Aumt er það

Er þetta ekki makalaust?  Það er búið að setja landið á hausinn og stilla okkur upp við vegg í alþjóðaviðskiptum.  Æra þjóðarinnar hefur skaðast það mikið að það mun taka áratugi að byggja aftur upp traust og virðingu. 

Þeir sem stóðu fyrir þessum gjörningi sitja núna í fundarherbergjum bankanna, semja um kaup á gömlu fyrirtækjunum sínum aftur gegn niðurfellingu skulda (Jón Ásgeir og 365 t.d.) og munu með gjörðum sínum auka enn það heljartak sem þetta lið hefur á íslenskum almenning. 

En eina sem fjármálaráðherranum okkar dettur í hug er að hækka öll opinber gjöld.  Sem sagt, lánin hækka, matvæli hækka, bensínverð hækkar og áfengi hækkar um tugi prósenta.  Allir eiga að vera kammó og taka á sig launalækkun, svona til að leggja sitt að mörkum í kreppunni. 

Eina sem formaður fjármálanefndar Alþingis hefur áhyggjur af er símtal Seðlabankastjóra í sumar. 

Við erum með bankafólk sem enn situr í sömu sætunum og fyrir hrun.  Hvað er það að gera þarna inni?

Við erum aum þjóð ef við látum þetta yfir okkur ganga. 

Reyndar finnst mér mótmælin sem fyrirhuguð eru á laugardaginn táknræn á kaldhæðinn hátt. Hópur sem kallar sig Rödd fólksins stendur fyrir þeim en fólk er hvatt til að mæta og þegja en það er einmitt það sem þjóðin hefur gert í svo mörg ár...

Nei, við þurfum eitthvað annað, eitthvað nýtt, eitthvað ferskt og eitthvað sem er trúverðugt.  Sé það því miður ekki í þeim stjórnmálaflokkum/mönnum/konum sem eru í frontinum í dag. 

 Ég verð svartsýnari með hverjum deginum sem líður ...


mbl.is Áfengisgjald hækkað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einmenningskjördæmi

Ég er ekki hissa á þeirri reiði sem er í samfélaginu.  Hún blossar upp á hverjum degi þó vissulega fari mótmælendum fækkandi.  Það eru nú að koma jól. Annars finnst mér sá mótmælahópur sem gengið hefur hvað harðast fram, til að mynda í Alþingishúsinu í gær og með eggjakasti undanfarna laugardaga setja svartan blett á mótmæli hins almenna borgara sem á friðsaman og málefnalegan hátt hefur verið að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.

Hef það á tilfinningunni að þarna sé á ferð meira og minna sama fólkið og hefur stundað mótmæli gegn stóriðjuframkvæmdum undanfarin ár.  Lið sem oft er kennt við 101 Reykjavík.  Ekki misskilja mig, þau hafa jafnan rétt til að mótmæla og aðrir en þegar fólk er orðið atvinnumótmælendur þá missir þetta marks.  Ég man eftir nokkrum viðtölum við talsmenn þessa hóps á síðustu misserum og oft hafði ég það á tilfinningunni og þau vissu hreinlega ekkert hvað þau voru að mótmæla. 

En nóg um það. 

Ég held að þær raddir sem nú heyrast um breytingu á kosningalöggjöfinni og breytingu á kjördæmum eigi bara eftir að hækka þegar fram líða stundir.  Flestir virðast vera á þeirri skoðun að flokkshollustan sé of mikil í dag.  Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að réttast væri að taka upp svokölluð einmenningskjördæmi.  Þ.e.a.s þá er kosið um ákveðinn einstakling sem fulltrúa bæjarbúa á Alþingi. 

Alla vega held ég að Samfylkingin ætti að kasta út hjá sér hugmyndum um að gera Ísland að einu kjördæmi. Þá fyrst  held ég að ásakanir um að flokksklíkan stjórnaði yrðu háværar.  Þannig fengi flokksklíkan að stjórna því hverjir sætu á þingi og hverjir ekki.   Hverjir væru þægir þingmenn og hverja viljum við losna við.

Með einmenningsjkördæmum myndi Jafnvel opnast möguleikar fyrir óháða frambjóðendur að ná kjöri, persónufylgi myndi fleyta sumum langt á meðan aðrir litlausari og áhrifalitlir þingmenn hyrfu vafalítið út af þingi. 

Síðan yrði að kjósa beint forsætisráðherra sem myndi setja saman ríkisstjórn og ráðherrarnir ættu ekki sæti á Alþingi.  Það yrði æðsta embætti á Íslandi. 

Raunar tel ég rétt að kjósa í fleiri embætti á Íslandi en það er nú önnur saga.

Þá yrði þetta spurning um hvernig ætti að skipta þingmannasætunum. Ég myndi segja að höfuðborgarsvæðið ætti að eiga meirihluta þingmanna, einfaldlega vegna þeirrar staðreyndar að meirihluti þjóðarinnar býr þar.  Þannig fengi Reykjavík 19 þingmenn, Garðabær 2, Hafnarfjörður 4, Kópavogur 5 og Mosfellsbær og Seltjarnarnes sinn hvorn þingmanninn.  Hvernig Reykvíkingar myndu skipta þessum 19 sætum niður á hverfin er svo annað mál...

Fimm þingsæti kæmu á Reykjanesið, Þá yrðu fjögur þingsæti á Vesturlandi, þrjú á Vestfjörðum, þrjú á Norðurlandi Vestra, sex á Norðurlandi eystra, fjögur á Austurlandi og loks sex hér í Suðurkjördæmi.  Hvernig þau skiptast innan svæðisins er eitthvað sem ég ætla ekki að leggja mat á, enda skelfilega slappur í landafræðinni :-)

Miðað við íbúafjölda hlutfallslega á Suðurlandi ættu Vestmannaeyjar að fá einn þingmann.  Það yrði hreint og klárt kjör hér í Eyjum, eins og staðan er núna milli Árna Johnsen, Lúðvíks Bergvinssonar og Eygló Harðardóttur.  Það yrði athyglisverð kosning. 

Við yrðum þingmönnunum fátækari, engin spurning en um leið værum við að fá beinan fulltrúa okkar á þing.  Ekki fulltrúa dreifðra byggða kjördæmisins alls. Þingmenn geta ekki sinnt öllu þessu svæði.  Eins værum við að koma í veg fyrir flakk atvinnupólitíkusa milli landshluta til að ná kjöri, a.k.a Árni Matt/Atli Gísla hér í Suðurkjördæmi.  Efast um að Selfyssingar vildu hafa Árna Matt (með fullri virðingu) sem einn af tveimur fulltrúum sínum.  Hann er Hafnfirðingur og ætti að bjóða sig fram þar.

Með þessu held ég að það yrði meira líf í þinginu. Það yrðu ekki svo margir „já“ menn og konur sem fylgja flokkslínunni sama hvað tautar og raular. Vegna þess að þau vita að þau þurfa að sækja umboðið aftur til íbúanna á sínu svæði. Það verður engin uppröðun sem reddar þeim.

 Eins með því að skilja að ríkisstjórn og þing, þá yrði farið gagnrýnara yfir það sem kemur frá ríkisstjórninni.  Jafnvel gæti sú staða komið upp að flokksfélagi ráðherrans leggðist gegn frumvarpi hans eða að frumvarp ríkisstjórnarinnar yrði hreinlega fellt.

 Ja, hérna, það yrði nú saga til næsta bæjar !

 

 


Hvaðan koma gjaldeyristekjurnar í dag?

Þetta kemur kannski ekki á óvart miðað við ástandið í þjóðfélaginu. En það er táknrænt fyrir höfuðborgarríkisstjórn S flokkana að fyrsta ákvörðunin um frestun framkvæmda snertir samfélag sem skilar hvað mestum gjaldeyristekjum í ríkissjóð þessa dagana. 

Vestmannaeyjar er eitt sterkasta vígi sjávarútvegs á Íslandi. Hér eru öflugar útgerðir sem hafa byggt upp sín fyrirtæki með því kerfi sem boðið er upp á.  Við búum við það að þjóðin er á hausnum út af bankakerfinu, út af útrásinni.  

Ekki út af fiskveiðikerfinu. 

Verður næsta krafa að innheimta kvótann og dreifa honum aftur? Svona til að klára byggðir eins og Vestmannaeyjar? 

Kannski verður stofnað Útgerðarfélag Reykjavíkur, hætt við byggingu tónlistarhúss á bryggjunni og bátar og skip boðin velkomin aftur, með sína lykt og starfsmenn í sjóstökkum frekar en jakkafötum? 

Nú er nefnilega í tísku að vera á sjó. 

Kíkið á Moggann síðustu vikur, nú eru myndir af sjómönnum og bændum...

Kannski Auðlindin fari að byrja aftur á RÚV

 


mbl.is Gríðarlegt áfall fyrir Eyjar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skýringar takk

Hvers vegna fást engin svör frá yfirvöldum um lánið fyrirhugaða frá IMF?

Er ekki eðlilegt að ríkisvaldið skýri þjóðinni frá því hvernig staðan er.  Hvað stendur í vegi fyrir því að lánið sé afgreitt?  Eru Bretar, Hollendingar og jafnvel Þjóðverjar að beita sér gegn lánveitingunni?  Helstu fréttir sem fást um málið koma frá erlendum fjölmiðlum. Eru íslensku fjölmiðlarnir ekki nógu öflugir til að grafast fyrir um málið?

Telja íslensk yfirvöld almenning í landinu of heimskan til að meta þær upplýsingar sem lagðar eru fyrir þjóðina?  Eða of óþroskaða? Jafnvel ekki treystandi til að takast á við slæmar fréttir? Kemur þetta okkur kannski ekkert við?

Hver eru næstu skref og í hverju er verið að vinna núna?

Er málið kannski að ráðamenn eru ráðþrota? 


Sameiningartákn

Ég horfði með athygli á þátt Jón Ársæls, Sjálfstætt fólk í gærkvöldi.  Vigdís Finnbogadóttir fyrrverandi forseti var þar í viðtali.  Það verður að segjast eins og er að þrátt fyrir að rúmur áratugur sé síðan hún lét af störfum sem forseti þá er hún enn miklu meiri forseti í mínum huga en sá sem nú situr á Bessastöðum. 

Hún var sameiningartákn þjóðarinnar.  Laus við pólitík og sérhagsmuni.  

Mikið held ég að Íslendingar þurfi á slíku sameiningartákni að halda núna. 

 


Orðlaus

Ég hef ekki skrifað lengi hérna enda má segja að ég hafi verið orðlaus síðasta mánuðinn í öllu þessu fárviðri sem geysar á Íslandi.

Við erum að keyra inn í rosalega lægð í efnahagsmálum. Svo mikla að lífsskjör okkar almennra borgara muni dragast saman, stórlega. Ég er svartsýnn. 

Það er misgáfulegt það sem kemur frá stjórnmálamönnum þessa dagana. Menn tala í hringi og í kross, hvort sem þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu.  Skelfilegt að hlusta á þetta lið. 

En eitt rak ég augun í á vefritinu orðið á götunni.  Þar er vitnað í orð Bjarkar Guðmundsdóttur söngkonu um að við eigum að ganga í Evrópusambandið ekki seinna en strax.  Það er talað um tímamótayfirlýsingu.  Ég spyr, hvað vill hún upp á dekk?  Hún veit ekkert um Íslenskt samfélag, hefur ekki búið hér áratugum saman og veit ekkert út á hvað það gengur að vera Íslendingur í dag. Hvert borgar hún sína skatta? 

Tímamótayfirlýsing ... kjaftæði. Það hefði verið tímamótayfirlýsing hefði Geir H. Haarde sagt þetta, eða Ingibjörg Sólrún sagt að við ættum ekki að ganga Evrópusambandið. 

 


Klukkaður

Viðbót: Sá á flakki mínu um bloggheima að Gilli Foster var löngu búinn að klukka mig.  Hann er svo öflugur bloggari að þetta var komið neðarlega strax á öðrum degi. Grin Það þýðir því lítið fyrir mig að klukka hann! Veit að það er búið að klukka Magga Braga en ég geri það bara aftur...Veit að hann er upptekinn maður, bæði í stærðfræðinni og ekki síður í undirbúningnum fyrir lundaballið alræmda.

Hinn nýbakaði faðir, knattspyrnuþjálfari, íþróttafréttamaður, kennari, Liverpool aðdáandi og rökfasti Smári Jökull klukkaði mig. Það þýðir að ég þarf að svara nokkrum spurningum.  Ég tek að sjálfsögðu þátt og um leið á ég að klukka einhverja fjóra. Ég valdi að klukka Grétar Ómars, hann er rökfastur eins og Smári en hefur þann leiða galla að halda með Man.Utd. Wink, Þá fær frændi, Guðni Hjöll klukkið. Að lokum klukka ég AusturríkisEyjamanninn Kjartan Vídó.

Svörin mín:

Fjögur störf sem ég hef unnið um ævina.

Verkamaður hjá Póst og síma
Kokkur
Blaðamaður
Markaðs- og sölustjóri  Volare

 

Fjórar bíómyndir sem ég held upp á.

Shawshank redemption
Seven
Englar alheimsins
Godfather

 

Fjórir staðir sem ég hef búið á.
Vestmannaeyjar
Mosfellsbær
Hafnarfjörður
Kópavogur

 

Fjórir sjónvarpsþættir sem mér líkar:
CSI
Friends
Boston Legal
House

 

Fjórir staðir sem ég hef heimsótt í fríum : 
Holland
Spánn
England
Svíþjóð

 

Fjórar síður sem ég skoða daglega fyrir utan blogg : 
Eyjafréttir
Eyjar.net
newsnow.co.uk/h/Sport/Football/Premier+League/Liverpool
mbl.is

 

Fernt sem ég held uppá matarkyns:

Barbeque kjúklingur a la Eydís
Pizzur
Kínverskur matur
Voxa borgari hjá Kára Fúsa

Fjórar bækur sem ég hef lesið oft:
Les helst ekki bækur nema einu sinni…

Mýrin
DaVinci lykillinn
Blekkingaleikur


 

Fjórir bloggarar sem ég ætla að klukka

Gilli Foster
Grétar Ómars
Guðni Hjöll
Kjartan Vídó

 

Fjórir staðir sem ég vildi helst vera á núna : 
Anfield í Liverpool
Siglufjörður á kvöld
Golfvöllurinn í Eyjum
London

 

 


Hásteinsvöllur

HasteinsvollurNú er síðasta leik sumarsins lokið á Hásteinsvelli.  Óhætt er að segja að ÍBV hafi lokið sinni keppni á heimavelli með hvelli.   Stærsti sigur sumarsins hingað til alla vega,  leit dagsins ljós í vægast sagt brjáluðu veðri.  ÍBV náði þeim frábæra árangri að fara í gegnum Íslandsmótið án þess að tapa stigi á heimavelli, 100% árangur. Síðast náði ÍBV þeim árangri árið 1998 en þá vann ÍBV Íslandsmeistaratitilinn.  Þetta er frábær árangur hjá Heimi og peyjunum.   Umræðan um bann við notkun á Hásteinsvelli skyggir þó á þennan árangur og óvissan um stöðu ÍBV í deild þeirra bestu.
     Það hefur verið talað um Hásteinsvöll sem einn besta grasvöll landsins í mörg ár.  Hann er enn á meðal þeirra bestu en kröfurnar breytast.  Það eru ekki mörg ár síðan ÍBV þótti vera með eina bestu aðstöðu fyrir yngri flokka á landinu.  Með alla sína grasvelli og félög víðs vegar á Íslandi dáðust af stöðunni í Eyjum.  Á fáum árum duttum við aftur fyrir mörg af þeim félögum sem við berum okkur saman við. Félög byggðu eða fengu inni í knattspyrnuhúsum og nú var hægt að æfa knattspyrnu allt árið. Eitthvað sem þarf að gerast ef árangur á að nást.  ÍBV hefur barist fyrir því í mörg ár að slíkt hús rísi hér í Eyjum.  Nú eru framkvæmdir hafnar, verið er að grafa fyrir húsinu og knattspyrnufólk í Eyjum sér loksins fram á byltingu í vetraraðstöðu sinni.  Enn á þó eftir að bjóða byggingu hússins út og á meðan slíkt er óljóst bíða fagnaðarlætin. 
     Áhersla KSÍ hefur verið að bæta aðstöðu áhorfenda. Kröfurnar eru ríkar og að mínu mati of miklar á bæjarfélög eins og Vestmannaeyjar.  KSÍ hefur gengið of langt í metnað sínum gagnvart knattspyrnusambandi Evrópu (UEFA). Ísland er eitt af sautján Evrópuþjóðum sem eru með sama leyfiskerfið fyrir landsmót og Evrópukeppni.  KSÍ setur sig þar á stall með þjóðum eins og Grikkland, Rúmeníu, Póllandi, Þýskalandi, Austurríki,Danmörku, Hollandi og Belgíu.  Á meðan ganga þjóðir eins og Tékkland, Ítalía, Spánn og England ekki eins langt og við í leyfiskerfinu.  Ekki ætla ég að fara nánar út í það hér enda veit ég að Gísli Hjartarson (Foster) er að vinna vandaða úttekt á þessu máli.
    Málið snýst hins vegar um metnað félaganna.  KSÍ er ekkert annað en samtök utan um félögin í landinu.  Og þau hafa samþykkt þetta leyfiskerfi. ÍBV hefur mótmælt þessu sem og fleiri félög en tillagan um þetta kerfi var samþykkt af meirihluta félaganna og við þurfum við að sætta okkur við það  ef við viljum halda úti knattspyrnuliði í Eyjum.  Hins vegar liggur vandinn kannski í því að um leið og ÍBV þarf að beygja sig undir reglur KSÍ er það bærinn sem á völlinn sem um ræðir. Og bæjaryfirvöld eru ekki með stúkubyggingu á dagskrá. Svo einfalt er það mál.
     Stúkubyggingunni hefur verið stillt upp á móti byggingu knattspyrnuhússins.  Það þykir mér ekki rétt. Fyrir það fyrsta hefur legið fyrir frá árinu 2001 að það þurfi að byggja yfirbyggða stúku við Hásteinsvöll. Það hafa bæjaryfirvöld vitað í öll þessi ár og mér skilst að bréf frá bæjaryfirvöldum sé til þar sem lofað er slíkri byggingu.  Ákvörðun um byggingu knattspyrnuhúss var tekin löngu eftir að stúkumálið kom fyrst inn á borð bæjaryfirvalda.  Annað hvort hafa bæjaryfirvöld gleymt því máli þegar knattspyrnuhúsið var samþykkt eða vísvitandi ætlað að hundsa þær kröfur.  Eins er ekki sanngjarnt að stilla ÍBV upp við vegg og biðja um val á milli.  Annars vegar er um að ræða framkvæmd sem gjörbyltir knattspyrnuaðstöðu allra iðkenda í Eyjum og hins vegar byggingu sem kemur eingöngu við meistaraflokk félagsins.  Það hefur komið skýrt fram hver vilji ÍBV er, knattspyrnuhúsið skal rísa.
     En vandamál Hásteinsvallar þarf að leysa.  Ég er sannfærður um að ef menn setjast niður og ræða málin þá sé hægt að komast að samkomulagi. Þar þurfa allir aðilar að gefa eftir af sínum kröfum.  Nú þegar eru sæti fyrir 535 við Hásteinsvöll. Reyndar er afskaplega fámennt oft í stúkunni þó talið sé inn hátt í 500 áhorfendur.  Menn hafa sinn stað á Hásteinsvelli, það er staðið á hólnum og meðfram vellinum sunnan megin og þar hafa menn og konur staðið í mörg ár.  Það breytist ekki þó stúkan sé með þaki. Þetta er hluti af sjarmanum við Hásteinsvöll og ég trúi ekki öðru en að menn vilji halda slíkum sjarma. Þess vegna tel ég að lausnin í þessu felist í að byggja yfir þau sæti sem nú eru. Það þyrfti ekki að kosta mikinn pening en um leið þyrfti að koma vilyrði frá KSÍ að slík lausn myndi duga til þess að halda keppnisleyfi á Hásteinsvöll á næstu árum. 
     Krafan um 700 manna stúku er nokkurra ára gömul og eins og bent hefur verið á hefur Eyjamönnum því miður fækkað mikið síðan þá.  Að sama skapi hefur áhorfendum sem koma á Hásteinsvöll fækkað. Þess vegna er vel hægt að að færa rök fyrir því að 535 sæti duga eins og staðan er í dag. Það eru ekki mörg ár síðan fulltrúar KSÍ komu til Eyja og veittu viðurkenningu fyrir gott starf í grasrótinni.  Byggðir hafa verið tveir gervigrasvellir við skólanna í bænum og ÍBV hefur staðið gríðarlega vel við menntun þjálfara og starf í yngri flokkum.
    Sú staða gæti komið upp í kvöld að ÍBV tryggi sér sæti í Landsbankadeild karla, takist Stjörnunni ekki að vinna Fjarðabyggð.  Ef ekki þá er ljóst að ÍBV þarf aðeins 1 stig út úr síðustu þremur leikjunum til þess að vinna sér aftur sæti í deild þeirra bestu.  Ég hef enga trú á því að KSÍ muni beita hörku í þessu máli og banna ÍBV að spila í Eyjum. En menn verða að geta sest niður og rætt málin.  Það er sáttarhugur í bæjarstjóranum okkar í Vaktinni í morgun og það er gott. 
     Þetta mál er gamalt og ekki hægt að hengja það á núverandi stjórnendur bæjarins. Þetta er fortíðarvandi sem brýnt er að leysa núna.  Það kemur í hlut Elliða og félaga. Vonandi í góðri sátt við ÍBV og KSÍ. 
     Hef fulla trú á því.

 esbjerg_idraetspark1


Þetta er heimavöllur Esbjerg í Danmörku. Þar sem Gunnar Heiðar spilar núna. Völlurinn tekur 16.500 áhorfendur , 5.600 af þeim í sæti. Í borginni búa tæplega 115.000 manns. 15% bæjarbúa kæmust á völlinn en aðeins 4,5% þeirra gætu fengið sér sæti. Eins og sést eru aðeins efstu sætin "yfirbyggð".  

Í Eyjum eru sæti fyrir tæplega 14% íbúa í dag.  

 

 

Á wikipedia er lýsingin á Hásteinsvelli svona:

Hásteinsvöllur is a multi-use stadium in Vestmannaeyjar, Iceland. It is currently used mostly for football matches. The stadium holds 3,540.

LoL

 


hmmm

Eftir leikinn á miðvikudaginn held ég að menn ættu nú bara að einbeita sér að fótboltanum...
mbl.is Liverpool til liðs við fótboltaformúluna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flottur dagur

Dagurinn í dag er stór dagur í samgöngumálum okkar.  Skrifað undir samning um byggingu ferjuhafnar í Bakkafjöru og tilboð opnuð í byggingu nýrrar ferju. Einhvern veginn allt að gerast. Reyndar eru tilboðin þannig að alls óvíst er við hvern verður samið.  Kannski verður öllum tilboðunum hafnað og ríkið ákveður enn aðra leið?  Það er ávísun í að þetta kosti mikið mikið meira.

Þetta er stóra fréttin í dag ... var einhver að tala um borgarstjóraskipti? Nei, það er nú svo algengt nú til dags Grin 


mbl.is Þrjú tilboð bárust í nýjan Herjólf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband