Hann var ekki lengi að fara úr friðarstól og verða umdeildur stjórnmálamaður hann Geir Jón, nú fær hann yfir sig svívirðingar í netheimum og engu líkara, miðað við umræðuna að hann hafi nafngreint ákveðna stjórnmálamenn og haldið því fram að þeir hafi stjórnað Búsáhaldarbyltingunni. Meira að segja reyndir fjölmiðlamenn eins og Egill Helgason falla í þessa gryfju. Ég efast um að margir af þeim sem hafa tjáð sig um þetta mál hafi hlustað á viðtalið við Geir Jón á Sprengisandi síðastliðinn sunnudag.
Mín skoðun á honum breyttist ekkert við það að hann ákvað að fara í framboð fyrir Sjálfstæðisflokkinn og hefði heldur ekkert breyst þó hann hefði farið í framboð fyrir aðra flokka. Ég hef alltaf litið á Geir Jón sem heiðarlegan mann sem ég hef miklar mætur á. Það hefur ekkert breyst út af þessu máli. Ég skrifaði upp þann hluta viðtalsins sem snéri að þessu máli og birti það hér.
SME (Sigurjón M. Egilsson)
GJÞ (Geir Jón Þórisson)
Geir Jón á Sprengisandi
SME Þegar ég tala við þig er eðlilegt að tala um þau miklu átök sem urðu hér 2008 og byrjun árs 2009 og þú varst í farabroddi lögreglunnar þar. Þú með þínar pólitísku hugsjónir, langaði þig einhvern tíma að taka þátt í þessu öðruvísi en sem embættismaðurinn?
GJÞ Ég leyfði mér aldrei að hugsa þannig. En ég get alveg sagt það að mig sárnaði að sjá hvað þetta voru mjög pólitísk mótmæli. En ég gerði mér far um að tala við forystufólk, eða þau sem höfðu sig mest í frammi til þess að reyna að milda, til að mótmælin yrðu ekki eins átakamikil og búast mætti við og urðu á ákveðnum tímapunkti. Mitt var auðvitað númer eitt, tvö og þrjú að standa mína plikt.
SME Má ég spyrja þig, má ég skilja þig þannig að hluta af þessum mótmælum hafi verið stýrt pólitískt?
GJÞ Já.
SME Af kjörnum fulltrúum?
GJÞ Já.
SME Af þingmönnum?
GJÞ Já.
SME Þú varst vitni af því. Þú sást það í þínu starfi?
GJÞ Já.
SME Þetta er svolítið alvarlegt mál, ef þetta var þannig því að eins og þú sagðir áðan þá á tímabili var þetta gjörsamlega að fara úr böndunum og fór úr böndunum. Það voru sko líf í hættu.
GJÞ Það mátti engu muna á ákveðnum tímapunkti. Það sem gerðist og er á heimsmælikvarða, heimsatburður, það voru mótmælendur sjálfir, fyrir framan stjórnarráðið þann 21. janúar þegar fór að líða á nóttina, þá stigu þau fram, ákveðinn hópur mótmælenda og varði lögregluna. Þetta hefur aldrei gerst neinsstaðar í heiminum nema hér. Ég var afskaplega stoltur og ánægður að sjá að þarna var fólkið búið að fá alveg nóg. Það sá það að þarna var verið að búa til eitthvað stríð gegn lögreglunni, grýta mannlaust hús fyrir aftan lögregluna og lögreglan gerði ekkert annað en að standa vörð og fá grjótið á sig. Þarna verður viðsnúningur, vendipunktur í þessu öllu saman. Þá verður til þessi rauðgula bylting, mótmælendur á móti ofbeldi. Þá fóru þeir sjálfir að taka til og hafa áhrif á það fólk sem ætlaði að halda áfram að grýta eftir þennan atburð, fóru sjálfir að taka þá til hliðar og stoppa þá af. Þarna var umbreyting mikil og ég held að það sem bjargaði þessu það, að við ákváðum það þarna strax, yfirstjórn lögreglunnar með lögreglustjórann í brodda fylkingar að við myndum gera allt til þess að mótmælin færu ekki í ofbeldis, og átök. Við myndum frekar þola, eins og við gerðum, eins og við gerðum og láta á okkur brjóta að ákveðnu marki. Það slösuðust níu lögreglumenn í þessum átökum 20. og 21. janúar 2009. Auðvitað vildum við ekki að það gerðist en það hefði getað farið miklu verr og orðið miklu langvinnari átök ef lögreglan hefði ekki sett upp þetta fyrirkomulag og skipulag sem hún gerði.
SME Og það er, þessi breyting verður 21. janúar þegar menn ganga fram fyrir skjöldu og verja lögregluna. Ef ekki, þetta var allt að verða verra og verra, eldar voru kveiktir og allt þetta.
GJÞ Ég vill ekki hugsa til þess hvað myndi gerast...
SME (grípur orðið) Við þurfum þess ekki en þú sagðir áðan, að kjörnir fulltrúar, eru einhverjir jafnvel sem eru í ríkisstjórn í dag sem tóku þátt í undirbúningi og höfðu áhrif á...
GJÞ (grípur orðið) Nú vil ég ekki fara út í nánar þetta en það er alveg ljóst að það voru gerendur á sviðinu sem voru framarlega í stjórnmálum og eru enn í dag. Og ég gerði það sem ég gat til að tala við fólk sem stóðu næst og bað um að yrði á tekið vegna þess að við lögreglan, vorum ekki í neinum átökum við stjórnmálamenn, við vorum að reyna að verja vinnustað stjórnmálamanna til að þau fengju frið til að vinna vinnuna sína og menn tóku þessu alvarlega og ég átti góð samtöl við marga úr öllum stjórnmálaflokkum og sem betur fer þá fór þetta ekki verr.
Steingrímur Joð vill ekki sitja undir svona dylgjum.
Álfheiður Ingadóttir kallar hann lygara.
Hvað gerir Geir Jón annað en að svara spurningum Sigurjóns? Var þetta viðtal virkilega tilefni slíkra heiftarlegra viðbragða?
Og er ekki eðlilegt að menn velti fyrir sér hlutverki þingmanna og opinberra persóna í mótmælunum?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | 28.2.2012 | 17:57 | Facebook
Færsluflokkar
Tenglar
Heimsótt reglulega
Bloggvinir
Jan. 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | |||
5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 |
12 | 13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 |
19 | 20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 |
26 | 27 | 28 | 29 | 30 | 31 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Þeir þingmenn sem tóku þetta til sín hafa eitthvað að fela.
Marteinn Sigurþór Arilíusson, 28.2.2012 kl. 18:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.