Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Fyrir skömmu var haldinn fjölmennur baráttufundur Vestfirðinga á Ísafirði. Meginmálið voru skiljanlega atvinnumál en líkt og mörg önnur svæði á landsbyggðinni eiga Vestfirðir undir högg að sækja í þeim málum. Fundurinn vakti verðskuldaða athygli og ríkisstjórn Íslands var fljót að bregðast við. Þó ekki með beinum hætti, heldur viðurkenna vandann og lofa bót og betrun.
Það vakti athygli mína hversu mikla umfjöllun fundurinn fékk. Ekki að athyglin hafi ekki verið verðskulduð, heldur hitt að víða um land, þar á meðal hér í Eyjum hafa verið haldnir borgarafundir þar sem brýnustu mál eru rædd en þeir fundir hafa ekki verið fyrstu fréttir beggja fréttastöðva. Vestfirðingar eru einfaldlega snillingar í að koma sínum málum á framfæri.
Ég heyrði haft eftir þingmanni VG að vandi Vestfirðinga væri fyrst og fremst sá að búið væri að taka af þeim helsta lífsviðurværið, fiskinn í sjónum. Það hefur lengi verið hrópað "helvítis kvótakerfið" fyrir vestan og allt sem miður fer í þjóðfélaginu hefur verið kvótakerfinu að kenna. Mín skoðun er sú að kvótakerfið er ekki helsta vandamál byggða landsins heldur fábreytt atvinnulíf og borgarstefna ríkisins.
Eyjamaðurinn Grímur Gíslason bendir réttilega á að fólksfækkun á Ísafirði er mun minni síðustu ár en í Vestmannaeyjum. Hvað hefur gerst á sama tíma? Jú, útgerðir í Eyjum hafa stóraukið aflaheimildir sínar. Vinnslustöðin, Ísfélagið, Magnús Kristinsson og útgerð Þórunnar Sveinsdóttur VE svo einhverjir séu nefndir. Kvótastaða útgerða í Eyjum hefur aldrei verið betri og stöndugar útgerðir blómstra. Heldur það atvinnulífinu gangandi?
Ó nei. Fiskvinnsla mun aldrei aftur halda heilu byggðunum á floti. Til þess hafa tækniframfarir orðið of miklar. Á síðustu sex árum, á sama tíma og útgerðir hafa fjárfest fyrir hundruð milljóna í aflaheimildum í Eyjum hefur íbúum fækkað um heil 10% !!! Nú veit ég ekki hvernig staða útgerða fyrir vestan hefur þróast síðustu ár en á síðustu sex árum hefur íbúum Ísafjarðar fækkað um 3%.
Ég held að menn verði að hætta að ræða um sjávarútveg sem einhverja alsherjarlausn á vanda landsbyggðarinnar. Kvótakerfið er komið til að vera og menn ættu að slá það út úr umræðunni fyrir kosningar. Meira að segja Frjálslyndi flokkurinn sem var stofnaður út af andstöðu við kvótakerfið sér sæng sína útbreidda og er búinn að finna sér annað mál...innflytjendamál til að leggja áherslu á.
Stjórnmál og samfélag | 21.3.2007 | 08:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Ég hef verið svolítið hugsi undanfarið yfir þeim fréttum sem berast úr skoðanakönnunum. Útlit er fyrir vinstri stjórn í sumar og þá undir forystu VG. Steingrímur Joð yrði forsætisráðherra.
Nú er ekki svo að ég telji hann ekki hæfan í þá stöðu. Þvert á móti, Steingrímur Joð er einn af reynslumestu stjórnmálamönnum okkar Íslendinga. Hann hefur einu sinni verið í ríkisstjórn, sat sem landbúnaðar- og samgönguráðherra. Þá var meðal annars tekin ákvörðun um byggingu nýs Herjólfs.
Hins vegar óttast ég þær skoðanir sem VG stendur fyrir. Grínlaust þá óttast ég þá öfgastefnu sem boðuð er. Bæði í umhverfismálum sem VG hefur tekið forystu í. Nú skal stoppa framkvæmdir og njóta þess að vera úti í náttúrunni. Þeir hafa meðbyr í umhverfismálum og má þakka þeim málaflokki hversu sterkur flokkurinn er.
Þær leiðir sem VG hefur boðað í jafnréttismálum hræða mig líka. Lögbinda jafna setu í stjórnum og fikta í lýðræðinu með því að setja í lög að jafnmargar konur og karlar sitji á þingi. Þetta eru öfgasjónarmið sem eiga engan veginn upp á pallborðið hjá mér. Raunar hefur mér fundist í mörgum tilvikum jafnréttisbaráttan farin að snúast upp í andhverfu sína og oft hreinlega verið að níðast á kynbræðrum mínum en kannski meira um það seinna.
Ögmundur vill bankanna úr landi. Alla vega væri honum slétt sama ef það yrði niðurstaðan. Steingrímur Joð vill netlöggu til að fylgjast með hvaða heimasíður íslenskir netnotendur heimsækja.
Ég veit hreinlega ekki hvernig ríkisstjórn væri best fyrir Íslendinga í dag. Kannski samsteypustjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Alla vega betri kostur en kaffibandalagið. Þá væru ekki bara öfgasjónarmið í umhverfis,- jafnréttis og öryggismálum. Nei, þá bættust við öfgasjónarmið Frjálslynda í innflytjendamálum.
Nei takk.
Stjórnmál og samfélag | 19.3.2007 | 09:26 (breytt kl. 10:54) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ég hef afskaplega gaman af skoðanakönnunum og rýni oft óþarflega mikið í niðurstöður þeirra. Nýjasta útspil Morgunblaðsins og RÚV um vikulegar kannanir Capacent fyrir sig fram að kosningum eru því spennandi fréttir fyrir fréttafíkil eins og mig.
Það sem vekur mesta athygli í fyrstu könnuninni að mínu mati er að Frjálslyndir hafa nánast skipt út sínu fylgi. Aðeins 33% þeirra sem kusu flokkinn síðast ætla að kjósa hann aftur. Mesta tryggðin er aftur á móti við VG, 85,6%. Ég velti fyrir mér hvort brotthvarf Margrétar Sverrisdóttur og stuðningsmanna sé dýrkeyptara en forystan áætlaði? Nú er fylgið 7%. Þau fá flesta nýja frá Framsókn en taka lítið fylgi frá öllum flokkum. Flestir sem ætla að kjósa Frjálslynda nú gera það vegna stefnu þeirra í innflytjendamálum. Ef ég ætti að veðja á það núna myndi ég segja að Frjálslyndir endi á þessu bili, 7-9% en gætu farið hærra ef þeir ná að gera innflytjendamál að kosningamáli líkt og þeir gerðu fyrir fjórum árum með sjávarútvegsmál...
Það er líka athyglisverð íhaldssemi kjósenda Sjálfstæðisflokksins, tæplega 84% ætla að halda tryggð við flokkinn milli kosninga. Eins hlýtur að vekja mikla athygli að 18% fylgismanna samherjanna í ríkisstjórn, Framsóknarflokksins hafa stokkið yfir til íhaldsins.
Samfylkingin er í vanda, VG mælist stærri í fyrsta skipti í fimm ár og langt í það að menn geti talað um turnanna tvo, Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Eins og einhver sagði þá voru turnarnir tveir þegar Davíð og Ingibjörg áttust við en eftir að hann hvarf af vettvangi stjónmálanna hefur hún verið í tilvistarkreppu. Nú er frekar talað um parhúsið Samfylkinguna og VG...
En Samfylkingin hefur fengið flesta nýja stuðningsmenn frá Frjálslynda flokknum og það er athyglisvert að tæplega 50% þeirra sem síðast kusu Frjálslynda hafa hallað sér til vinstri í pólitíkinni. Frjálslyndir voru í upphafi klofningsframboð úr Sjálfstæðisflokknum en hlutfallslega skilar lítið fylgi sér nú til baka...
Íhaldssemin er mest til hægri og vinstri og mikil hreyfing á miðjufylginu. Þannig halda 85,6% tryggð við VG milli kosninga sem fær einnig 26% þeirra sem kusu Samfylkinguna síðast, 29,6% þeirra sem kusu Frjálslynda, 13,4% þeirra sem kusu Framsókn en aðeins 5,4% þeirra sem kusu Sjálfstæðisflokkinn.
Ætli þetta verði líka niðurstaðan í næstu viku, eftir netlögguna og ótrúlega framkomu Steingríms Joð á þingi í gær þar sem hann hunsaði fyrirspurnir um breytta stefnu flokksins í þeirra aðalmáli, umhverfismálum. Fyrsta skipti sem maður sér Steingrím Joð orðlausan á Alþingi, athyglisvert...
Stjórnmál og samfélag | 2.3.2007 | 08:51 (breytt kl. 08:53) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Ég segi nú eins og margur annar. Eru menn ekki að grínast? Netlögga? Það boðar nú foringi VG, hann vill setja á stofn netlöggu sem fylgist með umferð fólks á netinu. Er þetta sami rauðhærði þingmaðurinn og hélt nokkrar þrumuræðurnar yfir leynilögregluáformum Björns Bjarna? Það bara getur ekki verið...
Eins vill hann taka af fólki rétt til þess að ráða þá sem það telur hæfast til setu í stjórnum fyrirtækja. Hann vill líka taka réttinn af fólki sem kýs. Það á að jafna allt út. Femínistinn Steingrímur J. Sigfússon vill að ríkið ákveði fyrir stjórnendur fyrirtækja og fólkið í landinu hverjir sitja stjórnarfundi og hverjir setja lög. Það skal vera fifty/fifty, konur og karlar. Er þetta ekki gengið fulllangt?
Stjórnmál og samfélag | 27.2.2007 | 21:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Horfði á Silfur Egils í gær þar sem helst bar til tíðinda að Jakob Frímann Magnússon Stuðmaður og varaþingmaður sagði sig úr Samfylkingunni í beinni. Það virðist vera orðin hefð fyrir því að segja sig úr Samfylkingunni hjá Agli en nýverið gerði Valdimar Leó þingmaður það líka og gaf Agli barmmerkið sitt við það tilefni.
Athyglisvert með hann Jakob, hann hefur farið í nokkur prófkjör og ekkert gengið hjá Samfylkingunni, nú líður honum allt í einu illa í flokknum. Segist hafa þurft að fylgja flokkslínunni í atkvæðagreiðslu í eina skiptið sem hann settist á þing. Greiddi atkvæði gegn skattalækkunum og leið illa. Samt fór hann í prófkjör fyrir flokkinn fyrir nokkrum mánuðum síðan, tveimur árum eftir sálarkreppuna ógurlegu á Alþingi. Einhvern veginn hefur mér fundist meira framboð en eftirspurn eftir Jakobi Frímann undanfarið, spurning hvar hann endar í ár?
Silfur Egils er að flestu leyti afskaplega góður sjónvarpsþáttur en þó er mér farið að leiðast að sjá þarna sömu andlitin sunnudag eftir sunnudag. Ég trúi ekki öðru en það séu til fleiri sem hægt væri að bjóða í þáttinn.
Stjórnmál og samfélag | 26.2.2007 | 09:21 (breytt kl. 09:21) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Það hefur bæði verið sorglegt og hlægilegt að fylgjast með umræðum um fyrirhugaða ráðstefnu SnowGathering undanfarna daga. Fólk sem vinnur í klámiðnaðinum ætlaði semsagt að hittast til skrafs og ráðagerða á litla Íslandi nú í mars. Og þjóðin fór á hliðina.
Fólkið ætlaði sér að halda ráðstefnu í bændahöllinni en eru ekki velkomnir þangað lengur. Er úthýst vegna atvinnu sinnar. Ætli gestir hótelsins megi búast við því héðan í frá að atvinna þeirra verði athuguð um leið og pantað er herbergi? Eins er alveg kostulegt að sama hótel og setur sig á þetta háan hest græðir svo peninga á því að selja hótelgestum aðgang að klámefni !! Hvað er að? Þvílík hræsni.
Feministar hafa gengið hart fram í málinu og verið öflugar í baráttu sinni. Hins vegar hefur röksemdarfærsla þeirra verið fyrir neðan allar hellur. Líkja þessu við fíkniefnasmygl og vopnasölu. Segja þetta jafngilda því að fíkniefnasalar hittist og beri saman bækur sínar. Eitt veigamikið atriði gleymist í allri þessari móðursýki. Hvað sem fólki finnst um þennan bransa þá er hann löglegur í þeim löndum sem þetta fólk starfar.
Svo gengu þau enn lengra og ýjuðu að því að mansal væri stundað af þessu fólki. Það er svolítið athyglisvert að hér á landi lýðst það að fólk getur sagt slíka hluti án þess að hafa neitt fyrir sér og komist upp með það. Þarna vantar grimmd í fréttamenn, krefjast sannana, hvað hafa þau fyrir sér í þessu, er rétt að leyfa þeim komast upp með að drulla yfir fólk í nafni kvenfrelsis, femínista eða umhverfissjónarmiða? Nei, fréttamenn eru of kurteisir við suma og grimmdin bitnar á stjórnmálamönnum...
Mér sýnist mikið af því fólki sem nú fagnar því að hætt hafi verið við klámráðstefnuna sé það sama og náði ekki upp í nef sér út af framkomu íslenskra stjórnvalda vegna komu Falung Gong á sínum tíma. Ég veit að það er ekki hægt að líkja þessu saman en grundvallaratriðið er það sama. Eigum við að fara í það að flokka út það fólk sem okkur er samboðið?
Stjórnmál og samfélag | 23.2.2007 | 08:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Árni Johnsen skrifar tvær greinar í Morgunblaðinu í vikunni um möguleika á jarðgöngum til Eyja. Miðað við þær upplýsingar sem þar koma fram hefur hljóðið í yfirmönnum Vegagerðarinnar breyst nokkuð. Fallið hefur verið frá hugmyndum um dýrustu borun sem völ er á (og 70 - 100 milljarða króna kostnað) og fallist á rök erlendra sérfræðinga. Kostnaðartölur því undir 30 milljörðum sem var sú tala sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands hafði reiknað út að væri innan marka þess sem kalla má þjóðhagslega hagkvæmt.
Í Morgunblaðinu í dag er aftur á móti leiðrétting frá yfirmönnum Vegagerðarinnar þar sem þeir vísa á bug fullyrðingum Árna Johnsen í blaðagreinunum.
Ægisdyr er áhugafélag um jarðgangagerð til Vestmannaeyja. Allan þann tíma sem þetta mál hefur verið í umræðunni hefur starf þeirra einkennst af fagmennsku. Þar hafa sérfræðingar í jarðgangagerð verið kallaðir til og áætlanir byggjast upp á viðurkenndum aðferðum. Það voru Ægisdyr sem fengu Hagfræðistofnun til þess að reikna út hvað göngin máttu kosta til að þau yrðu þjóðhagslega hagkvæm. Útgerðarmenn í Eyjum vilja klára rannsóknir og hafa lofað 20 milljónum í það ef ríkið kemur með fjármagn á móti. Reyndar í síðustu Fréttum dró Magnús Kristinsson tilboð þetta til baka þar sem Bakkafjara var á samgönguáætlun en ekki hugsanleg jarðgöng. Hef samt trú á því að þeir myndu leggja peninginn fram ef það kæmi yfirlýsing frá forsætisráðherra um að göng kæmu til greina ef rannsóknir sýndu fram á slíkan möguleika.
Í minni vinnu sem blaðamaður á Fréttum sagði ég oft fréttir af þessum málum öllu saman. Auðvitað hafa verið fantatískir fylgismenn jarðganga sem og fantatískir andstæðingar hér í Eyjum. En sá sem hefur að mínu mati gengið lengst í ófaglegheitum er samgönguráðherrann okkar, Sturla Böðvarsson sem hefur alla tíð útilokað möguleikann á jarðgöngum. Til þess að kóróna þetta hefur hann vísvitandi unnið gegn Ægisdyrum.
Til að mynda hafði skýrsla Hagfræðistofnunar verið tilbúinn í nokkurn tíma áður en hún var birt. Ástæðan var sú að samgönguráðuneytið var að láta vinna skýrslu fyrir sig líka og bað um að þær yrðu birtar saman. Ægisdyr sögðu það í lagi og biðu. En loks gáfust þeir upp, höfðu samband upp í ráðuneyti og tilkynntu að skýrslan yrði birt daginn eftir en þá hafði verið boðað til blaðamannafundar. Viti menn, síðar þennan sama dag birtist í fréttunum skýrsla ráðuneytisins um 70-100 milljarða króna kostnað og ráðherrann í viðtal í kjölfarið þar sem hann sagði slíkan kostnað allt of mikinn.
Sturla skipaði starfshóp til þess að fara yfir framtíðarsamgöngur Vestmannaeyja. Þar átti að skoða þrjá þætti, jarðgöng, Bakkafjöru eða nýtt skip til Þorlákshafnar. Þegar nefndin hafði verið skipuð og þeir rétt sestir að rökstólum birtist Sturla í sjónvarpsfréttum og sagði stefnt að Bakkafjöru, jarðgöng kæmu ekki til greina. Til hvers að skipa starfshópinn?
Það er fráleitt að halda því fram að í Vestmannaeyjum sé einhver sátt um Bakkafjöru. Þvert á móti skilst mér að mjög margir og þá aðallega sjómenn séu alfarið á móti slíkum hugmyndum. Ég reyndar treysti vísindamönnum í þessum efnum, þetta er hægt en spurning um hversu marga daga verður ófært þarna upp eftir?
Stjórnmál og samfélag | 16.2.2007 | 09:01 (breytt kl. 09:04) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Í gær var umræða um málefni Vestmannaeyja á þingi að frumkvæði Lúðvíks Bergvins. Í sjálfu sér kom ekkert nýtt fram þar en athyglisverð nálgun Lúlla um að gjaldskrárhækkun Herjólfs éti upp ávinning Eyjamanna af matarskattslækkuninni.
Við búum ekki við jafna stöðu, fyrirtæki hér geta ekki keppt við sambærileg fyrirtæki uppi á landi vegna kostnaðar í farmgjöldum. Á sama tíma og Sturla ráðherra segir ekki hægt að hætta við hækkun fargjalda Herjólfs er tekið upp á því að lækka gjaldið í Hvalfjarðagöngin. Hmmm, í hvaða kjördæmi eru göngin aftur?
Annars var ég ánægður að lesa leiðara Moggans í morgun. Þar er tekið undir sjónarmið Eyjamanna um að klára rannsóknir vegna jarðganga. Um sé að ræða slíkt hagsmunamál að það verði að eyða smá fjármunum í að skera úr um það. Heyr, heyr en það vill Sturla ekki. Hann er búinn að ákveða Bakkafjöru og hana nú....
Einn aðal talsmaður jarðganga er Árni Johnsen. Að mínu mati hjálpar það ekki málstaðnum en það á svo sem ekki að skipta höfuðmáli. En gæti verið að afstaða Sturlu til jarðganga litist af afstöðu hans til Árna?
Gjaldskrárhækkun Herjólfs upphefur ávinning af matarskattslækkun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | 14.2.2007 | 09:12 (breytt kl. 09:13) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Margrét Rós, formaður Eyverja hér í Eyjum skrifar grein á bloggsíðu Eyverja nýverið þar sem hún fjallar um æsifréttamennsku í blöðunum tveim í Eyjum. Ég vann sjálfur á Fréttum í nokkur ár og heyrði oft þessa gagnrýni og þá sérstaklega frá valdhöfum hvers tíma. (Á þeim tæpu sex árum sem ég vann á Fréttum voru fimm meirihlutar í bæjarstjórn Vestmannaeyja)
Margrét finnst blöðin gera fréttir sem í "eðli sínu" eru jákvæðar og snúa þeim upp í neikvæðar fréttir. Fyrsta dæmið sem hún nefnir er stórskemmtilegt viðtal við gamlan Eyjamann sem flutti frá Eyjum fyrir mörgum árum og finnst ástandið hér vera orðið slæmt. Lýsingar hans á ástandinu vöktu athygli og umræðu. En Margrét Eyverji vildi að viðtalið við hann yrði bannað!! (Eyverjar er félag ungra sjálfstæðismanna) Það væri hreinlega fáránlegt að samþykkja að birta svona frétt! Af hverju? Eiga blaðamenn að hafa "vit" fyrir þeim sem þeir tala við?
Þetta eru fáránleg rök hjá Margréti, menn sem koma í viðtal segja það sem þeir vilja, það er ekki blaðamannana að vinsa út það sem "vit er í" og henda því sem ekkert vit er í. (Hver segir að blaðamaðurinn sé eitthvað betri en viðmælandinn í að segja hvað er vitiborið og hvað er vitleysa?)
Hún tekur dæmi um tjaldstæðamálið og uppsagnirnar á Sambýlinu um daginn. Tjaldstæðamálið þekki ég ekki en líkt og svo mörg mál síðustu ár í bæjarstjórn Vestmannaeyja varð aukaatriðið aðalatriðið í umræðunni og blöðin endurspegla umræðuna í bæjarstjórn.
Gagnrýnin varðandi uppsagnirnar snýr fyrst og fremst að fyrirsögninni. Það er ótrúlega oft sem menn (og konur) eru óánægð með fyrirsagnir. Stundum hef ég það á tilfinningunni að stjórnmálamenn lesi einungis fyrirsagnir og millifyrirsagnir í fréttum...slíkur er offorsinn stundum. (Á samt ekki við alla)
Þegar fréttin er lesin (og undirfyrirsögn) kemur í ljós að öllum verði boðið áframhaldandi starf. Reyndar minnkar starfshlutfallið og þá um leið launin væntanlega. Og hvað er þá að fyrirsögninni? Átti hún að vera "Breytingar á starfshlutfalli starfsmanna Sambýlisins" eða "Vaktafyrirkomulag Sambýlisins loks orðið löglegt" ??
Blöðin segja frá því sem jákvætt er að gerast í bænum. Þekki það vel frá Fréttum að þar er reynt að hampa sem flestu en auðvitað verða blöðin að segja frá því sem er að gerast og því miður þá er það oft á tíðum neikvætt. En því jákvæða er hampað í Fréttum...Skákfélagið, Leikfélagið, Viska, ÍBV og fleiri og fleiri .....
Stjórnmál og samfélag | 13.2.2007 | 09:01 (breytt kl. 09:05) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Það er mjög forvitnilegt fyrir alla sem áhuga hafa á byggðarþróun (sérstaklega í Eyjum) að lesa blogg bæjarstjórans í Eyjum um opinber störf. Þetta segir allt um byggðarstefnu núverandi ríkisstjórnar. Hún er í plaggi en ekki í praktík.
Störfum hefur skipulega verið fækkað á landsbyggðinni á vegum hins opinbera. Allt í nafni hagræðingar en í raun hefur bákn ríkisins stækkað mikið síðustu ár sem er afskaplega athyglisvert í ljósi þess að Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið við völd þann tíma. Flokkur sem margir kusu vegna þess að hann stendur fyrir einstaklingsfrelsi og styður einkaframtakið. Hvernig væri staðan ef VG hefði verið í ríkisstjórn síðustu tólf ár?
Hefur ríkið verið að bregðast við stækkun höfuðborgarsvæðisins með því að færa störf af landsbyggðinni til Reykjavíkur? Hvar eru þessi nýju störf á vegum ríkisins? Auðvitað í Reykjavík sem er skiljanlegt í ljósi þess að langstærsti hluti hins opinbera er í höfuðborginni. En í byggðastefnu ríkisstjórnarinnar er talað hátíðlega um að efla byggðir landsins, færa störf á vegum hins opinbera út á land. Síðan er raunin sú að störf eru tekin af landsbyggðinni og komið fyrir í Reykjavík. Skýrt dæmi um slíkt er lokun Loftskeytastöðvarinnar í Vestmannaeyjum. Í nafni þróunar var henni lokað og störfin færð í Skógarhlíðina í Reykjavík.
Hvers vegna var ekki hægt að efla hana og færa jafnvel störf frá Reykjavík til Eyja? Þetta gekk svo langt að hús eins loftskeytamannsins var keypt af hinu opinbera til þess að auðvelda honum flutning frá Eyjum. Er þetta í lagi?
Stjórnmál og samfélag | 12.2.2007 | 14:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Færsluflokkar
Tenglar
Heimsótt reglulega
Bloggvinir
Jan. 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | |||
5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 |
12 | 13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 |
19 | 20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 |
26 | 27 | 28 | 29 | 30 | 31 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar