Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Þetta eru skrýtin áramót. Árið er búið að vera svo viðburðarríkt að af nógu er að taka. Þess vegna beið ég temmilega spenntur eftir Kryddsíldinni á Stöð 2. Heyra hvað menn höfðu fram að færa. Alveg eins gat maður átt von á stórtíðindum. En svo var ekki, þökk sé hópi skemmdavarga sem á hátíðarstundum kalla sig mótmælendur. Það var þá.
Að láta reiði sína bitna á starfsmönnum Stöðvar 2, á búnaði þeirra og örugglega á Hótel Borg er eitthvað sem ég fæ ekki skilið og mér finnst þetta meira í ætt við glæpamennsku en mótmæli. Alla vega ber ég litla virðingu fyrir þessu liði sem þarna var og hef það á tilfinningunni að hópur fólks nýti sér mótmælaölduna á Íslandi til að fá útrás fyrir skemmdafíkn sinni. Svei þessu liði.
Og að formaður stærsta (samkvæmt skoðanakönnunum) stjórnmálaflokks landsins skuli ekki koma og gagnrýna og/eða fordæma þetta er mér algjörlega óskiljanlegt og virðing mín fyrir Steingrími J. Sigfússyni er ekki mikil í dag. Hann er ekkert að mæla með þessu en fólk hefur rétt að mótmæla!! Ja hérna.
En þrátt fyrir allt þá verða nú haldin áramót. Ég vona að liðið nái því ekki af mér! Nei, varla, ég er svo langt í burtu frá 101.
Við þá sem villast hér inn segi ég Gleðilegt nýtt ár og skemmtið ykkur vel í kvöld!!
Stjórnmál og samfélag | 31.12.2008 | 16:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ég er ekki hissa á þeirri reiði sem er í samfélaginu. Hún blossar upp á hverjum degi þó vissulega fari mótmælendum fækkandi. Það eru nú að koma jól. Annars finnst mér sá mótmælahópur sem gengið hefur hvað harðast fram, til að mynda í Alþingishúsinu í gær og með eggjakasti undanfarna laugardaga setja svartan blett á mótmæli hins almenna borgara sem á friðsaman og málefnalegan hátt hefur verið að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.
Hef það á tilfinningunni að þarna sé á ferð meira og minna sama fólkið og hefur stundað mótmæli gegn stóriðjuframkvæmdum undanfarin ár. Lið sem oft er kennt við 101 Reykjavík. Ekki misskilja mig, þau hafa jafnan rétt til að mótmæla og aðrir en þegar fólk er orðið atvinnumótmælendur þá missir þetta marks. Ég man eftir nokkrum viðtölum við talsmenn þessa hóps á síðustu misserum og oft hafði ég það á tilfinningunni og þau vissu hreinlega ekkert hvað þau voru að mótmæla.
En nóg um það.
Ég held að þær raddir sem nú heyrast um breytingu á kosningalöggjöfinni og breytingu á kjördæmum eigi bara eftir að hækka þegar fram líða stundir. Flestir virðast vera á þeirri skoðun að flokkshollustan sé of mikil í dag. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að réttast væri að taka upp svokölluð einmenningskjördæmi. Þ.e.a.s þá er kosið um ákveðinn einstakling sem fulltrúa bæjarbúa á Alþingi.
Alla vega held ég að Samfylkingin ætti að kasta út hjá sér hugmyndum um að gera Ísland að einu kjördæmi. Þá fyrst held ég að ásakanir um að flokksklíkan stjórnaði yrðu háværar. Þannig fengi flokksklíkan að stjórna því hverjir sætu á þingi og hverjir ekki. Hverjir væru þægir þingmenn og hverja viljum við losna við.
Með einmenningsjkördæmum myndi Jafnvel opnast möguleikar fyrir óháða frambjóðendur að ná kjöri, persónufylgi myndi fleyta sumum langt á meðan aðrir litlausari og áhrifalitlir þingmenn hyrfu vafalítið út af þingi.
Síðan yrði að kjósa beint forsætisráðherra sem myndi setja saman ríkisstjórn og ráðherrarnir ættu ekki sæti á Alþingi. Það yrði æðsta embætti á Íslandi.
Raunar tel ég rétt að kjósa í fleiri embætti á Íslandi en það er nú önnur saga.
Þá yrði þetta spurning um hvernig ætti að skipta þingmannasætunum. Ég myndi segja að höfuðborgarsvæðið ætti að eiga meirihluta þingmanna, einfaldlega vegna þeirrar staðreyndar að meirihluti þjóðarinnar býr þar. Þannig fengi Reykjavík 19 þingmenn, Garðabær 2, Hafnarfjörður 4, Kópavogur 5 og Mosfellsbær og Seltjarnarnes sinn hvorn þingmanninn. Hvernig Reykvíkingar myndu skipta þessum 19 sætum niður á hverfin er svo annað mál...
Fimm þingsæti kæmu á Reykjanesið, Þá yrðu fjögur þingsæti á Vesturlandi, þrjú á Vestfjörðum, þrjú á Norðurlandi Vestra, sex á Norðurlandi eystra, fjögur á Austurlandi og loks sex hér í Suðurkjördæmi. Hvernig þau skiptast innan svæðisins er eitthvað sem ég ætla ekki að leggja mat á, enda skelfilega slappur í landafræðinni :-)
Miðað við íbúafjölda hlutfallslega á Suðurlandi ættu Vestmannaeyjar að fá einn þingmann. Það yrði hreint og klárt kjör hér í Eyjum, eins og staðan er núna milli Árna Johnsen, Lúðvíks Bergvinssonar og Eygló Harðardóttur. Það yrði athyglisverð kosning.
Við yrðum þingmönnunum fátækari, engin spurning en um leið værum við að fá beinan fulltrúa okkar á þing. Ekki fulltrúa dreifðra byggða kjördæmisins alls. Þingmenn geta ekki sinnt öllu þessu svæði. Eins værum við að koma í veg fyrir flakk atvinnupólitíkusa milli landshluta til að ná kjöri, a.k.a Árni Matt/Atli Gísla hér í Suðurkjördæmi. Efast um að Selfyssingar vildu hafa Árna Matt (með fullri virðingu) sem einn af tveimur fulltrúum sínum. Hann er Hafnfirðingur og ætti að bjóða sig fram þar.
Með þessu held ég að það yrði meira líf í þinginu. Það yrðu ekki svo margir já menn og konur sem fylgja flokkslínunni sama hvað tautar og raular. Vegna þess að þau vita að þau þurfa að sækja umboðið aftur til íbúanna á sínu svæði. Það verður engin uppröðun sem reddar þeim.
Eins með því að skilja að ríkisstjórn og þing, þá yrði farið gagnrýnara yfir það sem kemur frá ríkisstjórninni. Jafnvel gæti sú staða komið upp að flokksfélagi ráðherrans leggðist gegn frumvarpi hans eða að frumvarp ríkisstjórnarinnar yrði hreinlega fellt.
Ja, hérna, það yrði nú saga til næsta bæjar !
Stjórnmál og samfélag | 9.12.2008 | 09:34 (breytt kl. 09:35) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Hvers vegna fást engin svör frá yfirvöldum um lánið fyrirhugaða frá IMF?
Er ekki eðlilegt að ríkisvaldið skýri þjóðinni frá því hvernig staðan er. Hvað stendur í vegi fyrir því að lánið sé afgreitt? Eru Bretar, Hollendingar og jafnvel Þjóðverjar að beita sér gegn lánveitingunni? Helstu fréttir sem fást um málið koma frá erlendum fjölmiðlum. Eru íslensku fjölmiðlarnir ekki nógu öflugir til að grafast fyrir um málið?
Telja íslensk yfirvöld almenning í landinu of heimskan til að meta þær upplýsingar sem lagðar eru fyrir þjóðina? Eða of óþroskaða? Jafnvel ekki treystandi til að takast á við slæmar fréttir? Kemur þetta okkur kannski ekkert við?
Hver eru næstu skref og í hverju er verið að vinna núna?
Er málið kannski að ráðamenn eru ráðþrota?
Stjórnmál og samfélag | 12.11.2008 | 15:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ég horfði með athygli á þátt Jón Ársæls, Sjálfstætt fólk í gærkvöldi. Vigdís Finnbogadóttir fyrrverandi forseti var þar í viðtali. Það verður að segjast eins og er að þrátt fyrir að rúmur áratugur sé síðan hún lét af störfum sem forseti þá er hún enn miklu meiri forseti í mínum huga en sá sem nú situr á Bessastöðum.
Hún var sameiningartákn þjóðarinnar. Laus við pólitík og sérhagsmuni.
Mikið held ég að Íslendingar þurfi á slíku sameiningartákni að halda núna.
Stjórnmál og samfélag | 10.11.2008 | 14:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ég hef ekki skrifað lengi hérna enda má segja að ég hafi verið orðlaus síðasta mánuðinn í öllu þessu fárviðri sem geysar á Íslandi.
Við erum að keyra inn í rosalega lægð í efnahagsmálum. Svo mikla að lífsskjör okkar almennra borgara muni dragast saman, stórlega. Ég er svartsýnn.
Það er misgáfulegt það sem kemur frá stjórnmálamönnum þessa dagana. Menn tala í hringi og í kross, hvort sem þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu. Skelfilegt að hlusta á þetta lið.
En eitt rak ég augun í á vefritinu orðið á götunni. Þar er vitnað í orð Bjarkar Guðmundsdóttur söngkonu um að við eigum að ganga í Evrópusambandið ekki seinna en strax. Það er talað um tímamótayfirlýsingu. Ég spyr, hvað vill hún upp á dekk? Hún veit ekkert um Íslenskt samfélag, hefur ekki búið hér áratugum saman og veit ekkert út á hvað það gengur að vera Íslendingur í dag. Hvert borgar hún sína skatta?
Tímamótayfirlýsing ... kjaftæði. Það hefði verið tímamótayfirlýsing hefði Geir H. Haarde sagt þetta, eða Ingibjörg Sólrún sagt að við ættum ekki að ganga Evrópusambandið.
Stjórnmál og samfélag | 7.11.2008 | 13:07 (breytt kl. 13:27) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hef verið í löngu og góðu bloggfríi og veit svo sem ekki hvort ég fari af stað aftur af einhverju viti eða hendi einni og einni færslu inn. Það kemur í ljós með haustinu. En sá farsi sem boðið er upp á í Reykjavík var nú tilefni til þess að rifja upp lykilorðið.
Ég hef áður skrifað um þann farsa sem nú er í gangi í höfuðborginni og finnst alveg ótrúlega margt líkt með málefnum þeirra og okkar hér í Eyjum á síðasta kjörtímabili. Vandamálið er að einn maður heldur restinni af borgarstjórninni í gíslingu. Meðan staðan er slík þá minnkar traust almennings á borgarstjórninni. Í borgarstjórn Reykjavíkur eru tveir sem kalla má sólóista. Sem geta með einræði sínu haldið heilum flokk með 30-40% fylgi á bak við sig. It's either my way, or the highway !!
Orðrómur er á kreiki að Ólafur F ætli ekki að láta borgarstjórastólinn af hendi, heldur vilji sitja út kjörtímabilið. Annars mun hann slíta samstarfinu. Kæmi mér satt að segja ekki á óvart...
Tel nú lag ef borgarfulltrúar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks eru að hugsa um borgarbúa fremur en valdabrölt sitt að þau taki Lúðvík Bergvinsson og Arnar Sigurmundsson í Vestmannaeyjum sér til fyrirmyndar. Leggi gamlar deilur til hliðar borginni til framdráttar og myndi nýjan og sterkan meirihluta sem getur starfað fram að næstu kosningum.
Stjórnmál og samfélag | 8.8.2008 | 10:59 (breytt kl. 10:59) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hvurslags vitleysa er þetta eiginlega? Árni Johnsen fer hörðum orðum um embættismann sem honum fannst ekki vinna vinnuna sína og uppsker kæru fyrir. Alveg er ég viss um að ef einhver af hinum 62 sessunautum Árna á þingi hefði skrifað þessa grein væri ekki verið að tala um kæru. Og yfirlýsing embættismannsins er ekkert annað en ósvífinn árás á Árna.
Um margt má segja um Árna Johnsen en ef hann má ekki hafa skoðun og gagnrýna hugsun á það sem gerist hjá hinu opinbera þá er eitthvað að. Það er alveg út í hött. Árni er alþingismaður og þetta er hans hlutverk. Hvort sem mönnum líkar betur eða verr.
Ég er líka sammála Árna. Vinnubrögðin í kringum þetta mál hafa verið afskaplega skrýtin. Skýrslum lekið í fjölmiðla á sama tíma og skýrslur voru kynntar frá Ægisdyrum. Stjarnfræðilegar upphæðir frá yfirvöldum hér varðandi kostnað við jarðgöng á meðan sérfræðingar erlendis frá voru með mun lægri kostnaðartölur.
Það hefur verið ljóst lengi að það var enginn áhugi hjá yfirvöldum hér að fara út í jarðgöng til Eyja. Menn hafa unnið gegn þessari hugmynd nánast frá upphafi. Hvers vegna voru rannsóknir ekki kláraðar? Þrátt fyrir undirskrift allra framboða fyrir síðustu alþingiskosningar þess efnis. Vegna þess að þeir sem öllu ráða hafa engan áhuga á því.
Og hverjir ráða?
Jú, embættismennirnir.
Stjórnmál og samfélag | 29.4.2008 | 10:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Mikið er rætt um pistil Össurar Skarphéðinssonar ráðherra frá því í fyrrinótt þar sem hann fer heldur betur hörðum orðum um Gísla Martein Baldursson. Hann spáir honum ekki langlífi í pólitík en ég held að þetta sé meiri óskhyggja en spádómar hjá ráðherranum.
Ég man vel eftir umræðunni þegar Össur tókst á við Ingibjörgu Sólrúnu um formannsstólinn í Samfylkingunni. Þá voru sjálfstæðismenn duglegir að mæra Össur, hrósa honum fyrir allt og allt á meðan gagnrýnin á Ingibjörgu var í öllum hornum.
Ingibjörg var álitin hættulegri andstæðingur.
Ég held að Össur líti svipuðum augum á Gísla Martein. Nú þegar tími Villa er liðinn hefst baráttan um leiðtogasætið í borginni. Baráttan stendur á milli nokkurra og þar á meðal Gísla Marteins.
Össur álítur hann hættulegasta andstæðinginn...
Varðandi tímasetninguna á pistlinum verð ég að segja það að mér finnst ekkert að því að hann skrifi á nóttunni. Sjálfur hef ég lesið marga skemmtilega pistla eftir karlinn sem skrifaðar voru langt eftir miðnætti.
Stjórnmál og samfélag | 21.2.2008 | 19:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hver man ekki eftir Andrésar andar blöðunum? Fyrstu blöðin sem ég sá voru á dönsku en maður hló af myndunum. Svo var farið að þýða þetta yfir á íslensku. En ég hélt áfram að hlæja af myndunum.
Ein persónan var frændi Andrésar, Jóakim aðalönd. Forríkur og hafði frændann og synina í vinnu við að passa sína peninga. Þrátt fyrir fjall af seðlum þá fannst honum hann fátækur. Hann svaf ekki af áhyggjum af Bjarnarbófunum. Að þeir gætu hnuplað brotabroti af auðæfum hans.
Mér datt Jóakim aðalönd í hug þegar ég heyrði af vaxtahækkunum bankanna á íbúðarlánum. Bankar sem á þriggja mánaða fresti senda frá sér yfirlýsingar um milljarðahagnað. Þeir eru komnir með íbúðarlánavexti yfir 7%. Það eru venjulegir vextir í mörgum löndum á bankalánum...og það óverðtryggðum í þokkabót!
Bankastjórarnir sofa ekki á nóttinni þar sem þeir halda að almúginn sé að græða á þeim, eða öllu heldur að þeir séu ekki að græða nóg á almúganum.
Það eru þrjú lönd í heiminum sem eru með verðtryggingu á lánum. Ísland, Ísrael og Brasilía!! Eigum við heima á þessum lista?
En hvað getum við gert? Getum við leitað annað? Nei. Við erum bundin af samningi við bankanna. Ef við verslum ekki við þá þá hækka þeir einfaldlega vextina.
Mér skylst að í Danmörku séu húsnæðislánavextir rúmt prósent.
Af hverju erum við í þessari stöðu?
Stjórnmál og samfélag | 8.11.2007 | 22:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Hann er í bullandi fýlu. Það sést vel á heimasíðu stjórnmálaskýrandans Egils Helgasonar. Hann er í raun alveg brjálaður. Og hver er ástæðan? Jú, samgönguráðherra ætlar að halda áfram að byggja upp samgöngumiðstöð við Reykjavíkurflugvöll. Festa flugvöllinn í sessi.
Þetta hefur verið aðalmál Egils síðan hann var með Silfur Egils á Skjá Einum. Og það er fyrir tveimur sjónvarpsstöðvum síðan. Hann er svo rammpólitískur í þessu máli að í raun ætti hann að vera gestur í eigin þætti að rökræða um flugvöllinn.
Egill vill flugvöllinn burt. Hann notar rök borgarbarnsins. Það fara svo fáir um flugvöllinn. (Þetta þrátt fyrir að á síðasta ári hafi orðið aukning á farþegum í innanlandsflugi) Það vantar land, við þurfum meiri menningu í miðborgina.
Spái því að Kristján Möller verði flakaður á sunnudaginn í Silfrinu...
Hann er svo pirraður að nú heldur hann því fram að ekkert hafi breyst frá því ný ríkisstjórn tók völd. Það var þáttur á Stöð 2 í gærkvöldi, Kompás þar sem var verið að fylgja fulltrúa Íslands í Írak frá landinu. Ísland tekur ekki lengur þátt.
Stefnubreyting er það ekki?
Þó vissulega megi taka undir með Agli að fátt hefur breyst sem vit er í
Stjórnmál og samfélag | 18.10.2007 | 15:11 (breytt kl. 15:27) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Færsluflokkar
Tenglar
Heimsótt reglulega
Bloggvinir
Jan. 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | |||
5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 |
12 | 13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 |
19 | 20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 |
26 | 27 | 28 | 29 | 30 | 31 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar