Kjördæmaþáttur Suðurkjördæmis

Það var athyglisvert að fylgjast með kjördæmafundi úr Suðurkjördæmi í gær. Bæði vakti niðurstaða skoðanakönnunarinnar athygli og þá ekki síst sterk staða Sjálfstæðisflokksins og síðan var mikil umræða um málefni Vestmannaeyja. 

Allir voru á því að rannsaka ætti möguleikann á jarðgöngum til hlítar áður en ákvörðun er tekin um framtíðarsamgöngur við Vestmannaeyjar. Meira að segja Árni Matt, flokksbróðir Sturlu sem hefur haldið því fram í tvö ár að ekki sé þörf á frekari rannsóknum. Jarðgöng eru möguleg en of dýr. Hvað hefur breyst?

Þýðir þetta að frestað verði frekari framkvæmdum við Bakkafjöru? Verður athugað með nýtt skip?  Enn og aftur er allt komið í hnút í samgöngumálum okkar, engin ákvörðun og í raun átta ég mig ekki á hvar við stöndum. Við erum nánast í sömu sporum og fyrir fjórum árum.

Ég var ánægður með Bjarna Harðarson, hann var þungorður í garð ríkisstjórnar síns flokks þegar kom að samgöngumálum okkar Eyjamanna. Annars var gott að heyra að allir flokkar setja samgöngumál Eyjamanna framarlega á forgangslistann í kjördæminu. Vonandi verður staðið við stóru orðin.

Eins var athyglisverð umræða um kvótamálin. Grétar Mar, fulltrúi Frjálslyndra vildi kenna kvótakerfinu um allt sem miður hefur farið en þáttastjórnandinn benti réttilega á að á sama tíma og kvótastaða útgerða í Eyjum hefur styrkst verulega á síðustu árum hefur ekkert dregið úr fólksfækkun. Það er einfaldlega ekki hægt að setja samasemmerki þarna á milli. Grétar vildi þá meina að það væri út af útflutningi en Atli VG spurði þá hvort Grétar hefði ekki komið inn í Vinnslustöð, eða Godthaab. Góður punktur...

Annars fannst mér Árni Matt og Bjarni Harðar komast best frá þessum þætti. Það var sótt að Árna sem var að verja sextán ára valdasetu Sjálfstæðisflokksins. Hann stóð sig vel í því enda verður að segjast eins og er að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins hefur staðið sig vel og gjörbreytt íslensku samfélagi. Fyrir utan byggðamál er ég ánægður með flokkinn en í þeim málaflokki finnst mér Sjálfstæðisflokkurinn gjörsamlega hafa brugðist.

Bjarni er skemmtilegur og lokaorðin hans voru frábær. Framsóknarflokkurinn eini alvöru græni flokkurinn, með skynsemi að leiðarljósi en ekki "fjallagrasapólitík". Ég átti ekki til orð yfir Björgvin G. Sigurðssyni, hann átti ekki góðan dag og frammíköll hans voru orðin pínleg. Hann leyfði Árna Matt nánast aldrei svara, heldur talaði ofan í hann. Að mínu mati argasti dónaskapur.

Yfir heildina góður þáttur og Eyjamenn geta verið nokkuð ánægðir með sjónarmið oddvitanna varðandi okkar mál. Spurning hvort orðin verða efnd eftir 12. maí?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Grétar Ómarsson

Flott grein hjá þér Svenni, annars fannst mér Bjarni og Atli koma best út úr þessum þætti.

Grétar Ómarsson, 24.4.2007 kl. 00:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband