Færsluflokkur: Bloggar
Ég hef verið svolítið hugsi undanfarið yfir þeim fréttum sem berast úr skoðanakönnunum. Útlit er fyrir vinstri stjórn í sumar og þá undir forystu VG. Steingrímur Joð yrði forsætisráðherra.
Nú er ekki svo að ég telji hann ekki hæfan í þá stöðu. Þvert á móti, Steingrímur Joð er einn af reynslumestu stjórnmálamönnum okkar Íslendinga. Hann hefur einu sinni verið í ríkisstjórn, sat sem landbúnaðar- og samgönguráðherra. Þá var meðal annars tekin ákvörðun um byggingu nýs Herjólfs.
Hins vegar óttast ég þær skoðanir sem VG stendur fyrir. Grínlaust þá óttast ég þá öfgastefnu sem boðuð er. Bæði í umhverfismálum sem VG hefur tekið forystu í. Nú skal stoppa framkvæmdir og njóta þess að vera úti í náttúrunni. Þeir hafa meðbyr í umhverfismálum og má þakka þeim málaflokki hversu sterkur flokkurinn er.
Þær leiðir sem VG hefur boðað í jafnréttismálum hræða mig líka. Lögbinda jafna setu í stjórnum og fikta í lýðræðinu með því að setja í lög að jafnmargar konur og karlar sitji á þingi. Þetta eru öfgasjónarmið sem eiga engan veginn upp á pallborðið hjá mér. Raunar hefur mér fundist í mörgum tilvikum jafnréttisbaráttan farin að snúast upp í andhverfu sína og oft hreinlega verið að níðast á kynbræðrum mínum en kannski meira um það seinna.
Ögmundur vill bankanna úr landi. Alla vega væri honum slétt sama ef það yrði niðurstaðan. Steingrímur Joð vill netlöggu til að fylgjast með hvaða heimasíður íslenskir netnotendur heimsækja.
Ég veit hreinlega ekki hvernig ríkisstjórn væri best fyrir Íslendinga í dag. Kannski samsteypustjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Alla vega betri kostur en kaffibandalagið. Þá væru ekki bara öfgasjónarmið í umhverfis,- jafnréttis og öryggismálum. Nei, þá bættust við öfgasjónarmið Frjálslynda í innflytjendamálum.
Nei takk.
Bloggar | 19.3.2007 | 09:26 (breytt kl. 10:54) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Vinur minn Grétar Ómarsson skrifar athyglisverða bloggfærslu um læti innan grunnskólans hér í Eyjum. Hann er stórorður og talar um að verið sé að bola föður hans, ritstjóra Frétta úr starfi vegna skrifa hans og vegna þess að birt var bréf frá krökkunum á síðum Frétta en ekkert nafn undir.
Ég vann í tæp sex ár á Fréttum og veit að það var regla að birta ekki bréf nema viðkomandi var tilbúinn að skrifa undir það. Reyndar fengum við oft góðar fréttir upp úr slíkum bréfum því þó þau voru ekki birt þá var fréttapunktur í þeim sem við eltum. Ómar ritstjóri skýrir það mjög vel í síðustu fréttum hvers vegna þessi regla var brotin. Það átti að vinna frétt upp úr þessu en það vannst ekki tími og því ákvað hann að birta greinina. Hann segir líka að það gæti vel verið rangt hjá honum...
En er málinu þar með lokið? Það virðist ekki vera, alla vega miðað við bloggið hans Grétars. En er ekki grafalvarlegt mál ef kennari ýtir nemanda niður tröppur? Er það ekki ákveðinn fréttapunktur?
Bloggar | 12.3.2007 | 10:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Það er greinilegt að Sturla ætlar að halda áfram að draga okkur Eyjamenn á asnaeyrunum fram yfir kosningar. Að hann skuli núna vera að íhuga að gefa eftir varðandi frekari rannsóknir er ekki sannfærandi enda hefur hann margoft lýst því yfir að hann telji enga þörf á slíku. Hvað hefur breyst? Kannski nálgast kjördag?
Það er ekki verið að krefjast þess að það sé byrjað að bora, nei, það er verið að fara fram á að rannsóknir séu kláraðar til þess að hægt sé að taka ákvörðun um jarðgöng eða Bakkafjöru. Vegagerðin segir enga þörf á frekari rannsóknum en sérfræðingar erlendis frá í jarðgangagerð treysta sér ekki til þess að gera áætlun fyrr en umræddar rannsóknir liggja fyrir. Hverjum ætti maður svo að trúa?
Nei, lykilatriði til þess að byggð í Eyjum eflist á næstu árum er að bæta samgöngur. Þetta er skref sem mun skipta byggð í Eyjum máli næstu 20-30 árin að minnsta kosti. Það er verið að fara að eyða milljörðum í þær framkvæmdir. Er til of mikils mælst að farið sé með nokkra tugi milljóna í það að klára rannsóknir svo allir möguleikar séu jafnir á borðinu þegar ákvörðun er tekin? Það finnst Sturlu en ekki mér.
![]() |
Ákvörðun um mat á þörf á frekari rannsóknum á Vestmannaeyjagöngum ekki verið tekin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | 6.3.2007 | 08:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Það er svolítið athyglisvert að velta því fyrir sér hvert viðhorfið til okkar Eyjamanna er. Miðað við sumar bloggsíður þá erum við heimtufrekjur meðan aðrir taka undir kröfur okkar. Sumir skilja ekkert í þessum fáránlegu kröfum okkar um breytta gjaldskrá Herjólfs, helber frekja og yfirgangur í eyjaskeggjum!!
Nú skulum við rifja aðeins upp okkar baráttu fyrir bættum samgöngum í Eyjum síðustu árin. Þegar núverandi Herjólfur var byggður voru margir þingmenn hreinlega á móti stærð skipsins, töldu það allt of stórt fyrir svona lítið bæjarfélag. Það náðist þó í gegn að skipið var smíðað en þó stytt eilítið af þáverandi samgönguráðherra, Steingrími J. Sigfússyni. Nú er skipið allt of lítið og hefur verið í nokkur ár.
Fyrst sigldi skipið eina ferð á dag en fljótlega bættust við ferðir í kringum helgarnar á sumrin. Krafa Eyjamanna um tvær ferðir á dag, alla daga vikunnar, allt árið var fáránleg að mati margra fyrst um sinn. Meira að segja ráðamenn í Eyjum hlógu af þessum kröfum fyrst um sinn, sömu og síðar stukku upp á vagninn og kröfðust breytinga, sem betur fer.
Það tók langan tíma að sannfæra samgönguráðherra um málið. Áður hafði verið bætt við ferðum á fimmtudögum og mánudögum. Alltaf voru þessar ferðir fullar en ekki þótti ástæða til að bæta við ferðum aðra daga. Menn sögðu engan ferðast á miðvikudögum seinni partinn eða með seinni ferð á laugardögum. Flestir voru sammála um að sú ferð væri algjörlega óþörf. Annað hefur aldeilis komið á daginn og samkvæmt mínum heimildum er það sú ferð sem komið hefur mest á óvart og er mikið notuð.
Að lokum gaf ráðherrann eftir og þóttist nú vera búinn að gera nóg fyrir þetta fólk sem valdi það að búa á eyju, með þeim kostum og göllum sem því fylgja. En þá kom að fluginu. Eftir að Flugfélag Íslands hætti flugi til Eyja fyrir þremur árum þá hafa flugsamgöngur verið afar stopular. Tvö lítið og vanmáttug flugfélög reyndu að halda uppi áætlunarflugi til Reykjavíkur en fengu litlar undirtektir. Bæði var fargjaldið allt of hátt og vélarnar mun minni en Eyjamenn áttu að venjast. Flugfélögin hefðu þurft bolmagn til þess að geta vanið markaðinn við sig en það höfðu þessi félög ekki. Flugfélagið kom ekki inn á markaðinn aftur nema vegna ríkisstyrks sem loks fékkst í gegn, aftur eftir margra ára baráttu þar sem fyrst þurfti að sannfæra ráðamenn í Eyjum áður en hægt var að sækja á ráðherra.
Það er ríkisstyrkur á flestum flugleiðum á Íslandi. Aðeins þrjár leiðir eru ekki ríkisstyrktar, það er flug til Ísafjarðar, Egilsstaða og Akureyrar.
Nú berjumst við fyrir framtíðarlausn á samgöngumálum okkar Eyjamanna. Sumir vilja jarðgöng, aðrir ferjuhöfn í Bakkafjöru en sumir vilja hreinlega bara nýtt og stærra skip sem siglir til Þorlákshafnar. Sturla vill ekki göng, það er á hreinu. Hann hefur tekið ákvörðun um Bakkafjöru. Við Eyjamenn getum ekki ákveðið hvað við viljum og á meðan svo er mun enginn hlusta á okkur í höfuðborginni. Þarna þyrfti bæjarstjórnin að taka völdin. Ákveða á hvað skal stefnt. Við höfum talað of lengi, það er kominn tími á aðgerðir.
Annars held ég að Páll Scheving hafi svolítið til síns máls þegar hann segir að Eyjamenn séu of uppteknir við að reikna hvað sé hagstæðast fyrir ríkið. Hvað er hagstæðast fyrir okkur Eyjamenn? Við höfum áður tekið frumkvæðið í okkar eigin málum, kannski þurfum við bara að gera það aftur.
Bloggar | 6.2.2007 | 08:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Var að glugga í Moggann á netinu, svakalega þægileg þessi þjónusta að geta flett Mogganum á netinu. Rak augun í viðbrögð Sturlu við mótmælum okkar Eyjamanna út af verðhækkun í Herjólf. Nei, það verður að standa við þessa samninga. Nýr samningur var gerður á síðasta ári til fimm ára þrátt fyrir að röksemdarfærsla okkar Eyjamanna um endurskoðun á gjaldskránni hafi verið kominn upp á borðið þá. Það var bara ekkert hlustað á okkur. Og þvert á skoðanir ráðamanna er gjaldið nú hækkað og hvað með það þó stór hluti Eyjamanna hafi mætt og mótmælt?
Síðan bendir spekingurinn Sturla Böðvarsson á að rukkað sé fyrir hvern einstakling í flug! Ertu ekki að grínast? Hvernig getur hann sett þetta í samhengi? Annars vegar flug og hins vegar þjóðveginn okkar, Herjólf. Skilningsleysi samgönguráðherra á samgöngumálum er grátlega hlægilegt...eða þannig.
Bloggar | 2.2.2007 | 11:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Veit að ég hef verið hundlélegur hérna undanfarið og ætla svo sem ekkert að fara að lofa bót og betrun en færslunum mun fjölga...
Verð fyrst að ræða aðeins um þá ákvörðun bæjarstjórnar Vestmannaeyja að skora á samgönguráðherra að koma með nýtt skip í siglingar milli lands og Eyja. Bæjarstjórnin var sammála í málinu sem var athyglisvert og styrkir málið. Samt held ég að ráðherrann muni ekki sinna kröfum Eyjamanna. Því miður, slík er reynslan.
Á sama tíma og rætt er um að efla landsbyggðina þá tekur Vegagerðin upp á því að semja við Eimskip um hækkun fargjalda Herjólfs. Frábært !! Auðvitað á að lækka þessi fargjöld, ekki hækka. Við eigum að borga jafn mikið og kostar að keyra 70 km leið, ekki krónu meira, burtséð frá því hvað það eru margir í bílnum. Dæmi: Ég fer einn upp á land með bílinn. Ég greiði x krónur fyrir það, segjum tvö þúsund kall. (Bensínkostnaður/slit á bíl o.s.frv.) ... næstu helgi á eftir ákveður öll fjölskyldan að fara, ég, konan og börnin tvö. Við borgum þá líka tvö þúsund. En ef þú ert ekki á bíl? Þá borgar þú samsvarandi verð við rútufargjald einhverja 70 km. (Reykjavík/Selfoss??)
Ég tók það saman um daginn, við eyddum tæplega 200 þúsund krónur í ferðakostnað á síðasta ári og við teljumst seint til flakkara...alla vega ég :-)
...þangað til næst
Bloggar | 26.1.2007 | 14:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Það hefur heldur betur lagast skapið á okkur Liverpool mönnum síðustu vikurnar enda hafa mörkin ekki látið á sér standa í síðustu tveimur leikjum og meira að segja skoraði Jamie Carragher !!!!
Liðið er nú komið upp í topp fjögur og vonandi ná þeir að festa sig þar í sessi, finnst reyndar ólíklegt að félagið nái Chelsea og Man.Utd. úr því sem komið er en það væri gaman að hressa aðeins upp á baráttuna með góðu runni yfir hátíðirnar og nálgast aðeins toppinn.
Svo er það umræðan um Allah á Anfield (flott fyrirsögn hjá DV) en sjeik frá Dubai ku vera að kaupa félagið. Sá hinn sami er víst ríkari en sjálfur Roman Abramovich. Nú er ég ekki viss um að þetta sé rétt skref hjá félaginu en held að sú kalda staðreynd blasir við að ef félagið verður ekki selt mun það enda sem eitt af miðlungsliðunum í enska boltanum, vera svona Tottenham, Newcastle, Aston Villa deildarinnar. Ef Dubai Holdings kaupa félagið má búast við að liðið verði að berjast við Chelsea, Man.Utd. og Arsenal áfram. Hvort vilja menn?
Veit ekki en því miður held ég að þetta sé hinn kaldi veruleiki sem blasir við. Ríkir menn geta hreinlega keypt sér success í þessum fótboltaheimi. En hverjir hafa verið að kaupa sér ensk fótboltalið síðustu ár? Tveir bandarískir kaupsýslumenn, Malcolm Glazier (Man.Utd.) og man ekki hvað hann heitir sem keypti Aston Villa. Rússneskur olíuauðkýfingur kaupir Chelsea og gjörbreytir boltanum, nú er Dubai olíuauðkýfingur, talinn fimmti ríkasti maður í heimi að pæla í að splæsa í Liverpool og svo síðast en ekki síst....íslenskir kaupsýslumenn sem kaupa West Ham. Ekki slæmur félagsskapur þetta fyrir Eggert og félaga J
Bloggar | 12.12.2006 | 09:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ég er svolítið stoltur af því. Ég er Eyjamaður. En undanfarna daga hef ég verið að velta því fyrir mér, hver er og hver er ekki Eyjamaður. Reyndar eru allir Íslendingar eyjamenn, því öll búum við jú, á eyju...
En að vera Eyjamaður er eitthvað sem margir halda á lofti. Ég veit sjálfur eftir að hafa búið í borginni að það hefur sína kosti...og galla. Ég var stoltur þegar ÍBV varð bikarmeistari í handbolta, Íslandsmeistarar í fótbolta, yes !! geðveikt....að vera Eyjamaður. Við erum stolt, af okkar uppruna...gosinu, uppbyggingunni, söngvunum, úteyjarlífinu, lundanum....og allt (eins og Eiríkur Fjalar sagði)
Einu sinni lenti ég í því að læðast með veggjum yfir því að vera Eyjamaður. Það var þegar brennur guðanna (í flutningi Halla Reynis) stóðu sem hæst. Betel söfnuðurinn í Eyjum brenndi diska þungarokkara. Þá var ég í FG, og allir héldu að 90% Eyjamanna væri í söfnuðinum. Ég svaraði fyrir það og endaði með að taka viðtal við Snorra Óskars, forsprakka vitleysunnar í skólablaðið.
Síðustu daga hefur verið mikil umræða um það hver er Eyjamaður og hver ekki. Svolítil ádeila á Róbert Marshall og það af ósekju. Mikið rosalega er ég ósammála þessu. Alltaf eru Eyjamenn stolt af sínu fólki sem er að gera það gott á "erlendri" grundu, þá skiptir ekki máli hvort það er England, Þýskaland ...eða Reykjavík.
Hemmi Hreiðars, Gunnar Heiðar, Margrét Lára, Palli Magg, Ragnheiður Guðna, Bjarnólfur Lár, Tryggvi Guðmunds, Venni.....Róbert Marshall...
Já, Eyjamenn voru stoltir af honum þegar hann var að slá í gegn í fjölmiðlum, en þegar hann var kominn í pólitík þá skipti allt í einu höfuðmáli í hvaða samfylkingarfélagi hann var !! Þetta er óttalegur tittlingaskítur að mínu mati.
Róbert Marshall er Eyjamaður, ef hann er það í huganum. Ég talaði við einn góðan í dag sem er rétt rúmlega fertugur en hefur búið í Reykjavík í 18 ár. Hann er samt miklu meiri Eyjamaður en margur maðurinn sem hér býr. Það er bara svo einfalt...
Að vera Eyjamaður er hugarástand þeirra sem eitthvað hafa með Heimaey að gera. Þetta er svo einfalt. Ég tala nú ekki um þá sem einhvern tímann hafa veitt lunda. Eða lundapysjur. Að vera Eyjamaður hefur ekkert með pólitík að gera...
Er ég Eyjamaður? Fæddur í Hafnafirði... já, ég er Eyjamaður. Hér á ég mínar rætur.
...segi bara svona
Bloggar | 10.11.2006 | 23:18 (breytt kl. 23:23) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Það verða margir með í maganum á morgun meðan beðið er eftir tölum úr prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi. Það er best að spá aðeins í það.....
Mín skoðun er sú að Árni Matt fái örugga kosningu í 1. sætið, reyndar hef ég hitt nokkra sem halda því fram að hann falli, nái ekki efsta sætinu...Þá er bara einn annar sem hefur boðið sig fram þar og það er Árni Johnsen. Ég hef persónulega ekki trú á því að hann nái árangri, þó aldrei sé hægt að útiloka karlinn, hann er svo óútreiknanlegur karlinn....
Það eru margir sem stefna á næstu tvö sæti og í sjálfu sér ómögulegt að spá fyrir um það. Þingmennirnir þrír, Drífa, Kjartan og Guðjón hljóta að vera kandídatar í þetta sæti ásamt Árna Johnsen. Þarna er slagurinn á milli Johnsen og Kjartans að mínu mati og mín skoðun er sú að Árborg sjái um sína og Kjartan verði númer 2.
Árni Johnsen fær ekki þriðja sætið, þeir sem kjósa hann setja hann í fyrsta eða annað, það verða fáir sem láta hann fylgja með. Þá eru eftir, Guðjón og Drífa en líka suðurnesjafólkið Björk og Kristján Pálsson. Þarna vinnur Björk...eða Gaui.
Ef Gaui nær ekki þriðja fer hann í fjórða. Það er mín skoðun, reyndar ekki alveg hlutlaus maður hér á ferð í þeim efnum. Vona að Gaui nái þriðja sætinu...
Fimmta sætið er svo Drífa, Gunnar Örlygs eða Unnur Brá. Svolítið erfitt að spá fyrir um það eins og reyndar allan listann en ég held að Unnur Brá vinni það...
Þá er bara eitt sæti eftir og það verður Gunnar Örlygs, hann nær sjötta sætinu...
Þannig að...
1. Árni Matt (kannski 45-55% fylgi)
2. Kjartan Ólafs
3. Gaui Hjöll
4. Björk
5. Unnur Brá
6. Gunnar Örlygs
Þá eru nú þungavigtarnöfn eftir, til dæmis Árni Johnsen, Kristján Pálsson og Drífa. Kannski er ég að vanmeta styrk þeirra eða ofmeta aðra en .....þetta kemur víst í ljós á morgun.
Aðeins um prófkjörin í suðvestur hjá Sjálfstæðisflokknum og í Reykjavík hjá Samfylkingunni. Þorgerður Katrín, Bjarni Ben og Ragnheiður Ríkharðs ná góðri kosningu, hef trú á því. Ármann Kr og Jón "björgunarmaður" Gunnarsson verða fyrir vonbrigðum
Ingibjörg fær ekki glæsilega kosningu í fyrsta sætið, verður fyrir vonbrigðum...Össur nær sínu öðru, Jóhanna því þriðja en svo er spennandi að sjá. Hef trú á Helga Hjörvar, þó ég hafi nú ekki verið hrifinn af honum síðustu árin, hef trú á að Merði verði hafnað, hann er einhvern týpan í að verða fórnarlamb prófkjörs...
Það er alveg í anda þeirra prófkjara sem nú þegar er lokið. Þeim hefur gengið illa sem hafa verið áberandi í sjónvarpi, til dæmis Pétur Blöndal, Sigurður Kári, Birgir Ármanns...allt álitsgjafar í sjónvarpi sem hafa orðið fyrir vonbrigðum. Kannski er bara gott fyrir stjórnmálamenn að vera ekkert of mikið að rökræða í sjónvarpi, sjáum bara Davíð...
Bloggar | 10.11.2006 | 19:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ég var nú ansi nálægt úrslitunum hjá Samfylkingunni, eina sem víxlaðist var Lúðvík og Björgvin. Það kom mér á óvart hversu afgerandi sigur Björgvins var en hann er ótvíræður sigurvegari. Eins kom á óvart hversu slaka útkomu Lúðvík fékk í raun og veru. Hann rétt heldur öðru sætinu. Getur þó sagt að hann hafi varið sitt sæti, svona ef hann vill fara út í pólitísk svör á annað borð...
Róbert er aftur á móti sigurvegarinn. Það er óhætt að óska honum til hamingju. Hann er á leiðinni á þing. Það mun bara hressa þá samkundu við, það er ég viss um.
Hins vegar vekur það athygli að í efstu fimm sætum Samfylkingarinnar er enginn frá Reykjanesi sem þó hafa um 40% kjósenda. Hins vegar verða þrír Eyjamenn í efstu fimm sætunum en hér eru aðeins um 10% kjósenda. Sunnlendingar ættu hins vegar að vera kátir með sinn hlut, leiðtoginn kemur úr Árborg og baráttusætið mun bæjarfulltrúi í Árborg skipa, Ragnheiður Hergeirsdóttir. Hún hlýtur að vera ánægð með sinn hlut.
Annar sigurvegari að mínu mati er Guðrún Erlingsdóttir. Ný í landsmálunum og nær sjötta sæti listans og færist upp í fimmta sætið út af reglum um kynjaskiptingu á lista. Ætla ekki að fara út í þá sálma en mér finnst fáránlegt að fólk sé metið eftir kynferði en ekki það sem það hefur fram að færa.
Hún fékk flest atkvæði allra í 3. sætið, það er frábært hjá henni. Ef Samfylkingin fær þrjá þingmenn (eiga fjóra í dag) þá verða tveir Eyjamenn á þingi fyrir flokkinn og einn varaþingmaður úr Vestmannaeyjum. Ekki slæmt ef aðeins er litið út frá því.
Hins vegar má alltaf spyrja sig. Hvað og hver er Eyjamaður?
Bloggar | 7.11.2006 | 11:00 (breytt kl. 11:02) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Færsluflokkar
Tenglar
Heimsótt reglulega
Bloggvinir
Apríl 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | 5 | ||
6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 | 12 |
13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 | 19 |
20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 | 26 |
27 | 28 | 29 | 30 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (20.4.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 828
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar