Færsluflokkur: Bloggar
Ég horfði af athygli á þáttinn "60 minutes" í gær á Stöð 2. Hann fjallaði um hlýnun jarðar og viðbrögð við því. Nú er ég langt frá því að vera einhver sérfræðingur í þessum efnum. Hef í sjálfu sér ekki nennt að setja mig inn í þessi mál en þátturinn í gær vakti mig til umhugsunar um framtíð jarðarinnar.
Það var ansi svört mynd sem vísindamenn drógu upp af ástandinu.
En það sem vakti sérstaka athygli mína var ritskoðun Bush og félaga í Bandaríkjunum á skýrslum vísindamanna. Lýðræðisvörðurinn Bush lætur lögfræðinga fara yfir hvert einasta orð sem vísindamenn segja og breyta þannig að skýrslan sýni mun bjartari mynd en raunin er, samkvæmt vísindamönnum.
Og lögfræðingurinn sem um ræðir hætti svo í Hvíta húsinu og hvar fór hann að vinna? Jú, hjá Exxon olíufélaginu...
Kommúnisminn er líklega versti óvinur Bandaríkjamanna. Menn sem aðhylltust slíka hugsjón voru sendir fyrir sérstakan dómstól í USA. Sovétríkin voru verstu óvinirnir.
En mikið rosalega finnst mér Bush kominn nálægt kommúnismanum með þessari ritskoðun...
Bloggar | 30.1.2008 | 10:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fyrir tæpum tuttugu árum byrjaði ég að vinna hjá Pósti og Síma. Mig minnir að verkstjórinn á þeim tíma hafi heitið Bjarni, þó ekki alveg viss. Það voru tíð skipti á yfirmönnum fyrstu misserin og ákveðin losaragangur á starfinu eftir að Sigurgeir heitinn hætti störfum.
Hann hafði verið verkstjóri hjá símanum í mörg ár og þekkti línukerfið út og inn. Oft var leitað til hans þegar þurfti að fá á hreint með strengi í jörðu og fleira í þeim dúr. Það kom oftar en ekki fyrir að meira var að marka hans minni en teikningar sem til voru.
Við vorum nokkrir sem unnum þarna á þeim tíma. Þeim fjölgaði svo á sumrin starfsmönnunum og mörg verkefni ár hvert. Grafa upp, skipta út strengjum og laga aðra.
Í síðustu viku var tilkynnt um samstarfssamning Mílu ehf og Geisla. Um leið var það dásamað hversu góður samningur þetta er. Verið sé að gera starfssemi Mílu straumlínulegri Einmitt og akkúrat.
Hvergi er minnst á að með þessum samningi er verið að leggja niður deild sem starfað hefur í Eyjum í marga áratugi. Línudeildin heyrir nú sögunni til. Starfsmaður þess, góður vinur minn og bloggfélagi missir vinnuna. Fimm manna fjölskylda sér fram á að þurfa jafnvel að flytja úr bænum út af þessum frábæra samstarfssamningi. Og ekki er ég viss um að þjónustan batni, með fullri virðingu fyrir Geislamönnum, enda erfitt að feta í fótspor Grétars.
Hann er sá sem hefur komist næst Sigurgeir í kunnáttu um grunnkerfi Símans í Eyjum.
Eftir einkavæðingu Símans stefndi í þetta hægt og rólega. Eftir að grunnnetið var tekið út úr starfsemi Símans og fært undir dótturfyrirtækið Mílu hefur þjónustan við landsbyggðina hægt og rólega verið slegin af. Míla hefur sagt upp sínum starfsmönnum víðs vegar um landið og Vestmannaeyjar eitt síðasta vígið utan stór höfuðborgarsvæðisins.
Ég skil Geislamenn vel, auðvitað stökkva þeir á svona samning, enda eykur þetta veltu þeirra og líklega án þess að þeir þurfi að bæta við sig mannskap. Win/win situation eins og sagt er, fyrir þá.
Það er ekki langt síðan ríkisvaldið komst hjá því að efna loforð sitt um staðsetningu loftskeytastöðvar í Eyjum með því að kaupa burt einn starfsmann. Svo var litið á þetta sem lið í nauðsynlegri hagræðingu, svo samskiptamiðstöðin í Skógarhlíð gæti eflst.
Það væri gaman að sjá samantekt á samdrætti ríkisins í Vestmannaeyjum undanfarna áratugi. Mörg störf hafa horfið í höfuðborgina og lítið komið í staðinn.
Ég var fylgjandi sölu Símans á sínum tíma en vildi grunnetið út úr þeim pakka. Það átti að halda því sér.
En auðvitað var þetta ekki starf á vegum ríkisins. Það var búið að einkavæða þetta og þá er allt leyfilegt, í nafni hagræðingar. Við skulum samt ekki gleyma því að þegar svona grunnstarfsemi flyst í hendurnar á einkaaðilum verður viðhald í lágmarki. Það er sá staður sem fyrst er sparað á.
Það sjáum við best á þjóðveginum okkar...
Bloggar | 28.1.2008 | 10:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Maður er farinn að tala með norðlenskum hreim í öllum þessum snjó.
Það er margt sem Íslendingar setja samasemmerki við þegar talið berst að Vestmannaeyjum. Rokið á Stórhöfða kemur þar sterkt inn, Þjóðhátíðin með öllum sínum sjarma, Árni Johnsen, lundinn og svo margt fleira. En yfirleitt dettur fólki ekki í hug snjóþyngsli enda stoppar snjórinn yfirleitt ekki lengi á Heimaey.
Síðustu tvær vikur hefur allt verið á kafi í snjó. Alla vega á Vestmannaeyskan mælikvarða. Ég er búinn að vera að bíða eftir almennilegri rigningu frá því í byrjun janúar.
En nú neyðist ég til að fara að moka helv.... tröppurnar.
Bloggar | 25.1.2008 | 16:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Farsinn í Reykjavík núna minnir um margt á ástandið í bæjarpólitíkinni í Eyjum á síðasta kjörtímabili. Þá voru myndaðir þrír meirihlutar á tímabilinu, reyndar voru ekki fleiri möguleikar fyrir hendi en í Reykjavík á eftir að koma í ljós hvort þau slá metið. Tveir bæjarstjórar sátu en það stefnir í fjóra í borginni.
Hættan á þessu er alltaf til staðar þegar inni í sveitarstjórnum eru sólóistar Raunar finnst mér fáránlegt, hvað sem viðkomandi heitir að einn fulltrúi geti tekið ákvarðanir án þess að bera það undir varamann sinn eða baklandið.
Þannig var í Eyjum að fulltrúi framsóknar ákvað að slíta meirihlutasamstarfi sínu við Sjálfstæðisflokkinn í óþökk varamanns síns . Hún sagðist enn styðja gamla meirihlutann. Það kom aldrei til að á það reyndi, eftir því sem ég best veit, enda sat Andrés alla fundi. Reyndar þurfti að fresta einum vegna þess að hann var veðurtepptur...
Ári seinni slitu vinstri menn með Lúðvík Bergvins í farabroddi samstarfinu við Andrés og þá var bara einn leikur eftir í stöðunni. Samstarf vinstri og hægri. Það gekk eftir og aldrei hefur eins sterkur meirihluti starfað í Eyjum. Sex saman gegn einum í minnihluta. Ætli slíkt hið sama gerist í Reykjavík á kjörtímabilinu, sjálfstæðismenn gefast upp á Ólafi (eða öfugt) og sterk stjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar verði mynduð? Sé það reyndar ekki gerast en ekki átti ég von á samstarfi Arnars og Lúðvíks á sínum tíma...
Það var svolítið kímlegt að hlusta á tjarnarkvartettinn í gærkvöldið. Björn Ingi talaði um farsa, Margrét (varamaðurinn) sagðist ætla að fella meirihlutann um leið og hún hefði tækifæri til, Svandís var sár, það sást og Dagur B talaði um ósannindi og lýsti deginum og samskiptunum við Ólaf. Það var svolítið hlægilegt að heyra Dag tala um svik, að segja ósatt og fleira í þeim dúr. Fyrir rétt rúmum 100 dögum var hann í sömu stöðu og Vilhjálmur var í gær. Dagur sat við hliðina á Björn Inga þegar fyrri meirihlutinn sprakk og Björn var alltaf á leiðinni á fund til þeirra en kom aldrei.
En á meðan lögin eru svona vitlaus getur einn maður tekið sig til og myndað meirihluta hægri vinstri. Ólafur er í fullum rétti og ef einhver efast um það getur sá hinn sami fengið upplýsingar úr Eyjum hvernig þetta virkar. Ólafur má ekki skipta um varamann (úrskurður félagsmálaráðuneytis fyrir því), hann þarf ekki að bera þetta undir neinn og ekki er hægt að fara fram á nýjar kosningar.
Eyjamenn frumkvöðlar í svo mörgu
Bloggar | 22.1.2008 | 09:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Nýverið hafa fallið tveir dómar sem snerta Eyjamenn nokkuð. Annars vegar nýlegur dómur mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna um kvótakerfið og hins vegar dómur héraðsdóms Suðurlands um akstur um borð í Herjólfi.
Svolítið langt á milli þessara dómstóla...
Þetta er athyglisverður dómur um kvótakerfið og spurning hverjar afleiðingarnar verða. Ég spái nú að þær verði ekki miklar en samt sem áður hljóta menn að skoða málin í kjölfarið. En hversu sanngjarnt er það gagnvart þeim fjölmörgu sem fjárfest hafa í aflaheimildum síðan kerfið var sett á? Ég held að það sé ekki hægt að umturna kerfinu. En það kemur nú allt í ljós.
Hinn dómurinn snýst um mann sem færði bíl sinn um borð í Herjólfi. Hann var réttindalaus og kærður fyrir það. Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að þetta væri líkt og að keyra bíl á þjóðvegum landsins þar sem Herjólfur er talinn þjóðvegur. Þetta kemur fram hjá honum Júlla Vaktmanni í dag.
Þar höfum við það.
Yfirleitt halda stjórnmálamenn þessu á lofti rétt fyrir kosningar eða þegar þeir vilja skora stig í umræðunni en þegar á hólminn hefur verið komið þá vilja nú fæstir stjórnarmenn þessa þjóðar kannast við þetta. Skemmst er að minnast ummæla Vegagerðarinnar að það sé hreinlega ekki þeirra mál að halda úti samgöngum við Vestmannaeyjar. Mátti lesa það út úr ummælunum að þessi rekstur væri nú af hreinni góðmennsku haldið úti fyrir eymingjanna í Eyjum.
Spurning hvort þetta breyti einhverju í viðhorfi embættismanna?
Nei, ætli það...
Bloggar | 11.1.2008 | 17:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Það er ekki annað hægt en að bæta nokkrum línum við varðandi knattspyrnusnillinga úr Eyjum. Gilli Foster bendir réttilega á í athugasemd hér fyrir neðan að það vantar nágranna minn og aðstoðarskólastjórann, Sigurlás Þorleifsson í þessa upptalningu. Eins samdi Sigurvin Ólafs við Stuttgart á sínum tíma og á því réttilega að vera á þessum lista. Þar með eru 9 Eyjamenn komnir á listann.
En frægasti knattspyrnumaður Vestmannaeyja, Ásgeir Sigurvinsson er ekki á listanum. Ástæðan er sú að ég tók leikmenn frá 1980 en hann fór út nokkrum árum áður. Hins vegar náði ferillinn hans vel yfir þessa dagsetningu. Viggi í Íþróttamiðstöðinni benti mér réttilega á þetta og þakka ég honum góða ábendingu. Það er í sjálfu sér hálf asnalegt að tala um knattspyrnumenn úr Eyjum og minnast ekki á þann besta.
Viggi vildi líka að það kæmi skýrt fram að Ásgeir væri úr Lautinni...
Talandi um Lautina og aðstöðuna. Ég hef lesið nokkrar greinar um fyrri tíma hér úr Eyjum og oft er þar minnst á Lautina. Þar var paradís ungra peyja og spilaður fótbolti þar frá morgni til kvölds. Ég er ekki frá því miðað við lýsingar að Lautin hafi á sínum tíma verið ein besta aðstaða til knattspyrnuiðkunar á landinu. Iðagrænt grasið og skjólið ofan í Lautinni.
Lautin var knattspyrnuhús þeirra tíma...
Bloggar | 20.12.2007 | 12:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Það hvín svolítið í hjá mér þessa dagana. Fjölskyldan tók upp á því nýverið að flytja úr austurbænum og upp í skeifu. Nánar tiltekið upp á Smáragötu og er ég því kominn á æskuslóðir. Ég var mjög ánægður með þessar breytingar, enda vanur veðráttunni hérna uppfrá. Hinsvegar brá konunni svolítið við fyrstu hvellina. Ég sagði henni kokhraustur að þetta veður kæmi nú afar sjaldan. Það væri auðvitað vindsamara svona ofarlega í bænum en þú færð útsýnið í staðinn (sem er ómótstæðilegt)
Síðan hafa hvellirnir orðið nokkuð margir og við höfum fengið hviður fyrir allan peninginn...
Í dag hafa verið stöðugar fréttir af óveðrinu sem gengið hefur yfir landið. Bein útsending úr Skógarhlíðinni þar sem höfuðstöðvar björgunarsveitanna eru. Skipt í vesturbæinn, upp í Breiðholt og út á Nes. Allt að gerast, þak að fjúka, tré að brotna og lausamunir út um allt fjúkandi. Dramatíkin rosaleg. Fréttamenn út um víðan völl, ná varla að standa í lappirnar þar sem þeir öskra í míkrafóninn til að það heyrist eitthvað í þeim. Og svo fór IKEA að leka.
Þau eru ekki vön því að lognið fari svona hratt yfir.
Bloggar | 14.12.2007 | 21:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Jæja, ákvað að nota tæknina sem mbl.is býður upp á og skella hér inn skoðanakönnun. Og um hvað annað ætti ég að spyrja en samgöngumál.
Ég geri mér fulla grein fyrir því að þessar kannanir eru langt frá því að vera marktækar sem eitthvað skoðanamyndandi í umræðu. Ég hef aftur á móti gaman af því að vita hvaða afstöðu fólk sem er að lesa síðuna hjá mér hefur.
En eins vill ég árétta að mín skoðun er sú (og hefur alltaf verið) að samgöngumál í dag og samgöngumál framtíðarinnar eru tvö ólík mál. Bara svo það sé á hreinu...
Smá viðbót: Ræðan hans Lúðvíks er kominn inn frá því á miðvikudag. Og hann tók undir með Árna að það sé afar mikilvægt er að strax verði reynt að finna nýtt skip. Sagði hann samgöngumálin í ólestri..
Bloggar | 7.12.2007 | 14:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Það er margt athyglisvert sem kom fram í ræðum þingmanna um samgöngur í gær, miðvikudag á Alþingi. Reyndar vakti það athygli mína hversu fáir þingmenn tóku þar þátt. Hægt er að skoða ræðurnar hér.
Árni Johnsen hóf umræðuna. Talaði hann um verkfælni Vegagerðarinnar og metnaðarleysi stjórnvalda. Eins minntist hann á 12 kílómetra göng Færeyinga. Einhversstaðar hefur það líka komið fram að frændur okkar séu með önnur 25 kílómetra göng á teikniborðinu. Þessi tólf kílómetra göng kostuðu átta milljarða. hmmm...
Bjarni Harðarson, nýr þingmaður Framsóknar í kjördæminu sagðist vissulega hafa áhyggjur af samgöngumálum okkar Eyjamanna en kaus frekar að eyða tíma sínum í ræðustól að tala um sölu eigna á Keflavíkurflugvelli. En þessi tvö mál voru tekin saman til umræðu. Olli mér vonbrigðum, enda er þetta þingmaðurinn sem nýverið sigldi hingað yfir og fannst það bæði langt og dýrt. Bjarni tók það fram að allur morguninn hafi farið í að skoða þessi sölumál og vildi eyða tíma sínum í það.
Svo var komið að öðrum nýjum þingmanni okkar Eyjamanna og annarra suðurkjördæminga. Grétar Mar Jónsson kom upp. Hann kaus líka að ræða um sölu eignanna á Keflavíkurflugvelli. Ekki svo mikið sem einn stafur um samgöngur við Vestmannaeyjar. Athyglisvert...
Guðni Ágústsson, einn skemmtilegasti ræðumaður Alþingis var næstur, fyrrverandi landbúnaðarráðherra sem sat í ríkisstjórn tvö kjörtímabil talaði um að það væri sárt og sorglegt hvernig Vestmannaeyingar eru dregnir á asnaeyrunum. Vildi hann nýtt skip strax. Gott hjá honum en hann var í stöðu til þess að koma því í gegn, hann er það ekki lengur.
Samgönguráðherrann, Kristján Möller sagði það leitt að til þess skyldi koma að Herjólfur færi í slipp en skipið væri orðið gamalt og farið að bila. Nefndi hann það að flutningsskipið Selfoss kæmi við í Eyjum á fimmtudag og það ætti nú að redda einhverju. En ráðherrann endaði á að segja að hann væri stoltur af því sem núverandi ríkisstjórn væri að gera í samgöngumálum Vestmannaeyja. Þar er hann væntanlega að tala um Bakkafjörumálið. Það er gott mál en hvergi er minnst á að bæta úr brýnni þörf á samgöngum í dag.
Steingrímur Joð formaður VG sagði dapurlega komið að samgöngumálum til Eyja. Það þyrfti að bæta úr því, bæði í bráð og lengd. Síðan fór hann að tala um "ekki síður alvarlegt mál" sem var að opinber gögn liggja ekki fyrir Alþingi þegar mál voru til umræðu. Árni Mathiesen annar tveggja ráðherra Suðurkjördæmis andmælti því en hafði ekki fyrir því að minnast á samgöngumálin okkar. Kom mér ekki á óvart.
Athyglisverðustu ræðuna flutti hins vegar Atli Gíslason. Hann sagði Vestmannaeyinga hafa verið olnbogabarn, nánast í átthagafjötrum samgönguleysis. Hann sá ástæðu til þess að benda þingmönnum á að Vestmannaeyjar væru eyjasamfélag!! Ætli það hafi verið þörf á því?
Eins sagði Atli að allar evrópskar og innlendar reglur mæla fyrir um að jaðarbyggðum líkt og Vestmannaeyjar fái sérstaka meðhöndlun. Hann bauðst sjálfur til að fara í ESA og nýta lögfræðikunnáttu sína. "Vestmannaeyjar eru í gíslingu ákvarðanatökuleysis sem jaðarbyggð"
Að endingu sagði Atli að siglingaleiðin milli lands og Eyja væri þjóðleið, alveg eins og samgöngur á vegum landsins og þær eiga að vera ókeypis. "Þetta er þeirra ferðamáti." Flott ræða hjá Atla, hann fær örugglega nokkur prik hjá Eyjamönnum fyrir þetta.
Lúðvík Bergvins tók síðastur til máls. Ég veit ekki hvað hann talaði um. Ekkert var minnst á hann í fréttum og ræða hans er sú eina sem ekki er tilbúinn inn á vef Alþingis þegar þetta er skrifað.
Það vakti líka athygli mína hverjir tóku ekki til máls.
Björgvin G. Sigurðsson
Kjartan Ólafsson
Árni Mathiesen (ekkert um samgöngumálin)
Björk Guðjónsdóttir
Grétar Mar Jónsson (ekkert um samgöngumálin)
Ætli þessu fólki finnist málið ekki brýnt?
Spyr sá sem ekki veit...
Bloggar | 6.12.2007 | 17:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Það var kominn tími til að þessi umræða næðist inn á þing. Reyndar hef ég ekki séð þetta, spurning hvort það voru einhverjir aðrir en Árni og Kristján sem tóku þátt í umræðunni?
Kristján segir það bagalegt að skipið hafi þurft að fara í slipp. Hver voru viðbrögð hans ráðuneytis og stofnana? Að skilja svoleiðis við þetta að ekkert kom í staðinn. Jú, Selfoss á að sigla hingað á morgun...
Annars var ég að lesa yfir þessar fimm bloggfærslur um fréttina sem voru komnar þegar þetta er skrifað. Það er þetta venjulega, einn talar um fanganýlendu, annar um að flytja alla Eyjamenn bara vestur á firði !!! og sá þriðji telur Eyjamenn ekki með öllum mjalla að ætlast til að fá nýtt skip og Bakkafjöru...
Samgöngur í dag eru í ólestri. Um það snýst málið. Ekki um Bakkafjöru.
Svo skulum við alveg hafa það á hreinu að það gæti hreinlega verið ódýrara fyrir ríkið að selja núverandi Herjólf og leigja skip þar til Bakkafjara er tilbúinn.
Ég hef fengið mikil viðbrögð við síðustu færslu um umburðarlyndið. Heyrist á fólki að það sé orðið langþreytt á ástandinu.
En hvað er til ráða?
Við getum ekki látið það yfir okkur ganga að þetta sé nógu andskoti gott handa okkur. Við eigum miklu meira skilið frá þessum háu herrum í höfuðborginni.
Eyjamenn hafa ekki verið og verða ekki þurfalingar á þjóðinni.
Við eigum betra skilið.
Nýr Herjólfur nauðsynlegur strax | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | 5.12.2007 | 17:28 (breytt kl. 17:29) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Færsluflokkar
Tenglar
Heimsótt reglulega
Bloggvinir
Jan. 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | |||
5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 |
12 | 13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 |
19 | 20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 |
26 | 27 | 28 | 29 | 30 | 31 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar