Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Óþolandi ástand í Eyjum

Ég var einn tæplega fimm hundruð Eyjamanna sem mættu á Básaskersbryggju í gær til að mótmæla hækkun fargjalda Herjólfs.  Þetta er köld vatnsgusa framan í okkur Eyjamenn, á sama tíma og þingmenn og ráðherrar koma til Eyja og jánka og taka undir það að lækka þurfi far og farmgjöld með Herjólfi tekur Eimskip upp á því að hækka fargjaldið og farmgjaldið um tæp 12%. Menn snúast í hringi, vita ekki alveg í hvorn fótinn þeir eiga að standa.

 

Það hefur lengi verið skoðun mín að gjaldskrá Herjólfs er barn síns tíma og á að breyta. Eftir að Hvalfjarðargöngin komu og Herjólfur var merktur sem hluti af þjóðvegakerfi Íslendinga eiga Eyjamenn ekki að borga meira en sem nemur keyrslu 70 kílómetra leið, burtséð frá því hvort ég er að ferðast einn eða með fjóra með mér í bílnum. Þetta er í raun afar eðlileg krafa. Það er ekki rukkað fyrir hausa í Hvalfjarðargöngin, heldur fyrir bíla. Ég set þessi tvö samgöngumannvirki ef svo má að orði komast undir sama hatt.  Raunar búa þeir sem notast við Hvalfjarðargöngin við valkost, þau geta enn keyrt Hvalfjörðinn ef þau vilja ekki borga í göngin. Við höfum ekki slíkt val. 

 

Við erum að fara að horfa upp á það að matvöruverð ætti að lækka 1. mars vegna lækkunar virðisaukaskatts á matvæli. Mun það skila sér til Eyja?  Ég er ekki viss um það, 12% hækkun á farmgjöldum mun alla vega ekki hjálpa til.

 

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra sagði á opnum stjórnmálafundi á Selfossi fyrir rúmu ári síðan þegar hann var inntur eftir því hvort breytinga væri að vænta á gjaldskrá Herjólfs að svo væri ekki. Þeir sem tækju þá ákvörðun að búa á eyju þyrftu að sætta sig við það með þeim kostum og göllum sem fylgdu. Svo mörg voru þau orð og brýnt að Eyjamenn hafi þau í huga í vor þegar kosið verður til Alþingis. Það er líklegt að verði Sjálfstæðisflokkurinn áfram í ríkisstjórn mun Sturla áfram stýra samgönguráðuneytinu. Það eru slæm tíðindi fyrir Eyjamenn, segi kannski ekki dauðadómur fyrir okkur en ráðherra samgöngumála sem finnst í lagi að hækka fargjöldin og gefur í raun skít í alla röksemd Eyjamanna varðandi samgöngur er ekki góð tíðindi fyrir okkur sem hér viljum búa.

 

Hann vinnur að fullum þunga gegn hugmyndum um jarðgöng. Óeðlileg afskipti ráðherra að mínu mati.  Hvernig stendur á því að ráðherra samgöngumála er svo þröngsýnn að hann vilji ekki einu sinni skoða alla möguleika sem eru uppi á borðinu? 

 

Er kannski kominn tími á frönsku aðferðina í mótmælum hjá okkur Eyjamönnum?  Ætla ekki að gera lítið úr mótmælunum í gær, gott mál en fyrir hverju var fólkið að klappa á Básaskersbryggju í gær?  Nei, við þurfum að fara að gera eitthvað róttækt. Hugmyndir hafa verið uppi um að loka götum burt frá Reykjavík en mér líst best á að grýta samgönguráðuneytið með þorskhausum....það myndi vekja athygli J

 

Að endingu vill ég segja eitt:  Fyrir mér kemur ekki til greina að kjósa Sjálfstæðisflokkinn í vor. Þar á bæ er enginn skilningur á kröfum okkar.  Ekki láta blekkjast á fundum fram að kosningum. Þeir hafa fengið sín tækifæri. Kannski var þetta rétt hjá Páli Scheving þegar hann sagði að við værum alltaf að reikna.  Við eigum að berja í borðið, láta þetta fólk finna að okkur er alvara.

 

Eyjamenn eru ekki byrði á íslensku samfélagi og hafa aldrei verið. Að láta koma fram við okkur eins og einhverja helvítis aumingja er óþolandi. Við höfum í gegnum tíðina komið með meiri tekjur inn í samfélagið en flest önnur sveitarfélög. Við eigum okkar rétt og það er kominn tími til að fara að innheimta þann rétt.


Valdarán eða varnarsigur?

Það hefur verið athyglisvert að fylgjast með átökunum í Frjálslynda flokknum undanfarið. Átök sem náðu hámarki um helgina þegar landsþingið var haldið og allt í einu fjölgaði “frjálslyndum” Íslendingum um helming. Minnti óneitanlega á þegar Ágúst Ólafur Ágústsson hlaut kjör sem varaformaður Samfylkingarinnar. Í báðum tilvikum eru menn á afar gráu svæði í smölun, svo ekki sé meira sagt.

 

Er verið að ræna Frjálslynda flokknum?  Einhvern veginn hef ég það á tilfinningunni, að Guðjón Arnar, Magnús Þór og Jón Magnús séu að eigna sér flokkinn og vilja þá hreinsa til og koma sínu fólki að á réttu stöðum. Fyrsta manneskjan sem þurfti að víkja var dóttir fyrrverandi formannsins, Margrét Sverrisdóttir enda hún talsmaður “gamla” flokksins en ekki hins nýja. Nú er það ekki lengur kvótakerfið sem er helsti óvinur íslenska ríkisins, heldur útlendingar.... 

 

Ég get ekki séð að Margrét geti verið áfram í flokknum.  Stefnumálin breytast, úr því að vera hófstilltur hægri flokkur með áherslu á sjávarútvegsmál yfir í það að vera róttækur hægri flokkur með áherslur á rasískar hugmyndir. Svona svipað og hefur verið að gerast annarsstaðar í Evrópu á undanförnum árum, þá hefur einn smáflokkur eignað sér þennan málaflokk og hlotið athygli og meira fylgi. Um leið hafa þessir flokkar strikað sig út af lista yfir mögulega samstarfsaðila. Það hafa Frjálslyndir núna gert.

 

Að mörgu leyti má segja að Frjálslyndi flokkurinn á Íslandi og Frjálslyndi flokkurinn í Reykjavík séu tveir flokkar.  Ég er búinn að lýsa þeim fyrri en sá síðari er mildur hægrisinnaður flokkur með áherslu á umhverfis og velferðarmál. Skorar kannski ekki eins mikið í skoðanakönnunum en er mun líklegri til þess að ná árangri en rasískur öfgaflokkur...


Þetta með hann Árna Johnsen

Jæja, þá er prófkjöri sjálfstæðismanna lokið og verð ég að segja að ég vanmat styrk Árna Johnsen í prófkjörinu all illilega. Hann inn og Guðjón út. Þar lá minn feill.  Ég giskaði á að Árni Matt næði efsta sætinu með 45-55% atkvæða, niðurstaðan innan við 50%. (Bara svona minna á það sem var rétt Wink

 

Kjartan er sæti neðar en svo eru það Björk og Unnur Brá, þær voru einhvern veginn alltaf í þeim sætum í mínum huga. Aftur á móti, líkt og ég vanmat styrk Árna Johnsen þá ofmat ég hrikalega styrk Gunnars Örlygs...

 

Það hefur verið ofsalega skrýtin umræða, bæði á málefnum og barnalandi um þessi mál. Talað er um að Eyjamenn séu orðnir ruglaðir, nú á að nota Herjólf í hvalaskoðun og hætta öllu flugi, kjör hans segi meira en mörg orð um mannauðinn í Eyjum, allir kusu hann út af göngunum, gert út af samlíkingu milli Árna og Hitlers !! og fleira og fleira...

 

Þetta er nú svolítið öfgakennt og segir meira en mörg orð um þá sem þetta skrifa. Hins vegar held ég, sem Eyjamaður að kjör Árna muni skaða Vestmannaeyjar frekar en hitt. Árni Johnsen var góður þingmaður fyrir okkur á sínum tíma en er hægt að ímynda sér stöðuna sem hann verður kominn í inn í þingflokkinn?  Hann verður algjörlega einangraður, ekki treyst fyrir neinu, úti í horni í þingmannaherberginu. Svona svipaðri stöðu og Kristinn H er hjá Framsókn (Ekki það að ég sé að líkja þeim tveim saman, Kristinn er í skammakróknum út af óþekkt, engu öðruDevil

 

Svo ber að hafa það í huga að það voru ekki Eyjamenn sem komu honum á þing, heldur Suðurkjördæmingar (svo ég noti nú nýirði Árna Johnsen) Árni fékk gríðarlega góða kosningu um allt kjördæmið, hann var í öðru sæti allan tímann. Við fyrstu talningu var aðeins búið að telja um 200 atkvæði frá Eyjum, í allt voru þau um 1800. Þá þegar var Árni kominn með tæplega 700 atkvæði. Hann var jafn allsstaðar á meðan svæðaskipting kom í ljós síðar um nóttina. Til að mynda þegar Guðjón Hjörleifs stökk upp í 3. sæti. Þá var greinilega verið að telja hlutfallslega mikið frá Eyjum. Þá nálgaðist Árni Johnsen efsta manninn ekkert, þannig að stuðningurinn í Eyjum er ofmetinn.

 

Árni Johnsen hefur enn ekki iðrast gjörða sinna opinberlega. Hann gerði tæknileg mistök!! Nei, hann verður að viðurkenna brot sitt og biðja þjóðina afsökunar. Það er lágmarkskrafa sem kjósendur gera til hans.

 

Hvað með Árna Matt??  Tæplega helmingur vildi að hann leiddi listann, rúm 30% að Árni Johnsen væri í efsta sæti...varla er Mathiesen ráðherraefni lengur?


Varðmenn foringjans falla

Það hefur verið athyglisvert að fylgjast með prófkjörum Samfylkingarinnar síðustu vikur og ætti spennan að ná hámarki um helgina þegar prófkjör flokksins í höfuðborginni verður.

 

Í flokki sem fyrir tveimur árum gekk í gegnum erfið formannsskipti, þar sem vinsæll foringi var felldur og vonarstjarna, forsætisráðherraefni og verðandi leiðtogi landsins tók við. Össur út fyrir Ingibjörgu.

 

Ekki nóg með að þarna voru pólitískir samherjar leiddir saman í blóðugt einvígi þá eru þau bundin fjölskylduböndum sem gerði vígið enn dramatískara. Eftir lá karlinn Össur en valkyrjan Ingibjörg stóð eftir sigri hrósandi. Flokkurinn skiptist í tvær fylkingar sem síðan þá hafa barist hatrammri baráttu um völdin í flokknum og hvert einvígið á fætur öðru hafa skilið eftir sig blóðug spor í valdastiga Samfylkingarinnar.

 

Í formannseinvíginu tókust á tveir armar Samfylkingarinnar, leifar gömlu vinstri flokkanna á Íslandi. Vinstri armur gamla kvennalistans og allaballa gegn krötunum. Síðustu vikurnar hafa vígamenn Össurar reynt að ná aftur fótfestu í flokki sem sífellt dregst lengra til vinstri á hinni pólitísku víglínu. Þeir hafa fellt varðmenn foringjans víðs vegar í prófkjörum en komið skylmingaþrælum hins skeggjaða að.

 

Þannig náði gamall vinur Össurar, Kristján Möller glæsilegri kosningu í norðaustur kjördæmi á meðan Lára Stefánsdóttir vinkona formannsins náði ekki sínum markmiðum. Bardaginn hélt svo áfram í norðvesturkjördæmi og enn versnaði staða formannsins. Vígamenn hins skeggjaða kolfelldu Önnu Kristínu Gunnarsdóttur en komu skólastjóranum og góðvini líffræðingsins, Guðbjarti að.

 

Nú héldu margir að nóg væri komið og til að formaðurinn héldi einhverri reisn þá yrðu sverðin slíðruð og vígamenn þingflokksformannsins drægju sig í hlé. En, ónei, áfram skyldi barist og varð kraginn næsti vígvöllur innanflokksátakanna. Nú skyldi Þórunni þingmanni fórnað á altari hefnda. Það tókst og Gunnar Svavarsson er nýr oddviti. Af sex kjördæmum landsins voru nú stuðningsmenn Össurar í oddvitastöðu í þremur og eftir að velja á þrjá lista.

 

Næst var það sveitin og suður með sjó. Suðurkjördæmið og mikilvægt fyrir formanninn fallandi að halda reisn með því að fá einn sinn dyggasta stuðningsmann, Lúðvík Bergvinsson þar í leiðtogasæti. Enn brást herkænska formannsins og bloggarinn og grínistinn Össur hló innra með sér þegar hans dyggasti stuðningsmaður, Björgvin G. Sigurðsson vann yfirburðasigur. Fjögur vígi fallin og aðeins höfuðborgin eftir og líkt og í góðri spennumynd bíður dramatíska lokauppgjörið í lokin. Össur og Ingibjörg, Reykjavík suður og Reykjavík norður.

 

Hinn næsti leiðtogi Íslands þarf góða kosningu um helgina. Til þess að sneypuför vonarpeningsins inn í íslensk stjórnvöld endi ekki með skömm þarf hún yfirburðastuðning í efsta sæti listans. Stuðningsmenn líffræðingsins hugsa sér gott til glóðarinnar.

Trúnaðarmenn foringjans í Reykjavík naga nú neglurnar og skjálfa óttaslegnir um eigin framtíð eftir að hafa horft upp á hvert tapað einvígi á eftir öðru. Mörður Árnason, Helgi Hjörvar og Ágúst Ólafur berjast nú fyrir sinni pólitísku framtíð. Líklegt er að einhverjum þeirra verður fórnað af vígamönnum rithöfundarins og bloggarans, Össurar Skarphéðinssonar.

 

Það er því ljóst að Samfylkingin logar stafnana á milli, nú tveimur árum eftir formannskjörið. Reyndar er flokkurinn klofinn enn frekar í herðar niður í afstöðu annarsvegar Reykjavíkurarm flokksins og hins vegar landsbyggðararm. Þannig hafa virkjanamál verið bannorð á fundum flokksins af ótta við að klofningur flokksmanna komi í ljós og nýleg sala á Landsvirkjun sýndi svo ekki um var að villast að ágreiningur er djúpur. Reykjavíkurarmur sagði kaupverðið allt of lágt meðan landsbyggðararmurinn hreinlega stóð að sölunni með íhaldinu.

 

Hvernig flokkurinn ætlar sér svo að koma sameinaður til kosninga eftir nokkra mánuði skal ósagt látið.

 

...einhvern veginn svona hefði Össur Skarphéðinsson lýst síðustu vikum ef um væri að ræða Sjálfstæðisflokkinn. 

 

Nei, segi bara svona ...


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband