Færsluflokkur: Bloggar

Skítaveður í Eyjum, er fært?

Ég fór til Reykjavíkur í gær, tók Herjólf í gærmorgun og aftur til baka í gærkvöldi. Það var skítaveður, haugasjór og fáir um borð. 

Við bræðurnir sátum uppi um morguninn og áttum ágætis spjall við skipstjórann um borð. Hann tjáði okkur að búið væri að vera haugasjór í nokkra daga og borið hafi á hræðslu farþega sem og sjóveiki. Það er búið að vera hundleiðinlegt veður, ríkjandi suðvestan átt og mikill sjór. Ferðin upp í Þorlákshöfn var þó skárri en heimferðin í gærkvöldi. oj bara ...

Skipstjórinn blés á hugmyndir um stærra skip til Þorlákshafnar. Höfnin réði ekkert við það og það þyrfti að ráðast í gagngerar endurbætur þar ef sú yrði raunin. Er það Eyjamönnum til framdráttar?  Hann talaði líka um að erfitt væri stundum að komast inn í höfnina á núverandi skipi.

Auðvitað er hægt að breyta Þorlákshöfn þannig að hún taki stærra skip. En það yrði bylting fyrir Þorlákshöfn, en hvað með Vestmannaeyjar?

Tók að gamni saman síðasta sólahring á Bakkafjörudufli.

--------------------------------------------- 
Veður og sjólag
 

Öldudufl - mælingar

Bakkafjörudufl 63°30.62' N 20°08.60' V rv. 169°, 1.6 sml. frá Bakkafjöruvita

Dagsetning Tími Kennialda Hs (m)Meðalsveiflutími Tz(s)Öldulengd (m)
 24.10.2007 11:003,037,792
 24.10.2007 12:003,597,793
 24.10.2007 13:003,267,792
 24.10.2007 14:003,527,895
 24.10.2007 15:003,498,2104
 24.10.2007 16:003,297,792
 24.10.2007 17:003,867,384
 24.10.2007 18:003,237,077
 24.10.2007 19:003,177,281
 24.10.2007 20:003,287,588
 24.10.2007 21:003,477,588
 24.10.2007 22:003,547,282
 24.10.2007 23:003,267,382
 25.10.2007 00:003,227,384
 25.10.2007 01:003,336,771
 25.10.2007 02:003,417,178
 25.10.2007 03:003,127,690
 25.10.2007 04:002,997,077
 25.10.2007 05:003,176,974
 25.10.2007 06:002,906,974
 25.10.2007 07:003,127,077
 25.10.2007 08:003,106,974
 25.10.2007 09:003,206,668
 25.10.2007 10:003,316,871
 25.10.2007 11:003,617,077

Miðað við þessa töflu sem Georg Arnarsson er oft að vitna í hefði verið fært meirihlutann af tímanum. Þá er miðað við 3,6 metra ölduhæð. 

Þrátt fyrir skítaveður í Eyjum síðustu daga.

Það er auðvelt fyrir þá sem styðja Bakkafjöru að finna klukkutíma hér og klukkutíma þar sem er fært. Eins er auðvelt fyrir þá sem eru á móti framkvæmdunum að finna klukkutíma hér og klukkutíma þar. Sérstaklega þegar veðrið hefur verið svona leiðinlegt eins og undanfarna daga.

En er ekki málefnalegra að taka mælingarnar í heild sinni (birtist sólahringur í senn) og tala saman út frá því.

Veit það ekki...kannski er þetta bara skítkast hjá mér? 

 

 


Skref 2

Ánægður að sjá þessa frétt. Aukafundur í bæjarráði og lagt fram minnisblað um óskir Vestmannaeyjabæjar gagnvart Bakkafjöruhöfn. Þetta er það sem við þurfum, fara að berjast fyrir tíðni ferða og stærð skipsins.  Eins er ég sammála að ekkert vit er í að semja til fimmtán ára. 

Athyglisvert að sjá að minnisblaðið sé unnið í samráði við sérfróða aðila, svo sem skipstjórnendur á Herjólfi, reynda skipstjóra og sjómenn í Eyjum, stjórnendur Vestmannaeyjahafnar og fleiri.

Það eru þá ekki allir sjómenn í Eyjum á móti þessari framkvæmd? 


mbl.is Vilja að ný Vestmannaeyjaferja beri 55 bíla og 350 farþega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frjálslynt fólk

Ég veit eiginlega ekki hvar ég að byrja. Hér í Eyjum er hávær hópur sem kennir sig við Frjálslynda flokkinn sem berst hatramlega gegn Bakkafjöru. Þar fremst í flokki fara Goggi útgerðarmaður og formaður frjálslynda og Hanna Birna frambjóðandi. Meira að segja hefur fyrrverandi þingmaður þeirra, Magnús Þór sem flúði kjördæmið verið með hróp og köll um íbúalýðræði.

Hvernig er íbúalýðræði á Íslandi?

Jú, það felst í kosningum. Í síðustu bæjarstjórnarkosningum í Vestmannaeyjum buðu þrír flokkar fram. Sjálfstæðisflokkurinn og Vestmannaeyjalistinn voru sammála varðandi framtíðarsamgöngur Vestmannaeyja. Númer eitt voru jarðgöng, tvö Bakkafjara og þrjú nýr Herjólfur. Á öndverðum meiði komu Frjálslyndir sem lögðu alla sína áherslu á nýtt skip sem sigldi til Þorlákshafnar.

Og hvernig fóru kosningarnar?

Frjálslyndum var hafnað. Þeirra stefnumál áttu ekki upp á pallborðið hjá Eyjamönnum. Sjálfstæðisflokkurinn vann stórsigur og hafa óskorðað vald okkar Eyjamanna til að taka ákvarðanir í okkar nafni.  Vestmannaeyingar vilja ekki nýjan Herjólf.  Þetta var eitt af stóru kosningamálunum.  Goggi og co – það er búið að kjósa um þetta og niðurstaðan er skýr.

Svo er líka athyglisvert að heyra fulltrúa Frjálslyndra hrópa um íbúalýðræði. Aðeins einu sinni hefur verið kosið um eitthvað mál á sveitastjórnarstiginu. Það var um Reykjavíkurflugvöll. Það er beinlínis á stefnuskrá Frjáslyndra að hunsa þær kosningar.


Kominn tími á næstu skref

Það er orðið of seint að kjósa um Bakkafjöru. Það er staðreynd að það er búið að taka ákvörðun. Auðvitað eru ekki allir sáttir við þá ákvörðun, eins og gengur og gerist en við kjósum okkar fulltrúa á þing sem eiga beinlínis að taka slíkar ákvarðanir.  Bakkafjara er framkvæmd sem er kominn í ákveðinn farveg.

Og hvað gerum við þá?

Ég hef svo sem bent á það áður að nú eigum við að fara að berjast fyrir hvernig þessu verður háttað. Hvernig skipið á að vera, hvernig rekstrarfyrirkomulagið verður, hvað þurfum við margar ferðir og hver á að reka Bakkafjöru og síðast en alls ekki síst, hvenær á skipið að hefja siglingar.

Það þýðir ekkert að berja hausnum við steininn.


Goggi þó

Var að lesa Vaktina hans Júlla. Rakst á umræðuna hans Georgs Arnarssonar um Bakkafjöru. Hann auglýsir skoðanakönnun sína á bloggsíðunni allrækilega. Gott mál.

Hann er á móti Bakkafjöru. Í greininni minnist hann einnig á skoðanakönnun inn á bloggsíðu flokksfélaga síns, Hönnu Birnu um sama mál. Þar höfðu 43 tekið þátt. 

Ég hafði minnst á það við Gogga að það er líka skoðanakönnun inn á síðu Grétars félaga míns. Þar er niðurstaðan algjörlega á skjön við þau tvö. En hann sagði það fáa búna að taka þátt þar að ekkert væri að marka slíka könnun. (69 tekið þátt þar)

Til að gæta sanngirnis hefði hann vel getað minnst á þá könnun líka. Sérstaklega þar sem hann hefur nú verið að hvetja til málefnalegra umræðu um málið.

Svo er nú spurning hvort hægt sé að tala málefnalega um skoðanakönnun á netinu yfir höfuð?

 


Höfum við eitthvað um þetta að segja?

Hún er athyglisverð auglýsingin frá Ríkiskaupum í Morgunblaðinu í dag. Þar er auglýst eftir þátttakendum í lokað útboð vegna reksturs ferjusiglinga milli Vestmannaeyja og Bakkafjöru. 

Það eru einkum tvö atriði sem ég staldra við. Annars vegar að ferjan eigi að vera í eigu bjóðanda. Þ.e. segjum, ef Samskip og Eimskip bjóði í reksturinn, sá sem er lægri lætur smíða ferjuna og rekur hana á siglingaleiðinni. Hitt er samningstíminn. Það á að semja til 15 ára.

Er ekki svolítið gróft að binda sig við sama aðilann til 15 ára?  Og hvaða djók er það að ríkið ætli ekki að eiga ferjuna?  Þetta þykir mér ansi slæmar fréttir. Ekkert af þessu hefur verið rætt fyrir opnum tjöldum, auglýsingunni er lætt inn í Moggann og allt í einu er farið að tala um 15 ára samningstíma og að rekstraraðilinn eigi skipið.  

Fimmtán ár er langur tími, það er fimm árum styttra en Björn Ingi og félagar eru búnir að binda Orkuveituna í Reykjavík...

Var fundurinn löglegur?

Crying


(Spillingar)bræla yfir borginni?

Það hefur verið mjög athyglisvert að fylgjast með framvindu mála í höfuðborginni undanfarna daga. Ég verð að viðurkenna að mér finnst málið lykta af spillingu og valdagræðgi. 

Fyrir það fyrsta er með ólíkindum hvernig Björn Ingi hefur sloppið við gagnrýnar spurningar fjölmiðla. Hvert var hlutverk hans í þessu REI máli. Vissi hann meira en borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins? Hélt hann því leyndu? Það eru þungar ásakanir fólgnar í orðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að hann sé að gæta hagsmuna peningamanna sem tengdir eru Framsóknarflokknum. Björn Ingi getur ekki afgreitt það sem persónulega árás á sig og borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins verða að skýra sitt mál betur.

Hins vegar finnst mér Dagur borgarstjóri, Svandís og Margrét koma út sem valdagráðugir stjórnmálamenn. Hvers vegna?  Jú, þetta fólk hefur mismunandi áherslur í sinni pólitík. Það gefur auga leið, annars væru þau öll í sama flokknum! En ekki hefur verið rætt um eitt einasta málefni. Eina sem samstarfið gengur út á er að skipta með sér verkum. 

Reyndar er Margrét munaðarlaus og þarf bara að fylgja sinni eigin sannfæringu en Dagur tilheyrir Samfylkingunni, Svandís VG og Björn Ingi framsókn.  Þetta eru þrír gjörólíkir flokkar með þrjár gjörólíkar áherslur í stóru málunum.

Er afstaða VG til virkjanamála sú hin sama og Samfylkingarinnar? Nei, heldur betur ekki.  Hvað þá að Svandís og Björn Ingi nái saman í þeim málum.

Eru sömu áherslur hjá þessum þremur flokkum í samgöngumálum?  Hafa VG, Frjálslyndir (Margrét), Samfylkingin og Framsókn sömu afstöðu til flugvallarins?  Það er það mál sem Dagur hefur lagt áherslu á...það er honum hjartans mál að koma flugvellinum í burtu.

Eina sem þetta fólk er sammála um er að Dagur verði borgarstjóri, Svandís hans pólitíski staðgengill, Margrét forseti borgarstjórnar og Björn Ingi heldur formanni bæjarráðs. Þetta er sami Björn Ingi og Svandís vildi að segði af sér fyrir nokkrum dögum síðan.  

En þegar öllu er á botninn hvolft geta sjálfstæðismenn í borginni kennt sjálfum sér um. Þau klúðruðu þessu algjörlega, með barnslegri trú á samstarfsaðilann og klofning innan eigin raða.

Nú eru tveir "sólóistar" í borgarstjórn, sem halda samstarfinu í gíslingu. Margrét Sverris gæti út af einu prinsipp máli labbað út og eins gæti, þó ólíklegt sé Björn Ingi slitið þessu samstarfi líka. 

Kannski til að verja einhverja sérhagsmuni...hver veit 


Bakkafjörumálið

Það er athyglisvert að áður en framkvæmdir hefjast við Bakkafjöru skuli vera búið að fresta því hvenær siglingar ferjunnar skuli hefjast. Er það ekki svolítið bagalegt að tafir verði á framkvæmd áður en hún hefst? 

Ég hef séð á bloggsíðum tveggja Eyjamanna könnun þar sem spurt er um afstöðu fólks til Bakkafjöru. Á síðu Grétars Ómars, er spurt hvort ferjulægi við Bakkafjöru sé góður kostur. Tæplega 65% segja svo sé. 31% vilja nýtt og hraðskreiðara skip. Sjálfur hefur Grétar frekar talað fyrir Bakkafjöru en á móti.

Aftur á móti er Georg Arnarsson formaður bæjarmálafélags Frjálslynda hér í bæ einnig með bloggsíðu og spurningu um Bakkafjöru. Þar er einfaldlega spurt: Bakkafjara, já eða nei? Þar segja tæp 48% já, rúm 52% nei. Sjálfur finnur Georg Bakkafjöru allt til foráttu.

Athyglisvert hvernig þetta skiptist. Sjálfur hef ég ekki orðið var við mikil mótmæli vegna Bakkafjöru.

Fólk virðist treysta vísindamönnunum...

 


hmmm...viðbót

Var að lesa á visir.is að 81% vilji að Villi borgarstjóri segi af sér í kjölfar gagnrýni vegna REI málsins. Segir í fréttinni að 2500 manns hafi tekið þátt í könnuninni þar sem spurt er hvort Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson eigi að segja af sér í kjölfar mikillar gagnrýni sem á honum hefur dunið í REI málinu. 81,1% vilja að borgarstjóri segi af sér en 18,9% að hann eigi að sitja áfram.

Fór að leita af þessari könnun en eina spurningin sem ég sá var: Viltu nýjan borgarstjóra? Já eða nei möguleikar...

Er ekki svolítið villt að túlka þetta þannig að 81% vilji að Villi segi af sér vegna gagnrýni út af REI málinu?

Ég bara spyr  

Viðbót - Fann þetta loks í morgun. Það eru semsagt tvær kannanir í gangi á visir.is. Annars vegar, viltu nýjan borgarstjóra? og hins vegar: Á Vilhjálmur að segja af sér.  


Tonnið af þorski dýrmætara á Vestfjörðum en annarsstaðar á landinu?

ekkert-slor

Þessi endalausa dekur við Vestfirðinga er orðið þjóðinni til skammar. Ég hef svo sem bent á það áður, en grein Árna Johnsen í Morgunblaðinu í morgun vakti mig til umhugsunar um kvótaaðstoðina sem ríkisstjórnin kynnti í síðustu viku. Ég er ekki hissa á að Grindvíkingar séu ósáttir. Það er ekki minnst á þá í tillögum ríkisstjórnarinnar þrátt fyrir að það sé það bæjarfélag sem missir flest tonninn.

Grindvíkingar tapa fleiri tonnum en öll sveitarfélög á Vestfjörðum til SAMANS !!!

Og hvernig skipta Árni Matt og félagar milljörðunum til að mæta kvótaskerðingu?

Jú, 660 milljónir fara vestur á firði. Það þýðir að verðmatið á tonninu fyrir vestan er: 114.703 krónur. Kvótaskerðingin nemur 5.754 tonnum. Verst fer Bolungarvík en skerðingin þar er 1.169 tonn.

Grindvíkingar missa flest þorsktonninn, útgerðarfyrirtæki þar eru 5.965 tonnum fátækari eftir skerðingu þorskaflans. Og tillögurnar sem snúa að Grindvíkingum?  Ekki ein einasta, nada, núll og nix.

Við Eyjamenn erum í þriðja sæti yfir þær byggðir sem missa mest. 3.911 tonn. Aðeins Grindavík og Akureyri tapa fleiri tonnum. Og tillögurnar sem snúa að Vestmannaeyjum eru fjórar, samtals 99 milljónir á næstu þremur árum. 25.313 krónur tonnið...

Ef við lítum á kjördæmi fjármáláráðherrans þá nemur skerðingin 15.578 tonnum. Alls fara 303,5 milljónir í kjördæmið. Því er ríkisstjórn Íslands að meta tonnið á 19.483 krónur í Suðurkjördæmi.

Byggðir allt í kringum landið verða fyrir tekjuskerðingu vegna kvótaskerðingar. Mismiklum að sjálfsögðu en fyrr nú má aldeilis fyrr vera ósamræmið!!

Enn eina ferðina er skotið á Vestfjarðaraðstoð. Ég spyr mig hvort þingmenn og ráðherrar séu svo fastir í gamla tímanum að þeir haldi enn að útgerð sé öflug á Vestfjörðum. Halló, vakna !! Vestfirðingar eru fyrir löngu búnir að selja frá sér meirihluta kvótans...

Margar tillögur snúast um allt landið og vitaskuld gæti skiptingin þar orðið sú að mikið færi á Suðurnesin eða austur á Hornafjörð sem verður líka illa úti. En ekki skal gleyma stöðum eins og Garði, Rif, Dalvík og Skagaströnd. Það er hvergi minnst á þessa staði í tillögunum.

Til gamans er hér listi yfir þau 20 sveitarfélög sem verst verða fyrir skerðingu þorskkvótans:

 

1

Grindavík

5965 tonn

2

Akureyri

4621 tonn

3

Vestmannaeyjar

3911 tonn

4

Reykjavík

2525 tonn

5

Hornafjörður

2052 tonn

6

Rif

1866 tonn

7

Dalvík

1778 tonn

8

Skagaströnd

1623 tonn

9

Ólafsfjörður

1552 tonn

10

Akranes

1529 tonn

11

Ólafsvík

1467 tonn

12

Grundarfjörður

1443 tonn

13

Bolungarvík

1169 tonn

14

Garður

1076 tonn

15

Hafnarfjörður

1063 tonn

16

Ísafjörður

958 tonn

17

Grenivík

913 tonn

18

Grímsey

852 tonn

19

Stykkishólmur

821 tonn

20

Hnífsdalur

819 tonn

 

Tölurnar fékk ég hjá Fiskistofu og upplýsingar um verkefni í Morgunblaðinu. 

 

Ég lét Excel reikna þetta allt út fyrir mig, þannig að ef þið eruð eitthvað ósátt(ir) við útreikninganna mína, þá talið við Bill Gates...Grin

  
   
   
   
   
   
   
   
   
   
   
   
   
   
   
   
   
   
   
   

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband