Færsluflokkur: Bloggar

Af umburðarlyndi okkar Eyjamanna

Ef lýsa ætti Eyjamönnum í dag yrði lýsingin eitthvað á þessa leið: Með eindæmum skapgott fólk og seinþreytt til vandræða. Þá sjaldan sem það fýkur í Eyjamenn, rennur þeim fljótt reiðin og allt dettur í sama farið.

Í fyrramálið siglir Herjólfur til Þorlákshafnar eftir sinni áætlun en engin ferð er til baka. Skipið siglir til Hafnarfjarðar og fer þar upp í slipp. Það þarf að gera við aðra aðalskrúfuna. Á föstudaginn bilaði hliðarskrúfan. Ég var um borð í þeirri ferð. Fimm klukkustunda ferð, reyndar í fínu sjóveðri. En hvað segir þetta okkur?

Skipið er komið á tíma og er hætt að uppfylla kröfur okkar.

Herjólfur á að koma aftur til siglinga á föstudaginn. Reyndar vita menn að það þarf lítið út af að bregða til þess að sú áætlun standist ekki. Og hvað gerist á meðan?

Ekkert.

Það er ekki gert ráð fyrir að neitt skip komi í staðinn. Eyjamenn verða að treysta á flug fyrir ferðir hér á milli og til að fá nauðsynjarvörur. Í desember...

Hvað er í gangi? 

Við höfum sjaldan haft eins góðan aðgang að ríkisvaldinu og nú, alla vega ættum við að hafa góðan aðgang. Tveir stjórnarþingmenn eru frá Vestmannaeyjum og varaþingmaður Samfylkingarinnar er aðstoðarmaður samgönguráðherra. 

Ekki eitt orð frá þessum mönnum. Hvers vegna?

Það á að vera skýlaus krafa frá okkur að nýtt skip komi strax til siglinga í Þorlákshöfn á meðan beðið er eftir að Bakkafjara verði tilbúinn. Núverandi skip er bæði of lítið og orðið gamalt.

Sjö bæjarfulltrúar í Eyjum, fjórir Sjálfstæðismenn og þrír Samfylkingarmenn. Ríkisstjórnin samanstendur af Sjálfstæðisflokknum og Samfylkingunni.  Ef við náum ekki árangri núna þá er eitthvað mikið að.

Búið er að taka ákvörðun um Bakkafjöru. Sama hvað menn segja um þá framkvæmd. En það á enn eftir að leysa samgöngur í dag. Þær eru í ólestri.

Það þýðir ekki að fjölmenna niður á bryggju og flauta. Við þurfum að gera eitthvað róttækt til að ná athygli stjórnarmanna. Ekki virðast „samböndin“ duga.

Frakkar hafa alltaf verið róttækir í sínum aðgerðum þegar þeir vilja ná athygli og framförum.

Þurfum við ekki að líta þangað eftir fyrirmyndum?


Breytingar á mbl.is og femínistaslagur Egils

Er ég einn um það að finnast nýja lúkkið á mbl.is mislukkað?  Kannski þarf maður bara að venjast þessu. Útlitið á síðunni er óþægilega líkt visir.is. 

Egill Helgason er kominn í stríð við feminista. Þær neituðu að mæta í þáttinn hjá honum til að mótmæla skoðunum hans??  Hefði ekki verið eðlilegra að þær hefðu komið í þáttinn og tekið á honum þar? Eg veit að ég er kominn út á hálan ís þegar ég gagnrýni feminista en mér finnst barátta þeirra orðin heldur öfgafull. Það eru nokkrar týpur, öfgatýpur sem skemma fyrir eðlilegri umræðu um jafnréttismál.  


Með eða á móti?

Það er nú að æra óstöðugan að svara Georgi Arnarssyni. Hann byrjar á því að gera fólki upp skoðanir, vitnar í persónulegt spjall manna á milli og færir síðan rök út frá því.

Georg skrifaði nýlega stóra og mikla grein um Bakkafjöru og lætur þann sem hér ritar og ritstjóra eyjar.net heyra það. Við erum "stuðningsmenn" Bakkafjöru að hans mati og því fáum við vænan skammt af skömmum.

Ég veit ekki hvað ég þarf að segja það oft til þess að Georg skilji það að ég er hvorki fylgjandi né á móti Bakkafjöru. HINS VEGAR set ég traust mitt frekar á tæknifræðinga sem hafa menntun og reynslu af bryggjusmíði.  Það hefur Georg hvorugt. Þetta hefur margoft komið fram. 

Ég held að ef Bakkafjara gangi upp, þá verði um byltingu að ræða fyrir okkur Eyjamenn. Þetta er mín skoðun, Georg og í guðanna bænum, hafðu það nú rétt eftir héðan í frá. (Úr fyrra bloggi: Framfarir hafa alltaf verið umdeildar. Menn eru hræddir við það ókunna. Ég get ekki sagt hér og fullyrt að Bakkafjara verði brjálæðisleg bylting fyrir okkur. En ég get heldur ekki sagt að hún verði fáránlegt flopp...Ég treysti einfaldlega á þá sem hafa VIT á því að byggja hafnir.)

Að vitna svo í símtal við ritstjórann og halda því fram að Kjartan sé bara meðfylgjandi Bakkafjöru út af stjórnmálaskoðunum er ótrúlega dapurt. Fyrir það fyrsta myndi ég aldrei trúa slíku, enda Kjartan vandaðri en það.  Í öðru lagi, þá er það ekki smekklegt að vitna í tveggja manna tal og gera út á það til þess að "skjóta" á viðkomandi. Svona gerir maður ekki, Georg.

Hins vegar er eitt rétt hjá Georg, ég held því fram að kosið hafi verið um samgöngumál í síðustu bæjarstjórnarkosningum. Það má vera að það sé "ótrúlega vitlaust" en ég er ekki einn um þessa skoðun. Þetta var eitt af stóru málunum. Tveir listar voru með forgangslista, Göng, Bakkafjara, nýr Herjólfur. Eitt framboð var ekki með slíkt, heldur lagði áherslu á nýtt og hraðskreitt skip í Þorlákshöfn. Það framboð náði ekki inn manni.

Auðvitað er þetta ekki svona einfalt. Það voru fleiri mál á dagskrá. En í svona kosningum, þar sem í meginatriðum framboðin eru sammála eru alltaf tvö til þrjú mál sem skera úr um úrslitin. Í síðustu kosningum voru þetta: 1. samgöngumál, 2. knattspyrnuhús. Ég man ekki hvar Frjálslyndir stóðu í knattspyrnuhúsinu, því miður en V-listinn stóð fast á því að byggja slíkt hús á meðan Sjálfstæðisflokkurinn bakkaði út úr fyrri samþykkt í bæjarstjórn og vildi endurskoða málið. 

Það er ljóst að það verða engar kosningar út af þessu máli í Eyjum. Það væri nær að kjósa um knattspyrnuhús, þar eru það Eyjamenn sem borga. (reyndar mín skoðun að við kjósum fólk á fjögurra ára fresti til að taka slíkar ákvarðanir fyrir okkur, við fáum tækifæri til að láta í ljós skoðanir okkar þá). Þetta mál er komið á fullt. 

Menn verða að fara að sætta sig við það og snúa sér að næstu skrefum. Georg á eins og aðrir Eyjamenn að fara að beita sér fyrir stærð skipsins, forsjá hafnarinnar, að við rekum skipið, hve hátt gjaldið er í skipið, að samgöngur frá Bakka verði í lagi til Reykjavíkur, að ferðatíðnin verði 7-8 ferðir á dag og ef með þarf, að höfnin verði byggð lengra út til þess að lágmarka frátafir.  (Þ.e.a.s ef hann er sammála þessu)

Annars held ég að það sé komið nóg af línum sem fara í rökræður okkar Georgs. Það er ekki gerandi lengur að standa í því. Við Goggi höfum ágætis sátt okkar á milli að vera sammála um að vera ósammála um kvótakerfið. Við hljótum að geta orðið ásáttir um að vera ósammála í þessu máli líka.  

Þá er bara spurning hvort ég verði sparkaður niður á æfingu Lunch Utd á þriðjudag Crying

 

 


Enskir knattspyrnumenn fá langt og gott sumarfrí

carsonL061106_450x366Ef menn vilja líta á björtu hliðarnar þá koma þeir Frank Lampard, Steven Gerrard, John Terry, Rio Ferdinand, Peter Crouch og hinar "stjörnurnar" úthvíldir inn í næsta keppnistímabil á Englandi. Þeir fá langt og gott sumarfrí og geta þakkað varamarkverði Liverpool fyrir. Hugsa sér að varamarkvörður Liverpool sé aðalmarkvörður enska landsliðsins!  Reyndar er hann í láni hjá Aston Villa en samt...

Annars virðast Englendingar líta svo fjandi stórt á sig að þeir fögnuðu ógurlega sigri Ísraels á Rússum sem gaf þeim tækifæri á að komast áfram. Þeir virtust líta á það sem formsatriði að vinna Króatíu. England hefur ekki verið í heimsklassa síðan 1966. Hvert stórmótið á fætur öðru eru vonbrigði og einstaka leikmenn eru þá teknir fyrir í enskum fjölmiðlum og flakaðir. Þeir þurfa alltaf að finna blóraböggul.

Paul Robinsson hefur verið skotmarkið síðustu vikurnar. Það varð úr að McClown (eins og sumir veðmiðlar kalla landsliðsþjálfarann, Steve McClaren) þoldi ekki pressuna og tók hann úr markinu og setti Scott Carson í markið. Líklega djarfasta ákvörðun hans (enda með eindæmum íhaldssamur á mannskap) og um leið sú ákvörðun sem kostar hann starfið.

Hann verður rekinn í dag en hver tekur við?

 

 


Breyttist eitthvað?

Sá á eyjafréttum að búið væri að afhenda Elliða bæjarstjóra undirskriftalistann. Það voru 434 sem skrifuðu undir. Ég spyr mig hvort þetta muni eitthvað breyta afstöðu bæjaryfirvalda til málsins?  Ég leyfi mér að efast um það.

Til þess held ég að undirskriftirnar séu of fáar. Segjum að þau hafi fengið rúmlega helming bæjarbúa, yfir sextán ára aldri til að skrifa undir þá hefði það verið ákveðin pressa. En þetta er engin pressa. Það er bara brosað framan í myndavélarnar, þakkað fyrir og svo fer listinn sína leið.....ofan í skúffu.

Og réttilega. Ekki misskilja mig, mér finnst þetta gott framtak. Ég skrifaði ekki undir enda mín skoðun áður komið fram á þessari síðu. En þetta var gott framtak og takið eftir að listinn er opin í báða enda. Bæði þeir sem eru með Bakkafjöru og á móti gátu með góðri samvisku skrifað undir, vildu þau kjósa á annað borð.

Eigum við þá að snúa okkur að næsta skrefi?  


Undirskriftalistinn

Þætti gaman að vita hver stendur á bakvið undirskriftarlistann sem nú liggur frammi í verslunum hér í bæ. Þar sem skorað er á bæjaryfirvöld að láta fara fram kosningu um Bakkafjöru. Sá listann í Vöruval og þar voru nokkrir búnir að skrifa undir.

Hverjir eru sérfræðingarnir sem hrópa hvað hæst gegn Bakkafjöru? Ég hef hitt fólk sem er á móti Bakkafjöru. Eins hef ég hitt fólk sem er fylgjandi Bakkafjöru. En enginn af þeim sem ég hef hitt hefur byggt eina einustu höfn. 

Hvar eru þeir sem byggt hafa hafnir á Íslandi? Það voru meira að segja virtir fræðingar sem hrópuðu úlfur, úlfur þegar talað var um Hvalfjarðargöng. Fagmenn sem töluðu um mesta verkfræðislys Íslandssögunnar. Þessir menn þurftu að taka aftur stóru orðin. Þeir sem berjast nú á móti Bakkafjöru hafa enga slíka sérfræðinga með sér í liði. Segir það ekki eitthvað?

Framfarir hafa alltaf verið umdeildar. Menn eru hræddir við það ókunna. Ég get ekki sagt hér og fullyrt að Bakkafjara verði brjálæðisleg bylting fyrir okkur. En ég get heldur ekki sagt að hún verði fáránlegt flopp...Ég treysti einfaldlega á þá sem hafa VIT á því að byggja hafnir.

Ég stend enn við það að við þurfum engar kosningar. Við kláruðum þær í síðustu bæjarstjórnarkosningum.  

Eyjamenn hafa síðasta áratuginn verið að spá í bættum samgöngum. Síðustu ár hafa farið í það að skipta Vestmannaeyingum í þrjár fylkingar. Jarðgangasinnar, Bakkafjörusinnar og Þorlákshafnarsinnar. Þegar jarðgöngin voru blásin af skiptust Eyjamenn í tvo hópa. Það er komið nógu langur tími í að bíða og ræða hlutina. Nú er tími framkvæmdanna.....í Bakkafjöru. 

Stundum held ég að stór hluti Eyjamanna þjáist af valkvíða... 

En það er kannski bara í hugarheimi mínum. GetLost


Hvers vegna ekki Guðmundur?

Átökum um einn stærsta vinnustað í Vestmannaeyjum er hvergi nærri lokið. Guðmundur Kristjánsson eigandi Brim seafood hefur sótt hart að ná meirihluta en aðrir hluthafar, úr Eyjum hafa viljað halda forræðinu hér í Eyjum og myndað blokk gegn Guðmundi.

Á hluthafafundi í síðustu viku var ákveðið að óska eftir afskráningu í Kauphöll Íslands. Guðmundur sem er enn næststærsti hluthafi félagsins óskaði eftir því að Kauphöllin hafnaði eða frestaði afskráningunni. Guðmundur segir að núverandi eigendur séu lítið fyrir hagræðingu og tæknivæðingu.  Guðmundur hefur alla tíð lagt mikla áherslu á að halda Vinnslustöðinni inn í Kauphöllinni.  Hvers vegna? 

Eins og Binni framkvæmdastjóri VSV bendir á, hvers vegna eru fyrirtæki Guðmundar ekki skráð í Kauphöllinni fyrst það er svona hagkvæmt og nauðsynlegt?

Guðmundur rekur fyrirtækið Brim-seafood sem er með starfstöðvar víða. Hvernig fór fyrir óskabarni Akureyringar, ÚA? Guðmundur keypti það og sameinaði Brim útgerðarfélagi sínu. Vissulega er enn starfsemi á Akureyri en er félagið eins öflugt og það var hér áður? 

Þætti gaman að heyra frá einhverjum norðanmanninum um það.


Ekkert álver við Þorlákshöfn, hvað þýðir það?

Eftir ákvörðun Landsvirkjunar um að selja ekki orku til fleiri virkjana á suðvestur horni landsins er nokkuð ljóst að ekkert verður af hugmyndum um álver við Þorlákshöfn.  Hvað þýðir það?

Verður stórskipahöfn blásin af þar?  Var álverið ekki forsenda slíkra hugmynda?  Það er ljóst að ef hugmyndir hóps Eyjamanna sem vilja frekar hraðskreiðara skip í Þorlákshöfn en Bakkafjöru yrðu að veruleika þýðir það að það þyrfti að fara í verulegar endurbætur í Þorlákshöfn.

Er vilji til þess?

Bakkafjara er alltaf að færast nær og nær okkur. Ég hef svo sem sagt það áður en segi það enn. Við eigum að hætta að berjast innbyrðis, Bakkafjara er það sem koma skal. Einbeitum okkur að því að ná fram byltingu í samgöngumálum. Berjumst fyrir stærð skipsins, fjölda ferða, forræði yfir höfninni og fleiri þáttum í stað þess að berja hausnum við steininn...

 


Gott skref hjá bæjaryfirvöldum og Vinnslustöðinni

Fréttatilkynning bæjaryfirvalda og Vinnslustöðvarinnar um áhuga þeirra á að taka þátt í forvali vegna reksturs Bakkafjöruferju kom mér skemmtilega á óvart. Frábært ef sú yrði raunin að innanbæjarfyrirtæki tæki að sér reksturinn. Þetta er það sem þarf að gera. Berjast fyrir forræði yfir samgöngumálum okkar. 

Spurning hvort ríkisvaldið hafi einhvern áhuga á því. Einhvern veginn efast ég um það.

Það er búið að kveikja hörkuumræðu í bænum um Bakkafjöru. Það heyrir maður. Hópur fólks berst gegn Bakkafjöru. Sumir eru harðari en aðrir í þeirri umræðu.  Flestir þeir vilja stærra og hraðskreiðara skip í Þorlákshöfn.

Það var athyglisvert sem skólabróðir minn benti á í dag. Ef skipið hefði verið mikið stærra en það er í dag væri búið að vera meira og minna ófært í Þorlákshöfn undanfarna daga.  Er það raunin? Hef heyrt nokkrar sögur af hrakförum Herjólfs í Þorlákshöfn. 

Kannski verkfræðingunum sé treystandi til að stækka höfnina þar svo hægt sé að sigla stærra skipi inn?

 


Ekki bara veðrið, heldur líka verðið

Bjarni Harðarson þingmaður Framsóknarflokksins er að verða eins og Magnús Þór Hafsteinsson var á síðasta kjörtímabili. "Utanaðkomandi" þingmaður sem sýnir Vestmannaeyjum mestan áhuga. Alla vega hef ég ekki orðið var við Eyjamennina tvo í stjórnarliðinu vera eitthvað að tjá sig um málefni okkar.

Alla vega, Bjarni er í Eyjum. Heldur opinn stjórnmálafund í kvöld. Ætlar að ræða samgöngumál. Hann kom með Herjólfi í dag og var sú raun til þess að hann setur smá færslu inn á heimasíðu sína undir heitinu "rúgbrauð og rjómi í rigningunni"

Fyrrverandi samstarfskona mín, Guðbjörg á Fréttum fær hól frá Bjarna, bæði fyrir rúgbrauðið og rjómann. En hann er eftir sig eftir Herjólfsferðina.

Ekki bara veðrið, heldur líka verðið. 

Sjóferðin var líklega ekkert spes, skítaveður. 

En þó er það ekki sjóriðan sem sat eftir þegar kom í land, heldur hversu létt pyngjan var. Bjarni segist hafa borgað fjögur þúsund "fyrir að koma einum bíllausum kalli yfir sundið," eins og hann orðar það og segir að lokum: "Dýr tollur fyrir þá sem búa hér..."

Gott að þingmaður er á þessari skoðun...

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband