Það má kannski segja að einu taparar" í kosningunum hér í Eyjum hafi verið Framsóknarflokkurinn enda náðu þau ekki takmarki sínu að ná inn manni í bæjarstjórn. Voru reyndar töluvert frá því enda næsti maður inn fimmti maður á lista Sjálfstæðisflokksins. Gamli vinnuveitandi minn, Ómar Garðarsson hafði því rétt fyrir sér í forsíðugrein Frétta í síðustu viku, að baráttan væri á milli Helgu Bjarkar sem var í 5.sæti D-lista, Guðlaugs þriðja manns á V-lista og Sigurðar oddvita B-lista. Veit að fréttin olli miklum usla enda var fyrirfram talið að baráttan væri um hvort Sjálfstæðismenn héldu meirihluta eða ekki.
En það er við hæfi að óska bæði Sjálfstæðisflokknum og V-listanum til hamingju. Bæði framboðin náðu því sem að var stefnt. Sjálfstæðismenn hömruðu á hættunni" á 3-3-1 stöðu í bæjarstjórn á meðan V-listinn tefldi Guðlaug Friðþórs fram í baráttusæti. Kom svolítið á óvart að V-listinn skyldi ekki stefna á meirihluta. En framboð B-lista virðist hafa haft meiri áhrif á V-listann en D-listann. Skilst að B-listinn hafi þurft einhver 80+ atkvæði til að ná inn manni og í raun náði framboð þeirra aðeins örlítið meira fylgi en F-listinn náði fyrir fjórum árum.
En spennan var í raun ekki hér í Eyjum. Framboð Besta flokksins er það sem vakti athygli um allt land og í raun út fyrir landsteinanna. Grínframboðið var víða í erlendum fjölmiðlum. Frábært, fyrst Icesave, svo Eyjafjallajökull og núna Jón Gnarr!! Jæja, landkynning er þetta alla vega. Einhvern tíma var sagt, vond umfjöllun betri en enginn umfjöllun"
En þrátt fyrir grín og óháð framboð víða sem náðu árangri hefur pólitíkin því miður ekkert breyst. Nú eru hafin hrossakaup víða og þá virðast úrslit kosninganna engu máli skipta.
Byrjun á gríninu í Reykjavík. Mörður Árnason sýndi þær tölulegu staðreyndir á heimasíðu sinni að Samfylkingin hafi aldrei fengið jafn slæma útkomu í Reykjavík og núna. Innan við 20% atkvæða. Samt leitar Besti flokkurinn fyrst til þeirra og ætla að hampa flokki sem er í sögulegu lágmarki í höfuðborginni. Gaflarar halda svo gríninu áfram. Samfylkingin tapar svo um munar þar og bæjarstjórinn nær ekki kjöri inn í bæjarstjórn. Og hvað gerir þá VG oddamaðurinn? Jú, togar Samfylkinguna aftur til valda.
Hefði ekki verið eðlilegra, í þeirri kröfu um breytt stjórnmál á Íslandi að flokkar sem hafa starfað í meirihluta og tapa fylgi dragi sig til hlés? Að öðrum sé hleypt að?
Í raun ætti staðan í Reykjavík að vera þannig að Besti flokkurinn á að fara inn sem sigurvegari og boða samstjórn allra flokka í þeirri von að geta breytt hugsun gömlu flokkanna í þá átt að seta í borgarstjórn Reykjavíkur sé hagsmunapólitík fyrir borgarbúa en ekki landsflokkanna.
Eins finnst mér hjákátlegt hjá forystumönnum þeirra sem nú eru að ræða meirihlutamyndun hér og þar. Allir verjast" frétta af stöðunni, ætla ekkert að tjá sig í fjölmiðlum. Þetta sama fólk reyndi að komast í allar fréttir og öll blöð fyrir viku síðan til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Það skipti kjósendur svo miklu máli.
Nú kemur þetta kjósendum ekki lengur við.
Hvað hefur breyst?
Stjórnmál og samfélag | 2.6.2010 | 12:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ég átti því miður ekki heimagengt á fundinn í gærkvöldi en þvílíkur fjöldi af bílum sem lágu út um allt í kringum Höllina. Það voru ekki bara "kvótagreifar" sem sátu þennan fund. Nei, það var hinn almenni Eyjamaður sem óttast afleiðingar fyrningarleiðarinnar fyrir samfélagið.
Sama hvað menn segja um kvótakerfið sem slíkt er ljóst að útgerðarmenn í Eyjum tóku flestir þá ákvörðun að vinna með kerfinu en ekki á móti því. Menn fjárfestu, endurskipulögðu og í stað aflamagns fóru menn að horfa í gæði. Því þeir vissu að ekki var hægt að veiða jafn mikið og áður og því þurfti hærra verð fyrir afurðina.
Þetta er líklega eitt það jákvæðasta við kvótakerfið. Menn fóru að hugsa öðruvísi. Gæðamálin voru tekin föstum tökum og úr varð að íslenskur fiskur var eftirsóttur erlendis sem gæðavara. Skipin voru nútímavædd og einnig fiskvinnslan í landi. Menn tala núna mikið um skuldastöðu sjávarútvegsins. Enginn talar um hvað þessi hluti hefur kostað útgerðir á Íslandi. Nei, það eru allir að horfa á svörtu sauðina sem löbbuðu út úr greininni. Ábyrgðarlausir með öllu og fjárfestu í öðru, til dæmis bönkunum.
Menn verða að muna út af hverju kvótakerfið var sett á á sínum tíma.
Við vitum það hér í Eyjum að það eru útgerðir hér sem voru ekki með sterka kvótastöðu í upphafi en hafa hægt og bítandi fjárfest í frekari aflaheimildum og þannig stækkað sitt fyrirtæki. Eðlilegt er það ekki? Að mati margra þá er þetta eðlilegt í öllum öðrum atvinnugreinum en sjávarútvegi.
Um þetta er ekki rætt.
Það er auðvelt að afgreiða fundinn í gær sem eitt allsherjar samsæri útgerðarmanna til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Að þeir jafnvel kúgi sjómenn til að mæta á slíka fundi eins og ég heyrði á Bylgjunni í morgun. Bara það að hleypa manni eins og þessum Eiríki í útvarp er fyrir neðan allar hellur. Hann hafði ekkert fram að færa nema gífuryrði. Ömurlegt að hlusta á svona álf þegar umræðan á að vera á hærra plani. Staðreyndin er sú að 10% Eyjamanna mættu á fundinn í gær. Það er drullugóð mæting svo ekki sé meira sagt.
Hugsa sér að íslenska þjóðin hafnaði Frjálslynda flokknum í síðustu kosningum. Þeir þurrkuðust út. Þeirra aðal baráttumál var afnám kvótakerfisins. Kjósendur voru á öðru máli. Samt sem áður er formaður þess flokks nú valdamesti maður í sjávarútvegsráðuneytinu. Skrýtið þetta lýðræði!
Finnst dapurt að hugsa til þess að það séu jafnvel menn ættaðir úr Eyjum og öðrum sterkum útvegsbæjum sem sitja á þingi og berjast fyrir þessum breytingum.
Annars er líka skondið hvernig þessi umræða hefur verið. Eyjaflotinn siglir í land! Hér eru flestir bátar í landi á fimmtudögum, enda löndunardagur!
Þess krafist að stjórnvöld falli frá fyrningarleið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | 22.1.2010 | 10:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Það var athyglisverð fréttin um það að Samfylkingin hafi leitað til Framsóknarflokksins í Icesave atkvæðagreiðslunni vegna fjarveru Helga Hjörvars. Framsóknarflokkurinn átti að láta einn sinna þingmanna "skrópa" í atkvæðagreiðsluna til að jafna út fjarveru Helga. Með þessu var Framsóknarflokkurinn að hafa í heiðri áralanga hefð. Og finnst ekkert athugavert við það.
Halló!
Er það ekki einmitt svona atriði sem menn voru að vonast til að fólk endurskoðaði með "Nýja Íslandi" Áralöng hefð fyrir bjánaskap er ekki og á ekki að vera ávísun á áframhaldandi bjánaskap.
Siv Friðleifsdóttir braut lög um þingsköp með því að vera fjarverandi án lögmætrar forfalla. Og það eru ekki lögmæt forföll að Helgi Hjörvar hafi verið í útlöndum.
Gunnar Bragi Sveinsson formaður þingflokks framsóknar bendir á hefðir í þessu sambandi og ver þessa vitleysu út í ystu æsar. Endar svo á að segja að sé þetta ekki fyrir hendi þurfi flokkar að kyrrsetja þingmenn sem annars sinntu mikilvægum erindum í útlöndum.
Vó
Ætli Gunnar Bragi viti ekki af því að hann getur kallað inn varamann?
Stjórnmál og samfélag | 11.12.2009 | 09:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Margra áratuga barátta Eyjamanna hefur nú verið eyðilögð á nokkurra vikna tímabili.
Fyrir nokkrum árum hófst barátta fyrir því að Herjólfur sigli tvær ferðir á dag, alla daga vikunnar. Viðbrögðin voru æði misjöfn. Ég var þá að vinna á Fréttum. Meira að segja voru hneykslunarraddir innan bæjarstjórnar á þessum kröfum. Sumir töldu þessar kröfur æði geggjaðar og allt of miklar. Við þyrftum ekkert á öllum þessum ferðum að halda.
Í dag telst þetta sjálfsagt. Og þá mætir samgönguráðherrann og ætlar að taka af tvær ferðir, tvo daga vikunnar. Hvað verður næst?
Mikil barátta var lögð í að fá Flugfélag Íslands til að fljúga milli lands og Eyja. Var settur á ríkisstyrkur á þeim forsendum að ekki væri verjandi að hafa ríkisstyrk á einni leið (Herjólfi) en ekki annarri. Nú er sá samningur að renna út og hefur Flugfélagið boðað að þau muni hætta flugi til Eyja. Þrátt fyrir að þetta sé sú flugleið sem er með mestu aukninguna.
Þessi ákvörðun mun koma sér gríðarlega illa fyrir fyrirtækið sem ég vinn hjá, Volare. Ætli við flytjum ekki að meðaltali um 200 pakka í hverjum mánuði með flugi frá Eyjum. Ef Flugfélagið hættir að fljúga og enginn tekur við þurfum við að endurskoða algjörlega flutningsmátann og jafnvel spurning hvort fyrirtækinu þarf að endurskoða staðsetningu sína? Við nýtum einnig Íslandspóst en augljóslega eru pakkarnir fljótari á leið sinni til söluráðgjafanna með flugi, hvort sem það er til Reykjavíkur, Akureyri, ísafjörð eða Egilsstaði. Og söluráðgjafarnir vilja þjónusta viðskiptavini sína fljótt og örugglega og þá er þetta skjótasta og besta leiðin.
Og til að bæta gráu ofan á svart er nú þegar farið að huga að fækkun ferða í Bakkafjöru og það rúmu hálfu ári áður en siglingar hefjast !
Það er með ólíkindum hvað við í Eyjum virðumst fara í taugarnar á samgönguráðherra og hans flokksfélögum.
Fyrningaleiðin og afnám sjómannaafsláttar eru tvö mál sem hafa miklar afleiðingar í Eyjum og svo skerðing í samgöngumálum.
Sjálfstæði - anyone?
Óvíst með fjölda ferða milli lands og Eyja | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | 8.12.2009 | 12:33 (breytt kl. 12:36) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þegar aðeins eitt prósent þjóðarinnar lítur á forseta Íslands sem sameiningartákn hljóta menn að fara að kalla á breytingar á Bessastöðum.
Hef reyndar alltaf verið gagnrýninn á veru Ólafs á Bessastöðum. Hefur aldrei fundist rétt að hafa svo pólitískan mann í þessari stöðu.
Hann hefur breytt embættinu mikið. Þetta friðarsæti í huga Íslendinga er orðið að hápólitísku. Væri athyglisvert að sjá könnun um viðhorf Íslendinga til embættisins og hvað menn vilja gera með það.
Ef þetta á að vera eftirlaunastóll fyrir útbrunna pólitíkusa væri betra að leggja það niður að mínu mati.
Hugsa sér, það líta fleiri Íslendingar á Davíð Oddsson sem sameiningartákn en Ólaf.
Það hefði nú einhvern tíma þótt saga til næsta bæjar...
Fáir telja forsetann sameiningartákn þjóðarinnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | 15.9.2009 | 12:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þetta byrjar gæfulega. Spurning fyrir ráðamenn í Reykjavík að hlusta á Eyjamenn í þessum efnum. Alltaf legið fyrir að þetta skip er allt of lítið til þess að sigla á þessari leið. Það hafa Vestmannaeyingar bent á. Reyndar hefði ég viljað heyra meira í ráðamönnum Eyjamanna í þeim efnum.
Sumir segja að þetta sé ein erfiðasta sjóleið í heimi fyrir áætlunarskip. Veit það ekki en ég fór með Herjólfi í gærkvöldi heim til Eyja og upp á land á föstudaginn. Báðar ferðirnar hefðu líklega fallið niður ef Baldur hefði verið í áætlun. Alla vega föstudagsferðin.
Herjólfur gegnir ekki bara því hlutverki að flytja fólk til og frá Eyjum því allar okkar nauðsynjar koma daglega með skipinu. Miðað við veðurspá gæti svo farið að nokkuð margar ferðir falli niður á næstu dögum.
Á maður að fara að hamstra?
Síðari ferð Baldurs felld niður | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | 14.9.2009 | 10:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Var að koma úr golfmóti Íslandsbanka hér í Eyjum. Frábært mót og þó ég sé örugglega orðinn þvöglumæltur eftir "tvö" rauðvínsglös þá heyrist það ekki á mér. Það sést kannski...
Ég varð í dag skuldsettari en ég hef nokkru sinni verið. Til hamingju með það. Öll erum við orðin svo skuldug að tæknilega séð er örugglega nálægt 65% þjóðarinnar orðið gjaldþrota.
Icesave er ömurlegt mál. Nöturlegt fyrir Jóhönnu og Steingrím að taka á. Þau hafa landað því, að mínu mati frekar illa. Ég hefði viljað fella samninginn og semja upp á nýtt.
En Samfylkingin og VG ákváðu að samþykkja Icesave og halda áfram. Framsókn var á móti. Hvað gerði Sjálfstæðisflokkurinn? Í einu stærsta máli frá upphafi lýðveldisins ákvað stærsti stjórnmálaflokkurinn frá stofnun lýðveldisins að sitja hjá !!! Taka ekki afstöðu. Geta sveiflast til og frá eftir því hvernig málin munu þróasta næstu misseri.
Ömurlegt.
Vindhanar.
Af hverju gátu forystumenn Sjálfstæðisflokksins ekki axlað sína ábyrgð og greitt með eða á móti frumvarpinu? Fyrir mína parta, þá er þetta léleg tík, þessi pólitík og sjálfstæðismenn á þingi eiga að axla sína ábyrgð.
Árni Johnsen greiddi atkvæði gegn Icesave, aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins tóku gunguna á þessu og sátu hjá.
Er það ekki svipað og þegar kjósandi skilar auðu?
Stjórnmálamenn eru alltaf að hvetja okkur smælingjanna til þess að gera það ekki.
Þeim ferst.
Stjórnmál og samfélag | 28.8.2009 | 22:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hver man ekki eftir umræðunni um hið nýja Ísland. Þannig fengum við sögulega endurnýjun á Alþingi. Nýr flokkur fékk brautargengi og nýjir frambjóðendur teknir alvarlega.
Við áttum að vera laus við dekstrið við auðvaldið. Tenginguna á milli fjármagns og stjórnmála. Stjórnmálamenn áttu að axla ábyrgð á gjörðum sínum...
Sigmundur Ernir er í partýi í boði MP Banka. Fær sér í glas. Fer svo niður á Alþingi mjúkur og ætlar að sinna vinnunni sinni og taka þátt í umræðum um eitt alvarlegasta mál Íslandssögunnar.
Skál Sigmundur.
Skál fyrir nýjum tímum.
Ætli honum hafi fundist jafn sjálfsagt að mæta í sína vinnu upp á Stöð 2 í glasi? Ætli vinnuveitendunum hans þar hafi fundist það?
Stjórnmál og samfélag | 26.8.2009 | 21:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Jón Kaldal ritstjóri Fréttablaðsins hefur með reglulega millibili haldið því að þjóðinni í gegnum snepilinn að í raun sé hrunið Íslendingum öllum að kenna en ekki einstaka útrásarvíkingum. Nota bene - ekki þeim sem borga honum laun og halda úti áróðursblaði sér til varnar.
Fljótlega eftir hrunið kenndi hann flatskjám um og nú segir hann þetta þjóðinni að kenna þar sem hún kaus yfir sig frjálshyggjuna. Þetta er viðhorf frænda okkar í Noregi ef marka má orð eins ráðherrans þar. Að við Íslendingar þurfum að bera ábyrgð á þeirri frjálshyggju sem ríkisstjórnir síðustu ára hafa reynt að koma hér á. Sú norska er í systurflokki VG þar í landi og auðvitað er frjálshyggjan ekki hátt skrifuð þar.
Í rauninni held ég að frjálshyggjan sé ekki heldur hátt skrifuð á Íslandi, eðlilega miðað við niðurstöðuna.
Hins vegar neita ég algjörlega að bera ábyrgð á fólki sem ég hef ekkert um að segja. Íslenska ríkið (ég og þú) seldum ríkisbankana. Það má deila um verðið og eigenduna og hvort helmingaskiptareglan var viðhöfð eða hvað þetta kallast allt en bankarnir voru seldir. Þar af leiðandi fluttist ábyrgðin frá gömlu eigendunum (frá mér og þér) til nýrra eigenda (Björgólfsfeðga, Ólafs Ólafs, Finn Ingólfs o.s.frv.)
Alla vega hefði það átt að vera svoleiðis.
Ef fyrirtæki er selt þá ber gamli eigandinn ekki ábyrgð ef sá nýji keyrir það í þrot.
Ábyrgðin væri öll okkar ef bankarnir hefðu verið áfram í ríkiseigu en svo var ekki. Þess vegna neita ég alfarið að taka undir með fyrrnefndum ritstjóra, Þorvaldi Gylfasyni og því miður, ríkisstjórn Íslands.
Við gátum ekki haft áhrif á fjármálastefnu bankanna síðustu árin. Við höfðum ekkert um þá að segja.
Það eru ekki margir sem tala máli okkar sem sitjum uppi með skömmina og skuldirnar. Ekki er það ríkisstjórnin sem setur frekari álögur og kvaðir á fólkið sem enn er ekki flutt úr landi. Ekki er það stjórnarandstaðan sem hefur meiri áhuga á að skora stig með því að klekkja á ríkisstjórninni en að koma með uppbyggilegar hugmyndir fyrir fjölskyldurnar og fyrirtækin í landinu.
Það er helst erlendir aðilar sem hafa kynnt sér málin og snúast til varnar fyrir okkur. Ömurlegt, svo ekki sé meira sagt.
Hrunið var ekki mér að kenna, þó ég eigi flatskjá.
Stjórnmál og samfélag | 21.8.2009 | 13:50 (breytt kl. 13:51) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Er óánægður með að það skuli aðeins þrjú þúsund manns mæta á samstöðufundinn. Hefði viljað sjá þessa tölu alla vega þrefalda. Enda er verið að reyna að þröngva upp á okkur þrælssaamning sem mun binda okkur í báða fætur næstu áratugina. Og ekki bara okkur, heldur börnin okkar líka.
Reyndar finnst mér að svona fundir eigi að vera um helgar en ekki á virkum dögum. Það býr ennþá stór hluti af þjóðinni úti á landi ef ske kynni að Egill Ólafs og félagar vita það ekki !! Við gætum mætt um helgar en við erum að vinna í miðri viku.
Lygar og ómerkilegheit núverandi ríkisstjórnar varðandi þennan samning eru með ólíkindum. Ég eiginlega átta mig ekki á hvaða málstað Jóhanna og Steingrímur eru að verja. Alla vega ekki minn málstað. Þau tala eins og ekkert annað komi til greina en að samþykkja þennan samning. Og hvað gerist í kjölfarið? HLUSTIÐ á þá sem hafa reynslu af slíkum samningum.
Ég hef það á tilfinningunni að eitthvað meira búi að baki. Við erum ekki búinn að heyra allan sannleikann í málinu. Þess vegna lítur Steingrímur Joð út eins og eymingi í öllum viðtölum, ekki eins og sá vígmóði rauðskeggjaði víkingur sem Íslendingum líkaði svo vel við hér fyrir nokkru.
Aumingja Jóhanna. Þetta er svo erfitt verkefni. Aumingja Jóhanna, hún tekur við á svo erfiðum tímum. Aumingja Jóhanna, hún er í vonlausri stöðu. Aumingja, aumingja, aumingja.
Verður kannski niðurstaðan: Jóhanna aumingi?
3000 á samstöðufundi InDefence | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | 13.8.2009 | 22:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Færsluflokkar
Tenglar
Heimsótt reglulega
Bloggvinir
Jan. 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | |||
5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 |
12 | 13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 |
19 | 20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 |
26 | 27 | 28 | 29 | 30 | 31 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar