Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Þjóðvegur í eigu einkaaðila

Auglýsing Ríkiskaups í Mogganum á sunnudaginn hefur vakið mikla athygli hér í Eyjum. Sumir vilja meina að það hafi alltaf legið fyrir að rekstraraðilinn ætti skipið. Því héldu þeir félagar, Egill Arngríms og Jenni fram í spjallinu á dekkjaverkstæðinu hjá Magga Braga í gær. Þar var einnig Stebbi Jónasar sem kom alveg af fjöllum eins og ég.  Gaman að heyra í fólki, hvort það hafi vitað þetta eða ekki. Þetta hefur alla vega farið illilega fram hjá mér...og reyndar fleirum sem ég hef rætt við.

En ef þetta hefur alltaf legið fyrir hvernig stendur þá á því að bæjaryfirvöld í Eyjum eru ekki búinn að mótmæla þessu?  Það er nógu slæmt að einkaaðili reki þjóðveginn okkar en það er nýmæli á Íslandi að einkaaðili EIGI þjóðveginn.

Svo er það skipið. Í auglýsingunni stendur að það eigi að lágmarki að taka 45 bíla og 250 farþega. Er reiknað með plássi fyrir gámanna eða eru þeir metnir sem bílgildi?  Þ.e. er einn gámur sama og þrír – fjóri bílar? Þetta er lágmarksstærðin, sú sama og útreikningar Siglingastofnunar hafa miðast við. Það var alltaf sagt þegar menn voru að mótmæla stærðinni á skipinu. „Verið róleg, þetta er líkanið en svo verður gerð þarfagreining og skipið verður eins stórt og Eyjamenn þurfa.“  Annað sem hefur greinilega farið fram hjá mér, hvenær var þessi þarfagreining gerð?  Ef ekki er búið að gera hana, væri ekki rétt að klára það áður en útboðsmál fara í gang?

Og hvað getur skipið hugsanlega verið stórt miðað við höfnina sem á að byggja? 

Ég tel þetta nýjasta útspil ríkisins köld vatnsgusa framan í Eyjamenn. Það skiptir greinilega engu máli hver situr í stól samgönguráðherra. Þetta eru sömu hrokavinnubrögðin og við kynntumst þegar Sturla var ráðherra. „Ykkur kemur þetta ekkert við,“ sjónarmiðið.

Hvað segir það okkur?  Ráðherrann stjórnar ekkert málum, það eru starfsmenn Vegagerðarinnar.


Margar spurningar vakna

Þetta eru stór tíðindi úr borginni. Reyndar virðist alltaf einhver krísa vera á sveitarstjórnarstiginu. Við Eyjamenn fengum okkar skerf á síðasta kjörtímabili þar sem þrír meirihlutar voru myndaðir. Árborgarfólk var í vandræðum framan af og nú er það Reykjavík. En það hljóta að vakna margar spurningar í kjölfar þessa máls. 

1. Hvaða hagsmuni er Björn Ingi að verja í þessu REI máli?

2. Er honum stætt enn í borgarstjórn miðað við þá gagnrýni sem á hann hefur dunið af núverandi samstarfsaðilum?

3. Hefur Svandís Svavarsdóttir skipt um skoðun síðan í fyrradag þegar hún sagði að Björn Ingi og Vilhjálmur ættu að víkja úr borgarstjórn?

4. Hefur Dagur kokgleypt sína sannfæringu í mörgum málum sem hann hefur gagnrýnt Framsókn fyrir það sem af er þessu kjörtímabili fyrir borgarstjórastólinn?

5. Er tími Vilhjálms liðinn. Verður hann ekki að víkja sem leiðtogi sjálfstæðismanna. Rúinn trausti borgarbúa?

Já, þetta er athyglisverð staða sem upp er kominn. R-listinn endurvakinn með aðkomu F-listans. 

Spái þessu samstarfi ekki langlífi. 


mbl.is Vilhjálmur: Ákvörðun Björns Inga um samstarfsslit fyrirvaralaus
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ný ríkisstjórn

Það hefur mikið gengið á síðustu daga hjá foringjum Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Hafa þau verið að tjasla saman málefnasamningi og úthluta ráðherraembættum og hefur það vakið athygli mína að ekkert hefur lekið út um innihald samningsins eða úthlutanir. Merkilegt þegar tveir stærstu flokkarnir eiga í hlut.  

Það var fátt sem kom á óvart hjá Sjálfstæðisflokknum og gamla góða íhaldssemin kom berlega í ljós í skipun ráðherra. Einn nýr inn og Sturlu sparkað úr ríkisstjórn. Guðlaugur Þór verður heilbrigðisráðherra, það verður athyglisvert að fylgjast með honum í því embætti. Sturla gat ekki leynt vonbrigðum sínum í gær en ég er nokkuð ánægður með þessa breytingu. Sjálfstæðisflokkurinn hefur stjórnað samgönguráðuneytinu í langan tíma (frá því nýr Herjólfur kom til Eyja) og mikil óánægja með samgöngumál hér í Eyjum. Auðvitað hefur ferðum Herjólfs fjölgað á tímabilinu, þó það nú væri en það tók langan tíma að ná því í gegn. Vonandi gerir Kristján Möller betur, það kemur í hans hlut að klára samgöngumál til Eyja, hvaða leið verður farinn?

Tveir ráðherrar koma úr Suðurkjördæmi, Árni M heldur fjármálaráðuneytinu og Björgvin G. verður viðskiptaráðherra. Þetta hljóta að vera góð tíðindi fyrir okkur Suðurkjördæminga, enda síðustu átta ár hefur einungis einn ráðherra verið úr kjördæminu, Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra. Vonandi ávísun á sterkara kjördæmi næstu fjögur árin.

Annars óttast ég mest að þessi ríkisstjórn verði mjög borgarsinnuð. Af ráðherrum Sjálfstæðisflokks koma fjórir af höfuðborgarsvæðinu (fimm ef landsbyggðarþingmaðurinn í dulargervi, Árni M er talinn með) og hjá Samfylkingunni er skiptingin hin sama. Reyndar má segja að þetta sé í samræmi við byggðarþróun og lítið við því að segja en þó ánægður með að landsbyggðarþingmaður skuli fá samgönguráðuneytið.

Það sem vekur mesta athygli er veik staða varaformanns Samfylkingarinnar, Ágúst Ólafs. Hann er skilinn eftir, á að sinna innra starfi flokksins næstu árin. Hlýtur að vera honum mikil vonbrigði. Eins sú staðreynd að Björn Bjarnason verður áfram ráðherra. Raunar má segja að hann geti þakkað Jóhannesi í Bónus þá vegsemd, Geir gat ekki skilið hann eftir, hann væri þá að taka undir auglýsingu Bónusforingjans. Björn hættir líklega á miðju kjörtímabili og krónprins flokksins, Bjarni Ben tekur við.

Í heildina líst mér vel á þessa ríkisstjórn. Vonandi vegnar henni vel.  


Viðkvæmur Steingrímur Joð

c_documents_and_settings_notandi1_my_documents_my_pictures_rau_i_kallinn_206870Jæja, þá er fenginn niðustaða. Stjórnin hélt velli þökk sé stórsigri Sjálfstæðisflokksins. Framsókn fékk skell og hlýtur að hugsa sinn gang. Mín spá er sú að ríkisstjórnin sitji ekki áfram. 

Það er ekki annað hægt en að brosa út af viðkvæmni Steingríms Joð út af skopmyndinni sem birtist hjá ungum framsóknarmönnum í kosningabaráttunni. Er þetta ekki fullmikið væl hjá manni sem uppnefnir aðra hvað eftir annað í ræðustól á Alþingi, kallar menn illum nöfnum. Er þetta ekki fullmikið hjá manni sem varið hefur óvægnar árásir ungra VG á Framsóknarflokkinn undanfarna mánuði?

Enn og aftur kemur í ljós að vinstri menn telja sig mega nota öll "trix" til að koma skoðunum sínum á framfæri en ef aðrir svara í sömu mynt, þá kveinka þeir sér og heimta afsökunarbeiðni.  

Hlægilegt....


Allur er varinn góður

Í frétt í öðru hvoru fríblaðinu í dag er fjallað um hvað gert verður ef ekki verður flugfært frá Eyjum á morgun. Þrjár "varaleiðir" eru fyrir kjörgögnin. Þyrla landhelgisgæslunnar, björgunarbáturinn Þór fer í Þorlákshöfn eða ef veður verður afleitt er varðskipið sent eftir kjörgögnunum. Þau skulu á Selfoss. 

Á sama tíma er alvarleg umræða um það í heilbrigðisráðuneytinu að spara með því að hafa sjúkraflugvél ekki lengur staðsetta í Vestmannaeyjum, heldur í Reykjavík eða láta þyrluna bara skutlast til Eyja eftir sjúklingum, lengja þannig viðbragðstímann með tilheyrandi "fórnarkostnaði"

Finnst ykkur þetta í lagi?

 


Kosningarnar á morgun

Eftir að búið er að afgreiða Evróvisjón fyrir okkur Íslendinga er ljóst að athyglin verður óskipt á kosningasjónvarp stöðvanna á morgun. Alla vega hjá mér :-)

Þetta er búið að vera skrýtin kosningabarátta. Einhvern veginn hefur mér fundist vanta allt fjör í baráttuna. Hún byrjaði fyrir nokkrum vikum þegar umhverfismálin voru upp á sitt besta en síðan hefur dregið af stjórnarandstöðunni. Því fleiri mál sem rædd eru, því minna verður fylgi VG. Það virðist vera staðreynd. 

Samfylkingin gæti staðið uppi sem sigurvegari kosninganna. Flokkurinn hefur verið að sækja í sig veðrið og nálgast 30% fylgi. Eins virðist staða Sjálfstæðisflokksins sterk og miðað við söguna þá má draga ca. 4% frá skoðanakönnunum til að fá fylgi þeirra í kosningum. 35-37% fylgi yrði flott úrslit fyrir Geir og félaga.

Það er skondið prófið sem nemendur í Bifröst hafa gert til að finna út hvar maður stendur í pólitík. Ég tók þetta og fékk það út að skoðanir mínar eru í mestu samræmi við Sjálfstæðisflokkinn. Það kemur mér ekki á óvart, enda alltaf verið hægri sinnaður í hugsun. Reyndar hef ég getað samsvarað mér flestum flokkum (nema VG) í málum og vill meina að hér á Íslandi séu fjórir miðjuflokkar og einn vinstri flokkur. Svo er bara áherslumálin mismunandi ár frá ári. 

Það sem kom mér kannski meira á óvart að næst mesta skorið hjá mér var hjá Íslandshreyfingunni, svo Samfylkingunni, þá Frjálslyndum !!!!, svo Framsókn og loks VG.    

Í Mogganum í morgun var skoðanakönnun eftir kjördæmum. Lítum á Suðurkjördæmið. Þá er Sjálfstæðisflokkurinn langstærstur, 41,8% og væntanlega 4 þingmenn. Samfylkingin og Framsókn svipuð af stærð, um 20%. Tveir þingmenn hvor. Hrikalegt hrun Samfylkingarinnar sem var stærsti flokkurinn fyrir fjórum árum!!  VG fá 10,8% og 1 þingmann og Frjálslyndir tæp 7% og einn þingmann.

Þetta verður spennandi á morgun, hvern ætlar þú að kjósa ??

 


5,4% fylgislækkun og tvö þingsæti tapast

Það er örugglega ekkert gaman að vera í Samfylkingunni þessa dagana. Fylgiskannanir sýna minnkandi fylgi hver af annarri og flokksþingið um síðustu helgi féll algjörlega í skuggann á landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Nýjasta könnunin er úr Suðurkjördæmi en þar vann Samfylkingin stóran sigur fyrir fjórum árum, fengu fjóra þingmenn og urðu stærsti flokkur kjördæmisins. Nú bregður svo við að samkvæmt könnuninni tapar flokkurinn 5,4% og við það minnkar þingmannahópurinn um helming, úr fjórum í tvo!  Það þykir mér mikið miðað við ekki meira fylgistap. (Fjórði þingmaðurinn var þó uppbótarþingmaðurinn)

Sjálfstæðisflokkurinn er í stórsókn og bætir við sig 10% og einum þingmanni. Framsókn tapar og Frjálslyndir þurrkast út í kjördæminu. VG eru sigurvegararnir og tveir þingmenn inni.  Ég skrifaði um daginn um karlrembukjördæmið Suðurkjördæmi því samkvæmt könnunum voru níu þingmenn af tíu karlar. 

Nú vantar sýnist mér uppbótarþingmanninn inn í könnunina og því níu þingsætum útdeilt. Sjö karlar og tvær konur. 

 Samfylkingin er í bullandi vandræðum í Suðurkjördæmi sem og annarsstaðar á landinu. Miðað við það að hafa verið lengi í stjórnarandstöðu og hafa vonarpening vinstri manna í formannsstóli er útkoman í skoðanakönnunum hræðileg. Það er ekki laust við að maður sé farinn að líta á VG sem stóra flokkinn á vinstri vængnum...

Þingmannalistinn samkvæmt könnuninni:

Árni Mathiesen (D)

Árni Johnsen (D)

Kjartan Ólafsson (D)

Björk Guðjónsdóttir (D)

Björgvin G. Sigurðsson (S)

Lúðvík Bergvinsson (S)

Atli Gíslason (V)

Alma Lísa Jóhannsdóttir (V)

Guðni Ágústsson (B)

Tvö þingmannsefni sem ég væri til í að sjá á þingi eru úti: Bjarni Harðarson og Róbert Marshall. Báðir myndu hressa upp á samkunduna við Austurvöll...


mbl.is VG og Sjálfstæðiflokkur auka fylgi sitt í Suðurkjördæmi á kostnað Framsóknar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þess má geta að um aðkomumann var að ræða

Samfylkingin vill fjarlæga sig frá öfgum Frjálsyndra (eða hluta flokksmanna) í innflytjendamálum. Það tel ég rétt hjá þeim og er sammála Ágústi um það að á meðan þessi öfl eru ríkjandi innan Frjálslyndra geta þeir ekki verið vænlegir samstarfsaðilar í ríkisstjórn. 

Þetta er ekki sami Frjálslyndi flokkurinn og var í framboði fyrir fjórum árum. Hann hefur breyst í hálfgerðan öfgaflokk. Það líst Íslendingum ekki á, alla vega ef marka má skoðanakönnun Fréttablaðsins í morgun. Frjálslyndir eru að þurrkast út af þingi. Ætli Jón Magnússon og Magnús Þór breyti eitthvað um gír í kjölfarið?

Annars þarf að ræða innflytjendamál á skynsaman hátt. Hætta þessu öfgarugli sem oft skekur umræður á Íslandi um einstaka mál. Til dæmis umhverfismál. Að halda því fram líkt og Jón gerir að útlendingar séu að fremja glæpi og ýja að því að þeir séu líklegri til þess er náttúrulega fáránlegt.

Ég veit ekki hvað er til í því en stundum hefur verið sagt að blöðin hafi komið því skilmerkilega á framfæri ef "brotamaður" sem sagt var frá hafi ekki verið úr sinni sveit. Þannig hafi fréttirnar iðulega endað á: "Þess má geta að um aðkomumann var að ræða" 

Fyrir mér er brotamaður brotamaður, burt séð frá því hvaðan hann/hún (gæta jafnréttisWink) er.  

 


mbl.is Telur skoðanir oddvita frjálslyndra ekki góðan grundvöll til samstarfs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Karlrembukjördæmi?

Enn eru Vinstri grænir að stækka og fylgjendum Steingríms og félaga fjölgar dag frá degi. Spurning hvort nýtt framboð umhverfissinna með Ómar og Margréti muni skaða stórsókn vinstri manna á Íslandi. Það yrði nú kaldhæðnislegt, sérstaklega í ljósi þess að þau tilgreina sig sem umhverfissinnaðan hægri flokk.

Var að kíkja á Gallup/Capacent könnunina og niðurstöður varðandi kjördæmið mitt. Miðað við nýjustu könnun verða eftirtaldir þingmenn mínir 13. maí 2007:

 

Árni Mathiesen (D)

Árni Johnsen (D)

Kjartan Ólafsson (D)

Björgvin G. Sigurðsson (S)

Lúðvík Bergvinsson (S)

Róbert Marshall (S)

Atli Gíslason (V)

Alma Lísa Jóhannsdóttir (V)

Guðni Ágústsson (B)

Grétar Mar Jónsson (F)

Það sem vekur strax athygli er kynjaskiptingin, 9/1. Ekki beint það sem menn hefðu kosið miðað við umræður síðustu missera...

 

 

 


Ruslpóstur

Það er afskaplega pirrandi þegar mikill ruslpóstur kemur á netfangið hjá manni. Þessu hendir maður út án þess að kíkja á það. Hvernig ætli þingmenn Íslands taki ruslpóstinum sem berst frá heimasíðu Framtíðarlandsins?  Samkvæmt landslögum er ólöglegt að senda "spam" eða dreifipóst.  Verður kært?

Annars er ég hjartanlega sammála Agli Helgasyni sem sagði í Ísland í dag í gær að þetta leyfðist þeim þar sem þetta er "góða" fólkið.  Það má allt.  Það væri allt farið á hliðina í þjóðfélaginu ef virkjunarsinnar væru að senda "spam" til að hvetja til frekari virkjana.

Grátt eða grænt. Svart eða hvítt. Stopp eða start. Þetta er ekki svona einfalt. Eins verð ég að taka undir með vonardreng Framsóknar, Birni Inga. Hver borgar þessi ósköp hjá Draumalandinu.  Samtök sem eru í bullandi pólitík geta framleitt rándýrar sjónvarpsauglýsingar og komið áróðri sínum á framfæri án frekari spurninga á meðan búið er að takmarka það fjármagn sem stjórnmálaflokkar mega setja í slíkt. Er það sanngjarnt?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband