Algjört bjútí

Það skiptast á skin og skúrir hjá mínum mönnum í Liverpool.  Eftir algjöran "low point" í leiknum gegn Middlesbro fyrir stuttu þar sem 2:0 tap var staðreynd kom einhver flottasti leikur sem ég hef orðið vitni að í gærkvöldi þegar eitt stærsta og sigursælasta félagslið Evrópu var kjöldregið. 4:0 sigur gegn Real Madrid og sigurinn hefði getað orðið miklu stærri en besti maður Real Madrid, Cassillas markvörður sá til þess að mínir menn skoruðu ekki "nema" fjögur mörk.

Það er með ólíkindum að liðið skuli ekki ná að mótivera sig betur gegn minni spámönnum í ensku deildinni.  Þeir sýndu það alla vega í gær að þeir geta spilað heimsklassafótbolta.  Ég vill meina að það séu leikmennirnir og hugarfar þeirra sem skiptir máli.  Margir hengdu haus í leiknum á móti Middlesbro. 

Samt held ég að Liverpool sé komið skrefinu lengra í áttina að enska titlinum.  Í fyrsta skipti í mörg ár er Liverpool enn með í baráttunni þetta langt liðið á tímabilið.  Menn hljóta að líta á það sem framfaraskref?  Hins vegar er Liverpool stór klúbbur, sá sigursælasti á Englandi og auðvitað á krafan að vera að liðið sé með í baráttunni ár hvert. 

En miðað við innanfélagsátökin síðasta árið finnst mér staða liðsins góð. 

Spurning hvort ég verð eins jákvæður eftir leikinn á laugardaginn. Smile


Endurnýjun, ekki endurnýting Jón

Alveg er það merkilegt sú túlkun hjá gömlu pólitíkusunum að ákallið um endurnýjun bjóði þá velkomna á sjónarsviðið á nýjan leik. Ingi Björn kominn í slaginn á nýjan leik hjá Sjálfstæðisflokknum og Jón Baldvin búinn að lýsa yfir framboði til formanns Samfylkingarinnar. 

Hvað næst, verður Hjörleifur Guttorms í efsta sæti VG? 

Þinn tími er löngu liðinn Jón Baldvin.  

Það verður athyglisvert að fylgjast með endurnýjuninni í prófkjörunum næstu vikurnar.  Eins og er sýnist mér Sjálfstæðisflokkurinn einn flokka ætla sér einhverja endurnýjun.  Forysta Samfylkingarinnar "pantaði" efstu sætin í prófkjörinu í Reykjavík í dag.  Allir þingmenn VG ætla að bjóða sig fram aftur.

Same old, same old 


Sprengjur á sprengidaginn

Viðtalið við Davíð Oddsson í Kastljósi í gærkvöldi var mjög athyglisvert, svo vægt sé til orða tekið.  Hann varpaði nokkrum sprengjum, litlum og stórum sem tekur vafalaust nokkra daga og jafnvel vikur fyrir þjóðina að melta. 

Til að mynda skýrslan sem hann veifaði.  Seðlabankinn lét vinna hana í febrúar 2008 og þar var því spáð að bankakerfið myndi hrynja í OKTÓBER 2008.  Sú skýrsla fór inn á borð forsætisráðherra.  Fór hún inn á borð ríkisstjórnarinnar?   Hver voru viðbrögð yfirvalda við henni? Mun einhver fjölmiðill spyrja?  Eða er nóg að Davíð fari úr Seðlabankanum og þá verði allt í gúddí?

Að hann hafi sagt á ríkisstjórnarfundi nokkru fyrir bankahrunið að bankarnir myndu falla innan tveggja til þriggja vikna.  Einhver ráðherra vildi nú að Davíð myndi sleppa þessari dramatík.   Hver var það?  Var fólk steinsofandi?  Ætla fjölmiðlar að grafast fyrir um það? Hverjir sátu í ríkisstjórn þá og hverjir sitja enn? En þetta hlýtur nú allt að reddast þegar Davíð fer úr Seðlabankanum, þá verður allt svo gúddí. 

Hann upplýsir um bréf sem hann sendi til efnahagsbrotadeildar lögreglunnar vegna 100 milljarða króna yfirdráttar til sjeiks.  Lágu þessar upplýsingar ekki hjá skilanefndum bankanna.  Hvers vegna var lögreglunni ekki gert viðvart frá þeim bænum?  Það skiptir örugglega engu máli bara svo lengi sem Davíð hverfur úr Seðlabankanum, þá verður allt svo gúddí...

Samfylkingin hefur ásamt Vinstri grænum nú nýtt sér fræga smjörklípuaðferð.  Á meðan allt er á hliðinni í þjóðfélaginu beina þau spjótunum að einum manni og láta allt snúast um hann til þess að fela eigin vanmátt í því ástandi sem nú er í þjóðfélaginu.  Það er enginn að gera neitt sem sést.  Nóta bene, ég geri mér alveg grein fyrir því að það er fullt af fólki að vinna vinnuna sína og reyna en ekkert af því er upp á borðinu.  Nei, síðan minnihlutastjórnin tók við hefur ekkert gerst.  Eina málið á dagskrá er að reka Davíð og það hefur ekki einu sinni tekist.  Hvað svo?

Punktarnir voru margir og ég vona að fjölmiðlar fari að spyrja gagnrýnna spurninga og beina augum sínum eitthvað annað en þangað sem Jóhanna og co beinir þeim.   Það var samt ljóður á Davíð í gær hversu ókurteis hann var við Sigmar.  Hann tók nánast allar spurningar óstinnt upp og túlkaði þær sem persónulegar árásir Sigmars á sig.   Sigmar var einfaldlega að vinna vinnuna sína, spyrja gagnrýnna spurninga sem hafa endurómað í þjóðfélaginu undanfarnar vikur.  

Síst af öllu viljum við fleiri Sindra vs Jón Ásgeir viðtöl. 

 

 


33,3% staða

Ný ríkisstjórn er tekinn við og ráðherraskipan náði aldrei að vera nein stórfrétt enda búið að leka öllu í fjölmiðla nokkuð áður en formleg tilkynning kom. 

Líklega er eitt mikilvægasta ráðuneytið nú um stundir fjármálaráðuneytið.  Þess vegna er ekki skrýtið að leiðtogi annars stjórnarflokksins skuli setjast þar.  Það sem veldur mér aftur á móti hugarangri er hvernig hann ætlar að geta sinnt því veigamikla starfi í 33,3% stöðu.  

Nóg fannst mér nú þegar síðasta ríkisstjórn var mynduð og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu var breytt í 50% stöðugild.  Nú eru þessi tvö atvinnumálaráðuneyti orðin af 33,3% stöðugildum.  Eitthvað sem Steingrímur Joð ætlar að sinna í aukaverkum.   

Mér skilst að hjá ríkinu séu þær reglur að ríkisstarfsmaður megi ekki vinna yfir 100% starf.  Veit ekki hvort þetta er rétt en ef svo er væri ekki rétt að það gilti um alla ríkisstarfsmenn?

Svo er þetta spurning með laun.  Varla er hann að taka full laun fyrir þessi þrjú ráðuneyti sem hann ber ábyrgð á?


Stefnuskrá forseta Íslands

Dagurinn hefur verið ótrúlegur þegar litið er á pólitíkina.  Sögulegur í meira lagi, stjórnin fallin, fyrrverandi samstarfsmenn keppast við að skíta hvorn annan út og forsetinn búinn að taka forystuna í myndun nýrrar ríkisstjórnar.  Alla vega hefur hann sett fram fjögur stefnumál sem hann ætlast til að næsta ríkisstjórn framfylgi. 

Er hlutverk forseta Íslands að mynda stefnuskrá?

Eitt sem vakti athygli mína öðru fremur í ummælum dagsins.  Það var annars vegar ummæli forsætisráðherraefnis Samfylkingarinnar, Jóhönnu Sigurðardóttur að stjórnin hafi sprungið fyrst og fremst á því að Sjálfstæðisflokkurinn vildi ekki hrófla við Seðlabankastjóra.  Árni Mathiesen sagði aftur á móti að það mál hefði verið leyst og í raun hafi Geir Haarde lagt fram lausn í því máli í desember. 

Svona hlutir eiga að vera á hreinu, upp á borðinu. 

En í alvöru talað.  Er forsetinn, eftir allt sem á undan er gengið með traustið til þess að vera að gjörbylta forsetaembættinu á þessum örlagatímum.  Setja væntanlegri stjórn afarkosti um málefni? 

 


Slæmt ef satt reynist

Frétt á visir.is veldur mér áhyggjum.  Þar er talað um að samkomulag hafi náðst um myndun minnihlutastjórnar.  Ekki það að ég sjái á eftir núverandi ríkisstjórn heldur er ég á því að við séum að fara úr öskunni í eldinn.  Ingibjörg Sólrún verður forsætisráðherra, sem væri í lagi ef hún væri ekki veik. Held að hún ætti að einbeita sér að því að ná fullri heilsu á nýjan leik.  Steingrímur Joð ætlar í fjármálaráðuneytið en það sem sló mig mest var að það á að gera Guðjón Arnar Kristjánsson að formanni sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar. 

Samt skárra en að gera hann að ráðherra málefnanna...

Held að eina vitið til þess að ná einhverri sátt fram að kosningum væri þjóðstjórn og það undir forsæti óháðs aðila.  


Viðbjóður íslensks samfélags

Að tala um að menn séu heppnir að veikjast núna og að hann eigi ekki að blanda veikindum sínum inn í umræðuna er í besta falli heimska og í versta falli illgirni.  Svona ummæli eru einfaldlega viðbjóðslega ósmekkleg og þessu fólki til minnkunar.

Viðbót:  Hörður Torfa fær prik fyrir að biðjast afsökunar á ummælum sínum.  Spurning hvort aðrir sem tjá sig í meðfylgjandi frétt fylgi á eftir?

 


mbl.is „Ekki farin að finna til með honum ennþá“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Setning ársins

Embættismaður hjá Evrópusambandinu hefur sagt að Það er ekkert eins varanlegt og tímabundnar undanþágur.

Þessi setning var sögð á Bylgjunni í morgun af Andrési Péturssyni.  Var verið að ræða um sjávarútvegsmál og Evrópusambandið. 

Verða þetta rökin?


Gleðilega rest

Þetta eru skrýtin áramót.  Árið er búið að vera svo viðburðarríkt að af nógu er að taka.  Þess vegna beið ég temmilega spenntur eftir Kryddsíldinni á Stöð 2.  Heyra hvað menn höfðu fram að færa.  Alveg eins gat maður átt von á stórtíðindum.  En svo var ekki, þökk sé hópi skemmdavarga sem á hátíðarstundum kalla sig mótmælendur. Það var þá.

Að láta reiði sína bitna á starfsmönnum Stöðvar 2, á búnaði þeirra og örugglega á Hótel Borg er eitthvað sem ég fæ ekki skilið og mér finnst þetta meira í ætt við glæpamennsku en mótmæli.  Alla vega ber ég litla virðingu fyrir þessu liði sem þarna var og hef það á tilfinningunni að hópur fólks nýti sér mótmælaölduna á Íslandi til að fá útrás fyrir skemmdafíkn sinni.  Svei þessu liði. 

Og að formaður stærsta (samkvæmt skoðanakönnunum) stjórnmálaflokks landsins skuli ekki koma og gagnrýna og/eða fordæma þetta er mér algjörlega óskiljanlegt og virðing mín fyrir Steingrími J. Sigfússyni er ekki mikil í dag.  Hann er ekkert að mæla með þessu en fólk hefur rétt að mótmæla!! Ja hérna. 

En þrátt fyrir allt þá verða nú haldin áramót.  Ég vona að liðið nái því ekki af mér!  Nei, varla, ég er svo langt í burtu frá 101. 

Við þá sem villast hér inn segi ég Gleðilegt nýtt ár og skemmtið ykkur vel í kvöld!! 

 


Góðar fréttir í jólaundirbúningnum

Seint og um síðir ... verð ég að hrósa bæjarstjórn Vestmannaeyja fyrir þá ákvörðun að ráðast í byggingu stækkanlegs knattspyrnuhúss.  Miðað við hvað dróst að ganga frá þessu þá var ég farinn að óttast að menn ætluðu jafnvel að blása þetta af.  Því voru fréttirnar um ákvörðun bæjarstjórnar kærkomin upplyfting í dæmalaust niðurdrepandi fréttum síðustu vikna.  Er búinn að skrifa nóg um það í bili...

Það er líka mjög jákvætt að ákveðið hefur verið að semja við Steina og Olla ehf.  Eyjafyrirtæki og því mun hluti af kostnaðinum renna aftur inn í bæjarkassann í formi útsvars sem reyndar var hækkað á sama bæjarstjórnarfundi. 

Nú er bara að koma kofanum upp og stökkva áratug áfram í aðstöðu fyrir vetrariðkun knattspyrnumanna og kvenna. 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband