Samfylkingin vill fjarlæga sig frá öfgum Frjálsyndra (eða hluta flokksmanna) í innflytjendamálum. Það tel ég rétt hjá þeim og er sammála Ágústi um það að á meðan þessi öfl eru ríkjandi innan Frjálslyndra geta þeir ekki verið vænlegir samstarfsaðilar í ríkisstjórn.
Þetta er ekki sami Frjálslyndi flokkurinn og var í framboði fyrir fjórum árum. Hann hefur breyst í hálfgerðan öfgaflokk. Það líst Íslendingum ekki á, alla vega ef marka má skoðanakönnun Fréttablaðsins í morgun. Frjálslyndir eru að þurrkast út af þingi. Ætli Jón Magnússon og Magnús Þór breyti eitthvað um gír í kjölfarið?
Annars þarf að ræða innflytjendamál á skynsaman hátt. Hætta þessu öfgarugli sem oft skekur umræður á Íslandi um einstaka mál. Til dæmis umhverfismál. Að halda því fram líkt og Jón gerir að útlendingar séu að fremja glæpi og ýja að því að þeir séu líklegri til þess er náttúrulega fáránlegt.
Ég veit ekki hvað er til í því en stundum hefur verið sagt að blöðin hafi komið því skilmerkilega á framfæri ef "brotamaður" sem sagt var frá hafi ekki verið úr sinni sveit. Þannig hafi fréttirnar iðulega endað á: "Þess má geta að um aðkomumann var að ræða"
Fyrir mér er brotamaður brotamaður, burt séð frá því hvaðan hann/hún (gæta jafnréttis) er.
Telur skoðanir oddvita frjálslyndra ekki góðan grundvöll til samstarfs | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | 25.3.2007 | 15:11 (breytt kl. 15:12) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Enn eru Vinstri grænir að stækka og fylgjendum Steingríms og félaga fjölgar dag frá degi. Spurning hvort nýtt framboð umhverfissinna með Ómar og Margréti muni skaða stórsókn vinstri manna á Íslandi. Það yrði nú kaldhæðnislegt, sérstaklega í ljósi þess að þau tilgreina sig sem umhverfissinnaðan hægri flokk.
Var að kíkja á Gallup/Capacent könnunina og niðurstöður varðandi kjördæmið mitt. Miðað við nýjustu könnun verða eftirtaldir þingmenn mínir 13. maí 2007:
Árni Mathiesen (D)
Árni Johnsen (D)
Kjartan Ólafsson (D)
Björgvin G. Sigurðsson (S)
Lúðvík Bergvinsson (S)
Róbert Marshall (S)
Atli Gíslason (V)
Alma Lísa Jóhannsdóttir (V)
Guðni Ágústsson (B)
Grétar Mar Jónsson (F)
Það sem vekur strax athygli er kynjaskiptingin, 9/1. Ekki beint það sem menn hefðu kosið miðað við umræður síðustu missera...
Stjórnmál og samfélag | 23.3.2007 | 16:11 (breytt kl. 16:59) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Það er afskaplega pirrandi þegar mikill ruslpóstur kemur á netfangið hjá manni. Þessu hendir maður út án þess að kíkja á það. Hvernig ætli þingmenn Íslands taki ruslpóstinum sem berst frá heimasíðu Framtíðarlandsins? Samkvæmt landslögum er ólöglegt að senda "spam" eða dreifipóst. Verður kært?
Annars er ég hjartanlega sammála Agli Helgasyni sem sagði í Ísland í dag í gær að þetta leyfðist þeim þar sem þetta er "góða" fólkið. Það má allt. Það væri allt farið á hliðina í þjóðfélaginu ef virkjunarsinnar væru að senda "spam" til að hvetja til frekari virkjana.
Grátt eða grænt. Svart eða hvítt. Stopp eða start. Þetta er ekki svona einfalt. Eins verð ég að taka undir með vonardreng Framsóknar, Birni Inga. Hver borgar þessi ósköp hjá Draumalandinu. Samtök sem eru í bullandi pólitík geta framleitt rándýrar sjónvarpsauglýsingar og komið áróðri sínum á framfæri án frekari spurninga á meðan búið er að takmarka það fjármagn sem stjórnmálaflokkar mega setja í slíkt. Er það sanngjarnt?
Stjórnmál og samfélag | 22.3.2007 | 10:46 (breytt kl. 15:34) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fyrir skömmu var haldinn fjölmennur baráttufundur Vestfirðinga á Ísafirði. Meginmálið voru skiljanlega atvinnumál en líkt og mörg önnur svæði á landsbyggðinni eiga Vestfirðir undir högg að sækja í þeim málum. Fundurinn vakti verðskuldaða athygli og ríkisstjórn Íslands var fljót að bregðast við. Þó ekki með beinum hætti, heldur viðurkenna vandann og lofa bót og betrun.
Það vakti athygli mína hversu mikla umfjöllun fundurinn fékk. Ekki að athyglin hafi ekki verið verðskulduð, heldur hitt að víða um land, þar á meðal hér í Eyjum hafa verið haldnir borgarafundir þar sem brýnustu mál eru rædd en þeir fundir hafa ekki verið fyrstu fréttir beggja fréttastöðva. Vestfirðingar eru einfaldlega snillingar í að koma sínum málum á framfæri.
Ég heyrði haft eftir þingmanni VG að vandi Vestfirðinga væri fyrst og fremst sá að búið væri að taka af þeim helsta lífsviðurværið, fiskinn í sjónum. Það hefur lengi verið hrópað "helvítis kvótakerfið" fyrir vestan og allt sem miður fer í þjóðfélaginu hefur verið kvótakerfinu að kenna. Mín skoðun er sú að kvótakerfið er ekki helsta vandamál byggða landsins heldur fábreytt atvinnulíf og borgarstefna ríkisins.
Eyjamaðurinn Grímur Gíslason bendir réttilega á að fólksfækkun á Ísafirði er mun minni síðustu ár en í Vestmannaeyjum. Hvað hefur gerst á sama tíma? Jú, útgerðir í Eyjum hafa stóraukið aflaheimildir sínar. Vinnslustöðin, Ísfélagið, Magnús Kristinsson og útgerð Þórunnar Sveinsdóttur VE svo einhverjir séu nefndir. Kvótastaða útgerða í Eyjum hefur aldrei verið betri og stöndugar útgerðir blómstra. Heldur það atvinnulífinu gangandi?
Ó nei. Fiskvinnsla mun aldrei aftur halda heilu byggðunum á floti. Til þess hafa tækniframfarir orðið of miklar. Á síðustu sex árum, á sama tíma og útgerðir hafa fjárfest fyrir hundruð milljóna í aflaheimildum í Eyjum hefur íbúum fækkað um heil 10% !!! Nú veit ég ekki hvernig staða útgerða fyrir vestan hefur þróast síðustu ár en á síðustu sex árum hefur íbúum Ísafjarðar fækkað um 3%.
Ég held að menn verði að hætta að ræða um sjávarútveg sem einhverja alsherjarlausn á vanda landsbyggðarinnar. Kvótakerfið er komið til að vera og menn ættu að slá það út úr umræðunni fyrir kosningar. Meira að segja Frjálslyndi flokkurinn sem var stofnaður út af andstöðu við kvótakerfið sér sæng sína útbreidda og er búinn að finna sér annað mál...innflytjendamál til að leggja áherslu á.
Stjórnmál og samfélag | 21.3.2007 | 08:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Ég hef verið svolítið hugsi undanfarið yfir þeim fréttum sem berast úr skoðanakönnunum. Útlit er fyrir vinstri stjórn í sumar og þá undir forystu VG. Steingrímur Joð yrði forsætisráðherra.
Nú er ekki svo að ég telji hann ekki hæfan í þá stöðu. Þvert á móti, Steingrímur Joð er einn af reynslumestu stjórnmálamönnum okkar Íslendinga. Hann hefur einu sinni verið í ríkisstjórn, sat sem landbúnaðar- og samgönguráðherra. Þá var meðal annars tekin ákvörðun um byggingu nýs Herjólfs.
Hins vegar óttast ég þær skoðanir sem VG stendur fyrir. Grínlaust þá óttast ég þá öfgastefnu sem boðuð er. Bæði í umhverfismálum sem VG hefur tekið forystu í. Nú skal stoppa framkvæmdir og njóta þess að vera úti í náttúrunni. Þeir hafa meðbyr í umhverfismálum og má þakka þeim málaflokki hversu sterkur flokkurinn er.
Þær leiðir sem VG hefur boðað í jafnréttismálum hræða mig líka. Lögbinda jafna setu í stjórnum og fikta í lýðræðinu með því að setja í lög að jafnmargar konur og karlar sitji á þingi. Þetta eru öfgasjónarmið sem eiga engan veginn upp á pallborðið hjá mér. Raunar hefur mér fundist í mörgum tilvikum jafnréttisbaráttan farin að snúast upp í andhverfu sína og oft hreinlega verið að níðast á kynbræðrum mínum en kannski meira um það seinna.
Ögmundur vill bankanna úr landi. Alla vega væri honum slétt sama ef það yrði niðurstaðan. Steingrímur Joð vill netlöggu til að fylgjast með hvaða heimasíður íslenskir netnotendur heimsækja.
Ég veit hreinlega ekki hvernig ríkisstjórn væri best fyrir Íslendinga í dag. Kannski samsteypustjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Alla vega betri kostur en kaffibandalagið. Þá væru ekki bara öfgasjónarmið í umhverfis,- jafnréttis og öryggismálum. Nei, þá bættust við öfgasjónarmið Frjálslynda í innflytjendamálum.
Nei takk.
Stjórnmál og samfélag | 19.3.2007 | 09:26 (breytt kl. 10:54) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Vinur minn Grétar Ómarsson skrifar athyglisverða bloggfærslu um læti innan grunnskólans hér í Eyjum. Hann er stórorður og talar um að verið sé að bola föður hans, ritstjóra Frétta úr starfi vegna skrifa hans og vegna þess að birt var bréf frá krökkunum á síðum Frétta en ekkert nafn undir.
Ég vann í tæp sex ár á Fréttum og veit að það var regla að birta ekki bréf nema viðkomandi var tilbúinn að skrifa undir það. Reyndar fengum við oft góðar fréttir upp úr slíkum bréfum því þó þau voru ekki birt þá var fréttapunktur í þeim sem við eltum. Ómar ritstjóri skýrir það mjög vel í síðustu fréttum hvers vegna þessi regla var brotin. Það átti að vinna frétt upp úr þessu en það vannst ekki tími og því ákvað hann að birta greinina. Hann segir líka að það gæti vel verið rangt hjá honum...
En er málinu þar með lokið? Það virðist ekki vera, alla vega miðað við bloggið hans Grétars. En er ekki grafalvarlegt mál ef kennari ýtir nemanda niður tröppur? Er það ekki ákveðinn fréttapunktur?
Bloggar | 12.3.2007 | 10:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Rússíbanaferð er líklega ágætis mælikvarði á það að vera stuðningsmaður Liverpool þessa dagana. Fyrst var maður hundfúll eftir gríðarlega ósanngjarnt tap gegn Man.Utd. á laugardaginn og svo í skýjunum eftir að slá Evrópumeistara Barcelona úr Meistaradeild Evrópu í gær. Brilljant leikur og hreint með ólíkindum að Liverpool skyldi ekki ná að skora í leiknum.
Eftir að Eiður Smári skoraði fór um mann og ég sá fyrir mér aðra eins dramatík og var á laugardaginn. Sem betur fer tókst þeim ekki að bæta öðru við og Liverpool tókst hið ómögulega. Að leggja Barcelona. Ég sagði þegar dregið var í 16. liða úrslit að það lægi í loftinu að þessi tvö lið myndu dragast saman. Meistarar síðustu tveggja ára og allt það. Nú ætla ég að leyfa mér að veðja á að Liverpool dragist á móti Valencia. Fyrirsagnirnar: "Benitez mætir gömlu lærisveinunum" "Morientes snýr aftur á Anfield" Segi bara svona...
Keypti Sýn í gær í tilefni leiksins. Var ekki hægt að missa af honum en er hundfúll með gæðin á útsendingu þeirra hér í Eyjum. Ég hef verið með Stöð 2 síðan í desember og myndin er alltaf að frjósa. Hef látið umboðsmann 365 í Eyjum vita af þessu og segir hann bilunina í Reykjavík. Algjörlega ómögulegt og ég sagði það við sölumanninn í gær. Hann hafði svör á reiðum höndum, ég þyrfti einfaldlega að fá deyfir til þess að "signalið" væri ekki 100% heldur 80-90%.
Ég fékk mér svoleiðis og helv... myndin hélt áfram að frjósa og það alltaf á verstu tímum í leiknum. Þetta varð hreinlega verra en það sem fyrir var. Talaði aftur við tæknimann þeirra hér í Eyjum sem tjáði mér að menn vissu af þessari bilun og væru að vinna í þessu. Þetta með deyfirinn væri einhver lausn þeirra í markaðsdeildinni sem tæknimenn fussuðu við.
Hef borgað rúmlega 5000 krónur síðan í desember fyrir Stöð 2 og nú tæplega 8 þúsund fyrir Stöð 2 og Sýn. Er nokkuð til of mikils mælst að myndin sé í lagi fyrir slíkan pening? Eins finnst mér ótrúlegt virðingarleysi við viðskiptavini sína hér í Eyjum að láta ekki vita hvað er í gangi. Segjast vera að vinna í þessu og svo framvegis. Nei, borgið bara og sættið ykkur við þetta virðist vera viðhorfið.
Sjónvarp | 7.3.2007 | 08:46 (breytt kl. 08:47) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Það er greinilegt að Sturla ætlar að halda áfram að draga okkur Eyjamenn á asnaeyrunum fram yfir kosningar. Að hann skuli núna vera að íhuga að gefa eftir varðandi frekari rannsóknir er ekki sannfærandi enda hefur hann margoft lýst því yfir að hann telji enga þörf á slíku. Hvað hefur breyst? Kannski nálgast kjördag?
Það er ekki verið að krefjast þess að það sé byrjað að bora, nei, það er verið að fara fram á að rannsóknir séu kláraðar til þess að hægt sé að taka ákvörðun um jarðgöng eða Bakkafjöru. Vegagerðin segir enga þörf á frekari rannsóknum en sérfræðingar erlendis frá í jarðgangagerð treysta sér ekki til þess að gera áætlun fyrr en umræddar rannsóknir liggja fyrir. Hverjum ætti maður svo að trúa?
Nei, lykilatriði til þess að byggð í Eyjum eflist á næstu árum er að bæta samgöngur. Þetta er skref sem mun skipta byggð í Eyjum máli næstu 20-30 árin að minnsta kosti. Það er verið að fara að eyða milljörðum í þær framkvæmdir. Er til of mikils mælst að farið sé með nokkra tugi milljóna í það að klára rannsóknir svo allir möguleikar séu jafnir á borðinu þegar ákvörðun er tekin? Það finnst Sturlu en ekki mér.
Ákvörðun um mat á þörf á frekari rannsóknum á Vestmannaeyjagöngum ekki verið tekin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | 6.3.2007 | 08:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Í gær var framin glæpur á grænum fleti í bítlaborginni svokölluðu. Þá mættu nágrannarnir úr iðnaðarborginni Manchester til þess að spila fótbolta við heimamenn. Eftir 90 mínútur af einstefnu þar sem framherjar bítlaborgarliðsins virtust fá borgað fyrir að skjóta sem fastast í markvörð iðnaðarmannana eða sem lengst upp í stúkurnar sem umluktu völlinn komust djöflarnir í eina sókn og viti menn, skoruðu áður en dómarinn aulaðist til að flauta leikinn af. Þjófnaður og ekkert annað en þjófnaður....svona gera menn ekki.
Skrifað eftir að undirritaður jafnaði sig andlega á leik Liverpool og Manchester United....
Enski boltinn | 4.3.2007 | 18:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Ég hef afskaplega gaman af skoðanakönnunum og rýni oft óþarflega mikið í niðurstöður þeirra. Nýjasta útspil Morgunblaðsins og RÚV um vikulegar kannanir Capacent fyrir sig fram að kosningum eru því spennandi fréttir fyrir fréttafíkil eins og mig.
Það sem vekur mesta athygli í fyrstu könnuninni að mínu mati er að Frjálslyndir hafa nánast skipt út sínu fylgi. Aðeins 33% þeirra sem kusu flokkinn síðast ætla að kjósa hann aftur. Mesta tryggðin er aftur á móti við VG, 85,6%. Ég velti fyrir mér hvort brotthvarf Margrétar Sverrisdóttur og stuðningsmanna sé dýrkeyptara en forystan áætlaði? Nú er fylgið 7%. Þau fá flesta nýja frá Framsókn en taka lítið fylgi frá öllum flokkum. Flestir sem ætla að kjósa Frjálslynda nú gera það vegna stefnu þeirra í innflytjendamálum. Ef ég ætti að veðja á það núna myndi ég segja að Frjálslyndir endi á þessu bili, 7-9% en gætu farið hærra ef þeir ná að gera innflytjendamál að kosningamáli líkt og þeir gerðu fyrir fjórum árum með sjávarútvegsmál...
Það er líka athyglisverð íhaldssemi kjósenda Sjálfstæðisflokksins, tæplega 84% ætla að halda tryggð við flokkinn milli kosninga. Eins hlýtur að vekja mikla athygli að 18% fylgismanna samherjanna í ríkisstjórn, Framsóknarflokksins hafa stokkið yfir til íhaldsins.
Samfylkingin er í vanda, VG mælist stærri í fyrsta skipti í fimm ár og langt í það að menn geti talað um turnanna tvo, Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Eins og einhver sagði þá voru turnarnir tveir þegar Davíð og Ingibjörg áttust við en eftir að hann hvarf af vettvangi stjónmálanna hefur hún verið í tilvistarkreppu. Nú er frekar talað um parhúsið Samfylkinguna og VG...
En Samfylkingin hefur fengið flesta nýja stuðningsmenn frá Frjálslynda flokknum og það er athyglisvert að tæplega 50% þeirra sem síðast kusu Frjálslynda hafa hallað sér til vinstri í pólitíkinni. Frjálslyndir voru í upphafi klofningsframboð úr Sjálfstæðisflokknum en hlutfallslega skilar lítið fylgi sér nú til baka...
Íhaldssemin er mest til hægri og vinstri og mikil hreyfing á miðjufylginu. Þannig halda 85,6% tryggð við VG milli kosninga sem fær einnig 26% þeirra sem kusu Samfylkinguna síðast, 29,6% þeirra sem kusu Frjálslynda, 13,4% þeirra sem kusu Framsókn en aðeins 5,4% þeirra sem kusu Sjálfstæðisflokkinn.
Ætli þetta verði líka niðurstaðan í næstu viku, eftir netlögguna og ótrúlega framkomu Steingríms Joð á þingi í gær þar sem hann hunsaði fyrirspurnir um breytta stefnu flokksins í þeirra aðalmáli, umhverfismálum. Fyrsta skipti sem maður sér Steingrím Joð orðlausan á Alþingi, athyglisvert...
Stjórnmál og samfélag | 2.3.2007 | 08:51 (breytt kl. 08:53) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Færsluflokkar
Tenglar
Heimsótt reglulega
Bloggvinir
Feb. 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | ||||||
2 | 3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 |
9 | 10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 |
16 | 17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 |
23 | 24 | 25 | 26 | 27 | 28 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.2.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar