Færsluflokkur: Bloggar

Hvað er hægt að byggja á sandi?

Undirskriftasöfnunin sem er í gangi núna undir léninu strondumekki.is er athyglisverð. Fyrir það fyrsta finnst mér þetta heldur seint komið fram enda búið að taka ákvörðun um Bakkafjöru og verður vonandi ekki stöðvað úr þessu. 

Hins vegar finnst mér athyglin sem síðan og sú skoðun sem henni fylgir hefur fengið mjög athyglisverð svo ekki sé meira sagt. Þarna er sama skoðun og hópur manna hér í Eyjum hefur haldið á lofti í langan tíma án þess að hljóta verðskuldaða athygli fyrir. En nú hefur andstæðingum Bakkafjöru borist öflugur liðsauki í formi þekktasta Eyjamannsins í dag, Magga Kristins. 

Og þá taka allir helstu fjölmiðlar við sér og segja frá.  Af sjö fréttum á eyjafréttum núna fjalla 5 um Bakkafjöru.  Búið er að segja frá fjölda undirskrifta, líkt og um kosningavöku væri að ræða.

Þetta segir mér það að á Íslandi skiptir máli hverjir tala, ekki hvað er sagt.

Ég hef alltaf verið fylgjandi því að láta fagmönnum eftir verkið og treysta á íslenska verkfræðikunnáttu. Líkt og gert var við Hvalfjarðargöngin sælla minninga. Ég get ekki sagt að Bakkafjara sé vonlaus, til þess hef ég enga kunnáttu. Né heldur get ég sagt að þetta sé víst hægt.  Sömu rök og áður.

Björn Jóhann Guðjohnsen skrifar grein í Fréttir sem komu út í gær. Þar minnist hann á höfnina í Laayone í Marokkó sem hann þekkir af eigin raun. Hann segir Landeyjasand eins og sandkassaleikvang fyrir lítil börn í samanburði. Eins minnist hann á Dubai.  

Hvað er annars hægt að byggja á sandi? 


Bakkafjöruhöfn

Hún er athyglisverð deilan sem virðist risin milli nágrannana hér í Eyjum og upp í Rangárþingi. Um eignarhald á Landeyjahöfn. 

Heldur finnst mér dapurt hjá grönnum okkar að svíkja fyrri orð sín um eignarhald og krefjast nú meirihlutaeigu.  Meira að segja hef ég séð skrifað af íbúum þar að ekkert nema eðlilegt væri að Rangárþing eystra ætti höfnina 100%. 

Ríkið ætlar því að eiga höfnina.  Er það vænlegt?

Svo spyr ég hvort það sé sanngjörn krafa hjá okkur að vilja ráða höfninni þar?  Hún er ekki í okkar sveitarfélagi og í raun væri þetta svipað og við færum fram á eignarhald í Þorlákshöfn, eða hvað?

Hins vegar er alveg ljóst að það eru miklir hagsmunir hjá okkur varðandi þessa höfn.  Við sjáum það vel í rekstrarformi Herjólfs í dag að það er bölvanlegt að forræðið færist suður. 

 


Búinn að moka mig út á götu en ...

...lengra kemst ég nú ekki. 

Selma Björt ákvað að fara út að leika sér en það entist ekki lengi enda skaflarnir fyrir utan tvöföld stærð hennar.

 

 


Innilokaður í efri byggð

P4101970Ja hérna...

Einn af kostum þess að búa í Vestmannaeyjum er hversu snjólétt er hér yfir vetrarmánuðina. Undantekningin sem sannar regluna er akkúrat núna.  Þvílíkt og annað eins.  Hér sitjum við fjölskyldan innilokuð upp á Smáragötu og komumst ekki neitt.

Vindáttin er þannig að það fýkur upp að hurðinni.  Á tröppunum hér fyrir utan er hátt í tveggja metra hár skafli.  Það hefur ekki sést bíll á ferð hér í efri byggð í allan dag, enda kæmist sá bíll ekki langt. Lánsbíllinn sem við erum á er kominn á kaf. 

Sá fáheyrði atburður gerðist að messufall varð í Landakirkju.  Það tekst ekki að koma fólki til og frá vinnu á Sjúkrahúsinu.  Björgunarfélagið kemst ekki leiðar sinnar. 

Og enn er að snjóa. 

Í ágætu bloggi Einars Sveinbjörnssonar veðurfræðings síðan í morgun kemur fram að Óskar og félagar upp á Stórhöfða hafi mælt 50 sm snjódýpt klukkan 9 í morgun. Það hefur snjóað mikið síðan...

Hvar endar þetta eiginlega...

Myndin var tekin út um útidyrnar hjá okkur, lengra komst ég ekki. Wink


Eitt gjald lækkar, annað hækkar

HerjolfuroggongSíðan bæjarstjórn Vestmannaeyja gerði þau regin mistök að afsala sér neitunarvaldi vegna hækkunar fargjalda Herjólfs hafa fargjöldin tvívegis verið hækkuð.  Nú kostar 17.500 krónur 40 eininga kort og nemur hækkunin núna 8%.

Þessar fréttir bárust okkur í auglýsingu í Fréttum í síðustu viku. Á forsíðunni var frétt um yfirvofandi loðnuveiðibann sem varð að veruleika sama dag.

Í þau tvö skipti sem Eimskip hefur ákveðið að hækka fargjöldin í Herjólf hefur borist tilkynning frá rekstraraðilum Hvalfjarðargangana um lækkun.  Í fyrra skiptið úr 1000 krónum í 900 krónur og nú í 800 krónur.  

Flott mál að hægt sé að bjóða upp á lægri gjöld í Hvalfjarðargöngin. Sumir tala fyrir því að hafa þau gjaldfrjáls.  Hluti af þjóðvegakerfinu segja menn og hrópa réttlæti fyrir íbúa Vesturlands. 

Þarf ekki að fara fram umræða um þjóðvegakerfi okkar Íslendinga og hvað tilheyrir því og hvað ekki?  Er Hvalfjörðurinn enn skilgreindur sem hluti af Þjóðvegi nr. 1 eða hafa Hvalfjarðargöngin verið skrifuð þar inn.  Hreinlega veit það ekki.

En ég veit það þó að staðfesting hefur borist um að Herjólfur er hluti af þjóðvegakerfi okkar Íslendinga. Samt er ekkert mál að hækka fargjöldin á þá leið.  Ekki einn þingmaður hefur opnað á sér kjaftinn og bölsóttast yfir þessari hækkun.  Varaþingmaður Frjálslyndra skammar bæjarstjórann í Eyjum !!

Hækkun fargjalda + loðnubrestur = áframhaldandi fólksflótti frá eyjunni fögru

Kannski spurning um að kíkja aðeins nánar á hugmyndina um fríríkið ? 

Þá legg ég til að við gerum Braga Ólafs að forseta.  


mbl.is Veggjald í Hvalfjarðargöngum lækkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Auglýsing

Er fólk í alvöru að fetta fingur út í auglýsingaborðann hér við hliðina. Frá Nova?

Ekki fæ ég séð að þetta sé fyrir mínum texta eða trufli mína síðu á neinn hátt og tel ekkert nema eðlilegt hjá forsvarsmönnum mbl.is að reyna að fá inn pening á bloggsíður sínar.

Ég nýti mér þjónustu þeirra frítt og finnst fullkomlega eðlilegt að þeir nýti sér heimsóknir á bloggsíður sínar til að selja auglýsingar.

 


Skaðinn er skeður

Það hefur verið athyglisvert að fylgjast með vandræðum sjálfstæðismanna í borginni. Hægt og rólega hefur flokknum tekist að missa alla tiltrú, bæði með framgöngu forystumannsins sem hefur gerst sekur um ótrúlegt dómgreindarleysi. Þessi reyndi stjórnmálamaður.

Eins hefur þögn sexmenningana ekki hjálpað. Greinilega tekin ákvörðun þar að bakka út og láta Villa taka skellinn.

Vilhjálmur hefur ekki marga kosti í stöðunni. Hann getur setið sem fastast, tekið við borgarstjórastólnum eftir ár en það mun verða Sjálfstæðisflokknum dýrkeypt.  Eins getur hann ákveðið að sitja áfram sem borgarfulltrúi en stíga niður sem leiðtogi. Það yrði ekki gott fyrir flokkinn, enda hefur Villi skaðast mikið á síðustu misserum. Mun meira eftir Kastljós þáttinn sem í rauninni gekk frá hans möguleikum á "comeback"  Í þriðja lagi getur hann ákveðið að hætta alveg.  Alveg sama hver niðurstaðan verður kemur flokkurinn virkilega skaddaður út úr þessu öllu saman.

En eru aðrir flokkar og borgarfulltrúar stikkfrí?  


mbl.is Samfylkingin stærst allra flokka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óttaleg vitleysa er þetta

handboltiSá í dag frétt mbl.is um handboltaleik Stjörnunnar og ÍBV.  Fyrirsögnin segir svolítið mikið um fáránleika fréttamannsins. Hann hefur tekið afstöðu með varnarmanni Stjörnunnar sem hefur verið duglegur að benda á þetta atvik sem árás og þaðan af verra. Ég var að sjá þetta í fyrsta skipti í dag en hafði heyrt af þessu.

Miðað við lýsingarnar sem ég hafði heyrt, mest frá leikmanni Stjörnunnar þá slátraði leikmaður ÍBV honum og aldrei hef ég heyrt annað en þarna hafi verið um beina árás að ræða.

Eftir að hafa horft á þetta, aftur og aftur og aftur, get ég ekki séð þessa árás. Vissulega fær leikmaður Stjörnunnar högg í andlitið en að halda því fram að leikmaður ÍBV hafi vísvitandi slasað hann er þvílík firra.  Hvet fólk til að horfa á þetta.

Hafið þá í huga að þarna er línumaður ÍBV að spila fyrir utan, ekki beint staða sem hann er vanur að spila en ÍBV er einum færri á þessum tímapunkti. Hann tekur gabbhreyfingu og rekur olnbogann í andlit varnarmannsins um leið og hann kemst fram hjá honum.

Horfið líka á viðbrögðin á bekknum hjá Stjörnunni.  Engin viðbrögð.

Ég er reyndar sammála því að það ætti að vera hægt að dæma eftir myndbandsupptökum. Það er eðlilegt í nútíma handbolta. 

En hefði ekki verið eðlileg blaðamennska að leita viðbragða leikmannsins sem á þarna í hlut, í staðinn fyrir að hlusta einhliða á mál Stjörnuleikmannsins. Hann er meira að segja með myndband af þessu á Youtube.  

Finn til með honum, hann slasast þarna illa en er þetta ekki eitthvað sem getur gerst í handbolta. Þetta er íþrótt þar sem harkan er í fyrirrúmi og mörg "kjaftshöggin" í hverjum leik.  


mbl.is Lögleg brot ef enginn sér?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Breytingar á bloggi

P3151889Ég var orðinn þreyttur á gamla lúkkinu. Ákvað að breyta til. Fannst þetta ágætis tímapunktur. Við hjónin vorum að eignast okkar þriðja barn og ég að verða faðir í fjórða sinn. Við vorum af þeim sökum í Reykjavík alla síðustu viku.

Peyjinn sem kom í heiminn þann 5. febrúar var 12 merkur og 50 cm. Lítill en ákveðinn... eins og mamman Wink

Við vorum búin að ákveða að fara heim á laugardaginn síðasta. Ég með Herjólfi um kvöldið þar sem við vorum á bíl og hún með flugi seinnipartinn.  Eftir stórviðrið á föstudaginn var ákveðið að fella niður báðar ferðir Herjólfs. Þannig að ég komst ekki með bílinn en við komumst öll heim með flugi. 

Hef verið að velta fyrir mér hvort eitthvað hafi breyst í ákvörðunartökum varðandi Herjólf? Nú var tekin ákvörðun um það á föstudaginn að fresta báðum ferðunum á laugardag. Var sú ákvörðun tekin eftir veðurspá en svo var flugfært allan daginn.  Ég geri mér grein fyrir því að sjórinn er oft lengi að jafna sig eftir slík stórviðri og kannski var þetta hárrétt ákvörðun.

En ég spyr mig, hefur kröfunum verið breytt eitthvað?  Mér finnst ferðir falla mun oftar niður nú en áður.  Er búið að herða á reglunum, treysta þeir skipinu ekki eins vel, er erfiðara að komast inn í Þorlákshöfn nú en áður eða hvað?

Læt hér fylgja mynd af nýjasta fjölskyldumeðliminum...

ps - breytt útlit hefur ekkert með gengi Liverpool að gera... 


Sjúkraflugið

Enn og aftur hafa embættismenn í Reykjavík ákveðið að skerða þjónustu sem við eigum rétt á. Líklega út af því að það leit betur út í excel skjalinu. Það var hægt að spara einhverjar krónur á því að "gambla" með sjúkraflugið.  Þvílík endemis vitleysa.

Hver ber ábyrgðina?  Ef svo illa vill til að einhver deyr á meðan beðið er eftir flugvélinni?

Segir það líka ekki eitthvað um virðingarleysið við okkur að framkvæmdastjóri Heilbrigðisstofnunarinnar var ekki einu sinni látinn vita af þessu?  Hann frétti þetta frá blaðamanni Frétta.

Vissi bæjarstjórnin af þessu?

Og hvernig bregðumst við við?

Eigum við kannski að fara upp á flugvöll og flauta? 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband