Færsluflokkur: Bloggar
Nú líst mér vel á sjömenningana í bæjarstjórn. Þrjár tillögur sem eyjafréttir gera skil í dag verða teknar fyrir á fundi bæjarstjórnar á morgun. Væntanlega munu þær allar verða samþykktar og ég er viss um að það verður 7:0 í öll skiptin. Það er af sem áður var í bæjarstjórn Vestmannaeyja
Til að byrja með fagna ég vel og innilega lækkun leikskólagjalda. Leikskólagjöld í Eyjum eru með þeim hæstu á landinu en með þessari breytingu lagast hlutfallið verulega. Þetta er líka stórt stökk. 18,3% lækkun. Það hefðu einhverjir tekið þetta í smærri skrefum. Gott mál. Hrós hrós ...
Svo á að reisa knattspyrnuhús. Það líst mér líka mjög vel á enda hafa Eyjamenn dregist aftur úr á undanförnum árum þegar kemur að æfingaaðstöðu. Það eru ekki mörg ár síðan lið ofan af landi öfunduðu félagsmenn ÍBV af aðstöðunni sem hér var. Nú eru flest stærri bæjarfélög komin með slík hús og ekki eftir neinu að bíða hjá bæjaryfirvöldum. Aftur, hrós hrós...
Ég er nú enginn fastagestur í Íþróttahúsinu og dýfi sjaldan fæti í sundlaugina okkar góðu. Reyndar alltof sjaldan. En nú á að bæta útiaðstöðuna. Líklega koma fyrir flottri rennibraut og fleira í þeim dúr. Kannski sonurinn nái þá að draga pabba oftar í laugina. Aldrei að vita. Enn og aftur, hrós hrós ...
Bæjaryfirvöld hafa líklega lengi legið yfir því hvað skyldi gera við hluta af þeim peningum sem fengust fyrir hlut bæjarins í Hitaveitu Suðurnesja. Niðurstaðan var greinilega sú að eyða þeim í bæjarbúa. í þjónustuna. Það er flott.
Hrós og aftur hrós...
Bloggar | 12.9.2007 | 23:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ég hef verið að hugsa um nýju reglur Eimskips undanfarið og verð að viðurkenna að því meira sem ég hugsa um þetta, því reiðari verð ég bæjaryfirvöldum að hafa samþykkt þessa vitleysu. Það getur margt gerst á tveimur dögum sem geta breytt ferðatilhögun okkar. Eins tel ég að þetta verði til að drepa endanlega niður heimsóknir ofan af landi. Það er bara orðið allt of mikið mál að skreppa til Eyja.
Þó veðurfræðingar séu allir að vilja gerðir þá hefur því miður ekki verið hægt að treysta mikið á langtímaspár þeirra. Fólk lætur veðrið ráða að miklu leyti hvort það treystir sér í Herjólf. Nú tekur fólk ekki sénsinn.
Enn er verið að bæta á hlekki okkar í samgöngum. Eins og margoft hefur komið fram er skipið orðið of lítið og í stað þess að bæta úr því eru settar frekari hömlur á ferðafrelsi okkar Eyjamanna. Er það rétt pólitík?
Þó ég sé á móti þessu þá get ég vel skilið sjónarmið Eimskips. Af því leyti að til er fólk sem misnotar aðstöðu sína, pantar allar helgar og nýtir fáar. Hins vegar er spurning hvort ekki er til önnur leið til að taka á þessu máli en að setja slíkar hömlur á alla?
Nú hef ég því miður aldrei komið til Færeyja en heyrt af fólki sem farið hefur með Smyril. Hvernig er það þar? Er fólk að panta? Eftir því sem mér skylst þá keyrir fólk einfaldlega um borð og er rukkað á leiðinni. En hérna. Nei, borga tveimur dögum fyrir brottför, þ.e. ef það er eitthvað laust á annað borð.
Síðan er rétt að velta upp þeirri spurningu hvað mun breytast þegar Bakkafjara verður orðin af veruleika? Verður ferðum stillt svo í hóf að enn þurfi að panta með margra vikna fyrirvara og borga jafnvel með tveggja daga fyrirvara?
Að mínu mati á krafan með Bakkafjöru að vera sú að skipið á að byrja siglingar 7 á morgnanna og sigla til kl. 22. Þannig gæti fólk "skroppið" til Eyja eða frá Eyjum án þess að þurfa að gera sérstakt plan um ferðina.
Bloggar | 28.8.2007 | 11:24 (breytt kl. 11:25) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ég er ánægður með bæjarstjórn Vestmannaeyja núna. Sérstaklega að þau skuli koma saman sem eitt. Tveir stórir pólar í pólitíkinni halda saman fund og kynna ítarlegar, róttækar og vel unnar tillögur að bættum hag okkar Eyjamanna. Það þarf samt alltaf að vera eitthvað "en"
Það er greinilegt að fókusinn hjá bæjarstjórn snýr að atvinnulífinu. Það er skynsamlegt. Það gerist ekkert ef atvinnan er ekki til staðar. Ég er ánægður að krafist er að flýtt verði framkvæmdum við Bakkafjöru. Ég er ánægður með ítarlegar og flottar tillögur í atvinnumálum.
Hins vegar verð ég að viðurkenna, rétt eins og ég hef sagt í bloggunum hér á undan að ég er óánægður með hvernig bærinn höndlar félagsleg mál. Leikskólamál eru í ólestri. Hæstu gjöld á Íslandi? Veit ekki en mjög nálægt því. Heilsdagsskóli? Nei. Hollur og góður matur í hádeginu fyrir grunnskólabörn? Nei. Niðurgreiðsla í leikskólum á við það sem gerist hjá bæjaryfirvöldum á höfuðborgarsvæðinu? Nei.
Við búum í samfélagi í vörn. Auðvitað þurfa atvinnumál fyrst og fremst að vera í lagi til að hér fjölgi. Síðustu ár hefur atvinnuleysi verið hverfandi. Það hefur ekkert breyst og í dag skilst mér að staðan sé frekar sú að erfitt sé að fá fólk í vinnu en á hinn veginn.
Þá er komið að part númer tvö. Þjónustu bæjaryfirvalda gagnvart þegnunum. Því miður, eins og atvinnustaðan er góð, blasir falleinkunn við í félagslega partinum.
Spurning hvort tillögur bæjarins hefðu átt að snúa að einhverju öðru?
Vilja að framkvæmdum við ferjuhöfn í Bakkafjöru verði flýtt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | 24.8.2007 | 22:40 (breytt kl. 22:40) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Skólasetning í Grunnskóla Vestmannaeyja var í dag. Nú er búið að sameina skólanna og yngri börnin eru í Hamarskólanum og þau eldri í Barnaskólanum. Félagi minn, Grétar hefur verið að setja út á að ekki sé boðið upp á skólabíl. Sjálfur bý ég (enn) í austurbænum og sonur minn fer í Hamarskólann. Ég bý aðeins lengra frá skólanum en Grétar. Þetta er annað árið hjá syni mínum í Hamarskólanum og verð ég að viðurkenna að við skutluðum honum í skólann hvern einasta morgun í fyrra. Ég býst við að svo verði líka núna. Kannski eru ekki allir með aðstöðu til þess en ég tel aftur á móti að vegalengdin sé ekki svo mikil að það þurfi að reka skólabíl. Það eru jákvæðir póstar við flutninginn líka. Núna þurfa börnin ekki að fara yfir mikla umferðargötu á leið sinni í Íþróttamiðstöðina og miðað við stundartöflu peyjans þá eru þær ferðir sex til níu á viku. Alveg eftir því í hvaða íþróttum hann verður. Mér líður betur að vita af honum í nálægð við Íþróttamiðstöðina upp í Hamarskóla en að þurfa að fara yfir til að mynda Heiðarveginn á leið sinni þangað þetta oft. (Allt að átján sinnum í viku, fram og til baka)
Hins vegar halda bæjaryfirvöld í Eyjum áfram að valda mér vonbrigðum í sínu þjónustuhlutverki. Þrátt fyrir augljósan sparnað í rekstri leikskólanna með sameiningu tveggja skóla undir nýjan Sóla hækka leikskólagjöld. Ekki þarf bærinn að hafa áhyggjur af byggingakostnaðinum, það var Fasteign hf. sem byggði. En engar skýringar liggja fyrir og á meðan dregst bærin aftur úr í baráttunni um fjölskyldufólk.
Svo kom að Grunnskóla Vestmannaeyja. Ákveðið hefur verið að samtvinna rekstur skóladagheimilisins og Athvarfsins. Verður börnunum komið fyrir upp í Þórsheimili. Mun þetta reynast vel? Athvarfið er eins og nafnið gefur til kynna athvarf fyrir börn frá 6-12 ára aldurs. Þetta eru börn sem eiga félagslega erfitt. Þarna er verið að reyna að bæta andlega og líkamlega líðan þeirra. Þetta er athvarf - frá hinu daglega. Og nú á að setja börnin sem þau eru með allan daginn í skólanum með þeim í "athvarfið" Hvernig fer það? Í þokkabót hækka dagvistunargjöldin...
Jæja, nóg með það. Aðalatriði óánægju minnar snýr af þeirri bráðabirgðarlausn sem kynnt var á síðasta ári og snýr að mati barnanna. Sú bráðabirgðarlausn virðist nú orðin af langtímalausn. Það er með öllu hundsuð tilmæli Manneldisráðs um hollustu í skólum landsins. Börnunum er gefið jógúrt og brauð og rukkað fyrir það 40 þúsund krónur á barn. Því var lofað á síðasta ári að úr þessu yrði bætt, fyrst fyrir jól og svo fyrir næsta skólaár. Nú er ljóst að ekkert verður gert, nema að starfsfólkið í skólunum smyr ofan í börnin í staðinn fyrir að kaupa þetta út. Gott ef það verður ekki kakósúpa einu sinni í viku.
Svo þegar ég hef gagnrýnt þetta, þá hefur ein ástæðan sem dregin hefur verið fram að ekki sé hægt að bjóða upp á neitt betra þar sem svo fáir nýti sér þjónustuna. Er það ekki svipað og kokkurinn sem var búinn að vera með sama matseðilinn í fimmtán ár myndi segja: "Það tekur því ekki að skipta um, það kemur hvort sem er aldrei neinn hingað"
Eins og ég hef verið hrifinn af frammistöðu Elliða og félaga í málefnum sem snúa að ímynd Vestmannaeyja út á við og í baráttunni í samgöngumálum þá hafa þeir alveg brugðist í félagsmálum. Það vantar mikið upp á. Við höfum séð fram á fækkun í bænum enn eitt árið og í staðinn fyrir að henda fram einhverju jákvæðu eru gjöldin hækkuð.
Í bæjarfélagi sem hefur útsvarið í botni.
Bloggar | 23.8.2007 | 21:26 (breytt kl. 21:28) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mér brá heldur í brún áðan þegar ég las Fréttir. Þar var grein eftir Önnu Rós Hallgrímsdóttur þar sem hún ber saman leikskólagjöld í Vestmannaeyjum og á höfuðborgarsvæðinu. Ég vissi að við værum að borga meira en fyrr má heldur betur fyrr vera.
Hún segir í greininni að það kosti Eyjamann 37.640 krónur að vista barn í 8 tíma með mat. Reykvíkingur þarf að borga 20.150. Þarna munar 17.490 krónum á mánuði!! Það er kannski ekki sanngjarnt að miða við höfuðborgina og því skulum við nýta tölurnar úr grein Önnu til að sjá muninn miðað við Árborg. Þar kostar vistuninn 25.749. Enn munar 11.891 krónu fjölskyldufólki í Vestmannaeyjum í óhag.
Þessi munur er hróplegur og ekki bjóðandi okkur Eyjamönnum. Hvaða skilaboð er bæjarstjórn Vestmannaeyja að senda fólki sem hingað vill koma? Síðasta vetur borguðum við hjónin 33 þúsund fyrir vistun, fyrst á Rauðagerði og svo á Sóla. Hvenær kom þessi hækkun og hvar var hún kynnt?
Það hefur verið meginmarkmið núverandi bæjarstjórn að snúa við byggðarþróun. Ég get lofað því að þetta er ekki rétt leið til þess. Þetta er ekki hvatning fyrir fjölskyldufólk að flytja til Eyja.
Það væri athyglisvert að fá svar við því hvers vegna það er svona miklu dýrara að reka leikskóla í Vestmannaeyjum en í öðrum sveitarfélögum?
Er ekki kominn tími til að leiðrétta þetta?
Bloggar | 22.8.2007 | 21:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Nú fer að koma tími til að byrja aftur að bulla á blogginu eftir langt frí. Reyndar hef ég verið að skrifa á bloggsíðu um samgöngumál Eyjamanna sem Grétar félagi minn setti upp og mun örugglega gera eitthvað af því áfram.
Rak augun í bloggara fyrir nokkru sem kallaði sig Bol Bolsson og rauk í skyndi upp vinsældarlista mbl bloggara. Ég kíkti einu sinni inn á síðuna hjá honum og stoppaði stutt, enda afskaplega innihaldslaust blogg þar sem tengt var við allar mögulegar fréttir.
Nú hefur það komið í ljós að bloggarinn er íþróttafréttamaður Fréttablaðsins, Henrý Birgir Gunnarsson. Hann vildi vita hvað það tæki hann langan tíma að komast á topp vinsældarlistans. Það tókst honum á viku.
Henrý Birgir hefur aldrei verið í neinu sérstöku uppáhaldi hjá mér. Að mínu mati er þarna á ferð afskaplega óvandaður og óvæginn blaðamaður sem finnur reglulega hjá sér þörf til að drulla yfir fólk í svokölluðum pistlum sínum.
Annars er skondið hvað starfsmenn 365 eru uppteknir af öðrum fjölmiðlum. Þeir ættu kannski að einbeita sér meira af því sem þeir eru að gera í stað þess að agnúast út í aðra. Eins er bræði þeirra út í ofurbloggarann, Stebbafr illskiljanleg. Hvað hefur sá maður gert þeim?
Athyglisvert hvað enski boltinn er orðinn mikið fréttaefni allt í einu hjá fréttastofu Stöðvar 2. Í fyrra var rétt sagt frá helstu úrslitum en nú er tekið fram í yfirliti yfir helstu fréttir hvernig leikirnir fóru. Smáborgaraháttur íþróttafréttamanna Stöðvar 2 eftir að þeir misstu sýningarréttinn var aumingjalegur. Því þegar öllu er á botninn hvolft, fyrir hverja eru þeir að segja fréttir? Auðvitað fyrir okkur sem horfum á fréttir.
Alveg er ég viss um að Sigmundur Ernir og félagar fara bráðum að básúna hver verður fremstur á ráslínu í Formúlu 1 á næsta ári og hvort Fernando Alonson hafi unnið kappaksturinn. Hvers vegna? Jú, Sýn er búið að tryggja sér sýningarréttinn á F1 á næsta ári.
Bloggar | 15.8.2007 | 09:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bloggleti mín undanfarið hefur verið með eindæmum eins og veðrið reyndar. Þannig að ég hef eytt frítímanum inn á golfvelli fremur en fyrir framan tölvuna.
En nú sting ég niður penna (eða öllu heldur lem á takkaborðið) vegna samgöngumála okkar Eyjamanna. Langþreytt umræða og líklega finnst flestum nema Eyjamönnum nóg komið. En eru aðrir en Eyjamenn að átta sig á vandamálinu? Ég held til dæmis að samferðarfólk mitt í gærkvöldi í Herjólfi hafi gert það. Þau eru að fara að taka þátt í Shellmótinu um næstu helgi en þurfa að koma til Eyja á þriðjudegi til þess að komast á mótið. Það er fullt í allar ferðir fram yfir helgi. Það er orðin heil vika sem fer í mótið fyrir suma. Þetta hlýtur að draga úr áhuga fólks að fylgja sínum börnum. Ég veit að foreldrar eru allir að vilja gerðir en vika af sumarfríi í eitt helgarmót í fótbolta er bara dálítið mikið. Sérstaklega þar sem í boði eru mót um allt land sem hægt er að keyra á þegar fólkinu hentar. Það sem bjargar Shellmótinu er hefðin og frábært skipulag ÍBV, ekki samgöngur.
Eimskip heldur ráðuneytinu og þar með Eyjamönnum í gíslingu með því að setja upp allt of hátt verð fyrir aukaferðir. Þeir eru í þessu til að græða og það er ekkert hægt að segja við því. Það er bara eðlilegt. Hins vegar hlýtur sú spurning að vakna hvort þjóðvegur okkar Eyjamanna eigi að vera gróðrarstöð fyrir einkafyrirtæki? Það væri svona svipað og bjóða út rekstur Reykjanesbrautarinnar. Við vitum hvernig ástandið er í Hvalfjarðargöngunum, það er rukkað í þau EN stóri munurinn er sá að fólk sem er að fara upp á Skaga eða lengra en frá vesturlandi til Reykjavíkur hefur VAL. Það getur keyrt Hvalfjörðinn. Við höfum ekkert val.
Mín persónulega skoðun er sú að nú þegar eigi að segja upp samningnum við Eimskip og ríkisvaldið á að viðurkenna að fyrrverandi samgönguráðherra gerði mistök þegar hann bauð út rekstur Herjólfs. Auðvitað á ríkið að reka grunnstoðir samfélagsins, þjóðvegakerfið og hvað sem raular og tautar þá er Herjólfur hluti af því þjóðvegakerfi.
Ég hef verið að svipast um og leita eftir viðbrögðum okkar ágætu þingmanna. Hvar er vinur Vestmannaeyja Bjarni Harðarson? Er hann eitthvað að fylgjast með þessa daganna? Hvar er Atli Gíslason, maður sem leit á Vestmannaeyjar sem sinn heimavöll í kosningabaráttunni, hefur hann reynt að panta far með Herjólfi í kringum helgar í sumar? Og hvar er "faðir samgöngubáta Eyjamanna" Árni Johnsen? Kemur hann alltaf með flugi til Eyja? Er hann búinn að fá sig saddan við það að ná sæti á þingi? Hvar eru ráðherrar kjördæmisins? Árni Matt? HALLÓ !!! Og er Björgvin G. Of upptekinn við að taka upp úr kössum í viðskiptaráðuneytinu til að koma að málinu?
Einhver?
Bloggar | 27.6.2007 | 13:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mér sýnist ný forysta Framsóknarflokksins taka stefnuna aftur út á land. Hætta þessu smjaðri við borgina og koma til dyranna eins og hann er klæddur. Gott mál. Guðni og Valgerður, bæði sterkir í sínum kjördæmum út á landi. Forystan er farinn úr borginni, á leiðinni aftur út á land.
Það eru tveir stórir borgaraflokkar á Íslandi í dag, sitja saman í ríkisstjórn. Landsbyggðin á sína fulltrúa innan þeirra raða en rödd þeirra er veik. Sóknarfæri framsóknarflokksins liggur í rótum flokksins, úti á landi.
Komið til dyranna eins og þið eruð klædd og þá hækkar fylgið aftur.
Valgerður kjörin varaformaður Framsóknarflokksins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | 10.6.2007 | 23:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hingað til hef ég ekki heyrt einn einasta talsmann Samfylkingarinnar mæla með að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni. Fræg er túlkun Ingibjargar Sólrúnar á skoðanakönnuninni um árið. Fyrst sagði hún að ákveðið hlutfall borgarbúa þyrfti að taka þátt til þess að kosningin yrði bindandi. Það gekk ekki eftir en strax og ljóst var að meirihluti þeirra fáu borgarbúa sem áhuga höfðu á kosningunni vildu völlinn burt var kosningin orðin bindandi í huga ISG.
Dagur B. Eggertsson er í borgarpólitík og hefur beitt sér mikið fyrir því að völlurinn fari. Hann sér hagsmuni Reykjavíkur betur borgið þannig. Honum er sama um landsbyggðina, honum kemur það ekki við.
Samfylkingin er borgaraflokkur. Forysta flokksins er úr borginni og mörg þeirra helstu stefnumál snúa að borgarmálum. Þess vegna hefur árangur flokksins á landsbyggðinni verið undir væntingum. Þegar kemur að landsbyggðarmálum þá breytist stefna flokksins eftir vindátt hverju sinni.
Reykjavíkurflugvöllur á að vera þar sem hann er. Fyrir okkur hina, sem ekki búum á höfuðborgarsvæðinu er þetta spurning um sjálfsagða þjónustu og öryggissjónarmið.
Það vill nefnilega svo skemmtilega til að Reykjavík er höfuðborg okkar allra. Ekki bara borgarbúa og þar er byggð upp þjónusta til að þjóna ÖLLUM landsmönnum. Hvort sem um er að ræða opinberar stofnanir eða spítala.
Flugvöllurinn er vel staðsettur þar sem hann er. Stutt er í alla þjónustu og kannski það mikilvægasta, það er stutt upp á Landsspítala. Það getur skipt sköpum.
Það reynir á Kristján Möller núna. Hann er í þeim vanda að þurfa að sannfæra forystu flokksins um ágæti flugvallarins þar sem hann er. Hann þarf að komast framhjá tveimur fyrrverandi borgarstjórum á þeirri leið.
Samfylkingin er í vanda. Það verður seint sátt um Reykjavíkurflugvöll í Samfylkingunni.
Ekki eining innan Samfylkingar um staðsetningu Reykjavíkurflugvallar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | 7.6.2007 | 08:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Maður er eiginlega orðlaus eftir rasskellingu íslenska liðsins í Svíþjóð í kvöld. Ekki var þetta á montið í Svíunum bætandi!!
Það verður að segjast eins og er að leikur íslenska liðsins var ekki boðlegur. Mér er alveg sama um stærðarmun á þjóðum eða annað slíkt. Allir þessir peyjar sem þarna voru kunna að spila fótbolta en það var engu líkara í kvöld en þeir væru byrjendur í faginu. Eins og hræddir hérar minnir mig að Hörður Magg hafi sagt. Allt tal um að Ísland hafi tapað leiknum á einhverjum 11 mínútum er hlægilegt. Ísland sá aldrei til sólar.
Menn eru fljótir að öskra á lausnina. Rekum þjálfarann segir Gaupi og ekki gat Hörður leynt vonbrigðum sínum í lýsingunni. Að mörgu leyti er hægt að taka undir þetta. Eyjólfur hefur stýrt liðinu í 9 leikjum. 1 sigur, 1 jafntefli og 7 töp. Varla árangur sem stefnt var að? Eyjólfur er óreyndur þjálfari og viss áhætta að treysta honum fyrir verkefninu en fyrst það var gert, þá á stjórn KSÍ að láta hann klára þessa undankeppni. Þetta getur varla versnað?
Hins vegar segi ég að stór hluti af vandamálinu er KSÍ. Það líður hver landsleikjadagur eftir annan án þess að landsliðið sé kallað saman. Hvers vegna? Fæst ekki lið til að keppa við okkur? Eða er enginn áhugi til þess? Það hlýtur að vera stór hluti af því að vera landsliðsþjálfari að fá leiki til að gera tilraunir, prufa nýja leikmenn og fleira í þeim dúr. Hann á ekki að þurfa að gera tilraunir í leik eins og í kvöld.
Alla vega var Árni Gautur ekki í stuði í kvöld
Íslendingar sáu aldrei til sólar í fimm marka tapleik | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | 6.6.2007 | 21:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Færsluflokkar
Tenglar
Heimsótt reglulega
Bloggvinir
Jan. 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | |||
5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 |
12 | 13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 |
19 | 20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 |
26 | 27 | 28 | 29 | 30 | 31 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar