Færsluflokkur: Bloggar
Það hefur verið nóg að snúast í kringum prófkjörin í Suðurkjördæmi síðustu daga. Prófkjör Samfylkingarinnar búið þó enn sé ekki búið að telja og sjálfstæðismenn með prófkjör um næstu helgi.
Samfylkingin fékk í sínu prófkjöri alveg skýr skilaboð um hvað þarf að berjast fyrir varðandi Vestmannaeyjar næstu fjögur árin. Bættar samgöngur, enda kjörgögnin tvo sólahringa á leiðinni upp á land.... :-)
Það var frábær þátttaka hjá Samfylkingunni í Eyjum. 1200 atkvæði, það er 40% kosningabærra manna í Eyjum. Það er meira heldur en fylgi V-listans var í bæjarstjórnakosningunum í vor. Það var stemmning fyrir þessu prófkjöri og þar held ég að fjöldi Eyjamanna í framboði hafi skipt sköpum, tveir stemmningsmenn buðu sig fram, Hlynur Sigmarsson og Róbert Marshall. Báðir nýjir á pólitíska sviðinu en kraftmiklir. Svo held ég að Guðrún Erlings hafi tregt að og svo að sjálfsögðu Lúðvík Bergvins en hann á trygga stuðningsmenn hér og þeir hefðu hvort eð er mætt. Hinir, ég giska á 500 komu á kjörstað fyrst og fremst til að styðja við hina þrjá frambjóðenduna.
Þannig að svæði sem telur um 9% af kjördæminu nær 20% vægi. Það hlýtur að boða gott fyrir Lúðvík, ég spái því að hann vinni fyrsta sætið.
Annars er nú svolítið surreal að spá núna, nokkrum klukkutímum áður en fyrstu tölur koma en ég læt vaða:
Mín spá:
1. Lúðvík Bergvinsson
2. Björgvin G. Sigurðsson
3. Róbert Marshall
4. Ragnheiður Hergeirsdóttir
5. Jón Gunnarsson
Þarna fyrir neðan koma svo bæði Guðrún og Hlynur, vona ég að Guðrún nái öðru sæti kvennanna í prófkjörinu, þá ætti hún að færast upp í 5. sæti samkvæmt kynjareglum prófkjörsins....
Annars kemur þetta í ljós í kvöld...spennandi
Bloggar | 6.11.2006 | 11:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þar sem tvö tré koma saman, þar er skógur, sagði landbúnaðarráðherrann eitt sinn. Reyndar heyrði ég að hann hafi sagt á setningu hestamannamóts fyrir nokkrum árum, þar sem tveir hestamenn koma saman, þar er hestamannamót
Oftúlkun á aðstæðum virðist vera orðinn siður í íslenskum fjölmiðlum. Þegar tvö tjöld eru tjaldborg eins og gerðist upp við Kárahnjúka fyrir nokkrum árum. Svo eru tvö nýleg dæmi, þegar breskur almenningur mótmælti hvalveiðum Íslendinga, en sendiráðinu hafði borist 30 tölvupóstar. Þrjátíu, segi og skrifa frá Bretlandi. Hvað ætli búi margir þarna?
Svo voru það fjórar hræður sem mótmæltu veru bandarísks herskips í Reykjavíkurhöfn. Og auðvitað voru það fjöldamótmæli !!
Er þetta ekki fullmikið af því góða. Það verða að vera grípandi fyrirsagnir en kommon
Bloggar | 20.10.2006 | 08:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mótmæli við Kárahnjúkavirkjun hafa verið gríðarleg. Öfgafull vill ég meina og fréttaflutningurinn fyrir neðan allar hellur. Ég man eftir frétt í öðrum hvorum sjónvarpsfréttamiðlinum þegar talað var um að tjaldbúðir hafi nú risið við Kárahnjúka. Flogið var yfir svæðið og sáust tvö tjöld á myndunum. Tvö tjöld = tjaldbúðir minnir óneitanlega á orð landbúnaðarráðherra, þar sem tvö tré koma saman þar er .... eða þar sem tveir hestamenn koma saman, þar er hestamannamót !!
Nú berast okkur daglegar fréttir um hversu djúpt Hálslón er orðið og fréttamyndirnar með af Ómari Ragnarssyni á Örkinni sinni. Eins hefur vakið athygli þegar myndir hafa verið frá mótmælum við Kárahnjúka að yfirleitt eru þar unglingar og/eða ungt fólk að mótmæla. Í viðtölum við þau hefur harla lítið komið fram, þau eru bara á móti virkjunum sko...
Eins hafa erlendir mótmælendur verið þar fremstir í flokki. Svokallaðir atvinnumótmælendur...þau máttu ekki svo lítið sem stíga inn á svæðið þá var kominn myndatökumaður á svæðið. Ég verð að viðurkenna að þessi fréttaflutningur hefur oft á tíðum verið svolítið kjánalegur.
Núna eru mótmælendur aftur á móti komnir með öflugan talsmann í Ómari Ragnarssyni og það kæmi mér ekki á óvart að sjá hann í framboði í vor. Hvort sem það verður á lista VG eða í sérstökum umhverfisflokk. Ómar hefur um árabil verið gríðarlega öflugur fréttamaður og ósjaldan fjallað um náttúru Íslands. Þess vegna hlustar fólk þegar Ómar talar um þessi mál. Aftur á móti missti hann fljótlega marks hvað varðar mig persónulega þegar hann fór að tala um að hætta við að fylla lónið og láta stífluna standa óhreyfða og ónotaða. Þvílík firra.
En það að Ómar skyldi fá 10 þúsund manns með sér í göngutúr niður Laugarveginn segir allt sem segja þarf um áhuga Íslendinga á umhverfisvernd. Raunar hefur mér fundist Reykvíkingar tala hæst um umhverfisvernd í réttu samræmi við fjarlægðina frá Reykjavík.
Það voru ekki umhverfissjónarmið sem réðu ríkjum þegar umræðan um Vatnsmýrina var sem hæst, nei, þá voru það viðskiptasjónarmið. Stækkunin í Straumsvík fær enga umfjöllun miðað við Kárahnjúka svo ekki sé talað um Hellisheiðavirkjun sem er þvílíkt mannvirki. Nei, svo þegar það á að virkja hinum megin á landinu á stað sem ég hafði ekki einu sinni heyrt um áður en kom að þessu (Reyndar aldrei verið sleipur í landafræði) þá fer allt á hliðina í kaffihúsunum í Reykjavík.
Umhverfismál verða eitt af aðalmálunum í vor og þar koma VG einir flokka sterkir til leiks. Samfylkingin er ótrúverðug í sínum málflutningi, flokkur sem samþykkir virkjunina en eftir að almenningsálitið breyttist þá breytist viðhorfið. Gerist í alltof mörgum málum fyrir minn smekk hjá þeim flokki. Framsókn er höfundur og í ábyrgð fyrir virkjuninni í hugum landsmanna. Erfitt fyrir þau en að mínu mati hefur flokkurinn ekkert til að skammast sín fyrir. Sjálfstæðisflokkurinn ber ekkert minni ábyrgð en einhvern veginn ekki lent í orrahríðinni. Veit ekkert hvar Frjálslyndir standa, það er alveg sama hvað sá flokkur byrjar að tala um, hann endar alltaf í röfli um kvótakerfið.
Bloggar | 5.10.2006 | 14:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Það er orðið staðreynd á Íslandi að hér búa tvær þjóðir. Annars vegar borgarlýður og hins vegar landsbyggðarpakk.
Borgarbúar og íbúar nálægra sveitarfélaga búa við mikla þenslu, blokkir rísa í nýjum og nýjum hverfum upp um alla hugsanlega hóla í nágrenni Reykjavíkur og svo slæmt er ástandið að fólk fer í vinnu að morgni og ratar varla heim til sín að kveldi! Fólk lifir hratt og hátt. Þriggja herbergja íbúð í blokk á 25 til 30 milljónir þykir vel sloppið og auðvitað verða að vera tveir bílar á heimilinu. Fólk lifir hátt, auk bílanna er það sumarbústaður sem er nauðsynlegur til að komast úr borgarstressinu.
Landsbyggðarpakkið skilur hins vegar ekkert í þessu. Það á einbýlishús sem kostar innan við 20 milljónir, einn bíll dugar enda ekki langt endilega á milli staða. Nýbyggingar ná athygli lókal fjölmiðla, það á að fara að byggja!! Fólk lifir fyrir daginn í dag, flestir velta því fyrir sér að flytja á mölina. Þeim finnst það vera að missa af góðærinu. Það kom aldrei vestur/suður/norður...(núna kannski austur?)
Í dag miðast þjóðfélagið og efnahagsstjórnin við hvað er gott fyrir borgarsamfélagið. Allt tekur mið af Reykjavík og nágrenni. Það er kannski ekki skrýtið, sé litið á það að meirihluti landsmanna býr þar. Það þarf bara að viðurkenna það, hætta þessari bölvuðu vitleysu um landsbyggðarstefnu og fleira í þeim dúr. Ráðamenn eiga að viðurkenna að stefnan er að uppbygging Íslands fari fram á litlum bletti á suðvestur horni landsins. Þá fyrst getur landsbyggðin farið að líta raunsætt á framtíðina, við (þ.e. pakkið) lifum í blekkingu í dag. Við höldum virkilega að ríkið ætli sér að gera eitthvað til að bæta lífskjör okkar eða búsetuskilyrði. Ja hérna...
Bloggar | 4.10.2006 | 11:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ég var svolítið ánægður með Kristján Möller alþingismann í viðtali á Stöð 2 í gærkvöldi. Þannig var þrátt fyrir að spyrillinn hafi margspurt hann sömu spurninganna aftur og aftur þá var hann þolinmóður og kom rólega sínum sjónarmiðum á framfæri.
Spyrillinn vildi vita hvort Kristjáni fyndist það vera rétt forgangsröðun að ráðast í jarðgöng á meðan Sundabraut í Reykjavík væri ókláruð. Kristján sagði jarðgöngin vera fyrir alla Íslendinga, líkt og Sundabrautin yrði líka fyrir alla Íslendinga, það er þegar búið væri að undirbúa það mál. Ennþá á teikniborðinu. Eins sagði hann að forgangsröðunin væri slík að búið væri að berjast í 15 ár fyrir göngum sem núna loksins eru komin á dagskrá.
Svo kláraði hann alveg umræðuna í restina þegar hann sagðist hafa verið að skoða fjárlögin og tók eftir að um 700 milljónir færu í jarðgangaframkvæmdir á árinu en til dæmis kostaði rekstur Þjóðleikhússins rúmar 600 milljónir...
En svona til gamans tók ég nokkra þætti úr menntamálaráðuneytinu varðandi kostnað:
Íslenski dansflokkurinn 96 milljónir
Þjóðleikhúsið: 610 milljónir
Sinfóníuhljómsveit Íslands: 303 milljónir
Listasjóðir: 305 milljónir
Kvikmyndamiðstöð Íslands: 463 milljónir
Listir - framlög: 702 milljónir. (Svolítið vítt, listir-framlög?? Bíddu, hvaða framlög eru þetta eiginlega??)
Bloggar | 3.10.2006 | 18:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Jæja, bloggurum fjölgar dag frá degi og maður er ekki maður með mönnum öðruvísi. Kannski bölvuð vitleysa að vera að þessu en ég ákvað að prufa þetta, sjá hvort þetta er eitthvað fyrir mig. Það er kannski við hæfi að fyrsta færslan sé um samgöngumál okkar Eyjamanna. Það hefur verið aðalmálið í Eyjum undanfarin ár og engin breyting þar á. Raunar er alveg sama hversu mikið er talað um samgöngumál, ástandið batnar lítið og í raun fer þeim aftur ef eitthvað er.
Flugið er nýjasta í þeim efnum. Að hingað sé ekki flogið áætlunarflug til Reykjavíkur er með ólíkindum. Við erum komin aftur til ársins 1950 varðandi þá leið. Það er reyndar þannig að undanfarin ár hefur þjónustan á flugleiðinni verið þannig að Eyjamenn hættu að líta á flugið sem valkost. Hátt verð og óstapílar ferðir gerði það að verkum. Ferðir voru felldar niður ef það hentaði flugfélaginu og því ekkert hægt að stóla á flugið. Þess vegna fara menn um borð í Herjólf. Hann siglir alltaf....
Nú á að ríkisstyrkja flugleiðina. Ég var voðalega hissa á fréttum Stöðvar 2 um daginn (eða er það NFS?) þegar verið var að segja frá hugsanlegu útboði. Í niðurlagi fréttanna sagði fréttamaðurinn eitthvað á þá leið: "Þess má geta að þá eru Vestmannaeyjar komnir í flokk með jaðarbyggðum eins og Grímsey og Gjögur í ríkisstyrktu áætlunarflugi" Bíddu nú við, hvers vegna var þetta tekið fram og hvers vegna var ekki sagt frá því að ríkisstyrkt flug er líka á Sauðárkrók og Höfn? Það hentaði örugglega ekki fréttinni?
Kannski hefði verið spurning að segja fréttina þannig að geta þess að nú væri ríkisstyrkt flug á alla áfangastaði nema þrjá, Ísafjörð, Akureyri og Egilsstaði.....
Bloggar | 2.10.2006 | 09:16 (breytt kl. 09:18) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bloggar | 2.10.2006 | 09:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Færsluflokkar
Tenglar
Heimsótt reglulega
Bloggvinir
Apríl 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | 5 | ||
6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 | 12 |
13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 | 19 |
20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 | 26 |
27 | 28 | 29 | 30 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (20.4.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 828
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar