Sjúkraflugið

Enn og aftur hafa embættismenn í Reykjavík ákveðið að skerða þjónustu sem við eigum rétt á. Líklega út af því að það leit betur út í excel skjalinu. Það var hægt að spara einhverjar krónur á því að "gambla" með sjúkraflugið.  Þvílík endemis vitleysa.

Hver ber ábyrgðina?  Ef svo illa vill til að einhver deyr á meðan beðið er eftir flugvélinni?

Segir það líka ekki eitthvað um virðingarleysið við okkur að framkvæmdastjóri Heilbrigðisstofnunarinnar var ekki einu sinni látinn vita af þessu?  Hann frétti þetta frá blaðamanni Frétta.

Vissi bæjarstjórnin af þessu?

Og hvernig bregðumst við við?

Eigum við kannski að fara upp á flugvöll og flauta? 


Bush og loftslagið

Ég horfði af athygli á þáttinn "60 minutes" í gær á Stöð 2. Hann fjallaði um hlýnun jarðar og viðbrögð við því.  Nú er ég langt frá því að vera einhver sérfræðingur í þessum efnum. Hef í sjálfu sér ekki nennt að setja mig inn í þessi mál en þátturinn í gær vakti mig til umhugsunar um framtíð jarðarinnar. 

Það var ansi svört mynd sem vísindamenn drógu upp af ástandinu.

En það sem vakti sérstaka athygli mína var ritskoðun Bush og félaga í Bandaríkjunum á skýrslum vísindamanna. Lýðræðisvörðurinn Bush lætur lögfræðinga fara yfir hvert einasta orð sem vísindamenn segja og breyta þannig að skýrslan sýni mun bjartari mynd en raunin er, samkvæmt vísindamönnum.

Og lögfræðingurinn sem um ræðir hætti svo í Hvíta húsinu og hvar fór hann að vinna? Jú, hjá Exxon olíufélaginu...

Kommúnisminn er líklega versti óvinur Bandaríkjamanna. Menn sem aðhylltust slíka hugsjón voru sendir fyrir sérstakan dómstól í USA. Sovétríkin voru verstu óvinirnir.

En mikið rosalega finnst mér Bush kominn nálægt kommúnismanum með þessari ritskoðun... 


Póstur og Sími, Landssíminn, Síminn hf, Míla ehf

Fyrir tæpum tuttugu árum byrjaði ég að vinna hjá Pósti og Síma. Mig minnir að verkstjórinn á þeim tíma hafi heitið Bjarni,  þó ekki alveg viss.  Það voru tíð skipti á yfirmönnum fyrstu misserin og ákveðin losaragangur á starfinu eftir að Sigurgeir heitinn hætti störfum.

Hann hafði verið verkstjóri hjá símanum í mörg ár og þekkti línukerfið út og inn. Oft var leitað til hans þegar þurfti að fá á hreint með strengi í jörðu og fleira í þeim dúr. Það kom oftar en ekki fyrir að meira var að marka hans minni en teikningar sem til voru. 

Við vorum nokkrir sem unnum þarna á þeim tíma. Þeim fjölgaði svo á sumrin starfsmönnunum og mörg verkefni ár hvert. Grafa upp, skipta út strengjum og laga aðra.

Í síðustu viku var tilkynnt um samstarfssamning Mílu ehf og Geisla. Um leið var það dásamað hversu góður samningur þetta er. Verið sé að gera starfssemi Mílu „straumlínulegri“  Einmitt og akkúrat.

Hvergi er minnst á að með þessum samningi er verið að leggja niður deild sem starfað hefur í Eyjum í marga áratugi. Línudeildin heyrir nú sögunni til.  Starfsmaður þess, góður vinur minn og bloggfélagi missir vinnuna.  Fimm manna fjölskylda sér fram á að þurfa jafnvel að flytja úr bænum út af þessum frábæra samstarfssamningi. Og ekki er ég viss um að þjónustan batni, með fullri virðingu fyrir Geislamönnum, enda erfitt að feta í fótspor Grétars.

 Hann er sá sem hefur komist næst Sigurgeir í kunnáttu um grunnkerfi Símans í Eyjum.

Eftir einkavæðingu Símans stefndi í þetta hægt og rólega.  Eftir að grunnnetið var tekið út úr starfsemi Símans og fært undir dótturfyrirtækið Mílu hefur þjónustan við landsbyggðina hægt og rólega verið slegin af.  Míla hefur sagt upp sínum starfsmönnum víðs vegar um landið og Vestmannaeyjar eitt síðasta vígið utan stór höfuðborgarsvæðisins.

Ég skil Geislamenn vel, auðvitað stökkva þeir á svona samning, enda eykur þetta veltu þeirra og líklega án þess að þeir þurfi að bæta við sig mannskap. Win/win situation eins og sagt er, fyrir þá.

Það er ekki langt síðan ríkisvaldið komst hjá því að efna loforð sitt um staðsetningu loftskeytastöðvar í Eyjum með því að kaupa burt einn starfsmann.  Svo var litið á þetta sem lið í nauðsynlegri hagræðingu, svo samskiptamiðstöðin í Skógarhlíð gæti eflst. 

Það væri gaman að sjá samantekt á samdrætti ríkisins í Vestmannaeyjum undanfarna áratugi. Mörg störf hafa horfið í höfuðborgina og lítið komið í staðinn.

Ég var fylgjandi sölu Símans á sínum tíma en vildi grunnetið út úr þeim pakka. Það átti að halda því sér.

En auðvitað var þetta ekki starf á vegum ríkisins. Það var búið að einkavæða þetta og þá er allt leyfilegt, í nafni hagræðingar. Við skulum samt ekki gleyma því að þegar svona grunnstarfsemi flyst í hendurnar á einkaaðilum verður viðhald í lágmarki. Það er sá staður sem fyrst er sparað á.

 
Það sjáum við best á þjóðveginum okkar...


Hvenær flutti ég aftur norður?

Maður er farinn að tala með norðlenskum hreim í öllum þessum snjó.

Það er margt sem Íslendingar setja samasemmerki við þegar talið berst að Vestmannaeyjum.  Rokið á Stórhöfða kemur þar sterkt inn, Þjóðhátíðin með öllum sínum sjarma, Árni Johnsen, lundinn og svo margt fleira. En yfirleitt dettur fólki ekki í hug snjóþyngsli enda stoppar snjórinn yfirleitt ekki lengi á Heimaey.

Síðustu tvær vikur hefur allt verið á kafi í snjó. Alla vega á Vestmannaeyskan mælikvarða. Ég er búinn að vera að bíða eftir almennilegri rigningu frá því í byrjun janúar.

En nú neyðist ég til að fara að moka helv.... tröppurnar.


Reykjavíkurfarsi

Farsinn í Reykjavík núna minnir um margt á ástandið í bæjarpólitíkinni í Eyjum á síðasta kjörtímabili.  Þá voru myndaðir þrír meirihlutar á tímabilinu, reyndar voru ekki fleiri möguleikar fyrir hendi en í Reykjavík á eftir að koma í ljós hvort þau slá metið.  Tveir bæjarstjórar sátu en það stefnir í fjóra í borginni.

Hættan á þessu er alltaf til staðar þegar inni í sveitarstjórnum eru „sólóistar“ Raunar finnst mér fáránlegt, hvað sem viðkomandi heitir að einn fulltrúi geti tekið ákvarðanir án þess að bera það undir varamann sinn eða baklandið.

Þannig var í Eyjum að fulltrúi framsóknar ákvað að slíta meirihlutasamstarfi sínu við Sjálfstæðisflokkinn í óþökk varamanns síns . Hún sagðist enn styðja gamla meirihlutann. Það kom aldrei til að á það reyndi, eftir því sem ég best veit, enda sat Andrés alla fundi. Reyndar þurfti að fresta einum vegna þess að hann var veðurtepptur...

Ári seinni slitu vinstri menn með Lúðvík Bergvins í farabroddi samstarfinu við Andrés og þá var bara einn leikur eftir í stöðunni. Samstarf vinstri og hægri. Það gekk eftir og aldrei hefur eins sterkur meirihluti starfað í Eyjum. Sex saman gegn einum í minnihluta.  Ætli slíkt hið sama gerist í Reykjavík á kjörtímabilinu, sjálfstæðismenn gefast upp á Ólafi (eða öfugt) og sterk stjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar verði mynduð? Sé það reyndar ekki gerast en ekki átti ég von á samstarfi Arnars og Lúðvíks á sínum tíma...

Það var svolítið kímlegt að hlusta á tjarnarkvartettinn í gærkvöldið.  Björn Ingi talaði um farsa, Margrét (varamaðurinn) sagðist ætla að fella meirihlutann um leið og hún hefði tækifæri til, Svandís var sár, það sást og Dagur B talaði um ósannindi og lýsti deginum og samskiptunum við Ólaf.  Það var svolítið hlægilegt að heyra Dag tala um svik, að segja ósatt og fleira í þeim dúr.  Fyrir rétt rúmum 100 dögum var hann í sömu stöðu og Vilhjálmur var í gær. Dagur sat við hliðina á Björn Inga þegar fyrri meirihlutinn sprakk og Björn var alltaf á leiðinni á fund til þeirra en kom aldrei. 

En á meðan lögin eru svona vitlaus getur einn maður tekið sig til og myndað meirihluta hægri vinstri. Ólafur er í fullum rétti og ef einhver efast um það getur sá hinn sami fengið upplýsingar úr Eyjum hvernig þetta virkar. Ólafur má ekki skipta um varamann (úrskurður félagsmálaráðuneytis fyrir því), hann þarf ekki að bera þetta undir neinn og ekki er hægt að fara fram á nýjar kosningar.

Eyjamenn – frumkvöðlar í svo mörgu Grin


Það hefur fallið dómur

Nýverið hafa fallið tveir dómar sem snerta Eyjamenn nokkuð. Annars vegar nýlegur dómur mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna um kvótakerfið og hins vegar dómur héraðsdóms Suðurlands um akstur um borð í Herjólfi. 

Svolítið langt á milli þessara dómstóla...

Þetta er athyglisverður dómur um kvótakerfið og spurning hverjar afleiðingarnar verða. Ég spái nú að þær verði ekki miklar en samt sem áður hljóta menn að skoða málin í kjölfarið. En hversu sanngjarnt er það gagnvart þeim fjölmörgu sem fjárfest hafa í aflaheimildum síðan kerfið var sett á?  Ég held að það sé ekki hægt að umturna kerfinu. En það kemur nú allt í ljós.

Hinn dómurinn snýst um mann sem færði bíl sinn um borð í Herjólfi. Hann var réttindalaus og kærður fyrir það. Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að þetta væri líkt og að keyra bíl á þjóðvegum landsins þar sem Herjólfur er talinn þjóðvegur. Þetta kemur fram hjá honum Júlla Vaktmanni í dag.

Þar höfum við það.  

Yfirleitt halda stjórnmálamenn þessu á lofti rétt fyrir kosningar eða þegar þeir vilja skora stig í umræðunni en þegar á hólminn hefur verið komið þá vilja nú fæstir stjórnarmenn þessa þjóðar kannast við þetta. Skemmst er að minnast ummæla Vegagerðarinnar að það sé hreinlega ekki þeirra mál að halda úti samgöngum við Vestmannaeyjar. Mátti lesa það út úr ummælunum að þessi rekstur væri nú af hreinni góðmennsku haldið úti fyrir eymingjanna í Eyjum.

Spurning hvort þetta breyti einhverju í viðhorfi embættismanna?

Nei, ætli það... 

 


Houllier vs Benitez

Það má segja að það að vera Liverpool aðdáandi þessa dagana sé erfitt. Árangurinn lætur á sér standa þrátt fyrir stórar upphæðir sem eytt hefur verið í leikmenn. Hins vegar hefur Benitez staðið sig ágætlega í að fá peninga fyrir leikmenn líka þannig að þegar upp er staðið kemur hann ágætlega út. Hins vegar er ég farinn að efast um að bandarísku eigendurnir eigi eins mikinn pening og þeir vildu vera láta í upphafi. Eða að þeir vilji ekki að Benitez eyði þeim...

Eftir hörmulegan leik gegn Wigan um síðustu helgi fór ég að skoða árangur Benitez og síðasta framkvæmdastjóra á undan honum, Gerard Houllier.  Það er skemmst frá því að segja að árangur Houllier er mun betri þegar litið er á ensku deildina.  Það er umhugsunarvert...

Eitt eiga þeir félagar þó sameiginlegt. Hvorugum hefur tekist að sigra það lið sem síðar verður meistari hvert tímabil. Í raun hefur Liverpool aðeins tekið eitt stig af verðandi meisturum. Það gerði Gerard Houllier árið 2001 með jafntefli gegn Arsenal.  Ég tók þrjú tímabil á hvorn framkvæmdastjóra. Byrjaði 2001 og endaði á síðasta tímabili. Upphafstímabil Houllier er því ekki inn í þessu né það tímabil sem nú er í gangi.

Gerard Houllier náði sigri í 59 leikjum, 32 jafntefli og 23 töp. Samtals 209 stig.

Rafael Benitez náði sigri í 58 leikjum, 21 jafntefli og 31 tap. Samtals 195 stig.

Þegar litið er á efstu fimm lið hvert ár náði Houllier góðum árangri árið 2001 en þá tók hann 16 stig gegn efstu liðunum. Liverpool endaði í 2. sæti það ár. Næsta ár á eftir voru stigin aðeins 6 sem náðust gegn toppliðunum og 2003 einnig 6 stig.

Benitez náði 6 stigum á sínu fyrsta tímabili, 7 stigum á því næsta en 12 stigum í fyrra.

Hins vegar hefur Benitez gengið mun verr gegn lélegustu liðum deildarinnar ár hvert. 

Houllier náði 28 stigum gegn fimm neðstu liðunum 2001, 28 stigum 2002 og 20 stigum 2003. (mest 30 stig)

Benitez náði 22 stigum 2004, 26 stigum 2005 og 23 stigum í fyrra.

Það er alltaf viss eftirvænting gegn ákveðnum liðum. Þannig er hjá mér mesta eftirvæntingin í leikjum gegn Everton, Man.Utd., Chelsea og Arsenal. Í þessari röð.  Hvernig ætli þeim hafi gengið gegn þessum liðum?

Everton - Gerard Houllier tapaði ekki borgarslag þessi þrjú tímabil. Þrír sigrar og þrjú jafntefli. Benitez hefur aftur á móti tapað tvisvar fyrir Everton, gert eitt jafntefli og sigrað þrívegis. Houllier hefur betur þar.

Man.Utd. - Houllier var með 50% árangur gegn erkifjendunum, þrír sigrar og þrjú töp. Benitez hefur hins vegar aldrei sigrað Man.Utd. í deildinni, gert eitt jafntefli en tapað fimm. Aftur vinnur Houllier.

Chelsea - Aftur 50% árangur hjá Houllier en Benitez náði aðeins einum sigri en fimm töp. Hörmung hjá Benitez og aftur vinnur Houllier.

Arsenal - Houllier náði ekki að sigra Arsenal þessi þrjú tímabil. Þrjú jafntefli og þrjú töp. Hins vegar gengur Benitez mun betur með Arsenal en hin liðin. Hann hefur náð 50% árangri. Loks vinnur Benitez.

Samtals hefur Houllier því 33 stig gegn helstu keppinautum okkar en Benitez 23 stig.

Nú veit ég ekki hvort nokkur hafi gaman af þessari tölfræði. Sjálfur tók ég þetta saman til þess að sjá hvaða framfarir liðið hefur tekið undir stjórn Benitez.  Þarna er ég eingöngu að líta á deildina. Það er vitað mál að Benitez hefur náð frábærum árangri í bikarkeppnum en árangur í deildinni er til skammar. 

Deildin var sett í forgang í ár. Niðurstaðan þegar mótið er hálfnað. 5. sæti, 13 stigum frá toppsætinu og enn eitt árið er hægt að útiloka sigursælasta knattspyrnulið Englands frá titlinum um jólin.

arg.... 


Viðbót við knattspyrnumenn úr Eyjum

Sigurvinsson1128Það er ekki annað hægt en að bæta nokkrum línum við varðandi knattspyrnusnillinga úr Eyjum. Gilli Foster bendir réttilega á í athugasemd hér fyrir neðan að það vantar nágranna minn og aðstoðarskólastjórann, Sigurlás Þorleifsson í þessa upptalningu. Eins samdi Sigurvin Ólafs við Stuttgart á sínum tíma og á því réttilega að vera á þessum lista. Þar með eru 9 Eyjamenn komnir á listann.

En frægasti knattspyrnumaður Vestmannaeyja, Ásgeir Sigurvinsson er ekki á listanum. Ástæðan er sú að ég tók leikmenn frá 1980 en hann fór út nokkrum árum áður. Hins vegar náði ferillinn hans vel yfir þessa dagsetningu. Viggi í Íþróttamiðstöðinni benti mér réttilega á þetta og þakka ég honum góða ábendingu.  Það er í sjálfu sér hálf asnalegt að tala um knattspyrnumenn úr Eyjum og minnast ekki á þann besta. 

Viggi vildi líka að það kæmi skýrt fram að Ásgeir væri úr Lautinni...Grin

Talandi um Lautina og aðstöðuna. Ég hef lesið nokkrar greinar um fyrri tíma hér úr Eyjum og oft er þar minnst á Lautina. Þar var paradís ungra peyja og spilaður fótbolti þar frá morgni til kvölds.  Ég er ekki frá því miðað við lýsingar að Lautin hafi á sínum tíma verið ein besta aðstaða til knattspyrnuiðkunar á landinu. Iðagrænt grasið og skjólið ofan í Lautinni.

Lautin var knattspyrnuhús þeirra tíma...Smile


Knattspyrnumenn ársins úr Eyjum, hvað með framtíðina?

f693837c03d1d387f439ea1403bbf2a9_margretlara_hermannÞað var gaman af því að knattspyrnumenn ársins, bæði í karla og kvennaflokki skyldu vera Eyjamenn. Hermann átti nafnbótina svo sannarlega skilið, enda búinn að standa sig gríðarlega vel, hvort sem það er með Charlton/Portsmouth eða íslenska landsliðinu. Sannarlega fyrirmynd. Margrét Lára ber höfuð og herðar yfir íslenskar knattspyrnukonur, slær markametið tvö ár í röð í efstu deild og hefur raðað inn mörkum með landsliðinu.

Ég held að ég sé eins og margir aðrir Eyjamenn. Við fylgjumst með hvernig „okkar fólki“ gengur þó þau séu farin í annað lið.  Við erum stolt af árangri þeirra. Jafnvel montin.

Ég tók að gamni mínu saman hvaða leikmenn hafa spilað A-landsleiki frá 1980 og farið út í atvinnumennsku. ÍBV á þar sjö leikmenn. Eru í þriðja sæti yfir liðin. Aðeins ÍA og KR eiga fleiri atvinnumenn á þessu tímabili.  Valur á jafnmarga en fyrir neðan ÍBV eru lið eins og Fram, Keflavík, Breiðablik, FH, Fylkir, Grindavík, Stjarnan, Víkingur og Þór Akureyri.

Þessir sjö leikmenn eru: Títtnefndur Hermann Hreiðarsson, Gunnar Heiðar Þorvaldsson, Tryggvi Guðmundsson, Hlynur Stefánsson, Örn Óskarsson, Ívar Ingimarsson og Sverrir Sverrisson sem var áður með Leiftri.  Svo fór Birkir Kristinsson í atvinnumennsku frá Fram en hann ólst hér upp og fékk sitt knattspyrnulega uppeldi í Eyjum.  Fleiri snillingar hafa komið frá Eyjum og of langt mál að telja það upp hér en mergur málsins er sá að það hefur verið gott að fá sitt íþróttauppeldi í Eyjum.

Nú eru uppi hugmyndir um að fresta byggingu knattspyrnuhúss. Fresta því um eitt ár og fá fjármagn inn í ÍBV til að mæta erfiðum rekstri.  Það er vitað mál að reksturinn er erfiður og ekkert einhverju einu um að kenna. Óþarfi að fara í hártoganir um slíkt.

Ég hef fulla samúð með stjórnarmönnum hjá ÍBV sem þurfa að mæta þessum rekstri og finna leiðir en mín skoðun er sú að þetta er ekki rétta leiðin. Knattspyrnuhúsið á að rísa.

Aðstaðan er gríðarlega mikilvæg.  Þegar Hemmi Hreiðars, Tryggvi, Venni, Bjarnólfur og fleiri snillingar voru að alast upp í Eyjum litu önnur lið öfundaraugum til Eyja. Hér voru fjórir grasvellir og aðstaðan sú besta á landinu.  Síðan höfum við dregist aftur úr. Knattspyrnuhús hafa risið víða og öll lið utan tvö að ég held í efstu tveimur deildunum á Íslandi (24 lið) hafa æfingaaðstöðu í knattspyrnuhúsum.

Við sitjum orðið eftir. Það er staðreynd.  Hemmi Hreiðars framtíðarinnar, Margrét Lára næstu kynslóðar hafa ekki aðstöðu til að taka framförum líkt og jafnaldrar þeirra. Auðvitað stendur ekki allt og fellur með húsinu en það hefur mikil áhrif.  Krakkar hafa aðstöðu til að vera í handbolta og körfubolta allt árið. Ekki fótbolta. Í dag eru fótboltaæfingar allan ársins hring. 

Umræðan hefur verið fjörug á heimasíðu ÍBV og þar sýnist sitt hverjum. Eins var góður pistill frá Kela, en hann tók skóflustunguna að nýju húsi síðasta haust.  Sú athöfn vakti athygli og menn urðu bjartsýnir fyrir hönd knattspyrnunnar.

Knattspyrnuhúsið er ekki byggt fyrir meistaraflokk. Húsið er fyrst og fremst byggt fyrir börnin okkar. Þar eru Hemmi og Margrét Lára framtíðarinnar.

 (myndina fékk ég að láni hjá fotbolti.net)

 


Hvað lognið getur nú farið hratt yfir ...

Það hvín svolítið í hjá mér þessa dagana. Fjölskyldan tók upp á því nýverið að flytja úr austurbænum og upp í skeifu. Nánar tiltekið upp á Smáragötu og er ég því kominn á æskuslóðir. Ég var mjög ánægður með þessar breytingar, enda vanur veðráttunni hérna uppfrá. Hinsvegar brá konunni svolítið við fyrstu hvellina. Ég sagði henni kokhraustur að þetta veður kæmi nú afar sjaldan. Það væri auðvitað vindsamara svona ofarlega í bænum en þú færð útsýnið í staðinn (sem er ómótstæðilegt)

Síðan hafa hvellirnir orðið nokkuð margir og við höfum fengið hviður fyrir allan peninginn...

Í dag hafa verið stöðugar fréttir af óveðrinu sem gengið hefur yfir landið. Bein útsending úr Skógarhlíðinni þar sem höfuðstöðvar björgunarsveitanna eru. Skipt í vesturbæinn, upp í Breiðholt og út á Nes. Allt að gerast, þak að fjúka, tré að brotna og lausamunir út um allt fjúkandi. Dramatíkin rosaleg. Fréttamenn út um víðan völl, ná varla að standa í lappirnar þar sem þeir öskra í míkrafóninn til að það heyrist eitthvað í þeim. Og svo fór IKEA að leka. 

Þau eru ekki vön því að lognið fari svona hratt yfir.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband