vestmannaeyjar frekar en hitt. Árni Johnsen var góður þingmaður fyrir okkur á sínum tíma en er hægt að ímynda sér stöðuna sem hann verður kominn í inn í þingflokkinn?  Hann verður algjörlega einangraður, ekki treyst fyrir neinu, úti í horni í þingmannaherberginu. Svona svipaðri stöðu og Kristinn H er hjá Framsókn (Ekki það að ég sé að líkja þeim tveim saman, Kristinn er í skammakróknum út af óþekkt, engu öðruDevil

 

Svo ber að hafa það í huga að það voru ekki Eyjamenn sem komu honum á þing, heldur Suðurkjördæmingar (svo ég noti nú nýirði Árna Johnsen) Árni fékk gríðarlega góða kosningu um allt kjördæmið, hann var í öðru sæti allan tímann. Við fyrstu talningu var aðeins búið að telja um 200 atkvæði frá Eyjum, í allt voru þau um 1800. Þá þegar var Árni kominn með tæplega 700 atkvæði. Hann var jafn allsstaðar á meðan svæðaskipting kom í ljós síðar um nóttina. Til að mynda þegar Guðjón Hjörleifs stökk upp í 3. sæti. Þá var greinilega verið að telja hlutfallslega mikið frá Eyjum. Þá nálgaðist Árni Johnsen efsta manninn ekkert, þannig að stuðningurinn í Eyjum er ofmetinn.

 

Árni Johnsen hefur enn ekki iðrast gjörða sinna opinberlega. Hann gerði tæknileg mistök!! Nei, hann verður að viðurkenna brot sitt og biðja þjóðina afsökunar. Það er lágmarkskrafa sem kjósendur gera til hans.

 

Hvað með Árna Matt??  Tæplega helmingur vildi að hann leiddi listann, rúm 30% að Árni Johnsen væri í efsta sæti...varla er Mathiesen ráðherraefni lengur?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband