Ný ríkisstjórn

Það hefur mikið gengið á síðustu daga hjá foringjum Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Hafa þau verið að tjasla saman málefnasamningi og úthluta ráðherraembættum og hefur það vakið athygli mína að ekkert hefur lekið út um innihald samningsins eða úthlutanir. Merkilegt þegar tveir stærstu flokkarnir eiga í hlut.  

Það var fátt sem kom á óvart hjá Sjálfstæðisflokknum og gamla góða íhaldssemin kom berlega í ljós í skipun ráðherra. Einn nýr inn og Sturlu sparkað úr ríkisstjórn. Guðlaugur Þór verður heilbrigðisráðherra, það verður athyglisvert að fylgjast með honum í því embætti. Sturla gat ekki leynt vonbrigðum sínum í gær en ég er nokkuð ánægður með þessa breytingu. Sjálfstæðisflokkurinn hefur stjórnað samgönguráðuneytinu í langan tíma (frá því nýr Herjólfur kom til Eyja) og mikil óánægja með samgöngumál hér í Eyjum. Auðvitað hefur ferðum Herjólfs fjölgað á tímabilinu, þó það nú væri en það tók langan tíma að ná því í gegn. Vonandi gerir Kristján Möller betur, það kemur í hans hlut að klára samgöngumál til Eyja, hvaða leið verður farinn?

Tveir ráðherrar koma úr Suðurkjördæmi, Árni M heldur fjármálaráðuneytinu og Björgvin G. verður viðskiptaráðherra. Þetta hljóta að vera góð tíðindi fyrir okkur Suðurkjördæminga, enda síðustu átta ár hefur einungis einn ráðherra verið úr kjördæminu, Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra. Vonandi ávísun á sterkara kjördæmi næstu fjögur árin.

Annars óttast ég mest að þessi ríkisstjórn verði mjög borgarsinnuð. Af ráðherrum Sjálfstæðisflokks koma fjórir af höfuðborgarsvæðinu (fimm ef landsbyggðarþingmaðurinn í dulargervi, Árni M er talinn með) og hjá Samfylkingunni er skiptingin hin sama. Reyndar má segja að þetta sé í samræmi við byggðarþróun og lítið við því að segja en þó ánægður með að landsbyggðarþingmaður skuli fá samgönguráðuneytið.

Það sem vekur mesta athygli er veik staða varaformanns Samfylkingarinnar, Ágúst Ólafs. Hann er skilinn eftir, á að sinna innra starfi flokksins næstu árin. Hlýtur að vera honum mikil vonbrigði. Eins sú staðreynd að Björn Bjarnason verður áfram ráðherra. Raunar má segja að hann geti þakkað Jóhannesi í Bónus þá vegsemd, Geir gat ekki skilið hann eftir, hann væri þá að taka undir auglýsingu Bónusforingjans. Björn hættir líklega á miðju kjörtímabili og krónprins flokksins, Bjarni Ben tekur við.

Í heildina líst mér vel á þessa ríkisstjórn. Vonandi vegnar henni vel.  


Viðkvæmur Steingrímur Joð

c_documents_and_settings_notandi1_my_documents_my_pictures_rau_i_kallinn_206870Jæja, þá er fenginn niðustaða. Stjórnin hélt velli þökk sé stórsigri Sjálfstæðisflokksins. Framsókn fékk skell og hlýtur að hugsa sinn gang. Mín spá er sú að ríkisstjórnin sitji ekki áfram. 

Það er ekki annað hægt en að brosa út af viðkvæmni Steingríms Joð út af skopmyndinni sem birtist hjá ungum framsóknarmönnum í kosningabaráttunni. Er þetta ekki fullmikið væl hjá manni sem uppnefnir aðra hvað eftir annað í ræðustól á Alþingi, kallar menn illum nöfnum. Er þetta ekki fullmikið hjá manni sem varið hefur óvægnar árásir ungra VG á Framsóknarflokkinn undanfarna mánuði?

Enn og aftur kemur í ljós að vinstri menn telja sig mega nota öll "trix" til að koma skoðunum sínum á framfæri en ef aðrir svara í sömu mynt, þá kveinka þeir sér og heimta afsökunarbeiðni.  

Hlægilegt....


Allur er varinn góður

Í frétt í öðru hvoru fríblaðinu í dag er fjallað um hvað gert verður ef ekki verður flugfært frá Eyjum á morgun. Þrjár "varaleiðir" eru fyrir kjörgögnin. Þyrla landhelgisgæslunnar, björgunarbáturinn Þór fer í Þorlákshöfn eða ef veður verður afleitt er varðskipið sent eftir kjörgögnunum. Þau skulu á Selfoss. 

Á sama tíma er alvarleg umræða um það í heilbrigðisráðuneytinu að spara með því að hafa sjúkraflugvél ekki lengur staðsetta í Vestmannaeyjum, heldur í Reykjavík eða láta þyrluna bara skutlast til Eyja eftir sjúklingum, lengja þannig viðbragðstímann með tilheyrandi "fórnarkostnaði"

Finnst ykkur þetta í lagi?

 


Kosningarnar á morgun

Eftir að búið er að afgreiða Evróvisjón fyrir okkur Íslendinga er ljóst að athyglin verður óskipt á kosningasjónvarp stöðvanna á morgun. Alla vega hjá mér :-)

Þetta er búið að vera skrýtin kosningabarátta. Einhvern veginn hefur mér fundist vanta allt fjör í baráttuna. Hún byrjaði fyrir nokkrum vikum þegar umhverfismálin voru upp á sitt besta en síðan hefur dregið af stjórnarandstöðunni. Því fleiri mál sem rædd eru, því minna verður fylgi VG. Það virðist vera staðreynd. 

Samfylkingin gæti staðið uppi sem sigurvegari kosninganna. Flokkurinn hefur verið að sækja í sig veðrið og nálgast 30% fylgi. Eins virðist staða Sjálfstæðisflokksins sterk og miðað við söguna þá má draga ca. 4% frá skoðanakönnunum til að fá fylgi þeirra í kosningum. 35-37% fylgi yrði flott úrslit fyrir Geir og félaga.

Það er skondið prófið sem nemendur í Bifröst hafa gert til að finna út hvar maður stendur í pólitík. Ég tók þetta og fékk það út að skoðanir mínar eru í mestu samræmi við Sjálfstæðisflokkinn. Það kemur mér ekki á óvart, enda alltaf verið hægri sinnaður í hugsun. Reyndar hef ég getað samsvarað mér flestum flokkum (nema VG) í málum og vill meina að hér á Íslandi séu fjórir miðjuflokkar og einn vinstri flokkur. Svo er bara áherslumálin mismunandi ár frá ári. 

Það sem kom mér kannski meira á óvart að næst mesta skorið hjá mér var hjá Íslandshreyfingunni, svo Samfylkingunni, þá Frjálslyndum !!!!, svo Framsókn og loks VG.    

Í Mogganum í morgun var skoðanakönnun eftir kjördæmum. Lítum á Suðurkjördæmið. Þá er Sjálfstæðisflokkurinn langstærstur, 41,8% og væntanlega 4 þingmenn. Samfylkingin og Framsókn svipuð af stærð, um 20%. Tveir þingmenn hvor. Hrikalegt hrun Samfylkingarinnar sem var stærsti flokkurinn fyrir fjórum árum!!  VG fá 10,8% og 1 þingmann og Frjálslyndir tæp 7% og einn þingmann.

Þetta verður spennandi á morgun, hvern ætlar þú að kjósa ??

 


Aftur í úrslit, bara gaman...

 

Enn og aftur sýndu mínir menn í Liverpool hvers þeir eru megnugir með því að komast í úrslit meistaradeildarinnar í annað skiptið á síðustu þremur árum. Og bara til þess að gera árangurinn enn ánægjulegri þá voru Vælinho og félagar í Chelsea slegnir út í undanúrslitum.  Bara gaman...

Nú er það rematch, við AC Milan. Ég átti nú von á því að Man.Utd. kæmist alla leið og var eiginlega að vonast eftir því. AC Milan eiga harma að hefna eftir eitthvert rosalegasta comeback ever í fótboltaleik þegar Liverpool var 3:0 undir í hálfleik 2005 en sigraði samt.  Ég er ennþá að jafna mig á þeim leik. LoL

Ég hef misst það litla álit sem ég hafði á Mourinho. Kallinn kann ekki að tapa. Að segja eftir seinni leikinn að Chelsea hafi verið betra liðið!! Og gera lítið úr öllum er eitthvað sem fer illa í mig. Ég er búinn að vera í London þessa vikuna og blöðin velta sér svolítið upp úr þessu hjá honum og öll eru á einu máli. He is a bad luser.  

Nú hefur hann haft þrjú ár til þess að ná Meistaradeildartitlinum. Það hefur ekki tekist og spurning hvort hann fái fleiri tækifæri? Mín spá er að honum verði skipt út í sumar.

 


Kjördæmaþáttur Suðurkjördæmis

Það var athyglisvert að fylgjast með kjördæmafundi úr Suðurkjördæmi í gær. Bæði vakti niðurstaða skoðanakönnunarinnar athygli og þá ekki síst sterk staða Sjálfstæðisflokksins og síðan var mikil umræða um málefni Vestmannaeyja. 

Allir voru á því að rannsaka ætti möguleikann á jarðgöngum til hlítar áður en ákvörðun er tekin um framtíðarsamgöngur við Vestmannaeyjar. Meira að segja Árni Matt, flokksbróðir Sturlu sem hefur haldið því fram í tvö ár að ekki sé þörf á frekari rannsóknum. Jarðgöng eru möguleg en of dýr. Hvað hefur breyst?

Þýðir þetta að frestað verði frekari framkvæmdum við Bakkafjöru? Verður athugað með nýtt skip?  Enn og aftur er allt komið í hnút í samgöngumálum okkar, engin ákvörðun og í raun átta ég mig ekki á hvar við stöndum. Við erum nánast í sömu sporum og fyrir fjórum árum.

Ég var ánægður með Bjarna Harðarson, hann var þungorður í garð ríkisstjórnar síns flokks þegar kom að samgöngumálum okkar Eyjamanna. Annars var gott að heyra að allir flokkar setja samgöngumál Eyjamanna framarlega á forgangslistann í kjördæminu. Vonandi verður staðið við stóru orðin.

Eins var athyglisverð umræða um kvótamálin. Grétar Mar, fulltrúi Frjálslyndra vildi kenna kvótakerfinu um allt sem miður hefur farið en þáttastjórnandinn benti réttilega á að á sama tíma og kvótastaða útgerða í Eyjum hefur styrkst verulega á síðustu árum hefur ekkert dregið úr fólksfækkun. Það er einfaldlega ekki hægt að setja samasemmerki þarna á milli. Grétar vildi þá meina að það væri út af útflutningi en Atli VG spurði þá hvort Grétar hefði ekki komið inn í Vinnslustöð, eða Godthaab. Góður punktur...

Annars fannst mér Árni Matt og Bjarni Harðar komast best frá þessum þætti. Það var sótt að Árna sem var að verja sextán ára valdasetu Sjálfstæðisflokksins. Hann stóð sig vel í því enda verður að segjast eins og er að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins hefur staðið sig vel og gjörbreytt íslensku samfélagi. Fyrir utan byggðamál er ég ánægður með flokkinn en í þeim málaflokki finnst mér Sjálfstæðisflokkurinn gjörsamlega hafa brugðist.

Bjarni er skemmtilegur og lokaorðin hans voru frábær. Framsóknarflokkurinn eini alvöru græni flokkurinn, með skynsemi að leiðarljósi en ekki "fjallagrasapólitík". Ég átti ekki til orð yfir Björgvin G. Sigurðssyni, hann átti ekki góðan dag og frammíköll hans voru orðin pínleg. Hann leyfði Árna Matt nánast aldrei svara, heldur talaði ofan í hann. Að mínu mati argasti dónaskapur.

Yfir heildina góður þáttur og Eyjamenn geta verið nokkuð ánægðir með sjónarmið oddvitanna varðandi okkar mál. Spurning hvort orðin verða efnd eftir 12. maí?

 


5,4% fylgislækkun og tvö þingsæti tapast

Það er örugglega ekkert gaman að vera í Samfylkingunni þessa dagana. Fylgiskannanir sýna minnkandi fylgi hver af annarri og flokksþingið um síðustu helgi féll algjörlega í skuggann á landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Nýjasta könnunin er úr Suðurkjördæmi en þar vann Samfylkingin stóran sigur fyrir fjórum árum, fengu fjóra þingmenn og urðu stærsti flokkur kjördæmisins. Nú bregður svo við að samkvæmt könnuninni tapar flokkurinn 5,4% og við það minnkar þingmannahópurinn um helming, úr fjórum í tvo!  Það þykir mér mikið miðað við ekki meira fylgistap. (Fjórði þingmaðurinn var þó uppbótarþingmaðurinn)

Sjálfstæðisflokkurinn er í stórsókn og bætir við sig 10% og einum þingmanni. Framsókn tapar og Frjálslyndir þurrkast út í kjördæminu. VG eru sigurvegararnir og tveir þingmenn inni.  Ég skrifaði um daginn um karlrembukjördæmið Suðurkjördæmi því samkvæmt könnunum voru níu þingmenn af tíu karlar. 

Nú vantar sýnist mér uppbótarþingmanninn inn í könnunina og því níu þingsætum útdeilt. Sjö karlar og tvær konur. 

 Samfylkingin er í bullandi vandræðum í Suðurkjördæmi sem og annarsstaðar á landinu. Miðað við það að hafa verið lengi í stjórnarandstöðu og hafa vonarpening vinstri manna í formannsstóli er útkoman í skoðanakönnunum hræðileg. Það er ekki laust við að maður sé farinn að líta á VG sem stóra flokkinn á vinstri vængnum...

Þingmannalistinn samkvæmt könnuninni:

Árni Mathiesen (D)

Árni Johnsen (D)

Kjartan Ólafsson (D)

Björk Guðjónsdóttir (D)

Björgvin G. Sigurðsson (S)

Lúðvík Bergvinsson (S)

Atli Gíslason (V)

Alma Lísa Jóhannsdóttir (V)

Guðni Ágústsson (B)

Tvö þingmannsefni sem ég væri til í að sjá á þingi eru úti: Bjarni Harðarson og Róbert Marshall. Báðir myndu hressa upp á samkunduna við Austurvöll...


mbl.is VG og Sjálfstæðiflokkur auka fylgi sitt í Suðurkjördæmi á kostnað Framsóknar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfstæðisflokkurinn fer ekki hærra í Suðurkjördæmi

Þar sem hef ég verið í burtu í nokkra daga hef ég lítið fylgst með því sem er að gerast í bloggheimum. Því skrifa ég hér nokkur orð um gamla færslu Stefáns Friðriks, einhvers ötulasta bloggara á Íslandi og einn af þeim sem ég les reglulega. 

Hann er að velta fyrir sér stöðunni í Suðurkjördæmi og slakri útkomu Sjálfstæðisflokksins í skoðanakönnunum. Þrátt fyrir að ekki sé neitt klofningsframboð nú hefur fylgið lítið aukist og enn bara þrír menn inni.  Ég er ekki hissa á því enda tel ég að Sjálfstæðisflokkurinn bjóði upp á vondan lista að þessu sinni.

Ég er á því að koma Árna Mathiesen inn í kjördæmið er ofmetin, enda tel ég að hann fæli frá frekar en hitt. Árni er Hafnfirðingur, harður gaflari og ekkert nema gott um það að segja. En þá á hann að fara í framboð í sínu kjördæmi. Það er nóg af þingmönnum af höfuðborgarsvæðinu svo við séum ekki að bæta þeim við í felubúningi landsbyggðarþingmanns. Það er staðreynd að landsbyggðin þarf á öllum sínum þingmönnum að halda í þeirri varnarbaráttu sem við er að eiga í byggðarþróun. Árni Matt hefur setið í ríkisstjórn þar sem ríkisbáknið hefur blásið út á höfuðborgarsvæðinu á meðan samdráttur er aðalmálið á landsbyggðinni.

Tilkoma Árna Johnsen inn á listann mun örugglega verða til þess að óákveðnir forðast flokkinn. Karlinn á samt sitt fylgi eins og sást glögglega í prófkjörinu. Held samt að hann verði frekar til þess að möguleikar flokksins í að vinna sigur dvíni.

Ég ætla hér með að spá því að Sjálfstæðisflokkurinn haldi sínum þremur, sem og Samfylkingin. Framsókn fær tvo og VG tvo. Frjálslyndir ná ekki inn manni.  


Gaman á Anfield, erfið samskipti við Budget bílaleigu

Það var aldeilis gaman hjá okkur félögunum á laugardaginn þegar Liverpool rasskellti Arsenal peyjanna.  Það var ekki leiðinlegt að sitja fyrir miðri Kop stúkunni og syngja með hörðustu stuðningsmönnum Liverpool á meðan tæknitröllið Peter Crouch sá um London strákanna. Ó nei, þetta var bara gaman ...

En það gekk á ýmsu í ferðinni, svo mikið er víst. Við fréttum það á leiðinni frá London til Liverpool að miðarnir sem við höfðum keypt dýrum dómi höfðu klikkað. Nú voru góð ráð dýr en okkar tengiliður hér á landi sem sá um að útvega miðanna náði í aðra en brasið í kringum þá var mikið og reyndar náðum við bara í fimm miða þar. Sjötti miðinn klikkaði og það fréttum við hálftíma fyrir leik. Þá var gott að eiga góða að og Paul vinur minn og leigubílstjóri þarna úti lét mig fá ársmiðann sinn og hljóp sjálfur af stað til að redda öðrum miða.  Þvílíkur öðlingur sem kom móður og másandi nokkrum mínútum fyrir leik til baka.

Mesta brasið var þó með Budget bílaleiguna. Við komum sex galvaskir Eyjapeyjar saman þarna út og fyrsta sem við gerðum var að fara og ná í sjö manna bílinn sem við höfðum pantað. Eftir að hafa staðið í biðröð (sem innihélt okkur og einn annan viðskiptavin) í rúmlega hálftíma komumst við loks að. Það voru vandræði með bílinn og þau buðu okkur tvo litla bíla í staðinn. Það vildum við ekki, stór skyldi það vera.  Þeim tókst loks að finna einn.  Og þá átti að borga. Við leigðum okkur gps tæki sem er algjört must í svona ferð og reikningurinn hljóðaði upp á 566 pund. Bíddu nú við, ég hafði pantað bílinn á 256 pund með kaskó tryggingu og allt!! Hvers vegna þessi gríðarlega breyting? Gps tækið kostaði 50 pund og svo þurftum við að taka tryggingu fyrir sjálfsábyrgðinni á kaskó tryggingunni !! Ja hérna, aukabílstjóri kostaði 7 pund á dag og svo voru tekin 95 pund af kortinu fyrir bensíni ef ske kynni að við skiluðum honum ekki fullum sem við og gerðum og eigum því von á að fá pundin til baka. Samtals 566 pund sem var mjög langt frá "nettilboðinu" góða ...

En þá var ekki öll sagan sögð. Fyrsta kortinu var rennt í gegn en það kom synjun. Hmmm, sögðu menn, nýkominn í frí og engin heimild. Getur ekki verið. Prófum annað. Nei, aftur synjun og eftir að fimm af sex ferðalöngunum höfðu látið strauja kortið sitt og sumir oftar en einu sinni stóðum við þarna eins og illa gerðir hlutir, með gullkort í hendinni og gátum ekkert gert. Við tókum pening út úr hraðbanka, það var í lagi en þau vildu ekki taka við greiðslu með peningum. No can do !!

Posakerfið er þannig að þú þarft að gefa upp pin númer við hverja færslu. Ég sagði þeim að það gæti ekki verið að öllum kortunum væri hafnað. Það hlyti eitthvað að vera að hjá þeim.  Þeim var skítsama, snéru sér bara við og vildu ekkert við okkur tala. Ekki fyrr en annar aðili kom þarna að. Ég hafði séð venjulegan posa á borðinu hjá þeim og bað þau um að prufa það. Nei, það var ekki hægt fyrr en umræddur aðili kom. Hann straujaði eitt af kortunum og fékk auðvitað heimild og allt gekk upp, eða hvað?

Nei heldur betur ekki. Þegar menn fóru daginn eftir að kíkja á stöðuna á kortunum kom í ljós að allir höfðu verið rukkaðir fyrir bílaleigubílinn og sumir tvisvar. Þannig var skuldfært á kortið mitt 74 þúsund krónur og um 150 þúsund krónur á tvo ferðalanganna. Við borguðum sjö sinnum fyrir bílinn, samtals  370.000 krónur.

Næstu klukkutímarnir fóru í að leiðrétta þetta, kretitkortafyrirtækið gat ekkert gert fyrr en þau fengu eitthvað frá Budget.  Það var hringt í Budget á Íslandi sem benti okkur á að tala við þá úti. Þá sagði ég nei, þessu skyldu þau redda, ég pantaði bílinn á Íslandi og hafði engan áhuga á að ræða meira við þetta fólk. Strákurinn hjá Budget hér á landi var ekkert nema almennilegheitin og í dag (held ég) að þetta sé búið. Við verðum reyndar að bíða eftir reikningnum, ef þetta kemur á hann verður að setja af stað eitthvað ferli um niðurfellingu. Þvílíkt rugl...

En þegar öllu var á botninn hvolft þá var toppurinn að sitja í Kop stúkunni, kyrjandi sigursöngva og horfa á rasskellingu Arsenal. 


Á leið á Anfield

Nú liggur leiðin til Englands. Við ætlum að fara að sjá Liverpool vinna baráttuna um þriðja sætið gegn Arsenal á laugardaginn. Kostnaður við svona ferðir er skrýtinn. Það er liggur við jafndýrt að fljúga út og gista á hóteli í fjórar nætur og að kaupa miða á leikinn. Þvílíkt okur! En vel þess virði. Hef einu sinni áður komið á Anfield, sá Liverpool vinna Blackburn 4:1 og sat í Kop stúkunni. Ógleymanlegt og vonandi verður þessi ferð það líka.

Þangað til næst.....YNWA  Wizard


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband