Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Jón Kaldal ritstjóri Fréttablaðsins hefur með reglulega millibili haldið því að þjóðinni í gegnum snepilinn að í raun sé hrunið Íslendingum öllum að kenna en ekki einstaka útrásarvíkingum. Nota bene - ekki þeim sem borga honum laun og halda úti áróðursblaði sér til varnar.
Fljótlega eftir hrunið kenndi hann flatskjám um og nú segir hann þetta þjóðinni að kenna þar sem hún kaus yfir sig frjálshyggjuna. Þetta er viðhorf frænda okkar í Noregi ef marka má orð eins ráðherrans þar. Að við Íslendingar þurfum að bera ábyrgð á þeirri frjálshyggju sem ríkisstjórnir síðustu ára hafa reynt að koma hér á. Sú norska er í systurflokki VG þar í landi og auðvitað er frjálshyggjan ekki hátt skrifuð þar.
Í rauninni held ég að frjálshyggjan sé ekki heldur hátt skrifuð á Íslandi, eðlilega miðað við niðurstöðuna.
Hins vegar neita ég algjörlega að bera ábyrgð á fólki sem ég hef ekkert um að segja. Íslenska ríkið (ég og þú) seldum ríkisbankana. Það má deila um verðið og eigenduna og hvort helmingaskiptareglan var viðhöfð eða hvað þetta kallast allt en bankarnir voru seldir. Þar af leiðandi fluttist ábyrgðin frá gömlu eigendunum (frá mér og þér) til nýrra eigenda (Björgólfsfeðga, Ólafs Ólafs, Finn Ingólfs o.s.frv.)
Alla vega hefði það átt að vera svoleiðis.
Ef fyrirtæki er selt þá ber gamli eigandinn ekki ábyrgð ef sá nýji keyrir það í þrot.
Ábyrgðin væri öll okkar ef bankarnir hefðu verið áfram í ríkiseigu en svo var ekki. Þess vegna neita ég alfarið að taka undir með fyrrnefndum ritstjóra, Þorvaldi Gylfasyni og því miður, ríkisstjórn Íslands.
Við gátum ekki haft áhrif á fjármálastefnu bankanna síðustu árin. Við höfðum ekkert um þá að segja.
Það eru ekki margir sem tala máli okkar sem sitjum uppi með skömmina og skuldirnar. Ekki er það ríkisstjórnin sem setur frekari álögur og kvaðir á fólkið sem enn er ekki flutt úr landi. Ekki er það stjórnarandstaðan sem hefur meiri áhuga á að skora stig með því að klekkja á ríkisstjórninni en að koma með uppbyggilegar hugmyndir fyrir fjölskyldurnar og fyrirtækin í landinu.
Það er helst erlendir aðilar sem hafa kynnt sér málin og snúast til varnar fyrir okkur. Ömurlegt, svo ekki sé meira sagt.
Hrunið var ekki mér að kenna, þó ég eigi flatskjá.
Stjórnmál og samfélag | 21.8.2009 | 13:50 (breytt kl. 13:51) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Eygló Harðar skrifar góða grein sem ég leyfi mér að vitna í hér. Hún er þingmaður og fær engar upplýsingar, nema þær sem hún les í fjölmiðlum, líkt og við hin. Samt á hún að taka ákvörðun um að samþykkja Iceslave samninginn eða ekki.
Hún er beðin um að skrifa upp á óútfylltan tékka sem Íslendingar eiga eftir að borga af næstu áratugina. Mesta skuldsetning Íslandssögunnar.
Það er gríðarleg ábyrgð sett á herðarnar á þessum 63 þingmönnum sem þarna sitja. Fastlega má búast við að allir þingmenn Samfylkingarinnar muni samþykkja þetta möglunarlaust. Því miður virðist staðan þar vera svipuð og var hjá Sjálfstæðisflokknum þegar Davíð réð þar ríkjum. Forystunni treyst blint. Man nú eftir nokkuð mörgum Samfylkingarmönnum sem gagnrýndu það harkalega, hneyksluðust alveg gríðarlega.
Ég bind vonir við að þingmenn Sjálfstæðisflokks, Borgarahreyfingarinnar og Framsóknar muni öll leggjast gegn samningnum. Flestir sem hafa kynnt sér samninginn, eða það litla sem fram hefur komið í fjölmiðlum um efni hans eru sammála um að hann er vondur fyrir íslenska þjóð. Ef þingmenn vilja ekki hafna honum á þeim forsendum þá eiga þau að hafna honum á þeim forsendum að þau vilji ekki samþykkja eitthvað sem þau geta ekki kynnt sér. Algjör fjarstæða af Steingrími og Jóhönnu að ætlast til þess.
Þessir miklu boðberar gegnsæi ...
Þetta mun líklega velta á því hvað VG gerir. Verða þingmenn þar beygðir til hlýðni eða fá þau áfram að hafa sjálfstæða skoðun. Ætla að vona það síðarnefnda, því þá, þrátt fyrir Ragnar Reykás heilkenni formannsins myndi flokkurinn standa undir nafni.
Stjórnmál og samfélag | 16.6.2009 | 11:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bankahrunið varð í október, búsáhaldarbyltingin í janúar og ný ríkisstjórn í febrúar. Ríkisstjórn félagshyggjuaflanna, 80 daga ríkisstjórnin. Nú skyldi kapítalisminn settur á hilluna og félagsleg mál sett á oddinn.
Það þagnaði í mótmælendum á Austurvelli. Pottarnir fengu að snúa aftur til sinna starfa, sleifarnar notaðar til annars en að lemja. Fólkið snéri aftur heim í hlýjuna og hugsaði sér gott til glóðarinnar. Að vera búinn að koma Sjálfstæðisflokknum frá völdum og það sem meira er og mikilvægast, Davíð úr Seðlabankanum.
Kosningar gengu í garð, Búsáhaldarbyltingin varð Borgarahreyfingin sem hafði sætaskipti við Frjálslynda á þingi. Kvótinn var ekki lengur aðalmálið, heldur spillingin, kapítalisminn, sukkið og svínaríið. Sjáfstæðisiflokkurinn var settur á bekkinn og inn á kom fyrsta hreina vinstri stjórn á Íslandi frá stofnun lýðveldisins.
Það var ekkert annað!
Og við, smælingjarnir biðum eftir viðbrögðum, hvað skyldi gert fyrir okkur sem eftir situm með skuldir útrásarinnar á bakinu. Og við biðum og biðum og biðum og biðum og biðum...
...og biðum og biðum og biðum. Síðan kom svar.
Það skal hækka skatta á áfengi, tóbak og bensín. Hækka höfuðstól verðtryggða lána.
Meðlimir búsáhaldarbyltingarinnar væntanlega hæstánægðir með sitt fólk. Jóhanna er svo heiðarleg, Steingrímur svo skeleggur að þetta getur ekki klikkað. Engir pottar að berja í á Austurvelli, engin eggjasala svo hægt sé að skreyta Alþingishúsið, grímurnar fallnar af anarkistunum, rúðurnar látnar óárettir. Þetta er svo frábært, við erum komin með vinstri stjórn.
Til hamingju Ísland.
Þetta getur ekki klikkað
Eða hvað?
Stjórnmál og samfélag | 29.5.2009 | 15:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Lengi vel var bein lína frá ritstjórn Morgunblaðsins í þingflokksherbergi Sjálfstæðisflokksins. Þetta var á tímum kalda stríðsins. Enn í dag er Mogganum stillt upp sem málgagni flokksins. Tel það ekki sanngjarnt gagnvart starfandi blaðamönnum Moggans í dag enda löngu búið að klippa á línuna.
Hins vegar virðist tenging Samfylkingarinnar við fréttastofu Stöðvar 2 orðinn óþægilega mikil. Reyndar óþægileg fyrir bæði flokkinn og fréttastofuna.
Róbert Marshall var um árabil starfsmaður Stöðvar 2 og fyrir mér var eftirsjá af honum á skjánum. Hann snéri sér að pólitík og fór fram fyrir Samfylkinguna. Sigmundur Ernir var í mörg ár helsta "andlit" stöðvarinnar og fréttaþulur. Hann er nú kominn í framboð og auðvitað fyrir Samfylkinguna.
Nýjasta dæmið er launaður álitsgjafi fréttastofunnar, stjórnmálafræðingurinn Baldur Þórhallsson sem hefur í nokkur ár sagt okkur hvað stjórnmálamenn voru í raun að segja í viðtölum... hann er nú kominn á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík.
Stjórnmál og samfélag | 1.4.2009 | 09:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Framsóknarmenn hafa að undanförnu kynnt hugmyndir sínar um 20% flatan niðurskurð skulda hjá heimilum og fyrirtækjum. Þetta eru athyglisverðar hugmyndir en núverandi ríkisstjórnarflokkar hafa algjörlega blásið á þær. Ekki hefur heyrst múkk í þeim hvað ætti frekar að gera.
Verðandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins fyrir norðan, Tryggvi Herbertsson tók undir þessar hugmyndir í Kastljósinu í gær.
Ég hef heyrt töluvert af Samfylkingarfólki ræða um að það ættu ekki allir að fá niðurfellingu, eingöngu þeir sem þyrftu á því að halda.
Hver þarf á því að halda og hver ekki ? Hvernig ætlar fólk að mæla það út? Verður það tekjutengt, eða jafnvel krónutala á skuldum vs laun?
Lánin hafa hækkað hjá öllum, alveg sama hver staða þeirra var fyrir. Allir hafa minna á milli handanna núna vegna bankahrunsins.
Hver ætlar að segja okkur hver á skilið niðurfellingu og hver ekki?
Og ef ekki þessi leið, þá hvaða leið og hvað er Samfylkingin og VG tilbúin að láta þjóðina bíða lengi á meðan þau ákveða sig ?
Eins finnst mér alveg magnað að lesa blogg sumra stuðningsmanna þessara flokka að það eigi að undanskilja fyrirtækin í þessu. Vegna þess að þau vilja ekki niðurfella skuldir á þá sem settu þjóðina á hausinn. Hvað með öll hin fyrirtækin sem hafa verið rekin á samviskusamlegan hátt og tóku ekki þátt í útrásinni? Eiga þau að blæða enn meira ?
Eins og er er þetta besta leiðin sem ég hef heyrt til að koma þjóðfélaginu af stað aftur.
Stjórnmál og samfélag | 17.3.2009 | 14:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Alveg er það merkilegt sú túlkun hjá gömlu pólitíkusunum að ákallið um endurnýjun bjóði þá velkomna á sjónarsviðið á nýjan leik. Ingi Björn kominn í slaginn á nýjan leik hjá Sjálfstæðisflokknum og Jón Baldvin búinn að lýsa yfir framboði til formanns Samfylkingarinnar.
Hvað næst, verður Hjörleifur Guttorms í efsta sæti VG?
Þinn tími er löngu liðinn Jón Baldvin.
Það verður athyglisvert að fylgjast með endurnýjuninni í prófkjörunum næstu vikurnar. Eins og er sýnist mér Sjálfstæðisflokkurinn einn flokka ætla sér einhverja endurnýjun. Forysta Samfylkingarinnar "pantaði" efstu sætin í prófkjörinu í Reykjavík í dag. Allir þingmenn VG ætla að bjóða sig fram aftur.
Same old, same old
Stjórnmál og samfélag | 28.2.2009 | 18:06 (breytt kl. 18:07) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Viðtalið við Davíð Oddsson í Kastljósi í gærkvöldi var mjög athyglisvert, svo vægt sé til orða tekið. Hann varpaði nokkrum sprengjum, litlum og stórum sem tekur vafalaust nokkra daga og jafnvel vikur fyrir þjóðina að melta.
Til að mynda skýrslan sem hann veifaði. Seðlabankinn lét vinna hana í febrúar 2008 og þar var því spáð að bankakerfið myndi hrynja í OKTÓBER 2008. Sú skýrsla fór inn á borð forsætisráðherra. Fór hún inn á borð ríkisstjórnarinnar? Hver voru viðbrögð yfirvalda við henni? Mun einhver fjölmiðill spyrja? Eða er nóg að Davíð fari úr Seðlabankanum og þá verði allt í gúddí?
Að hann hafi sagt á ríkisstjórnarfundi nokkru fyrir bankahrunið að bankarnir myndu falla innan tveggja til þriggja vikna. Einhver ráðherra vildi nú að Davíð myndi sleppa þessari dramatík. Hver var það? Var fólk steinsofandi? Ætla fjölmiðlar að grafast fyrir um það? Hverjir sátu í ríkisstjórn þá og hverjir sitja enn? En þetta hlýtur nú allt að reddast þegar Davíð fer úr Seðlabankanum, þá verður allt svo gúddí.
Hann upplýsir um bréf sem hann sendi til efnahagsbrotadeildar lögreglunnar vegna 100 milljarða króna yfirdráttar til sjeiks. Lágu þessar upplýsingar ekki hjá skilanefndum bankanna. Hvers vegna var lögreglunni ekki gert viðvart frá þeim bænum? Það skiptir örugglega engu máli bara svo lengi sem Davíð hverfur úr Seðlabankanum, þá verður allt svo gúddí...
Samfylkingin hefur ásamt Vinstri grænum nú nýtt sér fræga smjörklípuaðferð. Á meðan allt er á hliðinni í þjóðfélaginu beina þau spjótunum að einum manni og láta allt snúast um hann til þess að fela eigin vanmátt í því ástandi sem nú er í þjóðfélaginu. Það er enginn að gera neitt sem sést. Nóta bene, ég geri mér alveg grein fyrir því að það er fullt af fólki að vinna vinnuna sína og reyna en ekkert af því er upp á borðinu. Nei, síðan minnihlutastjórnin tók við hefur ekkert gerst. Eina málið á dagskrá er að reka Davíð og það hefur ekki einu sinni tekist. Hvað svo?
Punktarnir voru margir og ég vona að fjölmiðlar fari að spyrja gagnrýnna spurninga og beina augum sínum eitthvað annað en þangað sem Jóhanna og co beinir þeim. Það var samt ljóður á Davíð í gær hversu ókurteis hann var við Sigmar. Hann tók nánast allar spurningar óstinnt upp og túlkaði þær sem persónulegar árásir Sigmars á sig. Sigmar var einfaldlega að vinna vinnuna sína, spyrja gagnrýnna spurninga sem hafa endurómað í þjóðfélaginu undanfarnar vikur.
Síst af öllu viljum við fleiri Sindra vs Jón Ásgeir viðtöl.
Stjórnmál og samfélag | 25.2.2009 | 09:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Dagurinn hefur verið ótrúlegur þegar litið er á pólitíkina. Sögulegur í meira lagi, stjórnin fallin, fyrrverandi samstarfsmenn keppast við að skíta hvorn annan út og forsetinn búinn að taka forystuna í myndun nýrrar ríkisstjórnar. Alla vega hefur hann sett fram fjögur stefnumál sem hann ætlast til að næsta ríkisstjórn framfylgi.
Er hlutverk forseta Íslands að mynda stefnuskrá?
Eitt sem vakti athygli mína öðru fremur í ummælum dagsins. Það var annars vegar ummæli forsætisráðherraefnis Samfylkingarinnar, Jóhönnu Sigurðardóttur að stjórnin hafi sprungið fyrst og fremst á því að Sjálfstæðisflokkurinn vildi ekki hrófla við Seðlabankastjóra. Árni Mathiesen sagði aftur á móti að það mál hefði verið leyst og í raun hafi Geir Haarde lagt fram lausn í því máli í desember.
Svona hlutir eiga að vera á hreinu, upp á borðinu.
En í alvöru talað. Er forsetinn, eftir allt sem á undan er gengið með traustið til þess að vera að gjörbylta forsetaembættinu á þessum örlagatímum. Setja væntanlegri stjórn afarkosti um málefni?
Stjórnmál og samfélag | 26.1.2009 | 18:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Frétt á visir.is veldur mér áhyggjum. Þar er talað um að samkomulag hafi náðst um myndun minnihlutastjórnar. Ekki það að ég sjái á eftir núverandi ríkisstjórn heldur er ég á því að við séum að fara úr öskunni í eldinn. Ingibjörg Sólrún verður forsætisráðherra, sem væri í lagi ef hún væri ekki veik. Held að hún ætti að einbeita sér að því að ná fullri heilsu á nýjan leik. Steingrímur Joð ætlar í fjármálaráðuneytið en það sem sló mig mest var að það á að gera Guðjón Arnar Kristjánsson að formanni sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar.
Samt skárra en að gera hann að ráðherra málefnanna...
Held að eina vitið til þess að ná einhverri sátt fram að kosningum væri þjóðstjórn og það undir forsæti óháðs aðila.
Stjórnmál og samfélag | 26.1.2009 | 10:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Embættismaður hjá Evrópusambandinu hefur sagt að Það er ekkert eins varanlegt og tímabundnar undanþágur.
Þessi setning var sögð á Bylgjunni í morgun af Andrési Péturssyni. Var verið að ræða um sjávarútvegsmál og Evrópusambandið.
Verða þetta rökin?
Stjórnmál og samfélag | 6.1.2009 | 13:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Færsluflokkar
Tenglar
Heimsótt reglulega
Bloggvinir
Jan. 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | |||
5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 |
12 | 13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 |
19 | 20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 |
26 | 27 | 28 | 29 | 30 | 31 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar